Færslur janúarmánaðar 2009

Nýtt lýðveldi

Laugardagur, 24. janúar 2009

Ég var að lesa það sem Njörður P. Njarðvík skrifaði um nýtt lýðveldi (á http://nyttlydveldi.is). Þarna leggur hann til að landinu verði sett ný stjórnarskrá og gerðar róttækar breytingar á stjórnskipaninni.

Sumar hugmyndir hans virðast skynsamlegar. Ég held til dæmis að það sem hann segir um kjör þingmanna sé að minnsta kosti vel þess virði að hugleiða og ræða, en það er á þessa leið:

Skynsamlegt væri að taka upp finnsku aðferðina, þar sem allir frambjóðendur allra flokka hafa ákveðið númer og kjósandi velur einn frambjóðanda – sem dregur síðan með sér aðra samflokksmenn. Þá er ekki raðað á lista, heldur er það á valdi kjósenda. Þannig yrði flokksveldið að nokkru brotið á bak aftur. Þingmönnum skal bannað að gegna nokkru öðru starfi, þar með talin seta í stjórnum, nefndum og ráðum utan þings, - líkt og nú er um hæstaréttardómara. Þingmenn mega ekki jafnframt vera í  ríkisstjórn. Verði þeim falinn ráðherradómur, skulu þeir segja af sér þingsæti sínu. Rétt er að takmarka þingsetu við þrjú kjörtímabil. Landið skal vera eitt kjördæmi.

Mér finnst að við þetta mætti bæta ákvæði um að þingmenn yrðu miklu færri en nú, til dæmis 25. En þótt hægt sé að taka undir ýmislegt sem Njörður segir hef ég efasemdir um annað. Sumt í máli hans eru stóryrði sem dæma sig sjálf, eins og:

Ísland er ekki lýðveldi. Ísland er flokksveldi. Íslenska þjóðin býr ekki við þingræði. Hún býr við flokksræði – þegar best lætur. Dags daglega býr hún við ráðherravald og ofríki fárra forystumanna í stjórnmálaflokkum. Og það sem verra er: íslensk þjóð er ekki lengur sjálfstæð og frjáls.

Það er vinsælt að skammast út í stjórnmálaflokka og býsnast yfir máttleysi Alþingis. Sannleikurinn er samt sá að flokkarnir eru leið til þess að virkja mikinn fjölda fólks til þátttöku í stjórnmálum og flokkshollusta þingmanna er ekki meiri en svo að á lýðveldistímanum hafa flestir þingflokkar klofnað og stundum hafa þingmenn tekið sig til og myndað nýjan stjórnarmeirihluta á miðju kjörtímabili og sparkað forsætisráðherra og öllu hans liði – slíkt er nú ofurvald stjórnaráðsins yfir Alþingi.

Mér hugnast ekki tillaga Njarðar um stjórnarbyltingu. Hann segir:

Þing þarf að rjúfa og senda þingmenn heim. Skipa þarf neyðarstjórn til bráðabirgða – segjum til 12-16 mánaða - utanþingsstjórn valinkunnra manna og kvenna með víðtæku valdsviði. Henni skal umfram allt falið tvenns konar hlutverk.

Annars vegar á neyðarstjórnin að standa fyrir rannsókn og uppgjöri í kjölfar efnahagshrunsins – og nauðsynlegri hreinsun í ákveðnum stofnunum, svo sem Seðlabanka og Fjármálaeftirlitinu. Birta þarf  opinberlega allar niðurstöður og fylgja þeim eftir með lögsókn, ef með þarf.

Hins vegar á neyðarstjórnin að semja algerlega nýja stjórnarskrá. Það ætti að vera hægt á einu ári. Að því loknu skal bera hina nýju stjórnarská [svo] undir þjóðaratkvæði og í framhaldi af því efna til þingkosninga samkvæmt nýrri stjórnskipan.

Það er svolítið undarlegt að býsnast yfir því í öðru orðinu að Alþingi hafi of lítil völd en segja svo í hinu orðinu að þingmenn skuli sendir heim og einhverjir „valinkunnir“ einstaklingar látnir stjórna landinu. Ef orð Njarðar eru skilin bókstaflega ætlast hann til að þessi neyðarstjórn hafi nánast alræðisvald, því meðan hún starfar á ekkert þing að sitja.

Raunar efast ég um að það sé nein lögleg leið til að framkvæma hugmynd Njarðar. Stjórnarskráin heimilar varla að Alþingi fari í ársfrí og fámennur hópur fari með allt vald á meðan. Ástandið hér á landi er nógu slæmt þó menn bæti ekki gráu ofan á svart með því að yfirvöld hætti að gegna stjórnarskrá og lögum.

Á næstu mánuðum þarf e.t.v. að  breyta ýmsum lögum, t.d. um fjármálastofnanir og eftirlit með þeim. Kannski þarf líka að rétta yfir einhverjum sem höfðu rangt við í viðskiptum. Það er víða þörf á tiltekt. Forsenda slíkrar tiltektar er að þeir sem vinna hana fari að lögum og réttur þeirra til að vinna sín verk sé hafinn yfir vafa. Réttur neyðarstjórnar, sem ekki styðst við neina hefð og verður óhjákvæmilega að setja sjálfri sér starfsreglur jafnóðum og hún ráðskast með hag landsmanna, verður ekki hafinn yfir vafa. Hann verður að öllum líkindum miklu umdeildari en umboð stjórnar sem verður til með hefðbundnum hætti eftir Alþingiskosningar.

Þeir sem vilja breyta lögunum í landinu og jafnvel sjálfri stjórnarskránni ættu að nota tækifærið og bjóða sig fram fyrir næstu kosningar. Hljóti þeir nægilegt fylgi kjósenda geta þeir komið frumvörpum gegnum nýtt þing þegar það kemur saman. Við þær aðstæður sem nú eru eiga nýir flokkar með góðar hugmyndir ágæta möguleika á þingstyrk.

Ég held að hugmynd Njarðar um neyðarstjórn og heilt ár án Alþingis sé hvorki raunhæf né líkleg til að bæta neitt.

Það er svo sem hægt að láta sig dreyma um samfélag þar sem hagsmunapot hefur ekki áhrif á pólitíkina og það er hægt að búa til nýjan heim á teikniborðinu – eða bara í huga sér.

Hugsað get ég himin og jörð en hvorugt smíðað
af því mig vantar efnið í það

sagði einhver sem taldi sig vita formúluna fyrir betri heimi. Það hefur víst aldrei verið neinn skortur á svoleiðis fólki. En ég vona að eftir næstu kosningar ráði hógværari menn ferðinni í stjórnmálum.

Greinasafn eftir Björn Bjarnason

Sunnudagur, 18. janúar 2009

Björn Bjarnason hefur sérstöðu meðal íslenskra stjórnmálamanna fyrir óvenjulega skarpskyggni og rökfestu. Þessi kostir hans njóta sín vel í greinasafninu Hvað er Íslandi fyrir bestu? sem út kom hjá Bókafélaginu Uglu fyrir fáeinum dögum síðan.

Í bókinni eru 13 greinar sem allar fjalla um samband Íslands við Evrópusambandið. Sú elsta er frá árinu 2003 og sú nýjasta var rituð í desember 2008.

Sem dómsmálaráðherra hefur Björn gegnt lykilhlutverki í þátttöku Íslands í Schengensamstarfinu og hann var formaður Evrópunefndar sem forsætisráðherra skipaði árið 2004 til að fjalla um tengsl Íslands við Evrópusambandið. Auk þess hefur hann verið formaður Utanríkismálnefndar Alþingis og atkvæðamikill í umræðu um utanríkis-, öryggis- og varnarmál um hartnær 40 ára skeið. Skoðanir sem hann heldur fram í bókinni byggja því á mikilli reynslu. Allir sem hafa áhuga á upplýstri umræðu um samband Íslendinga við Evrópusambandið hljóta því að fagna útkomu þessarar bókar.

*

Í viðauka, aftast í bókinni, er álit meirihluta Evrópunefndarinnar sem forsætisráðherra skipaði árið 2004 til að fjalla um tengsl Íslands við Evrópusambandið og skilaði skýrslu í mars 2007. Lokaorð þess eru:

Þótt aðild að ESB fylgi ýmsir kostir er hitt fulljóst að þeir hagsmunir og réttindi sem glatast Íslendingum við aðild vega miklu þyngra en kostirnir við aðild. Þess vegna er óhjákvæmilegt fyrir Íslendinga að standa áfram utan Evrópusambandsins eins og málum er nú háttað. (s. 186-7)

Greinarnar í safninu styðja allar þessa niðurstöðu. Fyrr í sama áliti, sem auk Björns er undirritað af Katrínu Jakobsdóttur, Ragnari Arnalds og Einari K. Guðfinnssyni, segir:

Engar líkur eru á að samist geti um milli Íslands og ESB, að 200 mílna efnahagslögsagan umhverfis Ísland verði í heild sinni viðurkennd sem sérstakt fiskveiðistjórnunarkerfi undir stjórn Íslandinga, enda samrýmist það ekki sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB og á sér engin fordæmi nema hvað varðaði afmörkuð fiskverndarhólf. […]

Íslenska efnahagslögsagan er 758.000 ferkílómetrar að stærð eða ríflega sjö sinnum stærri en landið sjálft. Íslendingar geta ekki framselt yfirráðin yfir þeim miklu auðæfum sem þar er að finna til Evrópusambandsins, án þess að hafa nokkra vissu fyrir hvaða reglum verði fylgt í sjávarútvegsmálum á komandi áratugum. Engin trygging er fyrir að Íslendingar geti varið hagsmuni sína í þessu efni til frambúðar sem aðilar að Evrópusambandinu, þar sem ráðherraráðið tekur úrslitaákvarðanir um hámarksafla og hvaða tegundir er leyfilegt að veiða, svo og um veiðiaðferðir og veiðarfæri. Í ráðherraráðinu myndu Íslendingar aðeins ráða yfir 3 atkvæðum af 348 miðað við núverandi stærð ESB. (s. 184-5)

*

Umræða um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur að verulegu leyti snúist um efnahagsmál, fullveldi og forræði yfir auðlindum. En það er ekki síður þörf að ræða áhrif sambandsins á þróun lýðræðis í aðildarlöndunum. Björn tæpir á sjónarmiðum nokkurra evrópskra fræðimanna um þetta efni en tekur ekki afstöðu til þeirra. Hann segir m.a. frá áliti félagsfræðingsins Ralfs Dahrendorfs og dregur það saman þar sem segir:

„Það er erfitt,“ segir Dahrendorf, „að komast að annarri niðurstöðu en lýðræði og þjóðríki séu tengd hvort öðru. Veiki alþjóðavæðing þjóðríkið veikist einnig lýðræðið. Til þessa hefur okkur ekki tekist að nýta kosti lýðræðis í stjórnmálastarfi utan þjóðríkisins.“  Niðurstaða hans er, að Evrópusambandið standist ekki sjálft lýðræðiskröfur, sem það gerir til þjóðríkja, sem óska aðildar að sambandinu. Hann telur einnig, að á tímum alþjóðavæðingar sé erfiðast að tryggja almenningi áhrif á ákvarðanir stofnana, sem starfa utan landamæra þjóðríkja og hafa yfirþjóðlegt vald. (s. 47)

Björn vitnar einnig í annan félagsfræðing, Alain Touraine, sem heldur því fram að yfirþjóðlegt vald geti farið saman við lýðræðisleg  áhrif almennra borgara á nærsamfélag sitt en skýrir kenningar hans ekki nógu vel til að gott sé að átta sig á því hvernig þær eru hugsaðar. Ég er sennilega ekki eini lesandinn sem gjarna vildi að Björn hefði sagt meira um þetta efni.

*

Á nokkrum stöðum í bókinni gagnrýnir Björn þá sem mæla fyrir aðild Íslands að ESB fyrir þjónkun við embættismenn sambandsins (sjá t.d. kaflana „Undirgefni og Brusselvald“ s. 139–140 og „Staksteinar í ófæru“ s. 141–143). Þeir sem andmælt hafa hugmyndum Björns um að Ísland geti tekið upp evru án inngöngu í sambandið vitna gjarna í embættismenn máli sínu til stuðnings. En í þessum köflum segir Björn að eigi að semja við Evrópusambandið um myntsamstarf, eins og lög þess og sáttmálar heimila, hljóti vegferðin að hefjast hjá ríkistjórnum aðildarlandanna fremur en hjá embættismönnum í Brussel.

Ef Evrópusambandið er í raun og veru samstarf fullvalda ríkja, eins og talsmenn þess halda gjarna fram, þá hlýtur þetta að vera rétt hjá Birni. En sé raunin hins vegar sú að aðildarríkin hafi glatað fullveldi sínu og ólýðræðislegt stofnanakerfi í Brussel fari sínu fram hvað sem aðildarríkin segja þá er rökrétt og eðlilegt að spyrja embættismennina frekar en ríkisstjórnir landanna.

Hér snúa hlutirnir á haus með dálítið broslegum hætti. Þeir sem tala eins og við höfum allt að vinna og engu að tapa með aðild viðurkenna á borði, en ekki í orði, að innan sambandsins séu lýðræðislega kjörin stjórnvöld aðildarlandanna sett undir vald embættismanna sem aldrei þurfa að leggja verk sín í dóm almennra kjósenda.

*

Í síðustu greininni í safninu ræðir Björn nokkuð orðið „aðildarviðræður“ sem allmikið ber á í fjölmiðlum um þessar mundir. Notkun þessa orðs gefur ranglega til kynna að áður en ríki sækir um aðild að sambandinu fari fram samningaviðræður um á hvaða kjörum það gengur inn í það. Hið rétta er að ríki sækir einfaldlega um aðild og slík umsókn þýðir að ríkisstjórn þess æskir inngöngu.

Umsókn um aðild er send ráðherraráði ESB sem felur framkvæmdastjórninni að meta getu umsóknarríkis til að uppfylla skilyrði fyrir aðild. Telji framkvæmdastjórnin, að umsóknarríkið uppfylli skilyrði fyrir aðild ákveður ráðherraráðið, hvort hefja eigi samningaviðræður við viðkomandi ríki og veitir framkvæmdastjórninni umboð til viðræðnanna. Þar leggur umsóknarríkið fram afstöðu sína til einstakra málaflokka á verkefnaskrá ESB og rökstuddar óskir um tímabundnar og varanlegar undanþágur eða aðlaganir varðandi innleiðingu á löggjöf ESB, ef á því er talin þörf í einstökum málaflokkum. Viðræðurnar snúast um þessar séróskir umsóknarríkisins og leggur framkvæmdastjórnin niðurstöðuna undir ráðherraráðið til samþykktar auk þess sem Evrópuþingið, þjóðþing allra aðildarríkja og umsóknarríkis þurfa að samþykkja hana. Í flestum tilvikum fer einnig fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið í umsóknarríkinu.

Af þessu sést, að það fara ekki fram neinar viðræður um aðild, heldur er rætt við stjórnendur ESB á grundvelli umsóknar, sem fyrir þá er lögð. (s. 178)

*

Hvort sem menn eru sammála Birni eða ósammála held ég að engum lesanda dyljist að hann fjallar um viðfangsefni sín af mikill þekkingu og reynslu. Skrif hans eru laus við slagorðaglamrið og öfgarnar sem því miður einkenna umræðuna um Evrópumál hér landi þar sem menn ýmist finna sambandinu allt til foráttu eða tala um það af nánast trúarlegri lotningu og láta eins og innganga í það leysi öll okkar vandamál. Sannleikurinn er þó að hagur þeirra nágrannalanda okkar sem hafa gengið í sambandið hefur hvorki versnað né batnað svo miklu muni við inngönguna.

Staða Íslands er ólík stöðu ríkjanna sem gengið hafa í Evrópusambandið af nokkrum ástæðum. Sú sem vegur þyngst er mikilvægi þess að halda forræði yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu kringum landið. En fleiri ástæður skipta máli eins og staðsetning landsins, viðskiptasamningar við önnur efnahagssvæði og fámenni þjóðarinnar sem gerði hana áhrifalitla innan sambandsins.

Jafnvel þótt fallist sé á að skynsamlegt hafi verið fyrir önnur Evrópuríki að ganga í sambandið útiloka þessar ástæður að rök þeirra gildi óbreytt fyrir okkur.

Hitt er svo annað mál, og miklu umdeilanlegra, hvort þróun Evrópusambandsins hafi verið til góðs fyrir aðildarríkin. Hvaða skoðanir sem menn hafa á því efni hljóta sæmilega upplýstir menn að vera sammála um að það er óskynsamlegt að ganga í Evrópusambandið til að leysa skammtímavandamál. Það er engin leið að ganga úr því svo ákvörðun um inngöngu hlýtur að taka mið af langtímahagsmunum og því þarf að horfa yfir miklu víðara svið en hagtölur síðustu mánaða.

Einn af kostunum við greinasafn Björns er einmitt að hann skoðar málin í talsvert víðara samhengi en þeir gera sem aðeins hugsa um bankakreppuna og vandamál sem af henni leiða.

Grein um sölumennsku í framhaldsskólum

Laugardagur, 17. janúar 2009

Í nýjasta hefti Tímarits um menntarannsóknir (5. árg. 2008, s. 107-113) er grein eftir mig sem heitir „Hvert stefna íslenskir framhaldsskólar? Menntastofnanir eða þjónustustofnanir?“ (Textinn liggur hér frammi.)

Í greininni fjalla ég um hvernig sölumennska setur æ meiri svip á starf skólanna og spillir fyrir að þeir ræki uppeldislegar og menningarlegar skyldur sínar.

Meðmæli eða mótmæli

Þriðjudagur, 13. janúar 2009

Þeir sem ekki hafa annan glugga að veruleikanum en fréttir í útvarpi og sjónvarpi, þar sem sífellt er sagt frá sömu mótmælendunum, fá ef til vill á tilfinninguna að öll þjóðin sé æst og reið. Sjálfsagt sveiflast einhverjir með og verða æstir og reiðir af að sjá og heyra öll þessi mótmæli og sjálfsagt eru einhverjir farnir að trúa síbyljunni um að hér sé bókstaflega allt að fara til fjandans. Sannleikurinn er þó sá að mótmælendur eru aðeins brot af landsmönnum og hjá flestu fólki fá dagarnir lit sinn og angan af öðru en pólitískri reiði.

Gífuryrði um að samfélagið sé á harðferð til glötunar eru annars svolítið brosleg þegar þeim er stillt upp við hliðina á allri þjóðrembunni og montinu í þeim sem hafa talað eins og Íslendingar beri langt af öðru fólki. Hvort tveggja er kannski birtingarmynd á sömu tilhneigingunni til að sjá veruleikann í svart hvítu: Annað hvort erum við best eða við erum einskis virði, annað hvort er landið frábært eða ömurlegt, annað hvort er allt á uppleið eða heila klabbið á hraðferð til helvítis. Það er eitthvað svolítið sjarmerandi og rómantískt við þessar öfgar en bara svolítið. Þær eru fyrst og fremst heimskulegar.

Sannleikurinn er miklu hversdagslegri og síður fjölmiðlavænn heldur en öfgarnar og sannleikurinn um efnahagslíf og hagstjórn á Íslandi er ekkert sérlega spennandi. Það voru gerð mistök, við fórum illa út úr alþjóðlegri bankakreppu, það verður tímabundinn samdráttur, margir þurfa að draga úr neyslu. Ætli þetta endi svo ekki eins og önnur viðlíka áföll á því að venjulegt fólk sem hefur meiri áhuga á vinnunni sinni heldur en pólitískri byltingu vinnur hvert sinn litla hlut af því sem vinna þarf – nema auðvitað einhverjum vitleysingum takist að gera nógu mikla byltingu til að fólk hafi ekki almennilegan vinnufrið.

Skyldi annars nokkur maður hafa öskrað sig hásan til að koma náunga sínum í skilning um að það séu ræktaðar kartöflur í Þykkvabænum? Sennilega ekki. Menn öskra sig hása þegar þeir flytja boðskap eins og þann að stórhveli hafi mannsvit, konur sem fara í fóstureyðingu séu morðingjar, máttarvöldin reiðist þegar einhver teiknar mynd af Múhameð, vatnsaflsvirkjanir séu misþyrmingar á móður jörð eða Maó formaður hafi frelsað kínverskan verkalýð. Svona almennt og yfireitt held ég að menn þurfi ekki að sefja sjálfa sig með gargi nema þegar þeir fara með ósannindi sem engin leið er að trúa nema vera of heitt í hamsi til að hugsa skynsamlega.

Í ágætri bók sem ég á og heitir Readings in Classical Chinese Philosophy rakst ég á þá speki það sé í lagi að þykja eitthvað ef manni þykir það ekki mjög. Ætli tilhneigingin til að finnast eitthvað mjög sé ekki bæði í ætt við gortið í útrásarvíkingunum og gargið í mótmælendunum – sjálfssefjun, æsingur sem hefur helst það hlutverk að koma í veg fyrir yfirvegun, gagnrýni og efasemdir.

Af því að ég er lítið fyrir hávaðasöm mótmæli og finnst raunar uppbyggilegra að mæla með því sem vel er gert ætla ég að nota þennan einkafjölmiðil minn til að mæla með Geir Haarde forsætisráðherra sem mér finnst hafa staðið sig afar vel í öllu atinu undanfarna mánuði, svo ætla ég líka að mæla með því að Ísland haldi sömu stjórnskipan og verið hefur og verði áfram sjálfstætt og fullvalda ríki. Að síðustu mæli ég svo með ágætri grein eftir Bjarna bróður minn á amx.is.

Dionysios Solomos

Mánudagur, 12. janúar 2009

Gríska skáldið Dionysios Solomos (Διονύσιος Σολωμός, 1798 – 1857) var uppi á blómaskeiði þjóðskálda í Evrópu. Hann fæddist 9 árum á undan Jónasi Hallgrímssyni og dó 12 árum seinna en Jónas. Fyrstu tvö erindin í lofsöng hans um frelsið eru þjóðsöngur Grikkja.

Dionysios var rúmlega tvítugur þegar frelsisstríð landa hans hófst en það stóð frá 1821 til 1827 og lauk með því að Grikkir losnuðu undan veldi Tyrkja.

Ein af ljótari sögum úr þessu stríði segir frá því þegar tyrkneskir, egypskir og albanskir hermenn eyddu byggðinni á Psaras þann 17. maí árið 1824. Karlmenn og drengir sem náð höfðu 8 ára aldri voru drepnir, kvenfólk og börn seld í ánauð og byggð öll jöfnuð við jörðu. Talið er að um 17 þúsund eyjarskeggjar hafi verið myrtir.

Lið 150 Grikkja sem hafðist við í virki á eynni bar eld að púðurgeymslum sínum og sprengdi sjálft sig í tætlur ásamt tyrkneskum her sem að þeim sótti. Um þessa atburði orti Dionysios kvæði sem er allfrægt og hér fer á eftir.

Στών Ψαρών τήν όλόμαυρη ράχη
Περπατώντασ ή Δόξα μονάχη
Μελετά τά λαμπρά παλλικάρια
Καί στήν κόμι στεφάνι φορεί
Γεναμένο άπό λίγα χορτάρια
Πού είχαν μείνει στήν έρημη γή.

Þetta er borið fram nokkurn veginn svona: (Sérhljóðar sem bera áherslu eru feitletraðir, g er eins og í sagði en ekki eins og í ganga eða gekk.)

ston Psaron tin olomavri rahgi
perpatontas i ðoxa monahgi
meleta ta lambra palikarja
ke stin komi stefani fori
genameno apo liga hgortarja
pú ihgan mini stin erimi ji

Þetta má þýða orðrétt nokkurn veginn svona:

Á Psarasar alsvörtum hrygg
gengur Dýrðin alein
hugsar um skínandi hetjudáðir
og á höfði sveig ber
gerðan úr litlum gróðri
sem hafði dvalið á eyddri jörð

Þýðingin verður ef til vill ofurlítið líkari ljóði ef hún er umorðuð á þessa leið:

Á Psaraseyju alein gengur
eftir svörtum klungrum, björtum
hugfangin af hetjudáðum,
Dýrðin sjálf, á höfði hefir
hróðrarsveig úr litlum gróðri
sem eftir stóð í eyddu landi.

Ljóðið heitir á frummálinu Η Καταστροφή τών Ψαρών (I katastrofi ton Psaron) sem getur þýtt Eyðileggingin á  Psaras.

Dionysios Solomos var ekki sá eini sem orti um frelsisstríð Grikkja. Það var yrkisefni skálda um alla Evrópu og átti mikinn þátt í uppgangi rómantíkur og þjóðfrelsishugsjóna á 19. öld. Margir sóttu innblástur í grískan kveðskap fornan og nýjan og heil kynslóð hugsjónamanna heillaðist af enska skáldinu Byron sem fór þarna suður og barðist með Grikkjum og varð eins konar þjóðhetja meðal þeirra. Eitt af þekktustu ljóðum Dionysiosar er erfiljóð um Byron.

Sum af þjóðskáldum Íslendinga lásu grískan samtímakveðskap. Grímur Thomsen þýddi a.m.k. eitt ljóð úr nútímagrísku. Ef vel er hlustað má vafalaust heyra bergmál af kveðandi Dionysiosar og fleiri Grikkja í því sem ort var og sungið af ættjarðarkveðskap hér í hinum endanum á Evrópu.

Jólabækur

Sunnudagur, 11. janúar 2009

Nú er skólinn kominn í fullan gang. Töflubreytingum er lokið og atið í kringum annaskiptin að mestu búið. Þetta gekk allt heldur vel og aðsókn er með besta móti. Hugsanlega verður að takmarka inntöku í skólann eitthvað næsta haust til því ef jafnmargir sækja um og síðast dugar framlagið sem stofnunin fær á fjárlögum fyrir árið 2009 varla til að kenna öllum þeim skara. Ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur af því enda verð ég farinn í námsorlof þegar næsta önn byrjar.

Þótt desember og byrjun janúar séu annatími hjá stjórnendum framhaldsskóla hafði ég tíma til að lesa nokkrar nýútkomnar bækur. Á jóladag las ég Glímuna við Guð eftir Árna Bergmann. Þetta er sérstök bók. Hún er skrifuð af einlægni og alvöru og er dásamlega laus við einfaldar lausnir og innantóma mælsku. Árni viðurkennir einfaldlega fávisku um hinstu rök tilverunnar og ræðir af víðsýni og yfirvegun hvaða samband menn geta haft við æðri veruleika sem þeir vita nær ekkert um, ekki einu sinni hvort hann er til í raun og sannleika.

Milli jóla og nýárs las ég bók sem heitir Apakóngur á Silkiveginum. Í henni eru sýnishorn alþýðlegrar kínverskrar frásagnalistar frá fjórtándu öld og fram á þá tuttugustu. Hjörleifur Sveinbjörnsson þýddi úr kínversku. Þetta er skemmtileg bók og mér finnst að Hjörleifur eigi mikið hrós skilið fyrir að hafa færst okkur þær gersemar sem þessar sögur eru. Ég vona að hann haldi áfram að þýða kínverskar bókmenntir á íslensku.

Ýmislegt fleira las ég af nýlegum bókum. Af íslenskum skáldskap sem ég komst yfir fannst mér einna mest varið í Skaparann eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Þessi bók hefur raunsæislegt yfirbragð en pælingarnar í henni eru á svipuðum nótum og Yosoy, furðusögu Guðrúnar Evu um hryllingsleikhúsið við Álafoss. Þær snúast um samband manns við líkama sinn eða kannski bara samband sálar og líkama. Þótt þetta séu býsna djúpar pælingar tefja þær söguna ekkert. Guðrún Eva er sá sagnameistari að geta komið heilmiklu fyrir milli línanna án þess að orði sé ofaukið í frásögninni.

Af þýddum skáldsögu hef ég þegar farið nokkrum orðum um Litlu stúlkuna og sígarettuna (sjá pistil frá 14. desember).

Önnur þýdd saga sem mér fannst merkileg er Vatn handa fílum eftir bandarískan höfund sem heitir Sara Gruen. Karl Emil Gunnarsson þýddi þessa bók sem segir frá fólki sem starfar í farandsirkus á kreppuárunum upp úr 1930 í Bandaríkjunum. Það er erfitt að lýsa töfrum þessarar frásagnar. Hún er öðrum þræði um kröpp kjör fátæks fólks á krepputímum, öðrum þræði um ástarþríhyrning og framhjáhald. Hún er líka  litrík saga um fíl og hesta og sérstætt fólk í óvenjulegu umhverfi.

Aðalpersónan í Vatni handa fílum er komin yfir nírætt, dvelur á elliheimili og rifjar upp veru sína í sirkusnum fyrir um 70 árum. Bókin gerist því á tveim stöðum sem eru eins ólíkir og vera má. Elliheimilið er stofnun þar sem allt er kerfisbundið samkvæmt réttum reglum og litlaust, lyktarlaust, bragðlaust og leiðinlegt eftir því en sirkusinn er heimur þar sem öllu ægir saman og allar reglur eru brotnar. Helsta samkenni þessara heima er að vistmennirnir á elliheimilinu eru álíka kúgaðir og verkafólkið í sirkusnum var.

Batnar opinber þjónusta þegar útgjöld ríkis og sveitarfélaga aukast?

Föstudagur, 2. janúar 2009

Samkvæmt gögnum sem finna má á vef Hagstofu Íslands voru opinber útgjöld árið 1998, umreiknuð í verðlag ársins 2007, um það bil 1,56 milljónir á hvern mann í landinu. Áratug seinna voru þau komin í 1,80 milljónir á mann. Þetta þýðir að opinber útgjöld á hvert mannsbarn hafa aukist um sem næst 15,5% á einum áratug.

Þrátt fyrir aukin útgjöld ríkis og sveitarfélaga virðast álíka margir óánægðir með hvað hið opinbera gerir lítið fyrir þá núna og fyrir 10 árum. Nú eins og þá er hægt að benda á dæmi um að velferðarkerfið bjóði skjólstæðingum sínum snautleg kjör. Stjórnendum opinberra stofnana gengur enn jafn illa að ná endum saman. Þörfin fyrir enn hærri framlög úr opinberum sjóðum virðist ekkert hafa minnkað.

Þetta er undarlegt og mótsagnakennt. Hljóta aukin útgjöld ekki að bæta þjónustu opinberra stofnana og hlýtur bætt þjónusta ekki að þýða að færri þarfir séu óuppfylltar?

Ég hef ekki þá yfirsýn yfir stofnanir ríkis og sveitarfélaga að ég geti alhæft með neinni vissu um þessi efni. Á einu sviði hef ég þó fylgst allvel með undanfarin ár og það er málefni framhaldsskóla. Útgjöld ríkisins vegna þessa málaflokks hafa aukist verulega á síðustu 10 árum. Útgjaldaaukningin er að nokkru leyti vegna fjölgunar nemenda og að nokkru leyti vegna hærri launa kennara en hún er líka að talsverðu leyti vegna þess að yfirvöld menntamála hafa gert framhaldsskólakerfið dýrara en það áður var með fjölgun stofnana og breytingum á námskrám og öðrum reglum sem skólum ber að starfa eftir.

*

Við þokkalega stóran framhaldsskóla lætur nærri að það kosti 600 þúsund krónur að kenna einum nemenda í eitt ár. Við litla skóla er þessi kostnaður nær 900 þúsundum. Litlum skólum hefur fjölgað og ráðgert er að fjölga þeim enn meir. Í fjárlögum fyrir næsta ár (sem samþykkt voru á Alþingi 22. desember) er gert ráð fyrir að stofna enn einn við utanverðan Eyjafjörð. Þar er líka gert ráð fyrir byggingu nýs framhaldsskóla í Mosfellsbæ sem trúlega verður a.m.k. meðalstór. Þegar búið verður að byggja þessa tvo nýju skóla mun framhaldsskólanemum á landinu væntanlega fækka nokkuð því á árunum 1991-5 fæddust hér að meðaltali um 4500 börn á ári en síðan hefur meðaltalið verið nær 4200 börnum á ári. Fjölgun skóla og fækkun nemenda verða til þess að fleiri skólar verða af óhagkvæmri stærð og kostnaður eykst.

Mér skilst að framhaldsskólar eigi nú að draga úr útgjöldum um 3% miðað við það sem ráðgert var í drögum að fjárlögum sem kynnt voru áður en bankarnir hrundu í október. Ég hugsa að þessi „sparnaður“ verði lítið annað en frestun á útgjöldum. En jafnvel þótt takist að minnka kostnað hvers skóla um 3% á næsta ári vegur það engan veginn á móti þeirri útgjaldaaukningu sem stofnað er til með fjölgun skóla.

Fjölgun stofnana er ekki nema hálf sagan. Með framhaldsskólalögum frá 1996 var svokölluðum starfsgreinaráðum falið að semja námskrár fyrir starfsmenntabrautir. Þannig fékk starfsgreinaráð í rafiðngreinum til dæmis það hlutverk að ákveða hvað verðandi rafvirkjar ættu að læra. Þessi starfsgreinaráð eru að mestu skipuð „fulltrúum atvinnulífsins“. Þeir bera enga ábyrgð á fjárhag skóla. Í rúman áratug hafa starfsgreinaráðin verið að breyta námskrám á tugum námsbrauta án þess að láta sig miklu varða hvað kostar að vinna eftir þeim.

Fyrir áratug sátu verðandi rafvirkjar og verðandi húsasmiðir saman í fyrstu áföngum í teikningu. Þetta var hagkvæmt. Skóli sem hafði 12 byrjendur í rafvirkjun og 12 í húsasmíði gat látið sama kennarann kenna öllum 24 grunnteikningu í einum hóp. (Ég segi 12 því í verklegum áföngum kenna menn yfirleitt ekki stærri hópum en 12 manna því kennari þarf að hafa auga með hverjum nemanda svo hann slasi sig ekki á vélsög, rennibekk eða öðru verkfæri.)

Starfsgreinaráð í rafiðnaði ákvað að verðandi rafvirkjar ættu að læra öðru vísi teikningu en allir aðrir. Svipuð dæmi eru óteljandi um öðru vísi reikningskennslu, rafmagnsfræðikennslu, smíðakennslu og alls konar kennslu fyrir fámenna nemendahópa. Allt hefur þetta kostnað í för með sér sem væri kannski í lagi ef breytingarnar væru til einhverra bóta. En þær eru það yfirleitt ekki og þegar þær eru það er í mörgum tilvikum hægt að bæta hlutina jafnmikið með minni kostnaði. Vandinn er sá að þeir sem taka ákvarðanirnar vita ekki hvað kostar að framkvæma þær og þurfa ekkert að hugsa um það, enda bera þeir enga rekstarlega ábyrgð.

*

Getur verið að eitthvað svipað eigi sér stað á öðrum sviðum opinbers rekstrar? Getur kannski líka verið að viðleitni til að spara og hagræða megi sín lítils meðan þeir sem knýja á um fjölgun stofnana og ráða mestu um regluverkið sem þeim er gert að starfa eftir bera enga fjárhagslega ábyrgð og verða aldrei krafðir um reikningsskap ráðsmennsku sinnar?