Þjóðfundurinn

Í gær las ég listann yfir gildi sem birtur var með niðurstöðum „þjóðfundar“. Þar er heiðarleiki efstur á blaði og jafnrétti, virðing, réttlæti og ábyrgð líka ofarlega.

Það sem mér finnst mest áberandi á þessum lista er ekki það sem stendur á honum, heldur það sem vantar. Þar er hvorki hófsemi né hógværð.

Getur verið að þjóðfundur hafi talið upp gildin sem hafa í raun verið höfð mestum í hávegum hér landi fremur en þau sem við þyrftum að leggja meiri áherslu á hér eftir en hingað til?

Með þessari spurningu er ég alls ekki að gera lítið úr þeim gildum sem þjóðfundurinn kom sér saman um. Þau eru öll mikils virði. En ég held samt að það sem fór aflaga hér síðustu ár megi að verulegu leyti skrifa á reikning óhófs og hroka. Þessar andstæður hófseminnar og hógværðarinnar eru kannski okkar versta þjóðarskömm.  

Ef listi þjóðfundar endurspeglar ríkjandi gildismat þá bendir hann ef til vill til þess að landsmenn eigi enn eftir að læra sína lexíu.Lokað er fyrir ummæli.