Það er ekkert strik en þú verður samt grillaður ef þú ferð yfir það

Á síðustu áratugum hafa fjölmiðlar, a.m.k. sumir, týnt velsæmismörkunum. Þetta birtist með ýmsum mishallærislegum hætti, oftast sem betur fer fremur meinlausum. Sem dæmi má taka að útvarpsstöðvar sem telja sig virðulegar, a.m.k. í aðra röndina, spila rappara sem dæla úr sér klúryrðum; Blöð og sjónvarp daðra við klám eða hálfgert klám bæði í auglýsingum og skemmtiefni; Ókurteislegt orðbragð virðist fá inni nokkurn veginn hvar sem er; Fjölmiðlar eins og visir.is birta lítt eða ekki dulbúnar auglýsingar um vændi eða eitthvað í þá áttina. Eitt dæmi sem birtist í dag er: „NEW! LUXURY TANTRIC MASSAGE IN DOWN TOWN ANY TIME! 8698602“ Ég skil „any time“ svo að þarna sé opið 24 tíma á sólarhring og efast um að þeir sem bjóða sjúkranudd eða heilsurækt séu með opið svo lengi.

En tíðarandinn er margklofinn persónuleiki nú eins og endranær og á sama tíma og velsæmismörkin mást og dofna vex dómaharkan í garð þeirra sem verður eitthvað á. Það er eins og bæði sé búið að stroka strikið út og ákveða að grilla alla sem villast yfir það. Þessi sami visir.is birti í gær frétt undir fyrirsögninni „Tálbeitan tældi“. Í fréttinni segir meðal annars:

Gríðarleg eftirspurn er eftir vændi hér á landi. Um hundrað manns svöruðu einkamálaauglýsingu sem fréttastofa setti á einkamál.is á tæpum sólarhring og vildu kaupa vændi af nítján ára gamalli stúlku. Tveir menn mæltu sér mót við tálbeitu fréttastofu. Það á að loka þeim síðum sem hýsa auglýsingar um vændi, segir stjórnarkona í Stígamótum. […] Fréttastofa útbjó prófíl á einkamálum.is fyrir tæpum sólarhring. Notast var við nafnið draumadis19 með vísan í aldur stúlkunnar. Hún sagðist bjóða upp á erótískt heilnudd gegn gjaldi. […] Fréttastofa mælti sér mót við fimm menn í dag. Tveir karlmenn mættu á staðinn, einn á fimmtugsaldri og einn á áttræðisaldri. Fyrir það hafði verið prúttað um verð fyrir kynmök […].

Ekki kemur fram í fréttinni hvort talskona Stígamóta vill loka visir.is. Ekki er heldur ýjað að því að neitt sé athugavert við að hvetja til lögbrota, eða a.m.k. tilrauna til lögbrota, með því að nota tálbeitu. Fram undir þetta hefur verið talið að þeir sem hvetja til lögbrota séu litlu betri en þeir sem fremja þau, en okkar margklofni tíðarandi hefur kannski hafnað því. Kannski verður einhvern tíma farið að nota tálbeitur til að tæla fólk til að brjóta lög sem banna fíkniefnaneyslu. Hvað veit ég.

Er ég kannski svo utanveltu við tímann að vera einn um að þykja hallærislegt að sami miðill skuli bæði birta ofangreinda frétt og auglýsingu um „NEW! LUXURY TANTRIC MASSAGE IN DOWN TOWN ANY TIME“?2 ummæli við “Það er ekkert strik en þú verður samt grillaður ef þú ferð yfir það”

  1. Máni Atlason ritar:

    Þessar sömu smáauglýsingar og eru á visir.is birtast daglega í Fréttablaðinu líka. Maður spyr sig hvers vegna femínistafélagið mótmælir því ekki að auglýsingar um vændi séu bornar út í öll hús á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem fólk kærir sig um að fá þær eða ekki?

  2. Andrés Böðvarsson ritar:

    Er þetta ekki einmitt það sem á ensku lagamáli kallast entrapment? Þó er það nokkuð fjarri mér að verja menn sem leitast eftir að kaupa kynlíf af annarri manneskju þegar slíkt býðst, í raun eða í þykjustunni.