Einkamál forsætisráðherra

Hugsum okkur að staðan sé eitt-eitt og tvær mínútur eftir af knattspyrnuleik þegar framherji annars liðsins á dauðafæri. Boltinn er fyrir framan hann rétt utan við teig og auð línan að markinu. En hann ákveður að setjast í grasið og fá sér í nefið.

Mundu stuðningsmenn liðsins segja: „Hann kaus að láta boltann eiga sig. Það er hans persónulega ákvörðun og hana verða allir að virða.“ Varla, enda væru slíkir stuðningsmenn heillum horfnir.

Á síðu 2 í Lesbók Morgunblaðsins i dag er pistill eftir Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Hún segir þar um forsætisráðherra:

Jóhanna, og ráðgjafar hennar, eru nú í þeirri stöðu að geta valið við hvaða erlenda fjölmiðla hún vill tala við [svo]. Þar með valið hvar og með hvaða hætti málstað Íslands er komið á framfæri nú þegar ímynd þjóðarinnar á erlendri grundu er í molum. […]

En það er ekki stíll Jóhönnu. Hún hefur kosið á tjá sig lítið sem ekkert við erlenda og innlenda fjölmiðla. Hvort sem það er útpæld ákvörðun hennar eður ei, verða allir að virða hennar persónulegu ákvörðun.

Hvenær fór friðhelgi einkalífsins að ná svo langt að allir verði að virða ákvörðun forsætisráðherra um að klúðra tækifærum sem skipta máli fyrir þjóðarhag?

Það var svo sem löngu ljóst að það þyrfti að skipta um ritstjóra á Mogga en mér sýnist að það þurfi líka að skipta um sitthvað fleira bæði þar og annars staðar.Ein ummæli við “Einkamál forsætisráðherra”

  1. Páll Vilhjálmsson ritar:

    Takk fyrir þennan, Atli, beint í mark.