Leiguþý

Eftirfarandi ljóð eftir Kavafis frá árinu 1910 heitir á frummálinu Η Σατραπεία (I Satrapia) en það orð er notað yfir umdæmi sem menn fengu að léni hjá Persakonungi og σατράπης (satrapis) er maður sem þiggur slíkt lén. Í grísku máli eru þessi orð stundum höfð um harðstjóra sem eru lægra settir en kóngurinn og um leiguþý illra valdhafa.

Borgin Súsa í Persíu (eða Íran) var norðan við botn Persaflóa skammt frá þar sem nú eru landamæri Íraks. Á valdatíma Cambysesar II (sem dó 522 f. Kr.) var borgin gerð að höfuðstað Persaveldis. Artaxerxes, sem nefndur er í ljóðinu, er trúlega Artaxerxes I sem ríkti yfir Persaveldi frá 465 til 424 f. Kr.

Sagan segir að aþenski stjórnmálamaðurinn og hershöfðinginn Þemistókles (Θεμιστοκλής, um 524 – 459  f. Kr.) hafi  leitað ásjár hjá Artaxerxes I eftir að hann var útlægur ger úr löndum Grikkja og kóngurinn hafi fagnað því að fá þennan höfuðfjandmann úr Persastríðunum í sína þjónustu. Óvíst er þó hvort Kavafis hafði Þemistókles sérstaklega í huga þegar hann orti ljóðið, enda hafa fleiri Grikkir á fornri tíð gengið á mála hjá Persum.

Leiguþý

Þvílíkt ólán, þú sem búinn varst
til vegsemdar og verka stórmannlegra,
þér hafa ranglát örlög alla tíð
bannað velgengi og viðurkenning;
þau leggja á þig lúalegan brag
lítilsigldar venjur, sinnuleysi.
Og uppgjöf þín, hve uggvænlegur dagur
(sá dagur þegar gefst þú upp og guggnar)
er farandmaður ferðu burt til Súsu
og gengur fyrir Artaxerxes einvald
sem veitir þér af vinsemd sinni að dvelja
í konungsgarði hirðmaður með hefðartitil.
Í örvæntingu viðtöku þú veitir
öllu því sem allra síst þú vilt.
Sál þín heimtar önnur gæði og yfir þeim hún grætur;
hún vill lýðsins lof og Fræðaranna,
torfenginn Hróður, öllu æðri og meiri,
Lárviðarsveiga, Leikhús, Aðaltorg.
Ekki getur Artaxerxes veitt þér neitt af þessu,
þetta eignast ekkert leiguþý;
en án þess, hvaða lífi er hægt að lifa.

Frumtextinn: 

Η Σατραπεία

Τι συμφορά, ενώ είσαι καμωμένος
για τα ωραία και μεγάλα έργα
η άδικη αυτή σου η τύχη πάντα
ενθάρρυνσι κ’ επιτυχία να σε αρνείται·
να σ’ εμποδίζουν ευτελείς συνήθειες,
και μικροπρέπειες, κι αδιαφορίες.
και τι φρικτή η μέρα που ενδίδεις
(η μέρα που αφέθηκες κ’ ενδίδεις),
και φεύγεις οδοιπόρος για τα Σούσα,
και πιαίνεις στον μονάρχην Αρταξέρξη
που ευνοϊκά σε βάζει στην αυλή του,
και σε προσφέρει σατραπείες και τέτοια.
Και σύ τα δέχεσαι με απελπισία
αυτά τα πράγματα που δεν τα θέλεις.
Άλλα ζητεί η ψυχή σου, γι’ άλλα κλαίει·
τον έπαινο του Δήμου και των Σοφιστών,
τα δύσκολα και τ’ ανεκτίμητα Εύγε·
την Αγορά, το Θέατρο, και τους Στεφάνους.
Αυτά πού θα στα δώσει ο Αρταξέρξης,
αυτά πού θα τα βρείς στη σατραπεία·
και τι ζωή χωρίς αυτά θα κάμεις.Ein ummæli við “Leiguþý”

  1. Atli Harðarson » Sarpur » Leiguþý | Menningarslys! ritar:

    […] Atli Harðarson heldur áfram að þýða gríska skáldið Kavafis via Atli Harðarson » Sarpur » Leiguþý. […]