Í sátt við óvissuna

Ný bók eftir mig sem heitir Í sátt við óvissuna kom úr prentsmiðju í gær. Útgefandi er Heimspekistofnun Háskóla Íslands. Í inngangi bókarinnar segir:

Þessi bók fjallar um ýmsar hliðar heimspekilegrar efahyggju og fjölbreytileg áhrif hennar á hugsunarhátt og menningu Vesturlanda. Hún er málsvörn efahyggjumanns. Hún er líka öðrum þræði inngangur að heimspekilegri þekkingarfræði, enda hefur glíman við efahyggjuna löngum verið eitt helsta viðfangsefni þeirrar fræðigreinar.

Efahyggja hefur meðal annars stuðlað að umburðarlyndi og hún átti sinn þátt í sáttargjörð mótmælenda og kaþólikka eftir trúarbragðastríð 17. aldar. Glíman við róttæka efahyggju mótaði heimspeki nýaldar og varð bæði til þess að auka veg þekkingarfræði og breyta sýn heimspekinga á eigin viðfangsefni. Um allt þetta er fjallað í fyrri helmingi þessarar bókar, til og með 12. kafla.

Tilraunir til að hrekja rök efahyggjumanna sem frá segir í köflum 6 og 13 til 22 urðu kveikja að undarlegum heimspekikenningum eins og hughyggju og pragmatisma og áttu líka mikinn þátt í mótun kenninga um mál og merkingu sem settu svip á heimspeki 20. aldar.

Á síðustu öldum hafa framfarir í vísindum gefið hugsandi mönnum ný tilefni til efasemda um að þekking geti verið áreiðanleg. Frá þessu segir í stuttu máli í lokaköflum bókarinnar.

En þótt efahyggja hafi í vissum skilningi verið í sókn frá upphafi nýaldar er oft fullyrt að það sé ekki hægt að vera efahyggjumaður – efinn sé ógn sem menn verði einhvern veginn að sleppa frá. Þessu er ég ekki sammála. Ég held að hann sé vinur sem gott er að kjósa til fylgdar. Auðvitað geri ég mér fullvel ljóst að ekki er hægt að lifa án þess að gera ráð fyrir hinu og þessu og trúa því að minnsta kosti til bráðabirgða. Sú efahyggja sem mér þykir mest vit í snýst ekki um að neita sér algerlega um að hafa skoðanir heldur um að viðurkenna að þær séu vafa undirorpnar – að jafnvel það sem menn telja öruggast geti verið rangt.

Að baki hugmynda um að efahyggja sé með einhverjum hætti ómöguleg býr oft hugsun sem er eitthvað á þá leið að ef rök fyrir róttækri efahyggju verða ekki hrakin þá sé útilokað að menn geti vitað neitt. En eins og útskýrt er í köflum 14 til 16 er þetta misskilningur. Róttæk efahyggja útilokar ekki að menn viti ýmislegt, aðeins að þeir geti verið vissir um, að það sem þeir telja sig vita, sé raunveruleg vitneskja.

Spurningunni um hvort hægt sé að vera efahyggjumaður má svara í stuttu máli með annarri spurningu: Hvernig getur heiðarlegur maður verið nokkuð annað? Það má lesa þessa bók sem tilraun til að svara sömu spurningu í lengra máli. Hún er að minnsta kosti að nokkru leyti tilraun mín til að réttlæta eigin efagirni. Í heiminum er helst til mikið af smásálarlegum kreddum og sjálfbirgingslegri vissu en of lítið af einlægri forvitni og glaðværri spurn frammi fyrir leyndardómum tilverunnar.2 ummæli við “Í sátt við óvissuna”

  1. Skúli Pálsson ritar:

    Ég mun ná mér í bókina snarlega.

  2. Arnar Pálsson ritar:

    Hljómar frábærlega. Kaupi hana, en les ekki fyrr en umsóknarfresturinn um Rannís styrki rennur út.