Vandi heimilanna og framlenging á kreppunni

Mér þykir góð greinin eftir Jón Steinsson hagfræðing á síðu 19 í Morgunblaðinu í dag. Hann skrifar um skuldsett heimili og hugmyndir um að ríkið komi þeim til bjargar og bendir á að hjálp við þá sem skulda mikið hljóti að vera á kostnað þeirra sem skulda minna.

Nú kann að vera réttlætanlegt að skattleggja einhverja sem eru aflögufærir til að hjálpa fólki sem hefur lágar tekjur og er í vanda vegna þess að lán vegna hóflegra húsnæðiskaupa hafa hækkað.

En stór hluti þeirra sem eru í vanda vegna mikilla skulda er fólk með þokkalegar tekjur sem tók há lán meðan óðærið stóð sem hæst. Þessi lán voru kannski notuð til að kaupa stór íbúðarhús og dýra bíla.

Ef fólk sem hefur álíka tekjur eða jafnvel lægri, en lét sér duga að búa í litlu húsi og aka á ódýrum bíl, er skattlagt til að hjálpa þeim sem kusu að lifa hátt meðan lán voru auðfengin, þá er hætt við að kreppan verði ansi löng.

Hvað gera þeir sem sýndu ráðdeild og höfðu vit á að skella skollaeyrum við gylliboðum bankanna um endalaus lán ef þeir verða látnir eyða sínum sparnaði í að borga lán hinna? Ég held að þeir hugsi sem svo að það borgi sig illa að vera gætinn í fjármálum og reyni eftirleiðis að sukka að minnsta kosti jafnmikið og nágranninn. Ef flestir eða allir gera það þá blasir ekkert betra við en kreppa sem engan enda tekur.

Samfélagið þarf á því að halda að fólk læri að hyggindi og ráðdeild borgi sig og treysti því að sá lærdómur standist.2 ummæli við “Vandi heimilanna og framlenging á kreppunni”

 1. Páll Vilhjálmsson ritar:

  Hjartanlega sammála.

 2. Gulli ritar:

  Þetta er afar mikilvægt atriði sem ég hef hugsað mikið um. Ég er einn af þessum svokölluðu “aflögufæru” mönnum vegna þess að ég steypti mér ekki í skuldir heldur hafði ráðdeild að leiðarljósi og ávaxtaði mitt fé af skynsemi.

  Hvað fæ ég að launum fyrir það? Hafa ráðamenn, t.d. núverandi eða fyrrverandi ríkisstjórnir látið svo lítið að minnast á okkur sem sýndum ábyrgð í fjármálum? Já, reyndar, en þá eingöngu til að tilkynna þjóðinni að ráðdeildarsemina skuli launa með því að ganga í sjóði okkar svo að bjarga megi þeim sem kunnu fótum sínum ekki forráð í fjármálum.

  Það eru að sjálfsögðu gríðarleg vonbrigði að heyra af hvílíkri vanvirðingu er komið fram við þá sem sýndu ábyrgð. Skilaboðin til komandi kynslóða Íslendinga eru hins vegar skýr: Eyddu eins miklu og þú getur, þetta verður hvort sem er allt hirt af þér með einum hætti eða öðrum.

  Ábyrg meðferð fjármuna er jafn lítils metin nú eins og hún var fyrir hrunið. Sorglegt.