Námsorlof

Þar sem ég er í námsorlofi skólaárið 2009 til 2010 líða síðsumardagarnir öðru vísi hjá mér nú en undanfarin ár. Ég sit og les og skrifa punkta og glósur. Frá og með þessari viku mæti ég líka í tíma í Háskóla Íslands þar sem ég tek tvö námskeið nú á haustönn. Þau heita Kenningar í félagsfræði og heimspeki menntunar (MVS101F) og Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (FOM102F). Þessi námskeið leggjast heldur vel í mig. Annað fjallar um efni sem ég hef áhuga á og hitt gefur mér tækifæri til að hefja vinnu við aðalverkefni mitt til PhD prófs sem verður meðal annars í því fólgið að taka allmörg viðtöl við kennara í framhaldsskólum.

Verkefnið sem ég hef tekist á hendur, og mun væntanlega taka mig nokkur ár að vinna, er í því fólgið að kanna hvaða menntastefna og hvaða gildismat ráða ferðinni við val á námsefni og áherslum á stúdentsbrautum framhaldsskóla og bera þetta annars vegar saman við opinbera menntastefnu, eins og hún birtist í lögum, reglugerðum og námskrám, og hins vegar við fræðilegar kenningar um námsmarkmið og gildi menntunar.

Ég hef ekki hugsað mér að skoða allar námsgreinar sem kenndar eru til stúdentsprófs enda væri það nú líklega of mikið verk. Greinarnar sem ég hyggst fjalla um eru annars vegar stærðfræði- og náttúruvísindi og hins vegar íslenska og saga.Lokað er fyrir ummæli.