Þýðing á ljóði eftir Odysseas Elytis

Hér fer á eftir tilraun til að þýða ljóð eftir Odysseas Elytis  (Οδυσσέας Ελύτης,  1911 –1996). Hann var með helstu ljóðskáldum Grikkja á síðustu öld og hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1979.

Ljóðið er áttundi kafli af ljóðabálki í átján köflum sem birtist árið 1943 og kallast Sól hin fyrsta (Ηλιοσ ο πρωτος).

Ég hef lifað nafnið sem er elskað

Ég hef lifað nafnið sem er elskað
í skugga af tré – það var ólívukerlingin gamla –
í dyn frá hafsins ævilöngu leið.

Þeir sem grýttu mig lifa ekki lengur
ég hlóð brunn úr steinunum
að barmi hans koma ferskar og grænleitar stúlkur
varir þeirra berast niður úr dagrenningunni
hár þeirra raknar djúpt inn í ókomna tíma.

Koma svölur, ungbörn sem vindurinn á,
þær drekka og fljúga svo lífið gangi sinn gang
ógnvaldur draumsins breytist í draum
og bágindin sveigja hjá höfðanum góða
hvergi fer rödd til einskis um himinsins flóa.

Ódauðlegi sær, hvað hvíslar þú, segðu mér frá því
snemmendis kom ég að þínum árdegismunni
á efsta leiti þar sem ástin þín birtist
sé ég löngun næturinnar til að hella niður stjörnum
löngun dagsins til að kroppa gróður jarðar.

Í akra lífsins sáði ég smáblómum, þúsundum saman,
þúsundum barna þar sem réttsýnir vindar blása
fallegra og hraustra barna sem anda góðvild
og kunna að beina augum að ystu sjónarrönd
þegar tónlistin hefur eyjarnar á loft.

Ég hef letrað nafnið sem er elskað
í skugga af tré – það var ólívukerlingin gamla –
í dyn frá hafsins ævilöngu leið.

Þýðingin er engan vegin nákvæm og veldur þar nokkru um hvernig Elytis leikur sér að margræðni orða. Sem dæmi má taka fyrstu ljóðlínuna Έζησα τ’ όνομα το αγαπημένο  sem þýða mætti orðrétt:  Lifði nafnið hið elskaða. En þetta er ekki eina mögulega þýðingin því þegar sögnin ζώ (sem merkir ég lifi) tekur andlag getur hún þýtt ég annast, ég el, eða ég lifi við eða ég geng í gegnum.

 Έζησα er einföld þátíð af ζώ og einföld þátíð í grísku á yfirleitt við um einn liðinn atburð. Sé um að ræða endurtekið ástand í fortíðinni er notuð annars konar þátíð, í tilviki þessarar sagnar er hún εζούσα.

Fyrsta ljóðlínan gæti því þýtt Eitt sinn annaðist ég nafnið elskaða.  Þessa margræðni er erfitt að tjá í stuttu máli á íslensku. Svipaða sögu má segja um fleiri ljóðlínur.

Á stöku stað reyni ég að tjá margræðni sem ekki er hægt að þýða beint með því að lengja ljóðið til að koma tveim mögulegum merkingum að. Dæmi um þetta er í sjöttu línu þar sem ég þýði χλωρά κορίτσια sem ferskar og grænleitar stúlkur. Lýsingarorðið χλωρός merkir oftast grænn en það getur líka þýtt ferskur eða nýskorinn eða nýsleginn þegar það er notað um jarðargróða.

Gríski frumtextinn fer hér á eftir.

Έζησα τ’ όνομα το αγαπημένο

Έζησα τ’ όνομα το αγαπημένο
Στον ίσκιο της γιαγιάς ελιάς
Στον ρόχθο της ισόβιας θάλασσας.

Εκείνοι που με λιθοβόλησαν δεν ζούνε πιά
Με τις πέτρες τους έχτισα μια κρήνη
Στο κατώφλι της έρχονται χλωρά κορίτσια
Τα χείλια τους κατάγονται από την αυγή
Τα μαλλιά τους ξετυλίγονται βαθιά στο μέλλον.

Έρχονται χελιδόνια τα μωρά του ανέμου
Πίνουν πετούν να πάει μπροστά η ζωή
Το φόβητρο του ονείρου γίνεται όνειρο
Η οδύνη στρίβει το καλό ακρωτήρι
Καμιά φωνή δεν πάει χαμένη στους κόρφους τ’ ουρανού.

Ώ αμάραντο πέλαγο τι ψιθυρίζεις πες μου
Από νωρίς είμαι στο πρωινό σου στόμα
Στην κορυφήν όπου προβάλλ’ η αγάπη σου
Βλέπω τη θέληση της νύχτας να ξεχύνει τ’ άστρα
Τη θέληση της μέρας να κορφολογάει τη γη.

Σπέρνω στους κάμπους της ζωής χίλια μπλαβάκια
Χίλια παιδιά μέσα στο τίμιο αγέρι
Ωραία γερά παιδιά που αχνίζουν καλοσύνη
Και ξέρουν ν’ ατενίζουν τους βαθιούς ορίζοντες
Όταν η μουσική ανεβάζει τα νησιά.

Χάραξα τ’ όνομα το αγαπημένο
Στον ίσκιο της γιαγιάς ελιάς
Στον ρόχθο της ισόβιας θάλασσας.Lokað er fyrir ummæli.