Hvernig er hægt að draga úr útgjöldum framhaldsskóla?

Á fimmtudaginn sat ég aðalfund Félags íslenskra framhaldsskóla sem haldinn var í Keflavík. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra kom á fundinn og spjallaði við skólastjórnendur sem þar voru.

Meðal þess sem Katrín sagði var að vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs þyrfti að draga úr útgjöldum til skólamála og því mætti búast við lægri framlögum á fjárlögum fyrir næsta ár en skólarnir fengu á þessu ári.

Það er vandasamt að draga úr útgjöldum. Til þess þarf skýra forgangsröð, mótaðar hugmyndir um hverju helst má sleppa. Það er ekki um það að ræða að skólarnir sinni öllum verkum sem þeir nú inna af hendi með minni kostnaði nema laun verði lækkuð, því annar kostnaður en launakostnaður er afar lítill hluti af útgjöldum skóla. Stærsti liðurinn fyrir utan laun er húsaleiga. Víst gætu Fasteignir ríkisins lækkað hana en það drægi varla neitt úr heildarútgjöldum ríkissjóðs - færði peningana bara frá einni ríkisstofnun til annarrar.

Í rauninni eru bara tvær leiðir til að spara í framhaldsskólum þannig að eitthvað muni um það. Önnur er að lækka laun. Hin er að kaupa færri vinnustundir sem þýðir einfaldlega að minnka kennslu (þ.e. kenna færri nemendum eða kenna einhverjum hluta nemandanna færri stundir).

Kannski er hægt að lækka laun eitthvað dálítið. Kannski á til dæmis ekki að greiða jafnhátt kaup fyrir fjarkennslu, þar sem skyldur kennara við nemendur eru illa skilgreindar, eins og greitt er fyrir hefðbundna kennslu. Kannski á ekki að greiða jafnmikið fyrir alla hefðbundna kennslu. Hvort hægt er að ná einhverjum sparnaði þarna veit ég ekki. Hitt þykist ég vita að kennarastéttin muni leita allra leiða til að verja kjör sín. Það kostaði langa baráttu að ná þeim upp fyrir velsæmismörk á sínum tíma. Hætt er því við að herkostnaður af stríði við Félag framhaldsskólakennara verði allhár.

Hin leiðin, að kaupa minni vinnu, er að mínu viti vænlegri og ég held satt að segja að hægt sé að draga nokkuð úr kennslu við framhaldsskóla án þess að það bitni á menntun unglinga.

Samkvæmt tölum á vef Hagstofu Íslands voru milli 25 og 26 þúsund nemendur við íslenska framhaldsskóla á síðasta ári. Þar af voru rúm 17 þúsund eða um 2/3 á aldrinum 15 til 20 ára. Fjórði hver nemandi var 23 ára eða eldri.

Við framhaldsskólana er sem sagt mikill fjöldi fullorðinna nemenda. Þrátt fyrir þetta eru námskrár skólanna að miklu leyti sniðnar að þörfum unglinga. Ýmislegt sem gert er þjónar uppeldislegum markmiðum sem eiga tæpast við þegar um fullorðna nemendur er að ræða. Að mínu viti er til dæmis fullkomið álitamál hvort námsgreinar eins og íþróttir eða lífsleikni eiga erindi við fullorðna nemendur.

Stór hluti fullorðinna nemenda er á starfsmenntabrautum. Á þessum brautum eru kenndar almennar greinar eins og móðurmál og erlend tungumál. Þessi almenna kennsla er ekki fyrst og fremst vegna þess að menn þurfi hennar við til að læra starfið, heldur vegna þess að hún nestar unglinga fyrir líf sem snýst um fleira en eina atvinnugrein. En ættu fullorðnir nemendur á starfsmenntabrautum ekki að hafa um það frjálst val hvort þeir gangast undir uppeldi af þessu tagi eða hvort þeir nesta sig sjálfir fyrir lífið með einhverjum öðrum hætti?

Vorið 2006 sendi menntamálaráðuneytið bréf til framhaldsskóla þar sem tilkynnt var að nemendur á sjúkraliðabraut mættu sleppa námi í almennum greinum (eins og íslensku, íþróttum, lífsleikni, tungumálum, stærðfræði) ef þeir hefðu náð 23 ára aldri og aflað sér 5 ára starfsreynslu við umönnun sjúkra, fatlaðra eða aldraðra og framvísuðu meðmælum frá vinnuveitanda.

Þetta bréf var ekki ritað til að draga úr útgjöldum skóla heldur til að bæta úr skorti á sjúkraliðum. En þótt tilgangurinn hafi ekki verið að spara hlaust af þessu talsverður sparnaður, því það kostaði skólana meira en milljón krónum minna að mennta fullorðinn nemanda sem kom í sjúkraliðanám með 5 ára starfsreynslu.

Mér finnst full ástæða til að skoða hvort fleiri bréf lík því sem ritað var um sjúkraliðanám árið 2006 ásamt sveigjanlegri afstöðu til starfsmenntunar fullorðinna geti dregið úr útgjöldum skólanna?

Þessi leið er í dúr við áherslur á raunfærnimat sem mótaðar hafa verið hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og mun trúlega mælast vel fyrir hjá fullorðnum nemendum. Hún þarf ekki að draga út möguleikum þeirra á að nema almennar greinar á framhaldsskólastigi því engum yrði bannað að læra meira en krafist er. Hún hefur líka þann kost að skerða ekki á neinn hátt þann kjarna skólastarfsins sem er kennsla fyrir unglinga.6 ummæli við “Hvernig er hægt að draga úr útgjöldum framhaldsskóla?”

 1. Karl Jóhann ritar:

  Eru nemendur á starfsmenntabrautum svo margir að með þessu náist 10% niðurskurður? Það kæmi mér verulega á óvart. Þá á ég einnig erfitt með að sjá að starfsmenntaskólar séu tilbúnir að taka á sig allan eða meirihluta niðurskurðar framhaldsskólastigsins.
  Sjálfum hugnast mér flati skurðurinn best, þeas að minnka ekki kennslu heldur einungis launin tímabundið. Ef kennslumagn er minnkað verður annað hvort að segja upp fólki til að þeir sem eftir eru standi með sömu krónur í höndunum eða lækka starfshlutfall almennt en við það skerðast ýmis réttindi.

 2. Atli Harðarson ritar:

  Sæll Karl Jóhann

  Ég nefndi nú hvergi töluna 10% og mér finnst afar ólíklegt að þetta ráð sem ég benti á skili nærri því svo miklum sparnaði - en það munar um hvert prósent og ef þetta getur sparað 1%, 2% eða 3% þá er nokkuð unnið.

 3. Máni Atlason ritar:

  Hvers vegna ætti ekki að skoða þann möguleika af alvöru að minnka einfaldlega kennslu á bak við hverja einingu? Ef menn hugsa sér að til sé ,,rétt” magn kennslu á bak við hverja einingu í framhaldsskóla, gæti það rétta magn kennslu ekki verið minna en nú er?

  Ég held að það gæti einmitt reynst mjög hollt og gott fyrir nemendur að þurfa að læra meira sjálfir og að þeim sé þá um leið kennt aðeins minna, án þess að kröfur séu minnkaðar.

 4. Atli Harðarson ritar:

  Ef það væri jafnauðvelt að breyta kjarasamningum kennara eins og sumir halda að sé að breyta fiskveiðistjórnunarkerfi Evrópusambandsins mætti skoða eitthvað í þessa veru.

 5. Karl Jóhann ritar:

  10% eru tekin úr umræðu um væntanlegan niðurskurð í framhaldsskólum landsins, þá er oft nefnt að skera verði niður um 10% og halda því í 3 ár til að koma til móts við kröfur um minni ríkisútgjöld. Flati skurðurinn er einmitt ágætur vegna þess að hann er einfaldur og auðveldara ætti að vera að fá þær krónur tilbaka heldur en smá skammta hér og þar.

  Varðandi hugmynd Mána þá vil ég frekar auka kröfurnar en minnka kennsluna, ef mönnum reiknast til að hægt sé að komast af með minni kennslu. En allar tilfæringar í þessa veru eru gríðarlega flóknar og hafa margháttuð hliðaráhrif sem ekki er endilega tími til að huga nægilega vel að áður en skera verður niður.

 6. Atli Harðarson ritar:

  Sæll aftur Karl Jóhann og takk fyrir svarið

  Ég held að það sé ekki verið að tala um 10% niðurskurð í rekstri framhaldsskóla heldur eitthvað minna (og svo verulega frestun á ýmsum framkvæmdum) - en segjum 8% til að segja eitthvað. Að ná þeim með flötum niðurskurði er ekki hægt nema með annað hvort launalækkun eða fækkun nemenda. Að ná þessu öllu með launlækkun þýðir að hún verður að vera nálægt 10% (m.v. að laun séu um 80% af rekstrarkostnaði). Það er stór biti að kyngja.

  Ef það ráð sem ég sting upp á skilar t.d. 4% færi að vera athugandi að skoða fækkun nemenda um svo sem eins og 1% til 3% og sparnað í launum um 1% til 3% sem e.t.v. er hægt að ná án taxtalækkana sem settu samskipti yfirvalda við kennara í algeran hnút.

  Nú svo er auðvitað hægt að hugsa sér harkalegri aðgerðir eins og að loka litlum skólum þar sem hver ársnemandi er mun dýrari en í þeim stóru en mér finnst ekki trúlegt að sátt náist um slíkar leiðir í þingliði stjórnarflokkanna.