Skírnir - vor 2009: Grein eftir Pál Skúlason

Í síðustu færslu sagði ég að í nýjasta Skírni væru þrjár greinar sem fjalla um kreppuna og ástand samfélagsins nú um stundir. Þetta var ekki rétt. Greinarnar eru fjórar og sú sem ég tilgreindi ekki er eftir Guðrúnu Nordal og heitir Endurtekin stef um óhóf, ofsa og ágirnd. Ég hélt að hún væri bara um Sturlungu þangað til ég las hana og sá að Guðrún notar dæmi frá 13. öld til að varpa ljósi á samtímann. Grein Guðrúnar er feikigóð en ég ætla ekki að fjalla um hana hér heldur skrif Páls Skúlasonar.

Grein Páls nefnist Lífsgildi þjóðar og hefur þá kosti að vekja áhugaverðar spurningar og tæpa á ýmsu sem er vert að hafa í huga þegar rætt er um málefni samfélagsins.

Í greininni útskýrir Páll greinarmun á þrenns konar gildum: efnahagslegum, stjórnmálalegum og andlegum. Þessi greinarmunur minnir um sumt á svipaðan greinarmun sem Platon gerði í Ríkinu og á sér líka hliðstæðu stjórnspeki Georgs Hegel. Ég held að það sé talsvert vit í að hafa einhverja svona skiptingu í huga þótt ég sé svo sem ekki viss um hvort betra sé að tala um þrjú eða fjögur svið mannlífsins. Sé talað um fjögur svið bætist einkalífið við það þrennt sem Páll telur.

Farsælt líf þarf á öllum þessum sviðum að halda og fólk lifir í reynd á þeim öllum. Það má nefna þau ýmsum nöfnum: Einkalíf, atvinnulíf, pólitík og ríki andans eða fjölskyldu, hagkerfi, ríki og siðmenningu. Hegel tengdi síðastnefnda sviðið einkum við listir, trú og heimspeki og ég býst við að Páll geri það líka. Þarna á leitin að sannleikanum ef til vill líka heima, og þar með öll vísindi sem stunduð er í þeim tilgangi að vita og skilja.

Páll reynir að nota þessa hugmynd um svið mannlífsins til að varpa ljósi á vandamál líðandi stundar og segir: „Tilgáta mín er […] að sú mikla áhersla sem lögð hefur verið á efnahagsmálin í þjóðfélagi okkar síðustu árin og þá sérstaklega á tiltekinn þátt þeirra, nefnilega fjármálin, hafi orðið til þess að við höfum sem þjóð vanrækt stórlega bæði stjórnmálin og andlegt líf þjóðarinnar.“ (s. 44). Hann vill að menn leggi meiri áherslu á andleg lífsgildi og segir: „Hinn nýi hugsunarháttur, sem ég er að kalla eftir, byrjar á hinum andlegu lífsgildum, ekki síst hinum siðferðilegu, og skoðar stjórnmálin og efnahagsmálin í ljósi þeirra.“ (s. 49)

Nú hygg ég að í þessu sé nokkur sannleikur fólginn. Undanfarin ár voru fjölmiðlar fullir af umfjöllun um ríka karla og kaup þeirra á fyrirtækjum. Markaðurinn var í sviðsljósinu fremur en til dæmis listir, trú og heimspeki eða stjórnmálahugsjónir og stjórnmálastarf og sjálfsagt hefur efnahagslífið líka fengið mikið rúm í meðvitund margra meðan góðaærið (sem Elísabet Jökulsdóttir segir að hafi ekki verið góðæri heldur óðæri) stóð sem hæst. En allan þennan tíma lifði fólk samt sínu einkalífi, tók þátt í stjórnmálum og lagði rækt við andleg verðmæti. Ég hugsa að meira að segja árið 2007 hafi verið fleiri ljóðskáld en bankastjórnar í landinu. Raunveruleiki mannlífsins var alltaf á öllum sviðum og önnur verðmæti en þau efnahagslegu (eins og t.d. vinátta og ást) skiptu fólk alltaf jafnmiklu máli. Það sem ef til vill vantaði á var að nógu margir gerðu sér glögga grein fyrir þessu – áttuðu sig á því hvað þeim er kærast og hvað skipti þá mestu.

Sumt sem Páll segir virðist sjálfsagt mál. En sumt er að mínu viti hæpið. Hann gefur t.d. til kynna, án þess að segja það berum orðum, að hægt sé að komast hjá efnahagslegum áföllum með því að leggja rækt við önnur gildi en þau efnahagslegu og að kreppan sé á einhvern hátt afleiðing af of mikilli áherslu á svið efnahags- og atvinnulífs. Er ekki sönnu nær að efnahagsvandi sé afleiðing af ákvörðunum sem eru óskynsamlegar á efnahagslegum forsendum? Sparsemi er skynsamlegri en eyðslusemi fyrir þann sem vill bæta efnahag sinn og ástæðurnar fyrir því eiga heima á sviði þess efnahagslega.

Ef efnahagskreppan verður yfirleitt rakin til óskynsamlegs þankagangs þá held ég að fremur sé um það að ræða að of fáir hafi hugsað hagfræðilega og sýnt hyggindi í meðferð fjár heldur en að of margir hafi verið með hugann við að græða. (Og með þessu er ég hvorki að neita því né játa að of margir hafi verið með hugann við það að græða sem mest.)

Það er eins og Páll hugsi í aðra röndina sem svo að í góðærinu (eða óðærinu) hafi samfélagið eiginlega bara verið hagkerfi og nú sé verkefnið að byggja samfélag þar sem hið hagræna, það pólitíska og það andlega er í jafnvægi. Þetta er ef til vill skýringin á að hann byrjar greinina á að segja: „Íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir því verkefni að endurreisa samfélag sitt eftir hrun fjármálakerfisins í haust.“ (s. 39.) En er sannleikurinn ekki sá að samfélagið stóð af sér hrun fjármálakerfisins og stendur enn – enda er fjármálakerfið ekki nema partur af hagkerfi sem er aðeins hluti af samfélaginu.

Fleira í grein Páls þykir mér orka tvímælis eins og til dæmis sú trú hans að við Íslendingar þurfum „að öðlast sameiginlegan skilning á því hvernig við hugsum og metum gildi hlutanna.“ (s. 45). Skilningur okkar á mannlífinu er ósköp takmarkaður og við vitum ekki nema að litlu leyti hvaða gildi skipta okkur mestu máli og hvað er okkur sjálfum fyrir bestu. Hallgrímur Pétursson orðaði þetta svo í 44. Passíusálmi að „vér vitum ei hvers biðja ber.“

Sameiginlegur skilningur verður trúlega enn vitlausari en þær sundurleitu hugmyndir sem ólíkir menn nú hafa, því ef allir skilja lífið á sömu lund er enginn til að leiðrétta þær villur sem þó er hægt að laga með gagnrýni og andmælum. Ætli við þurfum ekki meira á því að halda að þeir sem hafa annan skilning, en þann sem algengastur er, tali fullum hálsi og skýri mál sitt. Þetta gerir Páll og ef skrif hans gera gagn þá er það, held ég, einkum vegna þess að hann er ekki sammála öllum lesendum sínum og fær þá ekki alla á sitt band.Lokað er fyrir ummæli.