Skírnir - vor 2009: Grein eftir Má Guðmundsson

Í gærkvöldi og fram eftir nóttu las ég nokkrar greinar í nýútkomnu hefti Skírnis. Þrjár greinar í heftinu fjalla um ástand efnahagsins og samfélagsins í yfirstandandi kreppu. Sú lengsta af þeim, og sú eina sem fjallar um málið frá hagfræðilegu sjónarhorni, er eftir Má Guðmundsson. Hann er aðstoðarframkvæmdastjóri peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel og fyrrum aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands. Hinar tvær eru eftir heimspekingana Pál Skúlason og Stefán Snævarr.

Hér ætla ég að segja fáein orð um grein Más. Ég læt bíða að fjalla um innlegg Stefáns og Páls.

Már nefnir grein sína „Hin alþjóðlega fjármálakreppa: Rætur og viðbrögð.“

Hann útskýrir, að mér virðist, afar skilmerkilega hvernig bankakerfi heimsins lentu í ógöngum. Ég hef ekki slíkt vit á efninu að ég geti fullyrt að skýringar hans séu réttar en þær eru að minnsta kosti vel skiljanlegar og skilmerkilega fram settar.

Már rekur bankakreppuna til nokkurra þátta sem mögnuðu hver annan upp og bendir á að óheppilegt samspil þeirra hafi ekki verið fyrirsjáanlegt út frá skoðun á neinum einum þeirra. Hann skýrir til dæmis að álagspróf á einstakar fjármálastofnanir hafi verið gagnslítil „því þau voru miðuð við álag á einstakar stofnanir en allt samspilið þeirra á milli, […] vantaði.“ (s. 30)

Í lokaorðum segir Már: „Ójafnvægi í heimsbúskapnum og áherslur í hagstjórn stuðluðu að lágum raunvöxtum og miklu framboði lánsfjár sem ýtti undir útlánaþenslu og skuldsetningu. Fjármálanýjungar lögðust á sömu sveif auk þess sem sumar þeirra gerðu fjármálakerfið flóknara og ógagnsærra. Áhættustjórnun fjármálafyrirtækja var að mörgu leyti ábótavant og sama má að nokkru leyti segja um regluverk og eftirlit með fjármálakerfinu.“ (s. 34–5)

Hann gerir heldur lítið úr skýringum sem vísa til græðgi eða glæpsamlegrar hegðunar hjá eigendum fjármálafyrirtækja og segir: „Í fjármálakerfinu eru það fyrst og fremst hvatarnir í kerfinu sem stýra hegðuninni, og regluverkið og eftirlitið sem setur mörkin. […] Hvaða sjálfstætt hlutverk hegðunarmynstur þeirra sem stýrðu fjármálastofnunum lék þar til viðbótar, […] er óútkljáð og að nokkru leyti óútskýrt mál.“ (s. 32)

Már leyfir sér enga ódýra sleggjudóma. Hann lýsir því sem gerðist en reynir ekki að kenna neinum sérstökum um, hvorki tiltekinni stjórnmálastefnu né hópi manna. Ef skýringar hans eru réttar þá er heldur varla um neina eiginlega sökudólga að ræða.

Már fjallar ekki um íslensku kreppuna sérstaklega, heldur, eins og hann segir (á s. 35), „það alþjóðlega samhengi sem hún átti sér stað í.“ En þótt umfjöllunarefnið sé ekki beinlínis efnahagsvandi Íslendinga þykir mér trúlegt að þessi grein marki þáttaskil í rökræðu um kreppuna hér á landi. Mér virðist Már skrifa af slíkri yfirsýn og þekkingu að allir sem vilja taka þátt í skynsamlegri umræðu um efnið (fremur en nornaveiðum, grjótkasti, gargi og hávaða) hljóti að taka nokkurt mið af því sem hann segir.Lokað er fyrir ummæli.