Leitin að uppruna lífs eftir Guðmund Eggertsson

Um daginn þegar ég fór á bókasafnið á Akranesi til að skila bókum fyrir Hörpu rakst ég fyrir tilviljun á bók sem heitir Leitin að uppruna lífs eftir Guðmund Eggertsson prófessor emeritus í líffræði við Háskóla Íslands.

Þar sem mér þykja skrif um líffræði oft heldur skemmtileg og finnst bækur eftir Richard Dawkins, Antonio Damasio, Andrew H. Knoll (svo einhverjir séu nefndir) miklu meira spennandi en glæpasögur greip ég bókina með mér heim þótt þar væri fyrir um álnarhár stafli af ólesnum öndvegisbókmenntum. Ég sé ekki eftir því. Þetta er líklega ein af betri bókum sem út komu á íslensku á síðasta ári.

Guðmundur rekur sögu hugmynda um uppruna lífs frá vísindabyltingunni á 17. öld til okkar daga. Hann tæpir aðeins á eldri hugmyndum og fer nokkuð hratt yfir sögu þar til kemur fram á 20. öld. Stærstur hluti bókarinnar (sem er 198 síður) fjallar um það sem vísindamenn nútímans telja sig best vita um hvernig líf gæti hafa kviknað. Höfundi tekst að mínu viti afar vel að skýra þau flóknu vísindi á skiljanlegu og góðu máli og bókin er virkilega skemmtileg lesning.

Þessi bók er ólík flestu sem ritað er til að kynna vísindi fyrir almenningi að því leyti að höfundur segir ekki aðeins frá því sem er vitað heldur gerir hann líka ljósa grein fyrir því hve margt er ekki vitað um efnið. Hann ræðir ýmsar tilgátur en heldur ekki uppi áróðri fyrir neinni þeirra heldur bendir bæði á takmörk þeirra og styrk. Bókin er því ekki aðeins kynning á niðurstöðum vísindamanna heldur líka skínandi dæmi um vísindalega hugsun.

Vonandi skrifar Guðmundur meira um líffræði fyrir almenning enda eru bækur af þessu tagi ekkert lítil búbót fyrir menningarlíf þar sem skynsamleg hugsun þarf sífellt að verjast hindurvitnum, vaðli og vitleysu.Ein ummæli við “Leitin að uppruna lífs eftir Guðmund Eggertsson”

  1. Arnar Pálsson ritar:

    Fín umsögn hjá þér Atli. Skrif Guðmundar hafa alltaf verið í hæsta gæðaflokki, og ætti í raun að vera viðmið fyrir alla sem vilja skrifa um vísindi á íslensku.
    Fyrri bók hans kom einnig út hjá Bjarti og heitir Líf af lífi. Hún er einnig hreinasta gersemi.