Ræða Davíðs Oddssonar

Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 18 í gær var sagt að í ræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefði Davíð Oddsson líkt sjálfum sér við Jesú Krist. Mér þótti þetta nokkuð merkilegt svo ég fann upptöku af ræðunni á vefnum og bjóst hálft í hvoru við að Davíð hefði misst eitthvað út úr sér sem væri að minnsta kosti hægt að túlka sem yfirdrifið sjálfshól. En sem betur fer fyrir Davíð og því miður fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins sagði hann ekkert í þessa veru.

Raunar líkti hann sjálfum sér við ræningjana sem voru krossfestir um leið og Kristur og sagði eitthvað á þá leið að þá hefði átt að taka tvo óbótamenn af lífi og einn saklausan en nú hefði einn skúrkur verið negldur og tveir menn sem ekkert hefðu til saka unnið fengið að fara með honum. Meiningin var frekar augljós – Davíð þótti hart að ákafi ríkistjórnarinnar að losna við sig úr embætti seðlabankastjóra skyldi bitna  á Eiríki Guðnasyni og Ingimundi Friðrikssyni með þeim hætti sem raun er á orðin.

Ræða Davíðs var annars stórgóð. Hann fór á kostum allan tímann.

En hvers vegna skyldi fréttamaðurinn snúa út úr henni og segja rangt frá? Er hann svona yfirgengilega skilningssljór og fávís? Eða er það raunin að fréttamenn telji almennt allt satt sem sagt er ljótt um óvini Baugs og því sé sjálfsagt og eðlilegt að ljúga bara þegar ekki er hægt að klína neinum sönnum ávirðingum á sjálfan erkifjandann?9 ummæli við “Ræða Davíðs Oddssonar”

 1. Hrannar Baldursson ritar:

  Sammála.

 2. Jón Stefán ritar:

  Bullshit.
  Hann er klárlega að líkja sér við manninn í miðjunni enda segir að hann að áður voru tveir ræningjar krossfestir með kristi en nú hafi tveir blásaklausir þurft að gjalda fyrir þrjótinn Davíð.

  Það að lesskilningur þinn sé svona takmarkaður skýrir ákaflega vel hversu mikið álit þú hefur á þessum rugludalli

 3. Magnús Jónsson ritar:

  Sæll.

  Er alveg sammála þér.

  Þessi söguskýring er búinn að fara eins og eldur um sinu um blogg og Facebook.

  Held einnig að fæstir þeir sem tjá sig um þetta hafi séð ræðuna í heild sinni.

  Kv,
  MJ

 4. Guðmundur Gunnarsson ritar:

  Það er með ólíkindum að sjá allar þessar mannvitsbrekkur sem eru að tjá sig um þessi orð Davíðs og túlka jafn fáránlega á neikvæðan hátt, eru fullkomlega ófærir að skilja jafn einfalt mælt mál og tilbúnir að opinbera þessa fötlun sína og það jafnvel undir nafni.

 5. Ægir Geirdal ritar:

  Sælir eru einfaldir innan Sjálfstæðisflokksins.Davíð varð sér til skammar og ekki í fyrsta skiptið.Fyrst var það Bubbi kóngur og mikilmennskubrjálsemin hefur kraumað síðan og brýst út á Landsfundinum.
  Hvað næst? Hinir einföldu falla fram og tilbiðja hinn guðumlíka og setja hann á stall og útnefna hann guð allra einfaldra sjálfstæðismanna.Það væri gott og blessað en endilega góðir landsmenn(ekki einfaldir)allir hinir,
  kjósum rétt þ.25-04 og enga einfeldninga í þetta skiptið.Látum þá gista
  Valhöll

 6. Jón ritar:

  Ok ef Dabbi var einn ræningjana, hvar er þá Jesús? Geyr?

  Eða er Davíð kanski að rugla saman ræningjunum úr Kardimomu bænum.

  Ég var þarna, fannst hann ótrúlega ósmekklegur. Trúði því varla þegar menn við mitt borð fóru að klappa. Ég ætla að finna ræðuna nú aftur til að athuga hver er Jesús… í hans huga ef ekki hann sjálfur.

 7. gunnar ritar:

  Bíddu Atli… Ert þú ekki heimspekingur? Hvernig getur maður sem lært hefur gagnrýna orðræðu og skynsama hugsun þótt þetta góð orðræða? Þetta var bara dónaskapur og óstudd rök í allar áttir. Þetta er ekki pólitík heldur skítkast. Neðanbeltisspörk og kvikindisháttur.

  Það var ekkert þarna sem hafði með almennilega pólitík að gera, eins og hún er stunduð í siðuðum löndum.

  En ísland er auðvitað bara bananalýðveldi. Það undrar mig því lítið að fólk í sauðahópum stendur upp og klappar fyrir Davíð og svo fyrir Geir, og svo næst fyrir Davíð á ný, sem fullkomnir sauðir.

  En að heimspekingur eins og þú skulir segja þetta, það svekkir mig og fær mig til að hugsa “guð blessi ísland”.

 8. halldór ritar:

  Það er áhugavert hvernig meint innihald í ræðu getur tekið á sig sjálfstætt líf óháð þeim orðum sem féllu. Í ræðu Davíðs var saga höfð eftir Einari Oddi um 7 ára stúlku á Flateyri sem í jólaleikriti sagði að nýfæddur jesú hefði verið lagður í jötu vegna þess að það var ekki rúm fyrir þau í frystihúsinu. Svo heldur áfram:

  “Mér finnst reyndar að hinn endirinn á Nýja testamentinu eiga betur við mínar aðstæður, þó örlítið breytt.

  Þegar þeir þrjótar krossfestu ljúflinginn Krist þá höfðu þeir tvo óbótamenn honum til hvorrar handar á Krossinum. En þegar verklausa minnihlutastjórnin hengdi þrjótinn Davíð þá létu þeir sig hafa það að hengja tvo strangheiðarlega og vandaða heiðursmenn, manninum sem þeir þóttust eiga grátt að gjalda svona til samlætis.”

  Augljósasti skilningurinn er að Davíð segi þarna að réttlæti minnihlutastjórnarinnar sé verra en á dögum pílatusar,
  en hvort í því felst sjálfkrafa samlíking við Krist er svo annað mál. Það er kannski helst að “hinn endirinn á NT eiga betur við mínar aðstæður” sem nota má til að rökstyðja það að hann sé að bera sig saman við Krist. Og þó…

  Ef tveir heimspekingar (Atli og Stefán) eru að þræta, og Atli hugsar sig lengi um og segir svo eitthvað sem Stefáni finnst smávægilegt, og Stefán svarar: “Nú tók fjallið joðsótt og fæddi mús”.
  Er Stefán þá að segja að a) afrakstur umhugsunar Atla sér rýr, eða b) Atli sé fjall!

  Það getur verið varhugavert að lesa of mikið inn í dæmisögur, málshætti og annað slíkt.

  En þessi túlkun á ræðunni hefur tekið á sig líf sem virðist nokkuð óháð innihaldi ræðunnar. Það er ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist í pólitískri umræðu hér á landi og líklega ekki í það síðasta. Nærtækt dæmi um ræðutúlkun sem virðist eiga svona sjálfstæða tilvist er Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þar segir í einum kaflanum

  “Það má leiða að því rök að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækum landsins sé ein aðalmeinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs. Þannig má segja að það sé orðstír fyrirtækja jafnskaðlegt að lenda undir verndarvæng Davíðs Oddssonar eins og það er að verða að skotspæni hans. Ég vil þannig leyfa mér að halda því fram að það hafi skaðað faglega umfjöllun um Íslenska erfðagreiningu, bæði hérlendis og erlendis, að sú skoðun er útbreidd að fyrirtækið njóti sérstaks dálætis hjá forsætisráðherranum. Það vekur upp umræðu og tortryggni um að gagnagrunnur fyrirtækisins og ríkisábyrgðin byggist á málefnalegum og faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum. Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum
  eða flokkspólitískum? Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki – þarna er efinn og hann verður ekki upprættur nema hinum pólitísku afskiptum linni og hinar almennu gegnsæju leikreglur lýðræðisins taki við.”

  Eðlilegast er að líta svo á að með ræðunni sé ISG að segja að stjórnmálamenn eigi ekki að hafa pólitísk afskipti af
  fyrirtækjum, annað vekji “upp umræðu og tortryggni”.

  En mun algengari virðist sá skilningur að með þessu hafi hún verið
  að stilla sér upp “í hinu liðinu”. Til að sjá þetta nægir að slá inn “Borgarnesræðan” í leitarvel. Mjög nýlegt dæmi
  um þetta kemur frá síðu Hannesar Hólmsteins:

  “Golíat sigraði Davíð. Bessastaðavaldið, Baugsfeðgarnir og höfundar Borgarnesræðunnar sigruðu í sameiningu Davíð Oddsson. Ólafur Ragnar Grímsson var klappstýra útrásarinnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir efaðist um heilindi lögreglunnar í rannsóknum á auðfyrirtækjum”

  Ég held að við séum ekki sammála um hversu góð ræða Davíðs var. Ég held að þeir sem hafi glaðst mest yfirhenni séu andstæðingar sjálfstæðisflokksins, en Davíð skaut þungum skotum á eigið fólk.

 9. Atli Harðarson ritar:

  Halldór - takk fyrir málefnalegt innlegg.