Kreppan og óheft frjálshyggja

Í stjórnmálaumræðum síðustu vikna hafa margir sagt eitthvað á þá leið að nú þurfi að hverfa frá hagstjórn í anda frjálshyggju eins og kostir í hagstjórn séu aðallega tveir: Frjálshyggja og ekki frjálshyggja.

Þetta er ansi mikil einföldun bæði vegna þess að frjálshyggja er ekki ein kenning heldur klasi af ýmsum hugmyndum sem snúast með einum eða öðrum hætti um að æskilegt sé að lögin í landinu tryggi frelsi borgaranna og heppilegt sé að stilla skattheimtu í hóf og leita markaðslausna á heldur fleiri en færri sviðum.

Sjónarmið sem kenna má við frjálshyggju eru hluti af lýðræðishefð ríkja í okkar heimshluta og löngu komin í bland við stefnu jafnaðarmannaflokka auk mið- og hægriflokka alveg eins og bestu þættir jafnaðarstefnunnar eru orðnir hluti af pólitík flokka hægra megin við miðju.

Það er ekki til neitt hagkerfi sem færir fólki þokkaleg lífskjör og ekki er að mestu leyti dreifstýrt markaðshagkerfi. Menn komast heldur ekki langt í hagstjórn með því einu að hafna einhverju sem þeir kalla frjálshyggju eða markaðslögmál. Það er hægt að færa einstök svið úr opinberum rekstri í einkarekstur eða öfugt. En það er fráleitt að þess sé raunhæfur kostur að hverfa frá markaðsbúskap í stórum hluta viðskipta- og atvinnulífs. Hins vegar er hægt að breyta markaðnum á ýmsa vegu með reglum og löggjöf. Markaðsbúskapur er ekki, og hefur aldrei verið, nein lögleysa. Hann er raunar óhugsandi án laga og ýmissa stofnana sem eru afsprengi lagasetningar og það er hægt að haga þessari lagasetningu á marga vegu án þess að hverfa frá markaðsbúskap.

Markaðslausnir og markaðskerfi eru ekki á einn veg heldur marga. Lögin, venjurnar, tískan, menningin, aðstæðurnar og þankagangurinn sem móta markaðinn geta verið með ýmsu móti. Ef eitthvað eitt af þessu bilar er bráðræði að halda því fram að allur markaðsbúskapur sé ómögulegur. Ef ég er á leið til Akureyrar og það springur á bílnum hjá mér þá hrapa ég ekki að þeirri niðurstöðu að samgöngutækni nútímans hafi brugðist og best sé að fara fótgangandi, heldur skipti ég um dekk.

Við búum við blandað hagkerfi (þ.e. kerfi sem er í aðalatriðum markaðskerfi en með talsverðri skattheimtu og opinberan rekstur á ákveðnum sviðum) og vandamálin sem nú er við að etja urðu til í slíku kerfi. Menn skilja orsakir þeirra ekki til hlítar og það er af og frá að nokkur maður viti hvort svipaður vandi hefði komið upp í öðru vísi hagkerfi (með meiri eða minni ríkisafskipti, meiri eða minni alþjóðavæðingu eða meira eða minna af einhverju öðru sem sumum er vel við og sumum illa við).

Meint þekking á hagkerfum sem aðeins eru til í viðtengingarhætti og skildagatíð er eins og hverjir aðrir loftkastalar. Hins vegar er allnokkur reynsla af tilraunum til að hverfa frá markaðsbúskap og hún bendir til að því lengra sem gengið er á braut miðstýringar á efnahagslífinu því meiri verði spillingin og sóunin og lífskjör alls almennings lakari.

Fullyrðingar þeirra, sem er illa við markaðsbúskap, um að rót vandans sé of mikil eða „óheft“ frjálshyggja eru eftir því sem ég best fæ séð lítið annað en órökstuddir sleggjudómar.

Kreppan hér á landi er hluti af alþjóðlegri kreppu. En að svo miklu leyti sem vandi okkar á sér innlendar orsakir held ég að hann sé ekki síður afleiðing af hugsunarhætti og menningarhefðum heldur en markaðsbúskap.

Þessi hugsunarháttur sem mér sýnist hafa leitt til ófarnaðar er eitthvað í ætt við hroka og græðgi og líka svolítið skyldur spilafíkn. Þeir sem réðu ferðinni í viðskiptabönkunum og fjölmiðlarnir og forsetinn og listamennirnir sem lofsungu þá voru drambsamir og glannalegir. Eyðslusemi var nánast talin lofsverð og fólki fannst ekkert athugavert við fáránlega skuldasöfnun. Þessi vitleysisgangur tengist ekki neinni einni stjórnmálaskoðun öðrum fremur, a.m.k. ekki frjálshyggju – nema menn kalli Jón Ásgeir, Ólaf Ragnar, Hallgrím Helgason, yfirmenn og eigendur bankanna og ritsjóra Fréttablaðsins alla saman einu nafni frjálshyggjumenn.

Í viðtali sem ég sá við Össur Skarphéðinsson nefndi hann of mikið testósteron í sambandi við stórbokkalegan glannaskap í Íslendingum sem héldu að þeir væru stórlaxar í alþjóðalegum Matador. Það er kannski ekki svo vitlaust að skoða þetta eins og hann frá líffræðilegu sjónarhorni. En það er líka hægt að sjá ógöngur okkar í ljósi þeirrar gömlu speki að dramb er falli næst og skömm er óhófs æfi.

Í þessu ljósi er það undarlegt og kannski svolítið aumkunarvert að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skuli hafa látið það verða sitt fyrsta (og kannski eina) verk að reka seðlabankastjórana sem helst mæltu gegn óhófinu, hvöttu til minni skuldsetningar og vildu ekki taka þátt dansinum kringum útrásargullkálfana.

Það er líka svolítið undarlegt hvernig menn komast upp með að tengja þennan vitleysisgang í viðskiptum við Sjálfstæðisflokkinn. Kannski halda sumir að allir sem eiga eitthvað undir sér hljóti að vera fæddir inn í þann flokk. En þeir sem muna lengra aftur en fáeinar vikur hljóta þó að vita að það voru Sjálfstæðismenn (meira að segja úr þeim hluta flokksins sem er hvað hliðahollastur frjálshyggju) sem komu í veg fyrir að glæframenn í útrás legðu Orkuveitu Reykjavíkur undir í alþjóðlegu fjárhættuspili.

Sjálfum sér samkvæmir frjálshyggjumenn krefjast þess að þeir sem taka áhættu í viðskiptum hætti eigin fé en ekki annarra. Vandi okkar nú er að hluta til sá að of margir komust upp með að leggja annarra manna eigur undir á spilaborðinu.3 ummæli við “Kreppan og óheft frjálshyggja”

 1. Einar ritar:

  Sæll Atli

  Hver eða hverjir, að þínu mati, bera mesta ábyrgð á því “of margir komust upp með að leggja annarra manna eigur undir á spilaborðinu” ?

  Kv.
  Einar

 2. Atli Harðarson ritar:

  Ég veit ekki nóg til að fullyrða um hverjir bera mesta ábyrgð - og raunar eru enn að koma fram upplýsingar sem kunna að skera úr um það og ekki ótrúlegt að enn eigi ýmislegt eftir að koma á daginn.

  Ef ég að að skjóta á einhverja þá eru það helst löggjafar bæði á Alþingi og þeir sem settu reglur um bankastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu. Sumt af því sem bankarnir gerðu og var löglegt hefði e.t.v. ekki átt að vera það. Ríkisábyrgð á innistæðum (eins og Icesave) hefði heldur ekki átt að vera.

  Ef stjórnendur banka gerðu eitthvað sem er ólöglegt (eins og virðist raunar líklegt) þá bera þeir væntanlega sjálfir ábyrgð á því.

 3. Sveinbjörn ritar:

  Mannfólkið er almennt gráðugt og skammsýnt. Þetta veit hver einasti skynsemismaður. Vandinn var að Sjálfstæðisflokkurinn undir stjórn Davíðs ýtti í gegn breytingum sem tóku ekki mark á þessu. Sjallarnir smíðuðu regluverk sem gráðugir og óprúttnir menn misnotuðu.

  Ef einhver skilur veskið sitt eftir liggjand í götunni, þá er við því að búast að einhver steli því. Þetta er auðvitað glæpur, og þjófurinn ábyrgur, en þó heimska af hálfu eigandans. Hann á sinn þátt í að missa veskið. Að sama skapi, þá bera hinir svokölluðu útrásarvíkingar sína ábyrgð á þessu, en það er hreinasta firring að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn og Dabbi eigi ekki sinn þátt. Það voru þeir sem “skildu veskið eftir á götunni.”

  Davíð söng svosem líka sama söngin um þetta bankalið:

  http://www.youtube.com/watch?v=5egkmJRikKw