Ríkið, krónan og kreppan

1.
Það er margt talað um kreppuna. Sumt af þessu tali þykir mér undarlegt, eins og til dæmis þegar rosknir menn og ráðsettir segja, að því er virðist í fullri alvöru, að ríkið eigi að bjarga heimilunum. Kannski halda þeir að Evrópusambandið muni svo bjarga ríkinu. Vita menn ekki að fólkið í landinu heldur ríkissjóði uppi og ríkið á enga peninga aðra en þá sem stjórnvöld taka af fólkinu. Það er engin leið að bjarga fólki með því að taka af því peninga og rétta því svo aftur hluta af fénu.

Vissulega er hægt að bæta kjör sumra með því að taka af öðrum og það getur verið fullt vit í að ríkið hlaupi undir bagga með þeim sem hafa lágar tekjur en „björgunaraðgerðir“ fyrir aðra en fólk í neðsta fjórðungi tekjuskalans eru hvorki réttlátar né skynsamlegar. Ef fólk með þokkalegar tekjur hefur keypt hús eða annað sem það hefur ekki efni á að borga þá hefur það blessað fólk bara reist sér hurðarás um öxl og svoleiðis ráðsmennska er ekki tilefni til stóraðgerða af hálfu stjórnvalda.

Menn þurfa víst að hafa eitthvað til að trúa á og nú um stundir mæna vonir fólks helst upp á ríkið. Engu skiptir þótt bent sé á að ríkið mettar hvergi svanga munna enda eru trúarbrögð að miklu leyti handan við alla skynsemi.

2.
Það er líka rætt um að breytingar á stjórnarskrá séu nauðsynlegar til að komast út úr efnahagskreppunni. Það er eins og sumir haldi að ef eitthvað er að í samfélaginu þá hljóti vandinn að vera að stjórnskipan ríkisins virki ekki nógu vel og þurfi að stilla hana betur. Ég hugsa að jafnvel í Brussel sé leitun að svo mikilli trú.

Víst er fullt vit í mörgum hugmyndum sem fram hafa komið um lagfæringar á stjórnarskránni. Það kann til dæmis að vera tímabært að setja þar ákvæði um þjóðaratkvæði og aukin bein áhrif almennra kjósenda.

Mér finnst líka vel koma til greina að stjórnarskrárbreytingar öðlist gildi við að vera samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að minnsta kosti eru gildandi reglur um stjórnarskrárbreytingar meingallaðar, því þótt Alþingi þurfi að samþykkja þær tvisvar og þingkosningar að vera á milli munu þær kosningar jafnan snúast um önnur efni en boðaða stjórnarskrárbreytingu.

En þessar breytingar munu ekki hafa nein teljandi áhrif á efnahagsástandið og það er mjög langsótt að rekja orsakir kreppunnar til ágalla á stjórnarskránni. Hins vegar geta vanhugsaðar breytingar á stjórnarskrá haft vond áhrif í langan tíma. Ég vona því að þeir sem vilja stjórnarskrárbreytingar hafi vit á að flýta sér hægt.

3.
Enn ein klisjan er að krónan sé ónýt. Bankamenn og útrásarvíkingar stögluðust á þessu þegar þeir voru með sem mest umleikis í öðrum löndum. Þá hét það að krónan væri of lítil fyrir svo stóra banka. Nú er reyndar komið á daginn að það voru bankarnir sem voru of stórir en ekki krónan sem var of lítil. Þeir voru ekki bara of stórir fyrir krónuna heldur með umsvif langt umfram það sem var neinn grundvöllur fyrir - álíka blásnir og bólgnir og sjálfsálit þeirra sem gumuðu af útrásinni. Þótt þetta sé orðið ljóst glymur enn sami söngurinn um að krónan sé ómögulegur gjaldmiðill og nú er því borið við að hún sé of óstöðug.

Geta menn ekki komið því inn í hausinn á sér að lítið hagkerfi sem byggist að mestu á fáum atvinnuvegum er miklu sveiflukenndara en stærri kerfi og heldur áfram að vera það hvaða gjaldmiðil sem það notar (sjá færslu frá 3. júlí).

Krónan sveiflast með öðrum pörtum kerfisins. Víst hafa stórfyrirtæki misnotað smæð hennar á síðustu misserum og búið til gengissveiflur í þeim tilgangi að græða á þeim (með skortsölu). En þau fyrirtæki eru nú flest farin veg allrar veraldar.

Það getur vel verið að það sé betra á einhvern hátt að skipta um gjaldmiðil (ég efast að vísu um það en er ekki nógu vel að mér í hagfræði til að geta verið alveg viss) en að ónýtur gjaldmiðill sé orsök þess að fólk er að missa vinnuna og fyrirtæki að fara á hausinn er fjarstæða. Meginástæðan fyrir því er græðgi og glannaskapur aðallega hjá stjórnendum þriggja banka en líka hjá öllum þeim sem skuldsettu sig í botn með veðum sem voru verðlögð allt of hátt og það mest út af fíflagangi.

4.
Fjórða kreppuklisjan og sú þreyttasta er að hægt sé að galdra vandræðin burt með inngöngu í Evrópusambandið. Ég veit að vísu að sumir álíta að þetta samband gangi næst guði almáttugum en sannleikurinn er sá að það fyrirgefur engar skuldir. Innganga í það mun ekki hafa nein áhrif sem heitið getur á efnahag okkar í bráð. Til lengri tíma er vonlaust að spá enda er sambandið sífellt að breytast og ómögulegt að átta sig á hvort það muni til dæmis hleypa spænskum og enskum togurum inn í 200 mílna lögsöguna.

Það er hreinn og klár barnaskapur að halda að hægt sé að semja um að ganga í sambandið og halda samt yfirráðum yfir auðlindum í hafinu. Það er sama hvað stendur í svoleiðis samningi ný löggjöf innan Sambandsins (enn einn sáttmálinn til viðbótar við þá sem kenndir eru við Maastricht, Amsterdam, Nissa, Lissabon) getur ógilt hvaðeina sem um er samið við inngöngu.

5.
Eftir að hafa fylgst með öllu þessu tali um kreppuna vona ég að ríkið geri sem minnst til að bjarga okkur frá henni enda eru flest ráðin sem stungið er upp á líklegri til að gera ástandið verra heldur en til að bæta það.

Ég skrifaði annars svolítið um hjálpræði ríkisins og efnahagsráðstafanir þann 4. október og sagði þá meðal annars:

Þeir sem heimta að ríkið grípi til miklu meiri efnahagsráðstafana ættu kannski að hafa í huga að slíkt kann að draga úr þeim mörgu og smáu „efnahagsráðstöfunum“ sem samanlagt duga líkast til betur en aðgerðir yfirvalda og byggja á meiri þekkingu heldur en nokkurn tíma gefst ráðrúm til að safna saman í stjórnarráðinu. Einnig er þess að gæta að ráðstafanir sem henta illa stöddum stórfyrirtækjum kunna að skaða fyrirtæki sem enn eru lítil en verða stór ef þau fá frið til að vaxa. Upplýsingar um þessi litlu fyrirtæki eru af skiljanlegum ástæðum ekki uppi á borðinu þegar stjórnmálamenn taka ákvarðanir um efnahagsmál.

Vonandi finna stjórnvöld sér eitthvað annað til dundurs en að reyna að bjarga hagkerfinu. Ef þau sætta sig ekki við að vera alveg aðgerðalaus má fallast á að ríkið bæti ruslatínslu úr sauðfjárveikvarnagirðingum við þau verkefni sem það annast nú þegar og láti þar við sitja.Lokað er fyrir ummæli.