Fróðleikur um Kavafis og enn eitt söguljóð

Konstantinos P. Kavafis dvaldi á Englandi frá 9 ára aldri þar til hann var 16 ára. Enska var honum því töm og hann varð fyrir talsverðum áhrifum af enskum skáldskap, kannski mest af Browning og Oscar Wilde en líka Shelley og öðrum höfuðskáldum enskrar rómantíkur. Raunar mun það fyrsta sem Kavafis orti hafa verið á ensku.

Kavafis fæddist árið 1863 svo þessi ár hans á Englandi voru á áttunda áratug 19. aldar. Hann dvaldi líka í Frakklandi um tíma og sem unglingur var hann um tveggja ára skeið í Konstantinopel (Istanbul). Annars bjó hann mestalla sína tíð í Alexandríu í Egyptalandi. Þótt finna megi áhrif frá enskum og líka frönskum samtímakveðskap í ljóðum hans var hann mest einn á báti og utan við meginstrauma í bókmenntum enda var Alexandría ekki nein sérstök menningarmiðstöð um hans daga.

Kavafis vann fyrir sér sem skrifstofumaður og reyndi aldrei að hafa neinar tekjur af kveðskap. Raunar gaf hann ljóð sín ekki út í venjulegum skilningi heldur dreifði þeim í bæklingum innan lítil hóps. Flest af því sem hann orti birti hann aldrei.

Vera má að ástæðan fyrir því hvað Kavafis var lítið fyrir að bera hugsanir sínar á torg hafi verið samkynhneigð hans. Hann var, eins og sagt er, í skápnum. En kannski var hann bara einfari að upplagi og hirti meira um að fága kveðskap sinn en sækjast eftir frægð og frama.

Fyrsta ljóðahefti sitt gerði hann 41 árs gamall árið 1904. Það innihélt aðeins 14 ljóð og hann dreifði því í 100 eintökum.

Ljóðin sem ég hef sett hér á bloggið eru öll með eldri ljóðum Kavafis. Hestar Akkillesar er elst frá 1897, Kerti frá 1899, Che fece  … il gran rifiuto frá 1901, Laugaskörð frá 1903, Beðið eftir barbörunum frá 1904, Demetrios konungur frá 1906 og Íþaka frá 1911. (Hér eru krækjur í upplestur á ljóðunum Beðið eftir barbörunum og Íþaka og hér eru mörg af þekktustu ljóðum Kavafis bæði á grísku og í enskum þýðingum.)

Kavafis var ekki ánægður með nema lítið af því sem hann orti fyrir 1911 og sum þeirra fáu ljóða sem hann birti fyrir þann tíma hafði hann ekki með í seinni ljóðasöfnum. Til dæmis er Kerti ekki með í söfnum eftir 1911.

Stór hluti af eldri ljóðum Kavafis er svipmyndir úr sögunni. Þegar hann var kominn um fimmtugt tók að bera meira á myndum og minningum úr umhverfi hans í Alexandríu. Meira um það seinna. Hér er enn eitt söguljóð eftir Kavafis: Tími Nerós frá 1918. Þar er ort um Neró sem var keisari í Róm á árabilinu frá 54 til 68. Þess má geta að Galbas var hylltur sem keisari af hermönnum sínum á Spáni árið 68.

Tími Nerós

Neró hafði ekki áhyggjur af því
sem véfréttin í Delfí spáði.
„Hræðast skyldi hann sjötíu og þriggja ára aldur.“
Enn mundi ráðrúm til að njóta.
Hann er þrítugur. Guðinn gefur
nægan tíma og vel það
til að bregðast við hættum framtíðarinnar.

Nú snýr hann aftur til Rómar dálítið þreyttur,
en þreyttur með besta móti eftir þessa ferð,
sem var ánægjuleg hvern einasta dag –
í leikhúsum, görðum og þar sem menn æfðu fimi sína …
Kvöldin í borgum Akkea …
Mest af öllu, unaður nakinna líkama …

Svo er Neró. En á Spáni er Galbas
og þjálfar her sem hann hópar saman á laun,
gamall maður, sjötíu og þriggja ára að aldri.

Á frummálinu er ljóðið svona:

Η διορία του Νέρωνος

Δεν ανησύχησεν ο Νέρων όταν άκουσε
του Δελφικού Μαντείου τον χρησμό.
«Τα εβδομήντα τρία χρόνια να φοβάται.»
Είχε καιρόν ακόμη να χαρεί.
Τριάντα χρονώ είναι. Πολύ αρκετή
είν’ η διορία που ο θεός τον δίδει
για να φροντίσει για τους μέλλοντας κινδύνους.

Τώρα στην Ρώμη θα επιστρέψει κουρασμένος λίγο,
αλλά εξαίσια κουρασμένος από το ταξίδι αυτό,
που ήταν όλο μέρες απολαύσεως –
στα θέατρα, στους κήπους, στα γυμνάσια…
Των πόλεων της Αχαΐας εσπέρες…
Α των γυμνών σωμάτων η ηδονή προ πάντων…

Αυτά ο Νέρων. Και στην Ισπανία ο Γάλβας
κρυφά το στράτευμά του συναθροίζει και το ασκεί,
ο γέροντας ο εβδομήντα τριώ χρονώ.Lokað er fyrir ummæli.