Færslur desembermánaðar 2008

Stutt færsla um Sjálfstæðisflokkinn og Evrópusambandið

Þriðjudagur, 16. desember 2008

Nú ræðir nokkur hópur félagsmanna í Sjálfstæðisflokknum um að flokkurinn ætti að beita sér fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ef þeim er alvara finnst mér að þeir ættu líka að stinga upp á að flokkurinn skipti um nafn.

Litla stúlkan og sígarettan

Sunnudagur, 14. desember 2008

Það er orðið ansi langt síðan ég hef skrifað á þetta blogg enda hef ég verið upptekinn af lagfæringum á íbúðarhúsnæði undanfarnar vikur. Samt hef ég gefið mér tíma til að lesa nokkrar nýútkomnar bækur. Sú sem ég kláraði síðast er Litla stúlkan og sígarettan eftir Benoît Duteurtre.

Þegar ég last fyrst um útkomu þessarar bókar í fjölmiðlum hélt ég að hún væri einhver hálfgerður fimmaurabrandari. Ég rakst svo á hana í rekka með nýjum bókum á bæjarbókasafninu og sá aftan á kápunni að Friðrik Rafnsson þýddi hana og Milan Kundera gaf henni góða dóma. Ég ákvað því að gefa taka hana með og sé ekki eftir því.

Ef skáldsagan er, eins og Kundera segir, hlátur Guðs yfir heimsku mannanna þá bendir þessi bók til að máttarvöldin hafi ansi svarta kímnigáfu. Hún lýsir heimi þar sem sjálfumglöð heimska hefur öll völd og þessi heimur er ískyggilega líkur þeirri veröld sem við byggjum.

Það er freistandi að líkja Litlu stúlkunni og sígarettunni við tvær framtíðarhrollvekjur frá fyrri hluta síðustu aldar sem eru Veröld ný og góð eftir Aldous Huxley og 1984 eftir George Orwell. Í báðum þessum bókum eru þættir úr tíðarandanum ýktir dálítið, skerpt á hugmyndum sem voru á kreiki og lýst framkvæmd á pólitískum hugmyndum sem stór hluti fólks jánkaði gagnrýnislaust.

Hugmyndirnar sem Huxley spann út frá voru nytjastefna, tæknihyggja og kröfur um þægindi en Orwell tók fyrir stjórnmálavæðingu samfélagsins, miðstýringu og alræði. Í sögu Benoît Duteurtre er farið með pólitíska rétthugsun og fjölmiðlamenningu samtímans tæplega hálfu hænufeti lengra en almennt tíðkast í veruleikanum og útkoman er samfélag þar sem heimsku og grimmd eru lítil takmörk sett.

Að sumu leyti minnir sagan líka á Réttarhöldin eftir Kafka. Venjulegur maður sem ekki hefur gert neitt sérstakt af sér er handtekinn og eftir það á hann enga möguleika.

Aðalpersóna bókarinnar er embættismaður sem vinnur á skrifstofu borgarstjórnar. Þetta er ósköp venjulegur náungi, dálítið skapstyggur og dálítið sjálfhverfur en hvorki sérlega slæmur né sérlega góður maður. Hann er skarpgreindur og smekkvís en fremur metnaðarlaus. Tilvera hans virðist þokkalega örugg og lífið í föstum skorðum þangað til hann er staðinn að því að reykja inni á salerni á vinnustað sínum. Atburðarásin sem þá fer í gang leiðir til þess að hann tapar vinnunni, kærustunni, mannorðinu, frelsinu og er á endanum gerður höfðinu styttri í einni sjónvarpsútsendingu. Það óhugnanlega við þetta allt er hvað sagan er raunsæ – það vantar fjandakornið næstum ekkert á að þetta gæti allt saman gerst.