Færslur októbermánaðar 2008

Ein góð frétt

Mánudagur, 20. október 2008

Undanfarna daga hafa fréttir í fjölmiðlum ekki verið neinn sérstakur gleðigjafi. Flesta daga berast þó einhver ánægjuleg tíðindi. Mér þótti það til dæmis gleðiefni að Ísland komst ekki í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Þegar greidd voru atkvæði milli Íslands, Austurríkis og Tyrklands þá óskaði ég þess, í fyrsta og vonandi síðasta sinn á ævinni, að Ísland tapaði fyrir öðrum þjóðum. Þetta framboð var að mínu viti alger vitleysa. Ég reyndi að útskýra hvers vegna í stuttum pistli sem ég birti á heimasíðu minni þann 30. apríl 2005. Ég sagði þá:

Mér skilst að markmiðin með framboði til Öryggisráðsins séu einkum að Íslendingar hafi aukin áhrif og geri sig gildandi sem fullburða aðilar að alþjóðlegu valdatafli. Mig grunar að til viðbótar við þessi yfirlýstu markmið búi að baki framboðinu löngun eftir athygli og frægð, að nafn landsins verði oftar í fréttum. Hversu eftirsóknarvert ætli þetta sé? Er ekki betra að rækta garðinn sinn? Getum við ekki unnið heiminum meira gagn með öðru móti?

Vera má að menn verði seint á eitt sáttir um svör við þessum spurningum enda erfitt að fullyrða um slík efni að óreyndu máli. Hins vegar held ég óhætt að fullyrða að vopnlaus þjóð sé komin út á ansi hálan ís ef hún lætur atkvæði sitt ráða úrslitum um stríð og frið. Í Öryggisráðinu eru teknar ákvarðanir um beitingu hervalds og slíkum ákvörðunum þarf að fylgja eftir með því að senda hermenn í ferðir þar sem sumir hljóta örkuml og sumir koma aldrei til baka. Ríkisstjórn sem styður slíka ákvörðun hlýtur að vera siðferðilega skuldbundin til að tefla fram sínum eigin her.

Það er ekki verjandi að ríki hafi úrslitaáhrif í þá veru að senda heri annarra þjóða á vígvöllinn án þess að samþykkja að sínir eigin menn gangi við hlið þeirra alla leið. Hvernig ætlar íslenska ríkið að gera skyldu sína í þessum efnum? Ef stjórnvöld geta ekki svarað því ættu þau að hætta við framboð sitt til Öryggisráðsins.

Þótt athyglin og „frægðin“ yrðu kannski eitthvað minni yrði heiður landsmanna miklu meiri ef peningarnir sem ævintýrið á að kosta yrðu notaðir til að kaupa sjúkragögn og læknishjálp fyrir fólkið sem lendir í eldlínunni næst þegar þeir sem helst gera sig gildandi í alþjóðlegu valdatafli ákveða að farið skuli í stríð.

Nú kann einhver að hugsa sem svo að ef Ísland hefði komist í Öryggisráðið hefði mátt komast hjá því að bera ábyrgð á hernaði með því að greiða ætið atkvæði gegn því að fara í stríð. Þetta kann að virðast fallega hugsað, en veruleikinn er sá að stundum þarf að velja milli kosta þar sem er ekki hægt að sjá fyrir hvorum þarf að fylgja eftir með hervaldi.

Vera má að þau endemi sem fjárhættuspil Íslendinga í útlöndum eru orðin fái fleiri til að skilja að þjóðinni er enginn akkur í að vera sem mest í fréttum. Ef ekki væri fyrir þá sök að ferðamannaiðnaður og ýmislegur útflutningur þarf á því að halda að vakin sé athygli á landi og lýð mundi okkur, eins og öðrum, best að lifa svo lítið bæri á.

Að horfa reiður um öxl

Mánudagur, 13. október 2008

Margir eru reiðir vegna kreppunnar. Margir sjá fram á tap, atvinnumissi, skert kjör. Í fjölmiðlum eru fullyrt að landið sé gjaldþrota (hvað sem það nú þýðir). Mér sýnist að margir sem eru reiðir leiti að einhverjum til að vera reiðir við, einhverjum til að kenna um. Sumir benda á Davíð Oddsson og segja að vandræðin séu honum að kenna, aðrir á Jón Ásgeir Jóhannesson og aðra „útrásarvíkinga.“ (Allir munu þó sammála um að þetta voru ekki samantekin ráð hjá Davíð og Jóni Ásgeiri.)

Reiði er ef til vill eðlileg undir þessum kringumstæðum og viðfangslaus reiði leitar sér að einhverju til að beinast gegn. Það er leitað að blórabögglum.

Að mínu viti er ekki trúlegt að fjármálakreppa, gjaldþrot íslenskra banka og ábyrgðir sem falla á ríkissjóð séu einhverjum fáeinum mönnum að kenna. Sennilegra er að farið hafi á versta veg vegna þess að margt brást samtímis. Það er hægt að benda á:

 • Krosseignatengsl til að fegra bókhald stórfyrirtækja.
 • Glannaskap í fjárfestingum.
 • Mikla skuldsetningu heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga í landinu.
 • Ófullkomin lög um íslenska bankastarfsemi.
 • Forseti lýðveldisins kom í veg fyrir að sett yrðu lög um eignarhald á fjölmiðlum. Fyrir vikið hafa þrjár stærstu viðskiptablokkirnar, sem áttu hver sinn bankann, rekið öll blöðin sem hefðu átt að fjalla með gagnrýnum hætti um viðskiptalífið og vara við hættunum.
 • Stóraukin ríkisútgjöld á síðustu árum.
 • Vaxtastefnu seðlabankans og vandræði í stjórn peningamála hér heima.
 • Alþjóðlega bankakreppu.
 • Heillum horfinn forsætisráðherra á Englandi.

Allmargir kenna markaðshyggju eða frjálshyggju um ástandið. Þetta er mikil einföldun því aðeins sumir af þessum samverkandi þáttum eru afleiðing af opnun markaða og einkavæðingu. Sumir eru hins vegar afleiðing af annars konar pólitík og sumir verða ekki raktir til neinnar einnar stjórnmálastefnu öðrum fremur.

Ekkert eitt og líkast til ekkert tvennt eða þrennt af því sem hér var talið hefði dugað til að koma efnahag landsins í þá erfiðu stöðu sem nú er uppi. Það þurfti margt að fara saman. Heiftarleg reiði út í þá sem bera ábyrgð á einhverju einu af þessu er kannski skiljanleg. En hún er tæplega skynsamleg og nokkuð áreiðanlega ekki uppbyggileg. Reiði horfir aðeins til fortíðar en nú er þörf að horfa til framtíðar.

*

Í öllu talinu um „þjóðargjaldþrot“ má ekki gleymast að sú uppstokkun sem á sér stað felur í sér tækifæri:

 • Undanfarin ár hafa bankarnir laðað að sér stóran hluta af því fólki sem hefur mesta menntun og mesta hæfileika til nýsköpunar í atvinnulífi. Nú fá aðrar greinar væntanlega stærri hluta þessa hóps til sín og ætla má að í því felist sóknarfæri.
 • Undanfarin ár hafa fáeinir auðmenn ráðið mjög miklu í atvinnulífi landsins. Nú minnkar vonandi veldi þeirra svo fleiri komast að.
 • Undanfarin ár hafa fréttir af þotuliðinu og útrásarvíkingunum mótað gildismat ungs fólks í ansi ríkum mæli. Fjöldinn allur af unglingum hafur alist upp við að það eftirsóknarverðasta af öllu sé að komast í hóp með þessu fólki. Nú fá þeir sem hampa öðrum og uppbyggilegri gildum eins og sparsemi, hófstillingu og gætni vonandi meiri hljómgrunn.

Varðandi þetta síðasttalda er ef til vill umhugsunarefni hvort hugarfar sem minnir á spilafíkn er með einhverjum hætti landlægt eða ríkjandi hér á landi. Er eitthvað í okkar samfélagi sem elur upp glanna í fjármálum og menn sem hugsa meira eins og Einar skáld Benediktsson heldur en eins og aðhaldssamir og gætnir atvinnurekendur?

*

Það er vissulega slæmt að tapa peningum og búa við óvissu um hag sinn á næstu misserum. En það er e.t.v. gott að hrista upp í hagkerfinu. Hvort kreppan, sem nú er að hefjast, gerir á endanum meira gott en slæmt veit enginn. Kannski veltur það ekki síst á því hvort menn kjósa að eyða orkunni í að horfa reiðir um öxl eða bjartsýnir fram á veginn.

Mesta hættan nú er ekki að ríkissjóður verði stórskuldugur og fyrirtæki fari á hausinn, þótt þessi hætta sé vissulega áhyggjuefni. Mesta hættan er að hálf þjóðin fari að eyða orkunni í hjaðningavíg.

Til að draga úr hættunni á þessu held ég að best væri að skipa seðlabankastjóra sem eru ekki eins umdeildir og Davíð Oddsson og mynda þjóðstjórn með ráðherrum úr öllum flokkum, helst undir forystu Geirs H. Haarde sem hefur sýnt aðdáunarverða leiðtogahæfileika og yfirvegun í öllu atinu undanfarna daga.

Æðstu yfirvöld landsins ættu semsagt að senda skýr skilaboð um að nú skuli slíðra sverðin og vinna saman.

Efnahagsráðstafanir

Laugardagur, 4. október 2008

Í fréttum er mikið talað um efnahagsráðstafanir þessa dagana. Vestur í Ameríku tekur stórskuldurgur ríkissjóður á sig ævintýralegar skuldbindingar og víða um lönd eru ríkisstjórnir að taka yfir banka og færa peninga til og frá, að því er virðist í allmiklu óðagoti.

Ekki þarf að fylgjast mikið með fréttum til að átta sig á að kreppan sem allir eru að tala um var að miklu leyti óvænt og ófyrirsjáanleg. Lærðustu hagfræðingar vita ekki hvernig mál munu þróast og trúlega veit enginn nema lítinn hluta af skýringunum á þessum ósköpum. Sú þekking sem þarf til að „kalla hvert fley á rétta braut“ og leiða heilu hagkerfin milli brims og boða er hvergi til.

Hagkerfinu er dreifstýrt. Framvinda þess er afleiðing af ákvörðunum margra þar sem hver og einn hefur yfirsýn yfir lítið svið og gerir þar sínar eigin litlu „efnahagsráðstafanir“. Ætla má að þessar mörgu litlu efnahagsráðstafanir heppnist betur ef leikreglurnar í hagkerfinu eru þekktar. Einnig má ætla að allir þeir mörgu og litlu sem mynda mestan hluta hagkerfisins skyggnist betur eftir tækifærum og leiðum út úr þrengingum ef þeir vita það og treysta því að enginn annar tekur af þeim stjórn og ábyrgð.

Þeir sem heimta að ríkið grípi til miklu meiri efnahagsráðstafana ættu kannski að hafa í huga að slíkt kann að draga úr þeim mörgu og smáu „efnahagsráðstöfnunum“ sem samanlagt duga líkast til betur en aðgerðir yfirvalda og byggja á meiri þekkingu heldur en nokkurn tíma gefst ráðrúm til að safna saman í stjórnarráðinu. Einnig er þess að gæta að rástafanir sem henta illa stöddum stórfyrirtækjum kunna að skaða fyrirtæki sem enn eru lítil en verða stór ef þau fá frið til að vaxa. Upplýsingar um þessi litlu fyrirtæki eru af skiljanlegum ástæðum ekki uppi á borðinu þegar stjórnmálamenn taka ákvarðanir um efnahagsmál.

Ekki veit ég hvað stjórnvöld ákveða að gera á næstu dögum til að vinna gegn lausafjárþurrð og gjaldeyrisskorti en ég vona að þær ráðstafanir verði hóflegar og raski ekki að ráði áætlunum þeirra mörgu og smáu sem undanfarið hafa verið að hugsa sitt ráð.