Störf skólastjórnenda
Sunnudagur, 21. september 2008Önnin var rétt komin af stað í skólanum þegar ég fór á þing ESHA (Samtaka evrópskra skólastjórnenda) sem haldið var í Kaupmannahöfn dagana 11. til 13. september. Þetta þing er haldið á tveggja ára fresti. Árið 2006 var það í Róm og 2010 verður það á Kýpur. Vonandi kemur svo að Reykjavík árið 2012.
Þegar ég kom heim biðu verkefni við að fullklára vinnuskýrslur fyrir haustönn 2008 og vinnustaðasamning um kaup og kjör við kennara. Hann var undirritaður af samstarfsnefnd skólans síðasta fimmtudag. Þann sama dag fundaði ég með fulltrúum Norðuráls, Íslenska Járnblendifélagsins, Verkalýðsfélags Akraness og Akraneskaupstaðar um undirbúning að stofnun þekkingarseturs í málmiðnaði á sunnanverðu Vesturlandi. Vonandi verður gengið frá ráðningu starfsmanns til að annast þetta verk á miðvikudaginn kemur. Á föstudag hitti ég svo fólk sem ég vinn með í stjórn Þekkingarklasa Vesturlands og við gengum frá dagskrá ráðstefnu um rannsóknir á Vesturlandi sem haldin verður í húsakynnum Fjölbrautaskóla Vesturlands þann 20. október.
Til viðbótar við venjulega rútínu er sem sagt margt að gerast í vinnunni og sumt af því bæði spennandi og skemmtilegt. Framundan er svo mjög áhugaverð vinna við endurskoðun á skólanámskrá og aðra aðlögun skólans að nýjum lögum um framhaldsskóla sem Alþingi samþykkti í vor. Samt er ég að vona að ég geri hlé á störfum við skólann næsta skólaár og fari sjálfur að læra. Ég sendi umsókn um námsorlof til menntamálaráðuneytisins í fyrradag.
*
Á ESHA þinginu í Kaupmannahöfn var flutt margt góðra erinda. Fróðlegast þótti mér erindi sem Barbara Ischinger flutti í byrjun þingsins. Hún er yfirmaður menntamála (Director for Education) hjá OECD. Í máli hennar kom meðal annars fram að í flestum OECD ríkjum fækkar umsækjendum um stjórnunarstörf í skólum. Verður forvitnilegt að sjá hvort efnahagsþrengingar sem nú ganga yfir heiminn breyta þessu, en ætla má að á uppgangstímum sé frekar mannekla hjá því opinbera heldur en á tímum samdráttar í efnahagslífi.
Þessir erfiðleikar við að fá skólastjórnendur til starfa hafa verið umtalaðir hér á landi þar sem fremur fáar umsóknir hafa verið um stöður, a.m.k. í framhaldsskólum. Menn hafa velt fyrir sér ýmsum ástæðum þessa vanda og um þær hef ég heyrt nokkrar tilgátur. Sú sem mest er umrædd og mér finnst trúlegust er að með auknu sjálfstæði skóla og auknum skyldum skólastjórnenda vaxi fleirum það í augum að stjórna skólunum.
Í flestum OECD löndum eru skólastjórendur menn sem hafa kennt um árabil. Þeir líta á sig sem kennara og hafa fremur áhuga á mennta- og uppeldismálum heldur en því að vera eins og dæmigerðir forstjórar fyrirtækis. Hér er Ísland engin undantekning.
Reynsla skólastjórnenda af kennslu er styrkur fyrir skólana og að mínu viti forsenda þess að þeir geti stýrt samstarfi kennara með farsælum hætti, leitt vinnu við þróun námskrár eða mótað skólareglur og fylgt þeim eftir. Sá skilningur á skólastarfi sem fæst með því að kenna sjálfur er ómissandi þáttur í menntun skólastjórnenda. En við sem höfum slíka menntun höfum líklega fæst neinn sérstakan áhuga á sumum þeirra verkefna sem bæst hafa á skólastjórnendur á undanförnum árum og líkjast viðfangsefnum sem forstjórar í samkeppnisrekstri fást við. Hér má til dæmis nefna gerð kjarasamninga við starfsfólk og auglýsingamennsku sem beita þarf í samkeppni um nemendur við aðra skóla.
*
Síðan ég hóf kennslu við framhaldsskóla fyrir 22 árum hefur verkefnum skólastjórnenda fjölgað og mikið af viðbótunum eru viðfangsefni sem ólíklegt er að höfði sérstaklega til manna sem líta fyrst og fremst á sig sem kennara. Með fjárhagslegu sjálfstæði framhaldsskóla fengu stjórnendur þeirra ný verk að vinna. Með dreifstýrðum kjarasamningum bættist þref um kaup og kjör við önnur verkefni. Með lögum frá 1996 varð skipulegt og formlegt mat á starfi kennara skylda. Reiknilíkanið sem notað er til að úthluta framhaldsskólum fé úr ríkissjóði knýr þá til að keppa hver við annan til að fá sem stærstan bita af kökunni og sú keppni kostar auðvitað tíma og fyrirhöfn.
Sum þessi nýju verkefni skólastjórnenda horfa að ýmsu leiti til heilla. En fram hjá því verður ekki litið að þau hafa aukið álag á skólastjórnendur án þess stjórnunarstöðum hafi fjölgað og þau kunna að fæla kennara sem eru hæfir til að leiða faglegt starf frá því að sækjast eftir stjórnunarstöðum í skólunum.
Sá vandi sem hér um ræðir er ef til vill hluti af miklu stærra máli sem erfitt er að henda reiður á. Mér virðist að breytingar á opinberum rekstri undanfarin ár hafi miðað að því að gera hann um sumt líkan samkeppnisrekstri á markaði án þess samt að fórna neinu af (raunverulegum eða ímynduðum) kostum ríkisrekstrar eða sósíalísks rekstrar. Þetta minnir svolítið á hugmyndir Títós heitins forseta í Júgóslavíu um sósíalískan markaðsbúskap og verkur svipaðar grunsemdir um að það sem að er stefnt sé í rauninni mótsagnakennt ástand sem getur aldri orðið að raunveruleika. Um þetta mætti skrifa lengra mál og vonandi gefst mér tími til þess á næstu dögum.