Færslur júlímánaðar 2008

Álagningarskráin

Fimmtudagur, 31. júlí 2008

„Hvað eigum við að bjóða Siggu? Sama og Villi er með?“

„Ertu vitlaus. Þú ferð ekkert að bjóða henni hálfa milljón á mánuði. Á síðasta ári var hún með innan við 3 milljónir í allt fyrir fulla vinnu hjá Gústa. Við veiðum hana auðveldlega fyrir 350 þúsund í fastakaup. Gáðu svo líka hvað Gústi taldi fram. Ef þetta er eins og ég held þá hefur hann ekkert upp úr þessu harki sínu og við getum losnað við hann með því að lækka verðið í 3 eða 4 mánuði.“

Þetta brot úr samtali er bara skáldskapur en það minnir á hvað hægt er að nota upplýsingar um tekjur annarra á marga vegu.

Samningsstaða manna í viðskiptum og á vinnumarkaði ræðst meðal annars af því hvaða upplýsingar um hagi þeirra liggja á lausu. Sá sem veit að einhver er í kröggum getur notað sér það með ýmsum ógeðfelldum hætti. Þetta er ein af mörgum ástæðum þess að persónuupplýsingar eru að jafnaði ekki gerðar opinberar.

En þrátt fyrir þetta lætur íslenska ríkið upplýsingar um opinber gjöld einstaklinga liggja frammi. Þeir sem verja þessa forneskju láta stundum að því liggja að með þessu sé dregið úr skattsvikum – það geti allir vitað ef maður sem berst mikið á greiðir litla skatta, svik hans og skömm verði opinber og hann sjái þar af leiðandi að sér. Mér þykja þessi rök ekki vega þungt. Raunar er allt eins líklegt að vitneskja um að einhver sem lifir hátt borgi litla skatta hvetji aðra til að fara að dæmi hans og leita leiða til að komast hjá því að greiða opinber gjöld þótt þeir hafi talsvert umleikis.

Fyrir 100 árum voru umsagnir um sveitarómaga birtar í blöðum, sagt um einn að hann væri illa að sér en þó iðinn og um annan að hann væri vel læs en latur til vinnu. Styttra er síðan skólaeinkunnir voru opinberar. Það má ef til vill líta á birtingu álagningarskrárinnar sem leifar af misrétti fyrri tíma.

Gáta

Laugardagur, 19. júlí 2008

Margar innum stafi standa.
Strýtur kalla flestir menn.
Í söltum mari milli landa.
Miðar fólk á tug í senn.

Fleiri gátur eru hér.

Trúarjátningar sambandssinna

Laugardagur, 19. júlí 2008

Undanfarna mánuði hafa blöðin verið full af trúarjátningum fólks sem vitnar um að ef við værum í Evrópusambandinu þá væru betri lífskjör, engin kreppa og lægra verð á vörum.

Í þessu tali er að sjálfsögðu ekki tekið fram að mörg svæði innan Sambandsins búa við kreppu. Það er heldur ekkert verið að velta sér upp úr því að Evrópulönd sem standa utan sambandsins (t.d. Sviss, Noregur og Ísland) bjóða þegnum sínum betri kjör en flest lönd innan þess – enda stílbrot að troða upptalningu á staðreyndum inn í trúarlega texta.

Í öllum þessum játningabókmenntum fer lítið fyrir rökum. Sjaldan er vitnað í rannsóknir. Hlutlausar upplýsingar eru ósköp litlar.

Hversu sennilegt er að við sleppum við alþjóðlega kreppu með því að ganga í sambandið? Trúir því einhver að efnahagsvandi sem hér bætist við kreppuna og stafar af eyðslu umfram tekjur (skuldasöfnun og viðskiptahalla) leysist með einhverju öðru en ráðdeild og sparsemi? (Já - vandinn stafar ekki af litlu myntsvæði heldur eyðslusemi sem kemur fólki í koll hvaða mynt sem það notar.)

Ekkert af þessu er raunar svo mikið sem hið minnsta líklegt í augum þeirra sem aðeins hafa jarðlegan skilning. Menn þurfa að horfa með sjónum trúarinnar til að virðast þetta sennilegt.

Fyrir okkur sem ekki höfum slík æðri skilningarvit virðist samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) fullgóður og jafnvel of mikið af því góða. Sú jarðbundna þjóð Englendingar virðist á svipuðu máli því kannanir sem þar voru gerðar í vor benda til að um tveir þriðju hlutar landsmanna vildu frekar eitthvað í dúr við EES heldur en fulla sambandsaðild. Frá þessu segir í frétt The Telegraph þar sem stendur:

Könnun The Global Vision/ICM leiddi í ljós að þegar breskir kjósendur voru spurðir um hvernig samband við Evrópu þeir álitu best kusu 41% samband sem byggðist aðeins á viðskiptum og samvinnu. 27% vildu að Bretar yrðu áfram fullir aðilar að Evrópusambandinu og 26% vildu draga sig algerlega út úr því.

64% sögðust mundu kjósa samband sem aðeins snerist um viðskipti ef boðið væri upp á þann kost í kosningum.

(The Global Vision/ICM survey found that when British voters were asked about their ideal relationship with Europe, 41 per cent chose one based simply on trade and co-operation. Some 27 per cent wanted Britain to stay a full EU member while 26 per cent wanted to withdraw altogether.

If the “trade-only” option were offered in a referendum, 64 per cent said they would vote in favour.)

Mál Paul og sært þjóðarstolt

Miðvikudagur, 9. júlí 2008

Undanfarna daga hafa verið fréttir í fjölmiðlum og greinar í dagblöðum um mál Paul Ramses. Flestir sem tjá sig um brottflutning hans úr landi eru reiðir yfirvöldum og finnst að þau hafi farið offari. Sumir tala um að reglurnar sem gilda um veitingu dvalarleyfa hér á landi séu allt of strangar. Aðrir efast um að yfirvöld hafi farið að lögum þegar Paul var handtekinn og fluttur til Ítalíu.

Ég þekki ekki reglurnar um móttöku hælisleitenda og dvalarleyfi innflytjenda og get því ekki gagnrýnt þær af neinu viti. Ég held samt að þær hljóti að vera óþarflega strangar því mjög fáir flóttamenn fá hæli hér á landi og fólk sem vill flytja hingað frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins fær yfirleitt ekki atvinnu- og dvalarleyfi. Hér hefur mannekla verið vandamál svo árum skiptir. Það ætti því að vera öllum til góðs að hleypa fleirum inn í landið og að minnsta kosti athugandi að hafa reglurnar aðeins frjálslegri en í löndum eins og Spáni og Frakklandi, þar sem er viðvarandi atvinnuleysi og mjög mikill aðsókn flóttamanna.

Ég kann heldur ekki nóg í lögum til að geta fullyrt hvort meðferðin á Paul var lögleg. Mér finnst þó undarlegt ef hún stenst meðalhófsreglu stjórnsýslulaga (sjá færslu frá 5. júlí) og mér finnst líka undarlegt að yfirvöld geti leyft sér að birta úrskurð um brottflutning af landinu klukkan 16 þann 2. júlí og framkvæma hann klukkan 06 að morgni þann 3. júlí eins og gert var. Ætli það sé einber tilviljun að birtingin var um leið og embætti sem hægt var að krefja svara lokuðu skrifstofum sínum og brottflutningurinn fór fram áður en þau opnuðu daginn eftir? Má stjórnvald nota svona aðferð til að koma í veg fyrir að farið sé fram á skýringar á úrskurði eða honum áfrýjað?

Það er von að fólk spyrji? Það er líka von að fólk leggist í bollaleggingar um þessi lögfræðilegu atriði þegar það fréttir af nöturlegri meðferð á fjölskyldu með nokkurra vikna gamalt barn. En ég held samt að þessar pælingar um regluverk og stjórnsýslulög segi ekki nema í mesta lagi hálfa sögu.

Þeir mörgu sem eru reiðir eru ekki fyrst og fremst reiðir vegna þess að hugsanlega hafi verið vikið frá einhverjum lagabókstaf. Þeir hafa sjálfsagt fæstir neina skýra hugmynd um hvaða reglur gilda um hælisleitendur, dvalarleyfi, atvinnuleyfi og skyld efni. Ætli menn séu ekki einkum reiðir vegna þess að hvað sem öllum lögum og reglum líður er framkoma yfirvalda við Paul og fjölskylda hans ómannúðleg. Mér sýnist að hjá æði mörgum sé þessi reiði nátengd særðu þjóðarstolti.

Þjóðarstolt á sterk ítök í stórum hluta fólks. Viðfang þessa stolts eru einhverjir kostir sem fólki finnst að við höfum sem hópur eða sem ríki. Það þykir víst sumum fínt nú um stundir að gera heldur lítið úr þjóðrækni og tilfinningum sem henni tengjast. En eins og ég reyndi einu sinni að útskýra í löngu máli (í grein sem liggur hér frammi á pdf-formi) er heldur grunnfærnislegt að vísa þeim öllum á bug.

Stór hluti Íslendinga vill ekki bara trúa því að landið sé fagurt og bókmenntarfur þjóðarinnar merkilegur. Heilbrigt þjóðarstolt margra, vonandi flestra, byggist líka á þeirri trú að við séum friðelskandi þjóð sem trúir á líf án ofbeldis, hér sé mannúðlegt stjórnarfar, samfélag jafningja, mannréttindi séu virt og alþýða fólks fái um frjálst höfuð strokið.

Stolt af þessu tagi ýtir undir samstöðu um mjög mikilsverð gildi.

Þeim sem mislíkar meðferðin á hælisleitendum og hvernig yfirvöld fara að minnsta kosti alveg að mörkum þess sem lög og mannréttindasáttmálar leyfa – þeim mislíkar kannski mest vegna þess að þeim finnst stjórnvöld gera lítið úr gildum sem þjóðin ætti öðru fremur að standa saman um.

Ramses Odour Paul

Laugardagur, 5. júlí 2008

Ramses Odour Paul dvaldi hér á landi á vegum Alþjóðlegra ungmennaskipta fyrir þrem árum síðan. Eftir það fór hann heim til sín, til Kenya, og giftist þar. Í vetur kom hann aftur til Íslands ásamt konu sinni. Barn þeirra hjóna fæddist á Landspítalanum fyrir nokkrum vikum.

Ég kynntist Paul þegar hann dvaldi hér í hið fyrra skipti. Þau kynni urðu vegna þess að Máni sonur minn fór til Kenya á vegum Alþjóðlegra ungmennaskipta og stofnunin kynnti íslenska Kenyafara fyrir Paul svo hann gæti frætt þá um land sitt. Eftir þetta heimsótti Paul fjölskyldu mína nokkrum sinnum og við kynntumst honum sem grandvörum og vel gefnum manni. Ég ræddi nokkrum sinnum við hann um stjórnmál og hann sagði mér ýmislegt um eigin stjórnmálaþátttöku í heimalandi sínu.

Í kringum forsetakosningar í Kenya á síðasta ári var æði róstusamt þar. Paul lenti í þeim átökum enda virkur í andófi gegn stjórn Mwai Kibaki. Svo fór að hann taldi sér ekki óhætt í landinu og ákvað að flýja. Af eðlilegum ástæðum lá leiðin til Íslands. Hér átti hann vini. Hér þekkti hann til. Kannski trúði hann því líka að hér væri tekið vel á móti fólki.

En Útlendingastofnun er ekki sérlega gestrisin. Umsókn hans um dvalarleyfi var svarað með handtöku seinnipart dags í síðustu viku. Hann var læstur inni um kvöldið eins og hver annar óbótamaður. Daginn eftir, þegar embættismenn og ráðherra voru krafðir svara um hvað þetta ætti að þýða, var búið að senda Paul til Ítalíu, því þar steig hann fyrst niður fæti eftir að hann kom inn á Schengen svæðið. Þetta er víst í samræmi við svokallað Dyflinnarsamkomulag Schengen ríkjanna sem heimilar landi að senda hælisleitendur til fyrsta viðkomulands á svæðinu. Af eðlilegum ástæðum er Ísland sjaldan fyrsta viðkomulandið. Hingað er ekki mikið um beint flug frá löndum sem fólk þarf að flýja.

Kona Pauls og börn voru eftir og hefur verið hótað að gera þau einnig landræk.

Ég skil ekki hvernig hægt er að réttlæta það að handtaka mann sem engum hefur mein gert, skilja hann frá konu og barni og flytja nauðugan í fangabúðir í öðru landi með því að benda á að þetta sé heimilt samkvæmt á samningi Schengen ríkjanna. Þessar aðfarir eru jafnskelfilegar, óþarfar og skammarlegar þótt þær séu ekki beinlínis brot á milliríkjasamningum.

Ef það er mikilvægt fyrir stjórnvöld að vísa Paul og fjölskyldu hans úr landi ætti að minnsta kosti að leita leiða til að hjónin gætu farið saman með barn sitt. Ég segi ef það er mikilvægt, því mér er algerlega óskiljanlegt hvernig þessi brottrekstur getur verið nokkrum til góðs. Það er ekki eins og það sé beinlínis of margt fólki hér landi og það er heldur ekki eins og Paul sé neinn vandræðagemlingur.

Talsmenn yfirvalda hanga á því að meðferðin á Paul sé lögleg. Það er hugsanlegt að þetta sé allt löglegt. Ég skil þó ekki alveg hvernig svona aðfarir samrýmast meðalhófsreglunni sem finna má í stjórnsýslulögum (lögum nr. 37 frá 1997). Þar segir í 12. grein:

Meðalhófsreglan.
Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

(Reglan gildir að vísu ekki fyrirvaralaust um allar stjórnvaldsaðgerðir því í 2. grein sömu laga segir: „Ákvæði annarra laga, sem hafa að geyma strangari málsmeðferðarreglur en lög þessi mæla fyrir um, halda gildi sínu.“)

Mér finnst að þeir sem bera ábyrgð á að handtaka Paul, skilja hann frá fjölskyldu sinni og flytja hann úr landi ættu að minnsta kosti að skýra hvaða lögmæta markmið það er sem ekki er unnt að ná með vægari aðgerðum en þessum.

Á netinu er undirskriftalisti þar sem skorað er á yfirvöld að snúa Paul aftur hingað til lands. Ég hvet alla til að setja nafn sitt á þann lista og þakka Birgittu Jónsdóttur fyrir að hafa frumkvæði að undirskriftasöfnuninni.

Gengissveiflur, hagsveiflur og tölfræðileg met

Fimmtudagur, 3. júlí 2008

Hvers vegna skyldu Íslendingar eiga mörg heimsmet miðað við fólksfjölda? Það er mest vegna þess hvað þeir eru fáir. Það er einfaldlega miklu líklegra að fámennur hópur sé að meðaltali frábrugðin því sem venjulegast er heldur en fjölmennur hópur.

Ef tekinn væri einhver 300.000 manna hópur í stóru fjölmennu landi (til dæmis allir íbúar í einni sýslu eða einum borgarhluta eða landshluta) og hann kallaður þjóð þá ætti sú þjóð sjálfsagt fjölmörg heimsmet miðað við fólksfjölda. Íbúar í syðstu sýslu einhvers lands geta til dæmis átt heimsmet í tannskemmdum og íbúar í nyrstu sýslu sama lands heimsmet í viskíþambi án þess landsmenn sem heild eigi nein heimsmet. Ef hópur er nógu stór jafnast svona tölfræðileg sérkenni út.

Allt þetta er svo sem fremur augljóst. En er ekki líka augljóst að fámennið skýrir líka miklar hagsveiflur á Íslandi miðað við það sem gerist í fjölmennari nágrannalöndum? Í syðstu sýslu í fjölmennu landi getur verið mikill hagvöxtur árum saman og í nyrstu sýslunni getur verið kreppa á sama árabili og svo geta komið nokkur ár þar sem þetta snýst við en hagvaxtartölur fyrir landið allt samt verið venjulegar og dæmigerðar allan tímann.

Í landi þar sem eru fá fyrirtæki og verðmætasköpunin mestöll í fáeinum atvinnugreinum eru talsvert meiri líkur á að hagvaxtartölur víki frá því sem er venjulegt og dæmigert heldur en í fjölmennu ríki þar sem eru mörg fyrirtæki sem dreifast á margar atvinnugreinar.

Miklar hagsveiflur á Íslandi þýða ekki að Íslendingar búi við sveiflukenndari afkomu en annað fólk. Í fjölmennum ríkjum búa einstök svæði og einstakar atvinnugreinar við miklu meiri sveiflur en ríkisheildin. En þær jafna sig út hver á móti annarri. Einstaklingar í fjölmennu ríki kunna því að upplifa jafn sveiflukennda afkomu og einstaklingar í fámennu ríki þótt landsmeðaltalið í fjölmenna ríkinu breytist minna á milli ára.

Í fréttum af niðursveiflu í íslensku efnahagslífi nú um stundir er stundum talað eins og krónan sveiflist af sjálfri sér. Vera má að breytingar á verði hennar stafi að einhverju leyti af glannaskap og fíflagangi í mönnum sem leika sér að því að kaupa og selja milljarða til að hafa áhrif á gengið. En ég held samt að gengisbreytingar endurspegli að langmestu leyti breytingar á verðmæti og afkomu íslenskra fyrirtækja. Verðmæti krónunnar breytist ekki af sjálfu sér. Það breytist vegna einhvers sem fólk gerir.

En ætli það sé gott eða vont fyrir fólkið í landinu að gengið breytist?

Fyrir þá sem nota tvo gjaldmiðla eða fleiri, eins og til dæmis alla þá sem stunda viðskipti bæði innan lands og utan, flækir það málin óneitanlega að evra, pund eða dollari skuli ekki kosta jafn margar krónur í dag og í gær. En þegar harðnar á dalnum hjá útflutningsfyrirtækjum og ekki er hægt að ná samkomulagi um að greiða færri krónur í laun þá bjargar það málunum ef krónan einfaldlega lækkar miðað við gjaldmiðla viðskiptalandanna. Mér finnst ekki ótrúlegt að gengislækkunin undanfarna mánuði hafi fleytt nokkuð mörgum fyrirtækjum í gegnum þrengingar sem þau hefðu ekki lifað af ella.

Getur verið að okkar litli gjaldmiðill, sem svo mjög er í tísku að tala illa um þessi misserin, hafi komið í veg fyrir að niðursveiflan yrði til þess að allmörg fyrirtæki færu á hausinn og fólk missti vinnuna?

Ættum við kannski að bölsótast ögn minna yfir sveiflukenndri afkomu og gjaldmiðli sem breytist í takt við landshagi? Gæti jafnvel verið að víða um lönd séu til 300.000 manna byggðir sem kæmust betur af ef þær hefðu eigin gjaldmiðil heldur en þær gera með peninga sem breyta gildi sínu í takt við meðalafkomu margra byggða sem búa við ólíkar hagsveiflur?

Ég veit ekki hvaða kostir eru á að bera saman afkomu manna á litlum og stórum myntsvæðum en óneitanlega væri slíkur samanburður forvitnilegur?

Óraplágan

Fimmtudagur, 3. júlí 2008

Í nýjasta tölublaði Þjóðmála (2. hefti, 4. árg. s. 76–82) er grein eftir mig um Órapláguna eftir Slavoj Žižek. Greinin liggur hér frammi.