Færslur júnímánaðar 2008

Írskir evrópusinnar

Þriðjudagur, 17. júní 2008

Ef evrópusinni er maður sem þykir vænt um Evrópu, evrópska menningu og alla þá dásamlegu fjölbreytni sem einkennir álfuna þá unnu írskir evrópusinnar merkilegan kosningasigur í lok síðustu viku.

Það eru annars ljótu öfugmælin þegar talsmenn Evrópusambandsins eru kallaðir evrópusinnar. Það væri nær að kalla þá sambandssinna. Það orð er bæði lýsandi fyrir afstöðu þeirra og hlutlaust um hvort sambandið er Evrópu til góðs eða ills. Kannski mætti líka kalla þá ameríkusinna því viðleitni þeirra stefnir að ýmsu leyti í þá átt að láta Evrópu líkjast Bandaríkjunum meira en hún hefur hingað til gert.

En hvaða orð sem menn kjósa að nota um þetta þá er ljóst að meiri hluti írskra kjósenda valdi að Evrópa yrði áfram Evrópa en breyttist ekki í bandaríki.

Er eitthvert vit að grunnskólabörn stundi fjarnám í áföngum framhaldsskóla?

Laugardagur, 7. júní 2008

Undanfarin ár hefur það færst í vöxt að nemendur í efstu bekkjum grunnskóla taki framhaldsskólaáfanga, einkum í ensku eða stærðfræði, samhliða grunnskólanáminu.

Ef nemandi sem klárar til dæmis ensku 103 samhliða námi í tíunda bekk innritast í framhaldsskóla, sem starfar eftir áfangkerfi, getur hann tekið ensku 203 á fyrstu önn og verið hálfu ári á undan flestum jafnöldrum sínum í faginu.

Fljótt á litið virðist trúlegt að þessi „samruni“ skólastiganna sé framför. En hér er ef til vil ekki allt sem sýnist. Flestir grunnskólanemar sem taka framhaldsskólaáfanga njóta lítillar kennslu. Yfirleitt eru þeir í fjarnámi þar sem handleiðsla er miklu minni en þegar nemandi er með framhaldsskólakennara í 240 mínútur í viku hverri eins og tíðkast þegar um er að ræða venjulega kennslu í þriggja eininga áfanga.

Í síðustu viku gerði ég lauslega könnun á gengi nemenda við Fjölbrautaskóla Vesturlands sem höfðu farið á undan í ensku eða stærðfræði. Ég einskorðaði mig við árganginn sem er fæddur 1991 en sá árgangur lauk grunnskóla vorið 2007 og hefur nú klárað einn vetur í framhaldsskóla. Um var að ræða á annan tug krakka sem flestir höfðu tekið framhaldsskólaáfanga í ensku í fjarnámi samhliða námi í 10. bekk. Fáeinir höfðu tekið stærðfræðiáfanga og einn hafði farið á undan í báðum þessum greinum.

Ég skoðaði einkunnir frá í vetur í greinunum sem þessir krakkar voru á undan í. Flestir höfðu tekið tvo áfanga, ýmist númer 203 og 303 eða númer 303 og 403 eftir því hvort þeir höfðu bara klárað 103 eða bæði 103 og 203 meðan þeir voru enn í grunnskóla. Ég skoðaði líka grunnskólaeinkunnir sömu krakka.

Ég hafði óttast að útkoman væri ekkert frábær. En hún var mun verri en ég hafði gert mér í hugarlund. Þessir nemendur höfðu yfirleitt staðið sig vel í viðkomandi námsgrein í grunnskóla (eða að minnsta kosti fengið þokkalegar einkunnir). En flestum þeirra vegnaði hreint ekkert vel þegar kom í framhaldsskóla.

Fjórði hluti hópsins hafði náð 9 eða hærri einkunn í faginu eftir að hann kom í framhaldsskóla. Þessi fjórðungur skar sig mjög mikið úr. Hinir þrír fjórðu voru með einkunnir í meðallagi og þar fyrir neðan (flestir með 6 eða 7 og sumir með 4 eða 5).

Í ensku 303 var meðaleinkunn þeirra sem höfðu farið á undan neðan við meðaleinkunn allra nemenda í ensku 303. Í öðrum áföngum (ensku 203 og 403, stærðfræði 203, 303 og 403) voru of fáir úr þessum hópi til að meðaltöl væru neitt að marka – en meðaltal allra einkunna hjá nemendum sem voru á undan í þessum fögum var nálægt því að vera það sama og hjá öllum sem tóku áfangana.

Niðurstaða þessarar lauslegu og lítt vísindalegu könnunar bendir til þess að flestir sem fara á undan jafnöldrum sínum með þeim hætti sem hér hefur verið lýst glati þeirri stöðu að vera með þeim bestu í faginu og lendi í miðjum hóp eða þar fyrir neðan. Undantekningarnar frá þessu virðast vera nemendur sem skera sig mjög mikið úr í grunnskóla. Venjulegir krakkar sem eru sæmilega klárir og fá einkunnir á bilinu 8 til 9 á grunnskólaprófum virðast tapa á að flýta sér.

Ég geri mér auðvitað ljóst að þau gögn sem ég hef skoðað um fáeina nemendur úr einum árgangi duga ekki til að sanna mikið. En þau ættu samt að gefa foreldrum og kennurum grunnskólabarna ástæðu til að hugsa sig um tvisvar áður en þeir hvetja barn til að fara á undan í jafnöldrum sínum í ensku eða stærðfræði með því að stunda fjarnám í þessum greinum samhliða grunnskólanámi.