Enn um hvernig peningar spilla skólastarfi
Sunnudagur, 25. maí 2008Eins og ég skýrði frá í síðasta pistli leyfist framhaldsskólum að innheimta gjald af nemendum fyrir fjarkennslu og kennslu á sumrin. Sömuleiðis er heimilt að innheimta kennslugjald af nemendum í öldungadeildum eða kvöldskóla en ekki fyrir venjulega kennslu sem fram fer á hefðbundnum skólatíma.
Um hefðbundna kennslu, sem skóli fær ekki annað greitt fyrir en framlag frá ríkinu gilda ýmsar reglur sem sumar eru í lögum, sumar í reglugerðum og námskrám og sumar í kjarasamningum kennara. Fjöldi kennslustunda í viku og fjöldi kennsludaga á ári eru í föstum skorðum og menntamálaráðuneyti fylgist með að nemendur fái alla þá kennslu sem þeim ber. Um kennsluna sem skólarnir mega láta nemendur greiða fyrir gilda hins vegar engar reglur að því er virðist.
Í sumarskóla má til dæmis kenna þriggja eininga áfanga á þrem til fjórum vikum og hafa kennslustundir færri en þegar sami áfangi er kenndur á veturna. Fjarkennsluönnin má líka vera styttri en venjuleg önn og þegar fjarkennsla er annars vegar gilda engar reglur um hvað kennari á að sinna nemendum mikið. Samt borgar ríkið skólunum fyrir sumarkennslu og fjarkennslu og það sem skólarnir rukka nemendur um er hrein viðbót. Algengt er að nemandi greiði 6.000 krónur fyrir 3ja eininga áfanga í fjarnámi og í sumarskóla FB borgar nemandi að mér skilst 18.600 krónur fyrir 3ja eininga áfanga.
Staðan er samsagt í stuttu máli þannig að þegar um er að ræða hefðbundna kennslu gerir eigandi framhaldsskólanna, ríkið, kröfur um að nemendum sé sinnt og þeim veitt dýr þjónusta en bannar skólunum jafnframt að hafa aðrar tekjur af kennslunni en peningana sem ríkið greiðir fyrir þá nemendur sem gangast undir próf (eða annað fullnægjandi námsmat). En þegar um er að ræða aðra kennslu (fjarnám, sumarskóla) gilda engar reglur um þjónustu við nemendur og að því virðist ekki heldur um gjaldtöku af þeim. Þarna hafa skólarnir því bæði tækifæri til að draga úr kostnaði við kennsluna og til að afla viðbótartekna sem til dæmis má nota til að hækka laun eða greiða niður halla á hefðbundnu kennslunni.
Í mínum augum er undarlegt að ríkið greiði skólum fullt verð fyrir kennslu sem þeir rukka nemendur líka fyrir. Mér þykir líka skrýtið að ríkið skuli greiða fyrir kennslu án þess að skilgreint sé hvaða leiðsögn og aðstoð nemendur eiga að fá. Í sumum tilvikum sýnist mér að nemendur í fjarnámi séu sviknir um eðlilega leiðsögn. Mér þykir til dæmis ótrúlegt að hægt sé að veita fullgilda kennslu gegnum eintóm tölvusamskipti þegar um er að ræða fög sem eru að hluta verkleg eins og efnafræði eða gera ráð fyrir munnlegri þjálfun eins og tungumál. Fjarnám í íþróttum get ég varla ímyndað mér að sé neitt annað en skrípaleikur.
Fjarkennsla selst samt vel því nemendum kvarta yfirleitt ekki þótt einhverju sem ætti með réttu að þjálfa þá í sé sleppt, a.m.k. ekki ef þeir geta treyst á að ekki verði prófað úr því. Raunar virðist hluti af sölumennskunni sem þróast hefur til hliðar við hefðbundið skólastarf ganga út á það að nemandi borgi fyrir kennsluna og fái í staðinn afslátt af námskröfum.
Eins og nú er í pottinn búið geta skólar grætt peninga á að þjóna skammtímahagsmunum nemenda – laða þá í nám þar sem þeir geta fengið einingar með lítill fyrirhöfn. Auðvitað er þetta andstætt þeim langtímahagsmunum nemenda og samfélagsins alls að skólarnir veiti trausta þjálfun og nesti menn vel fyrir lífið.
Það er að mínu viti eðlilegt að 18 eininga nám sé full vinna í eina önn og ekkert of mikið að hver 3ja eininga áfangi sé svo sem eins og sjötti partur af fullri vinnu. En samhliða sölumennsku með framhaldsskólaeiningar hafa, að mér virðist, þróast ný viðmið. Nemendur fara fram á að hægt sé að stunda fullt nám með fullri vinnu. Á frjálsum markaði hefur „kúnninn“ rétt fyrir sér í þeim skilningi að þeir sem ekki verða við kröfum viðskiptavina eru einfaldlega úr leik. Ef nemendur heimta að geta klárað 18 einingar á önn meðfram fullri vinnu hljóta seljendur sem bjóða „gæðanám á góðu verði“ þá ekki að koma til móts við þær kröfur?