Færslur maímánaðar 2008

Enn um hvernig peningar spilla skólastarfi

Sunnudagur, 25. maí 2008

Eins og ég skýrði frá í síðasta pistli leyfist framhaldsskólum að innheimta gjald af nemendum fyrir fjarkennslu og kennslu á sumrin. Sömuleiðis er heimilt að innheimta kennslugjald af nemendum í öldungadeildum eða kvöldskóla en ekki fyrir venjulega kennslu sem fram fer á hefðbundnum skólatíma.

Um hefðbundna kennslu, sem skóli fær ekki annað greitt fyrir en framlag frá ríkinu gilda ýmsar reglur sem sumar eru í lögum, sumar í reglugerðum og námskrám og sumar í kjarasamningum kennara. Fjöldi kennslustunda í viku og fjöldi kennsludaga á ári eru í föstum skorðum og menntamálaráðuneyti fylgist með að nemendur fái alla þá kennslu sem þeim ber. Um kennsluna sem skólarnir mega láta nemendur greiða fyrir gilda hins vegar engar reglur að því er virðist.

Í sumarskóla má til dæmis kenna þriggja eininga áfanga á þrem til fjórum vikum og hafa kennslustundir færri en þegar sami áfangi er kenndur á veturna. Fjarkennsluönnin má líka vera styttri en venjuleg önn og þegar fjarkennsla er annars vegar gilda engar reglur um hvað kennari á að sinna nemendum mikið. Samt borgar ríkið skólunum fyrir sumarkennslu og fjarkennslu og það sem skólarnir rukka nemendur um er hrein viðbót. Algengt er að nemandi greiði 6.000 krónur fyrir 3ja eininga áfanga í fjarnámi og í sumarskóla FB borgar nemandi að mér skilst 18.600 krónur fyrir 3ja eininga áfanga.

Staðan er samsagt í stuttu máli þannig að þegar um er að ræða hefðbundna kennslu gerir eigandi framhaldsskólanna, ríkið, kröfur um að nemendum sé sinnt og þeim veitt dýr þjónusta en bannar skólunum jafnframt að hafa aðrar tekjur af kennslunni en peningana sem ríkið greiðir fyrir þá nemendur sem gangast undir próf (eða annað fullnægjandi námsmat). En þegar um er að ræða aðra kennslu (fjarnám, sumarskóla) gilda engar reglur um þjónustu við nemendur og að því virðist ekki heldur um gjaldtöku af þeim. Þarna hafa skólarnir því bæði tækifæri til að draga úr kostnaði við kennsluna og til að afla viðbótartekna sem til dæmis má nota til að hækka laun eða greiða niður halla á hefðbundnu kennslunni.

Í mínum augum er undarlegt að ríkið greiði skólum fullt verð fyrir kennslu sem þeir rukka nemendur líka fyrir. Mér þykir líka skrýtið að ríkið skuli greiða fyrir kennslu án þess að skilgreint sé hvaða leiðsögn og aðstoð nemendur eiga að fá. Í sumum tilvikum sýnist mér að nemendur í fjarnámi séu sviknir um eðlilega leiðsögn. Mér þykir til dæmis ótrúlegt að hægt sé að veita fullgilda kennslu gegnum eintóm tölvusamskipti þegar um er að ræða fög sem eru að hluta verkleg eins og efnafræði eða gera ráð fyrir munnlegri þjálfun eins og tungumál. Fjarnám í íþróttum get ég varla ímyndað mér að sé neitt annað en skrípaleikur.

Fjarkennsla selst samt vel því nemendum kvarta yfirleitt ekki þótt einhverju sem ætti með réttu að þjálfa þá í sé sleppt, a.m.k. ekki ef þeir geta treyst á að ekki verði prófað úr því. Raunar virðist hluti af sölumennskunni sem þróast hefur til hliðar við hefðbundið skólastarf ganga út á það að nemandi borgi fyrir kennsluna og fái í staðinn afslátt af námskröfum.

Eins og nú er í pottinn búið geta skólar grætt peninga á að þjóna skammtímahagsmunum nemenda – laða þá í nám þar sem þeir geta fengið einingar með lítill fyrirhöfn. Auðvitað er þetta andstætt þeim langtímahagsmunum nemenda og samfélagsins alls að skólarnir veiti trausta þjálfun og nesti menn vel fyrir lífið.

Það er að mínu viti eðlilegt að 18 eininga nám sé full vinna í eina önn og ekkert of mikið að hver 3ja eininga áfangi sé svo sem eins og sjötti partur af fullri vinnu. En samhliða sölumennsku með framhaldsskólaeiningar hafa, að mér virðist, þróast ný viðmið. Nemendur fara fram á að hægt sé að stunda fullt nám með fullri vinnu. Á frjálsum markaði hefur „kúnninn“ rétt fyrir sér í þeim skilningi að þeir sem ekki verða við kröfum viðskiptavina eru einfaldlega úr leik. Ef nemendur heimta að geta klárað 18 einingar á önn meðfram fullri vinnu hljóta seljendur sem bjóða „gæðanám á góðu verði“ þá ekki að koma til móts við þær kröfur?

Peningaplokk í framhaldsskólum

Föstudagur, 23. maí 2008

Nú er verið að afgreiða ný lög um framhaldsskóla á Alþingi og hvað sem líður mótmælum Félags framhaldsskólakennara held ég að þessi nýju lög verði talsvert betri en þau sem nú gilda.

Að flestu leyti auka nýju lögin, sem væntanlega ganga í gildi á næstunni, möguleika skóla til að þróast og mæta nýjum þörfum. Um eitt efni er sjálfræði skólanna þó skert. Þeir munu hafa minni og þrengri heimildir til að leggja gjöld á nemendur. Til dæmis verður bannað að rukka iðnnema um efnisgjald eins og nú tíðkast. Kannski eru þetta viðbrögð löggjafans við vaxandi peningaplokki í framhaldsskólum þar sem nemendur eru látnir borga miklu meira en lögbundin innritunargjöld sem eru 4.250 krónur á önn. Sem dæmi má nefna að aðalnámskrá, sem fylgir núgildandi lögum, skilgreinir rétt nemenda til að endurtaka próf ef fall í einu prófi á lokaönn kemur í veg fyrir útskrift. Ætla mætti að þetta sé meðal þess sem nemendur eiga rétt á og þurfa ekki að borga sérstaklega fyrir. En samt rukka sumir framhaldsskólar nemanda um milli 10 og 20 þúsund krónur fyrir að þreyta endurtektarpróf.

Fleiri dæmi mætti tína til um peningaplokk sem passar ekki alveg við þá stefnu að menntun í ríkisreknum skólum eigi að vera ókeypis. (Ekki svo sem eins og þessi stefna sé neitt hafin yfir gagnrýni. Í nágrannalöndum okkar er kennsla í framhaldsskólum langt frá því að vera ókeypis fyrir alla. Í Noregi er hún til dæmis aðeins greidd að fullu úr opinberum sjóðum fyrir nemendur sem eru á „framhaldsskólaaldri“ – fullorðnir nemendur þurfa sjálfir að borga.)

En þrátt fyrir peningaplokkið þurfa nemendur að jafnaði ekki að borga fyrir venjulega kennslu og nýju lögin binda fastmælum að ríkisskólum sé óheimilt að rukka þá fyrir hana. Þau heimila hins vegar (í 45. grein) að áfram verði tekið gjald fyrir fjarkennslu (og líka fyrir kennslu á sumrin) eins og nú er gert í allmiklum mæli.

Það mun sem sagt heimilt að láta nemendur borga fyrir sumar gerðir af kennslu en ekki aðrar. Að mínu viti er líklegt að þetta hafi ýmis undarleg og jafnvel óæskileg áhrif á skólahald.

Ef ríkið borgar framhaldsskóla 15 þúsund fyrir hverja einingu sem nemandi klárar og skólinn rukkar nemanda að auki um 1500 krónur fyrir hverja einingu sem hann tekur í fjarnámi þá fær skólinn 45.000 krónur fyrir að kenna einum nemanda þriggja eining áfanga með hefðbundinni kennslu og 49.500 krónur fyrir hvern nemanda sem tekur sama áfanga í fjarnámi. Það ætti að öllu jöfnu að vera heldur ódýrara fyrir skólann að hafa nemanda í fjarnámi en að bjóða honum venjulega kennslu (að minnsta kosti ef slíkir kennsluhættir auka ekki að ráði líkurnar á að nemandinn hætti á miðri önn, því fyrir slóða sem það gerir borgar ríkið skólanum ekki eina einustu krónu). Með fjarkennslu sparast a.m.k. kostnaður vegna húsnæðis og ræstinga.

Getur verið að sú regla að banna skóla að rukka fyrir aðgang að venjulegri kennslustund en leyfa honum að taka kennslugjald af nemendum sem stunda fjarnám verði til þess að skólar reyni að draga nemendur úr venjulegum kennslustundum í fjarnám til að græða peninga? Ég sé ekki betur en þetta gerist þegar í nokkrum mæli. Í sumum tilvikum gerir þetta kannski lítið til en það er samt dálítið öfugsnúið að opinberum stofnunum sé umbunað fjárhagslega fyrir að segja nemendum að sitja heima við tölvuna frekar en að hitta kennarann sinn nokkrum sinnum í hverri viku. Ætti þetta ekki frekar að vera öfugt þannig að skóli fái umbun fyrir að láta kennarana sinna nemendum meira og hitta þá oftar?

Ég sagði að nýju lögin yrðu betri en þau gömlu. En ég held samt að þau séu ekki gallalaus og að ef til vill séu reglurnar sem þau setja um gjaldtöku af nemendum hálfgerðir vandræðagripir.

Á þessu máli er margar hliðar og sumar nokkuð furðulegar. Um það reyni ég að segja meira í næstu færslu.

Flóttamenn á Akranes

Mánudagur, 19. maí 2008

Eitthvað er rætt um það í fjölmiðlum að sumt fólk hér á Akranesi sé því mótfallið að hingað komi landflótta Palestínumenn. Hér á Skaganum er alls konar fólk með alls konar skoðanir. Kannski eru sumir eitthvað á móti útlendum flóttamönnum. En ég held, eins og flestir sem ég hef talað við, að okkur sé sæmd að því að geta hjálpað og við eigum að vera stolt af því að vera treyst til að taka vel á móti fólki.

Best væri auðvitað að geta boðið flóttamenn velkomna án þess að eiga neina skuld að gjalda. En við erum ekki alveg svo vel stödd því íslenska ríkið studdi á sínum tíma innrásina í Írak. Hún hefur nú leitt til þess að fjöldi fólk á hvergi heima. Það væri heldur snautlegt ef þetta sama ríki gerði ekkert til að hjálpa þeim sem hafa misst heimili sín og fyrirvinnur vegna hernaðarins.

Grýlusögur um vandamál vegna innflytjenda í öðrum Evrópulöndum eiga ekki að hræða okkur. Í flestum þessum löndum er atvinnuleysi og lítið fyrir innflytjendur að gera. Hópur fólks sem ekki fær nein verðug verkefni er líklegur til vandræða hvaðan sem hann er ættaður.

Hér á Vesturlandi var 1% atvinnuleysi í apríl á þessu ári og 1,1% á sama tíma í fyrra. Það hefur verið nær sífelld mannekla árum saman. Fólk sem kemur til landsins fær því að öllum líkindum tækifæri til að vinna fyrir sér og það er lítil hætta á að þeir sem taka fullan þátt í atvinnulífi verði hópum saman að „óvinum“ samfélagsins.

Ísland er ekki eins og önnur Evrópuríki. Það er á ýmsan hátt líkara landnemaþjóðfélögum í Norður Ameríku og kannski líka Eyálfu. Þar samlagast fólk úr öllum álfum heims. Ætli landnemar hér verði ekki eins og innflytjendur í Norður-Ameríku sem bjarga sér sjálfir á vinnumarkaði frekar en eins og atvinnulausu nýbúarnir í Evrópu?

Persepolis, Marjane Satrapi og amma hennar

Mánudagur, 12. maí 2008

Þegar Richard Corliss, kvikmyndagagnrýnandi Time magazine, valdi tíu bestu myndir síðasta árs setti hann teiknimyndina Persepolis í 6. sæti. Það er ekki oft sem evrópskar teiknimyndir hljóta slíka upphefð vestanhafs og líklega er enn sjaldgæfara að sögur frá Íran nái þvílíkri athygli þar um slóðir. Kannski er enn merkilegra að þessi sjálfsæfisaga stúlku frá Íran skuli vera ein þriggja teiknimynda sem til greina komu þegar Óskarsverðlaunin voru veitt fyrr á þessu ári.

Höfundur sögunnar, Marjane Satrapi (sem heitir víst مرجان ساتراپی á persnesku), er fædd árið 1969. Hún ólst upp í Teheran. Nokkrir af körlunum í fjölskyldu hennar tilheyrðu innsta hring íranskra kommúnista og sósíalista fyrir byltingu íslamista árið 1979. Sumir þeirra voru í fangelsi fyrir byltinguna þegar Mohammad Reza Pahlavi keisari stjórnaði landinu. Sumir voru fangelsaðir eða teknir af lífi af klerkastjórninni eftir að hún komst til valda.

Kvikmyndin er byggð á teiknimyndabókum sem Marjane Satrapi gerði eftir að hún flutti til Frakklands. Bækurnar segja sögu hennar frá því hún var barn í Teheran. Ég hef ekki séð þessar bækur en ég horfði á myndina í gærkvöldi og þótt hún ansi merkileg – enda þarf mynd með þennan uppruna líkast til að vera býsna sérstök til að ná heimsathygli.

Í myndinni er bylting íslamskra fundametnalista og það sem á eftir kom séð með augum barnsins. Saga fjölskyldunnar er sögð fram á 10. áratug síðustu aldar. Aðalpersónan gekk í franskan skóla og 14 ára gömul var hún send til Vínarborgar að því er virðist bæði til að hún menntaðist á evrópska vísu og til að forða henni frá ofsóknum af hálfu stjórnvalda. Hún endaði á götunni í Vín eftir að hafa kynnst nokkrum misgæfulegum fulltrúum vestrænnar menningar, fór aftur til Teheran, giftist, skildi við karlinn, lærði myndlist til meistaraprófs við háskóla í Teheran og flúði svo til Frakklands.

Fjölskylda Marjane Satrapi virðist hafa verið þokkalega efnuð og samfélagið sem hún ólst upp í nokkuð líkt heimi menntaðra borgara á Vesturlöndum. Eftir byltinguna var að vísu bannað að drekka vín, vestræn tónlist fékkst aðeins á svartamarkaði, menn voru settir í steininn eða drepnir fyrir að andmæla klerkunum og konur þurftu að ganga með blæjur. Stríðið við Írak kemur fram í bakgrunni en saga Marjane Satrapi er ekki fyrst og fremst saga um byltingar og stríð. Hún er fyrst og fremst saga um stúlku sem elst upp á umbrotatímum og hefði nokkrum sinnum getað farið í hundana en gerði það ekki vegna þess að hún átti góða ömmu sem var henni bæði stoð og fyrirmynd.

Það sem gerir myndina sérstaka og grípandi er ekki síst amman – kona sem lætur ekki hræða sig, en heldur alltaf áfram að trúa á jafnrétti og frelsi. En það er líka merkilegt að sjá hvernig Marjane Satrapi rifjar upp byltinguna og upphaf klerkaveldisins í Íran og kannski hjálpar myndin okkur ofurlítið til að skilja þá atburði. Viðbrögð íranskra stjórnvalda benda til að þarna sé eitthvað sagt sem máli skiptir, a.m.k. mótmæltu þau við franska sendiráðið í Teheran þegar myndin var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes, þar sem hún vann Prix du Jury árið 2007. Með þrýstingi á Tælensk stjórnvöld tókst klerkunum í Teheran að koma í veg fyrir að myndin væri sýnd á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Bangkok.

Það er kannski ekkert sérstakt undrunarefni að erkiklerkar séu svolítið hræddir við sögu um sjálfstæða konu með bein í nefinu eins og ömmu Marjane Satrapi. Mér finnst ekkert ótrúlegt að hún verði fólki fyrirmynd löngu eftir að klerkaveldið í Íran er farið veg allrar veraldar.

Aukinn ójöfnuður?

Sunnudagur, 4. maí 2008

Sem heimspekingur hef ég tilhneigingu til að vera ósammála síðasta ræðumanni. Á fyrsta maí sögðu margir að ójöfnuður hér á landi væri mikill og vaxandi. Þetta er kannski alltaf sagt á fyrsta maí og er ef til vill óaðskiljanlegur hluti af helgihaldi þess dags. En er ójöfnuður í raun og veru mikill og vaxandi?

Við þessu er ekkert eitt svar því það er ekki til neinn einn réttur mælikvarði á ójöfnuð, enda geta menn verið ójafnir á marga vegu. Þeir geta haft mismiklar tekjur, misjöfn tækifæri til valda og áhrifa, búið við mismikið öryggi, notið mismikilar virðingar. Langskólagenginn embættismaður hefur kannski minni tekjur en nýríkur verslunarmaður sem flytur inn vinsælan tískuvarning – en á móti koma ef til vill tryggari afkoma, meiri völd og virðing. Hvernig á að ákvarða hvor býr við betri kjör þegar á allt er litið?

Sé aðeins horft á tekjudreifingu, eins og hún er mæld með fimmtungastuðli og Gini-stuðli, er ójöfnuður á Íslandi svipaður og hann er að meðaltali á Norðurlöndum og mun minni en hann er að meðaltali í Evrópusambandslöndum.

Fimmtungastuðullinn er líklega einfaldasti og skiljanlegasti mælikvarðinn á ójöfnuð í tekjum. Hann tilgreinir einfaldlega hvað tekjuhæsti fimmtungur þjóðar hefur margfalt hærri meðaltekjur en tekjulægsti fimmtungurinn. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar var fimmtungatuðullinn hér á landi 3,7 árið 2005 en í Evrópusambandinu var hann að meðaltali 4,8 á því ári.

Gini-stuðullinn er talsvert flóknari mælikvarði. Hann er því hærri því meiri sem ójöfnuðurinn er. Árið 2005 var hann 26 á Íslandi (sem er sama og meðaltal fyrir Norðurlöndin) en 30 í löndum Evrópusambandsins, eftir því sem segir á vef Hagstofunnar.

Vera má að ójöfnuður hér á landi sé mikill en hann er samt minni en í flestum nágrannalöndum okkar (eða var það a.m.k. árið 2005). En ætli hann fari vaxandi? Er meiri munur á kjörum lágtekjumanna og hátekjumanna núna en fyrir 20 árum, 40 árum eða 60 árum? Ég held að enginn viti þetta í raun.

Hvernig á að bera muninn á kjörum bankastjóra og útlendings í verkamannavinnu árið 2008 saman við mismuninn á kjörum forstjóra SÍS og vinnumanns á sveitabæ árið 1968, eða fiskverkakonu og stórútgerðarmanns árið 1948? Að horfa bara á mánaðarlaunin gefur tæpast rétta mynd. Það þarf líka að skoða kosti fólks á að koma börnum sínum til mennta, hvað verður um það ef það veikist eða slasast, hvaða möguleika það hefur á að bæta kjör sín. Engin ein tala á borð við fimmtungastuðul eða Gini-stuðul mun segja allan sannleikann um kjaramun.

Þeir sem vilja halda því fram að ójöfnuður hafi aukist geta bent á að Gini stuðull hefur farið hækkandi undanfarna áratugi. Þeir sem efast benda á að Gini-stuðullinn getur hækkað milli ára þótt meðaltal ævitekna haldist óbreytt. Hækkun hans undanfarin ár má að nokkru skýra með öðru en auknum mun á ævitekjum einstaklinga. Hér munar mest um aukna skólagöngu.

Ef skólaganga lengist, án þess að ævitekjur breytist, þá hækkar Gini-stuðullinn.

Hugsum okkur til dæmis að árið 2000 hafi landsmenn verið í skóla til 21 árs aldurs en árið 2010 séu þeir í skóla til 22 ára aldurs. Miðað við að um 4000 manns séu í hverjum árgangi þýðir þetta að 2010 verði um 4000 fleiri með mjög lágar tekjur (því menn hafa að jafnaði lágar tekjur meðan þeir eru í skóla). Ef ævitekjur breytast ekki við lengingu skólagöngu þá eru tekjur þeirra sem eru búnir í skóla hærri en áður var. Ef menn nota Gini-stuðul mælist þetta sem aukinn ójöfnuður og svo sem hægt að slá um sig með þeim tölum á fyrsta maí. Að menn lifi ögn lengur á námslánum til að bæta kjör sín síðar á ævinni þýðir samt ekki að óréttlæti, mismunun og stéttaskipting fari vaxandi, öðru nær.

Um slæma hegðun í skólum. Er hún kennurunum að kenna?

Fimmtudagur, 1. maí 2008

Dagana 13. og 14. apríl skrifaði ég nokkrar línur hér um agamál í skólum. Eftir þetta fékk ég slatta af tölvupósti frá fólki sem ýmist tók undir sjónarmið mín eða bætti við sínum eigin vangaveltum.

Ég hef verið að hugsa um þetta við og við síðan. Eitt af því sem er erfitt að átta sig á er hvað umræðan um þetta mál fer lítið inn á opinberan vettvang. Margir virðast ræða þau við kunningja en það fer minna fyrir faglegri eða fræðilegri umræðu um agastjórnun í skólum og skyldur nemenda til að koma kurteislega fram og hlýða skólareglum.

Mér dettur í hug að ein af skýringunum á þessu kunni að vera að í umræðum um skólamál eru ýmsar forsendur nánast eins og fyrirfram gefnar án þess þær séu beinlínis orðaðar. Ein af þeim er á þá leið að vandamál á borð við ofbeldi eða andfélagslega hegðun barna sé alltaf vegna þess að fullorðna fólkið hafi gert eitthvað rangt. Það er eins og gert sé ráð fyrir að bernskan eigi sér engar aðrar skuggahliðar en þær sem fullorðna fólkið, kerfið, skólinn eða samfélagið búa til.

Það er undarlegt að fólki skuli trúa því að svo grimm skepna sem maðurinn er skuli fæðast alsaklaus og vera laus við vondar hneigðir þar til aðrir og eldri menn spilla henni. Þessi trú er eitthvað í ætt við „syndafallssöguna“ sem Rousseau fékk fjölda fólks til að trúa á 18. öldinni, að maðurinn sé góður þar til honum er spillt af illu samfélagi. Margir hafa löngun til að trúa svona goðsögn og sú löngun ræður stundum meiru um skoðanir fólks en nokkur reynsla getur gert.

Ef menn trúa því börn hagi sér alltaf vel og séu góð hvert við annað ef þeim eru búnar „réttar“ aðstæður er stutt í þá ályktun að agavandmál, einelti eða slæm hegðun í bekk sé vegna þess að kennarinn standi sig ekki í starfi. Kennari sem verður fyrir því að nemendur hans brjóta skólareglur eða spilla vinnufriði lendir þannig bæði í stöðu fórnarlambs og geranda, þar sem litið er svo á að hegðunin sem plagar hann sé, þegar öllu er á botninn hvolft, hans eigin sök. (Þetta er hliðstæð staða þeirri sem þolendur kynferðislegs ofbeldis hafa stundum mátt þola þegar goðsagnir eða hugmyndafræði rugla fólk til að halda t.d. að stelpa hafi sjálf kallað yfir sig árás með því að vera í stuttu pilsi, vera ölvuð, vera svona á svipinn, vera á þessum stað, vera einhvern veginn, eða bara vera.)

Þessi goðsögn um sök kennarans á öllum vandræðum í skólastofunni gerir upplýsta umræðu um agamál ef til vill erfiðari en hún þyrfti að vera. Getur hugsast að það þurfi að byrja á að koma því á hreint að krakkar haga sér stundum illa þótt kennarinn þeirra vinni vel og fagmannlega?

Ef nemandi brýtur skólareglur þá er sökin yfirleitt hans en ekki kennarans. Börn bera siðferðilega ábyrgð á eigin hegðun. Ef þau eru svipt þeirri byrði er hætt við að tilveran verði „óbærilega létt“ og krakkahópurinn eiginlega ofurseldur sjálfum sér, svona eins og grislingarnir í Flugnahöfðingjanum (Höfuðpaurnum, Lord of the Flies) eftir William Golding.