Á þessu skólaári hafa allmargir grunnskólakennarar sagt starfi sínu lausu og leitað sér að annarri vinnu. Vafalítið eru fremur lág laun hluti af skýringunni. En þau eru aðeins hluti af henni. Vandi grunnskólanna er, að ég held, ekki bara „atgerfisflótti“ kennara vegna lágra launa. Hann er líka starfsskilyrði sem eru í mörgum tilvikum illþolanleg ef ekki alveg óþolandi. Þessi starfsskilyrði eru að nokkru leyti afsprengi menntastefnu sem gengur ekki upp.
Sem stjórnandi í framhaldsskóla verð ég þess var að margir sem kenna við unglingadeildir gunnskóla vilja gjarna kenna á framhaldsskólastigi. Þeir sem hafa kennt á báðum skólastigum eru að jafnaði ánægðari með vinnuumhverfið í framhaldsskólum. Þetta skýrist varla eingöngu af launamun. Hann er ekki svo mikill. Ætli skýringin sé ekki fremur betri agi og minni samskiptavandamál milli nemenda og kennara á framhaldsskólastiginu.
Undanfarna áratugi hafa talsmenn grunnskólakerfisins gefið alls konar háfleyg fyrirheit um að skólinn annist næstum allt uppeldi barna og leysi vandamál sem hann ræður í rauninni ekkert við. Þetta virðist ætla að enda eins og önnur opinber kerfi sem lofa að gera allt fyrir alla. Þau krepera á sjálfum sér og gera á endanum ekki neitt fyrir neinn.
Í framhaldsskólum eiga stjórnendur þess kost að vísa nemendum úr skóla fyrir skróp eða endurtekin brot á skólareglum. Ég er nokkuð viss um að í mínum skóla (Fjölbrautaskóla Vesturlands) er meginástæða þess að mjög sjaldan þarf að beita slíkum úrræðum sú að allir vita að þeim mun beitt ef þörf krefur. Ég geri ráð fyrir að sama eigi við í öðrum framhaldsskólum.
Ef nemandi í grunnskóla skrópar eða hagar sér illa er hægt að veita honum tiltal, ræða við foreldra hans, jafnvel vísa honum úr skóla í þrjá daga eða svo. Það er líka hægt að kippa honum út úr bekk og láta hann fá kennslu annars staðar ef skólinn hefur fé til að greiða fyrir hana. En um viðurlög sem bíta og óþekktarormar hafa einhverja ástæðu til að forðast er ekki að ræða. Grunnskólinn hefur lofað að bera nemendur á höndum sér hvað sem þeir gera og fyrir vikið gera sumir þeirra nokkurn veginn hvað sem er. Agaleysið elur upp rudda og óhemjur sem koma ekki aðeins illa fram við fullorðið fólk heldur líka skólasystkini sín. Það er illa komið þegar krakkar í yngri bekkjum, eða þeir sem eru eitthvað litlir í sér, eru hræddir í skólanum.
Ef skóli getur ekki komið í veg fyrir ókurteisi í garð starfsfólks, truflun á vinnufriði eða aðra slæma hegðun nemenda þá held ég að sé næsta óhjákvæmilegt að kennarar missi við og við stjórn á skapi sínu og hagi sér fyrir vikið á einhvern þann veg sem grefur undan virðingu fyrir skólanum. Jafnvel bestu menn hafa sín þolmörk. Þannig vindur agaleysið upp á sig og þegar verst lætur verða heilu bekkirnir að einhvers konar vígvelli fremur en vinnustað þótt vonandi heyri til undantekninga að ástandið gangi alveg svo langt.
Hvað er þá til ráða? Varla er hægt að reka nemendur úr grunnskóla eins og úr framhaldsskóla?
Ég hugsa að ýmis ráð geti dugað og sennilega dugi að beita fáeinum þeirra og það sjaldan. Kannski ætti einfaldlega að sekta foreldra ef börn skrópa í grunnskóla, láta þá greiða fyrir kennsluna sem ekki var notuð. Kannski á ekki að útskrifa börn eftir 10 ár heldur þegar markmið skólagöngunnar hafa náðst svo það kosti einfaldlega lengingu á skyldunámi ef nemendur vinna ekki eins og fyrir þá er lagt. Kannski ættu þeir sem ekki kunna að haga sér að fá sérstaka kennslu í hegðun sem bættist við venjulegan skóladag. Það má ræða ótal hugmyndir.
Hvaða ráð sem menn vilja nota held ég að fyrsta skrefið sé að viðurkenna að skóli getur ekki verið góður vinnustaður þar sem fólki líður vel og nær árangri nema þar sé þokkalegur agi.