Færslur aprílmánaðar 2008

Hann og hún og he og she – Ofurlítil málfræði

Þriðjudagur, 22. apríl 2008

Fyrst ég gat bloggað um grunnskóla án þess að hafa neitt vit á þeim hlýt ég eins að geta talað um málfræði án þess að kunna neitt í henni.

Í ensku er hvorki hægt að nota fornafnið he um kvenfólk né she um karlfólk. Þetta er öðru vísi í íslensku. Við notum hiklaust kvenkynsorð eins og kempa, hetja, gunga og rola um karlmenn og þar með líka kvenkynsfornöfn eins og hún og .

Það er líka góð og gild íslenska að nefna konur svanna, séra, formenn og forseta og þessum orðum geta fylgt fornöfn í karlkyni eins og hann eða .

Það er ekkert málfræðilega rangt við að segja: „Séra Margrét, sá merkisklerkur, lét sér hvergi bregða þótt sú fræga kempa Magnús á Mosfelli steytti hnefann og var ekki laust við að hetjunni brygði í brún þegar presturinn svaraði heitingum hennar aðeins með góðlátlegu brosi.“

Hér er vísað til konunnar með tveim karlkynsnafnorðum (merkisklerkur og presturinn) og einu karlkynsfornafni () en til karlsins með tveim kvenkynsnafnorðum (kempa og hetja) og tveim kvenkynsfornöfnum ( og hennar).

Getur verið að andstaða gegn því að konur séu kallaðar ráðherrar (forsetar, forstjórar, þingmenn) sé eitt dæmið enn um áhrif enskunnar? Slík áhrif eru að minnsta kosti nærtækasta skýringin á því að sumum finnst að það sé með einhverjum hætti rangt að nota karlkynsorð um konur eða kvenkynsorð um karla.

Enn um agamál í skólum

Mánudagur, 14. apríl 2008

Mikið er talað um kreppu bankanna og fjármálaheimsins. Ég held samt að kreppa grunnskólanna komi miklu verr við fólk, og verst þá sem síst skyldi, nefnilega fólk á aldrinum 6 til 15 ára. Það skiptir börn að jafnaði meira máli hvað þau ganga í góðan skóla en hvort fjölskylda þeirra hefur efni á jeppa og sumarbústað.

Kreppa grunnskólanna lýsir sér í því að of margir hæfir kennarar fara og finna sér aðra vinnu og of víða gengur illa að hafa vinnufrið í kennslustofum og halda nemendum að uppbyggilegum verkefnum.

Vafalaust mundi launahækkun til kennara draga úr þessari kreppu. En hún dugar ekki ein og sér. Meðan skólastjórar hafa engar löglegar leiðir til að koma í veg fyrir slæma hegðun nemenda verður flótti úr kennaraliðinu.

Þar sem ekki er góður agi er of erfitt fyrir kennara að halda virðingu sinni og of mikil hætta á að áreitið sem þeir verða fyrir leiði til þess að þeim líði illa í lok vinnudags eða missi jafnvel stjórn á sér fyrir framan nemendur. Launahækkun dugar ekki til að fólk sætti sig við slíkar aðstæður og þeir sem helst er eftirsjá í úr kennaraliðinu er kannski fólkið sem síst er fáanlegt til að selja sálarró sína og virðingu fyrir hærra kaup.

Til að skólarnir vinni sig út úr „kreppunni“ þarf að mínu viti meira en bara hagstæðari kjarasamning. Skólastjórnendur þurfa að fá ótvíræðar heimildir til að beita ráðum sem duga gegn slæmri hegðun, eða með öðrum orðum til að framfylgja skólareglum. Það er vel hugsanlegt að einhver þessara ráða þurfi að vera svolítið óþægileg fyrir suma. En það er illskárra að stjórnendur megi skakka leikinn en að börn séu algerlega ofurseld hvert öðru.

Fjas um að það sé lítill agi í samfélaginu, að foreldrar ali börn vitlaust upp, heimilishald sé sums staðar ekki nógu gott eða það sé erfitt að vera barn á þessum síðustu og verstu tímum getur svo sem allt verið sannleikanum samkvæmt. En það leysir engan vanda. Það sem skólarnir þurfa eru alvöru úrræði en ekki almennar umræður um ástand samfélagsins. Þær geta haldið áfram í áratugi án þess að breyta neinu.

Agi í skólum

Sunnudagur, 13. apríl 2008

Á þessu skólaári hafa allmargir grunnskólakennarar sagt starfi sínu lausu og leitað sér að annarri vinnu. Vafalítið eru fremur lág laun hluti af skýringunni. En þau eru aðeins hluti af henni. Vandi grunnskólanna er, að ég held, ekki bara „atgerfisflótti“ kennara vegna lágra launa. Hann er líka starfsskilyrði sem eru í mörgum tilvikum illþolanleg ef ekki alveg óþolandi. Þessi starfsskilyrði eru að nokkru leyti afsprengi menntastefnu sem gengur ekki upp.

Sem stjórnandi í framhaldsskóla verð ég þess var að margir sem kenna við unglingadeildir gunnskóla vilja gjarna kenna á framhaldsskólastigi. Þeir sem hafa kennt á báðum skólastigum eru að jafnaði ánægðari með vinnuumhverfið í framhaldsskólum. Þetta skýrist varla eingöngu af launamun. Hann er ekki svo mikill. Ætli skýringin sé ekki fremur betri agi og minni samskiptavandamál milli nemenda og kennara á framhaldsskólastiginu.

Undanfarna áratugi hafa talsmenn grunnskólakerfisins gefið alls konar háfleyg fyrirheit um að skólinn annist næstum allt uppeldi barna og leysi vandamál sem hann ræður í rauninni ekkert við. Þetta virðist ætla að enda eins og önnur opinber kerfi sem lofa að gera allt fyrir alla. Þau krepera á sjálfum sér og gera á endanum ekki neitt fyrir neinn.

Í framhaldsskólum eiga stjórnendur þess kost að vísa nemendum úr skóla fyrir skróp eða endurtekin brot á skólareglum. Ég er nokkuð viss um að í mínum skóla (Fjölbrautaskóla Vesturlands) er meginástæða þess að mjög sjaldan þarf að beita slíkum úrræðum sú að allir vita að þeim mun beitt ef þörf krefur. Ég geri ráð fyrir að sama eigi við í öðrum framhaldsskólum.

Ef nemandi í grunnskóla skrópar eða hagar sér illa er hægt að veita honum tiltal, ræða við foreldra hans, jafnvel vísa honum úr skóla í þrjá daga eða svo. Það er líka hægt að kippa honum út úr bekk og láta hann fá kennslu annars staðar ef skólinn hefur fé til að greiða fyrir hana. En um viðurlög sem bíta og óþekktarormar hafa einhverja ástæðu til að forðast er ekki að ræða. Grunnskólinn hefur lofað að bera nemendur á höndum sér hvað sem þeir gera og fyrir vikið gera sumir þeirra nokkurn veginn hvað sem er. Agaleysið elur upp rudda og óhemjur sem koma ekki aðeins illa fram við fullorðið fólk heldur líka skólasystkini sín. Það er illa komið þegar krakkar í yngri bekkjum, eða þeir sem eru eitthvað litlir í sér, eru hræddir í skólanum.

Ef skóli getur ekki komið í veg fyrir ókurteisi í garð starfsfólks, truflun á vinnufriði eða aðra slæma hegðun nemenda þá held ég að sé næsta óhjákvæmilegt að kennarar missi við og við stjórn á skapi sínu og hagi sér fyrir vikið á einhvern þann veg sem grefur undan virðingu fyrir skólanum. Jafnvel bestu menn hafa sín þolmörk. Þannig vindur agaleysið upp á sig og þegar verst lætur verða heilu bekkirnir að einhvers konar vígvelli fremur en vinnustað þótt vonandi heyri til undantekninga að ástandið gangi alveg svo langt.

Hvað er þá til ráða? Varla er hægt að reka nemendur úr grunnskóla eins og úr framhaldsskóla?

Ég hugsa að ýmis ráð geti dugað og sennilega dugi að beita fáeinum þeirra og það sjaldan. Kannski ætti einfaldlega að sekta foreldra ef börn skrópa í grunnskóla, láta þá greiða fyrir kennsluna sem ekki var notuð. Kannski á ekki að útskrifa börn eftir 10 ár heldur þegar markmið skólagöngunnar hafa náðst svo það kosti einfaldlega lengingu á skyldunámi ef nemendur vinna ekki eins og fyrir þá er lagt. Kannski ættu þeir sem ekki kunna að haga sér að fá sérstaka kennslu í hegðun sem bættist við venjulegan skóladag. Það má ræða ótal hugmyndir.

Hvaða ráð sem menn vilja nota held ég að fyrsta skrefið sé að viðurkenna að skóli getur ekki verið góður vinnustaður þar sem fólki líður vel og nær árangri nema þar sé þokkalegur agi.