Færslur marsmánaðar 2008

Sjálfhverfir fjölmiðlar

Sunnudagur, 30. mars 2008

Ég býst við að í hugum flestra merki orðið frétt frásögn af atburði sem hefur nýlega orðið og skiptir einhverju máli. Ég býst líka við að þeir sem fylgjast með fréttum í fjölmiðlum geri það einkum vegna þess að þeir vilja vita af nýlegum atburðum, að minnsta kosti þeim sem einhverju varða.

Flesta daga hlusta ég sjálfur á fréttir Ríkisútvarpsins, fletti einu eða tveim íslenskum dagblöðum og lít á einhverja fréttavefi. Ég vil síst gera lítið úr mikilvægi þessara fjölmiðla. Án þeirra vissi ég miklu minna hvað er að gerast í kringum mig. En sumt í fréttamennsku og fjölmiðlun nútímans finnst mér samt aðfinnsluvert og aðfinnslur mínar snúast mest um eitt atriði, sem er hvað fréttamennska snýst að miklu leyti um að vekja athygli á sjálfri sér.

Þessi sjálfsupphafning fjölmiðalheimsins birtist í ýmsum myndum. Flestir kannast til dæmis við fólk sem fréttamiðlar nota til þess eins að draga til sín athygli. Það sem Paris Hilton og Britney Spears gera er til dæmis ekki fréttaefni vegna þess að það sé neitt merkilegt eða skipti neinu máli, heldur vegna þess að slúður selst og því meira sem búið er að slúðra um eina manneskju því fleiri vilja framhald af slúðrinu, ekki síst ef það fjallar um stelpur sem missa niður um sig buxurnar hist og her á almannafæri.

Af svipuðu tagi eru fréttir um það sem gæti gerst, eða einhver heldur að gæti gerst. Ríkisútvarpið er ansi duglegt að flytja fréttir af þessu tagi í viðtengingarhætti og skildagatíð. Fyrir stuttu hófst ein frétt þess til dæmis á fullyrðingu um að bændur við Eyjafjörð gætu þurft að bregða búi. Í framhaldinu var svo rætt við einhvern mann, sem ég man ekki hvað heitir, og hann spurður hvort bændurnir væru að fara á hausinn. Hann sagði að mig minnir: „Ég veit það ekki en ég get svo sem ekki útilokað það.“ Er frétt af þessu taki nokkuð annað en dæmi um misheppnaða tilraun fréttamiðils til að vera virðulegur, en leggja samt meiri áherslu á að vekja athygli á sjálfum sér en að koma einhverju efni til skila?

Það vekur athygli þegar eitthvað slæmt er í uppsiglingu. Þess vegna er vænlegra að segja að bændur séu á leið í gjaldþrot en að aðföng þeirra hafi hækkað í verði. Ef ekki finnst neinn sem er alveg að verða gjaldþrota er minnsta kosti hægt að finna einhvern sem ekki treystir sér til að útiloka að gjaldþrot vofi yfir og slá því upp sem fyrirsögn. Fjölmiðill sem reynir að vekja athygli með þessu móti heldur ögn virðulegra yfirbragði en sá sem byrjar fréttirnar á að segja frá því að Paris Hilton og Britney Spears hafi enn einu sinni týnt nærbuxunum sínum. En hann fellur samt í sömu gryfju – að leggja meiri áherslu á að vekja augnabliks athygli á sjálfum sér en að upplýsa fólk um atburði sem einhverju varða.

Lausn á efnahagsvanda

Sunnudagur, 16. mars 2008

Í upphafi er rétt að taka það fram að ég er ekki hagfræðingur. Ég ætla samt að voga mér að segja nokkur orð um hagfræðileg efni. Þeim sem vita betur er að sjálfsögðu velkomið að leiðrétta mig ef ég segi einhverja vitleysu.

Þeir sem tala fyrir því að Íslendingar gangi í Evrópusambandið og taki upp evru láta oft að því liggja að þetta leysi efnahagsvandamál þjóðarinnar. Það er eins og þeir haldi að eftir inngöngu í Sambandið verði hagstjórn með einhverjum hætti vandræðalaus. Hversu trúlegt er þetta?

Efnahagsvandamál Íslendinga eru margvísleg. Einn hluti þeirra er vandamál dreifbýlissvæða þar sem ungu fólki hefur fækkað og tiltölulega lítill hluti íbúanna hefur sérfræðimenntun. Annar hluti þeirra eru náttúrulegar sveiflur í fiskistofnum. Sá þriðji er alþjóðlegar hagsveiflur. Mörg er búmanns raunin og hæpið að neitt eitt meðal vinni á öllu sem kemur illa við budduna hjá fólki.

Sá efnahagsvandi sem hefur verið þrálátastur hér undanfarna áratugi er stundum kallaður þensla. Þetta er fínt orð yfir það þegar eftirspurn er meiri en hagkerfið annar, eða með öðrum orðum þegar landsmenn reyna samtals að kaupa meira en þeir selja. Það má kalla þetta ýmsum nöfnum. Þeim sem líkar þessi kaupgleði illa geta kallað hana græðgi, óráðsíðu eða bruðl. Þeir sem kunna vel við hana geta talað um sókn til aukinna lífsgæða. En hvaða nöfn sem menn velja þessu er engin leið að neita því að þenslan skapar efahagsleg vandamál. Hún ýtir undir verðbólgu, háa vexti og óstöðugleika krónunnar.

Þennan vanda er ekki hægt að leysa með öðru en því að draga úr eftirspurn, til dæmis með því að hægja á stórframkvæmdum eða hvetja almenning til aukins sparnaðar. Það eitt að taka upp gjaldmiðil stærra hagkerfis kemur að vísu í veg fyrir sumar birtingarmyndir vandans, eins og óstöðugt gengi og háa vexti. En vandinn hverfur ekki við það. Í versta falli kemur hann þá fram sem skuldasöfnun umfram greiðslugetu og allir vita að það endar hvergi nema undir hamrinum.

Með þessu er ég ekki að útiloka að aðild að myntbandalagi geti verið til bóta. En hún dugar ekki til þess ein og sér að leysa neitt af þeim vandamálum sem hér hafa verið nefnd.

Evrópusambandstrúboð

Fimmtudagur, 13. mars 2008

Í Morgunblaðinu í dag (á bls. 29) er grein eftir Andrés Pétursson formann Evrópusamtakanna. (Þau samtök eru vel að merkja ekki samtök Evrópubúa heldur félag sem beitir sér fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.)

Í greininni segir Andrés meðal annars: „Á meðan andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu geta ekki bent á raunhæfa langtímalausn á efnahagsvandræðum Íslendinga er ekki hægt að segja annað en að þeir séu á harðahlaupum frá veruleikanum.“

Hann skrifar eins og það sé sjálfsagt og augljóst að efnahagsvandi Íslendinga leysist við inngöngu í Evrópusambandið. En hversu trúlegt er að vandamál, sem eru að hluta afleiðing af alþjóðlegri niðursveiflu í efnahagslífi og að hluta afleiðing af því hve margir Íslendingar eyða um efni fram, leysist við inngöngu í Sambandið?

Hann skrifar líka eins og efnahagsvandi Íslendinga sé verri eða alvarlegri en hliðstæð vandamál í ríkjum Evrópusambandsins. En þetta er ekki afskaplega sennilegt þegar litið er til þess að Íslendingar búa að meðaltali við talsvert betri kjör, tryggari afkomu og minna atvinnuleysi en flestar þjóðir í Sambandinu. Þegar horft er til langs tíma (til dæmis síðustu 20 ára) er hagvöxtur hér á landi líka meiri en í flestum Sambandsríkjunum.

Ætli sannleikurinn sé ekki sá að ríki Evrópusambandsins glíma við hagstjórnarvanda rétt eins og ríkin utan þess og upptöku evru fylgja ekki bara kostir heldur líka gallar. Ef eitthvað er þá virðast lönd utan Sambandsins, eins og Noregur, Sviss og Ísland, búa við betri hag en þau lönd innan Sambandsins sem líkjast þeim helst. Þjóðir innan sambandsins sem ekki nota evru (t.d. Danmörk, Svíþjóð og England) virðast líka hafa það alveg eins gott og nágrannalönd (t.d. Þýskaland, Finnland og Írland) sem nota evruna fyrir gjaldmiðil.

Þeir sem halda að öll okkar vandamál leysist við það að ganga í Sambandið og taka upp evru virðast mjög uppteknir af tímabundnum vandamálum í hagstjórn hér á landi en horfa fram hjá vandamálum á evrusvæðinu. Þeir ættu kannski að reyna að átta sig á því hvers vegna þau lönd innan sambandsins sem standa okkur næst, eins og Danmörk, Svíþjóð og England, hafa kosið að taka ekki upp evru.

Getur verið að evrutal Andrésar og fleiri manna sé eins og hvert annað trúboð? Þeir vitna hver í annan og tala eins og menn sem hafa fundið Sannleikann með stórum staf og ákveðnum greini. En þegar við hin biðjum um rök fyrir þessum sannleika fáum við sjaldan að heyra neitt annað en sömu predikun endurtekna.

Ritdómur um bók eftir Hörð Bergmann

Miðvikudagur, 12. mars 2008

Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmál er stutt grein, eða ritdómur, eftir mig um bók Harðar Bergmann, Að vera eða sýnast, sem kom út hjá bókaútgáfunni Skruddu á síðasta ári. Texti greinarinnar liggur hér frammi.

Nokkur grísk orð

Mánudagur, 3. mars 2008

Enn reyni ég að læra grísku þótt ekki verði sagt að það nám sækist mjög hratt, enda gef ég því sjaldan lengri tíma en svona korter á dag. Eitt af því sem gerir þetta grúsk skemmtilegt er hvað stór hluti orðaforðans er kunnuglegur. Mörgum hversdagslegum grískum orðum bregður til dæmis fyrir í fagmáli eða fræðilegum umræðum. Til dæmis kalla guðfræðingar prestastefnu oft sýnódus sem er grískt orð yfir samkomu (συνοδος).

Orðið erótík er skylt gríska lýsingarorðinu erotikos (ερωτικος) og nafnorðinu eros (ερως).

Leikhúsfólk kallar samningu dansa eða uppsetningu danssýninga kóreógrafíu. Þetta er af sömu rót og gríska sögnin korevo (χορευω) sem þýðir ég dansa. (Ég skrifa þýðingu sagnarinnar í framsöguhætti því í grísku er enginn nafnháttur.)

Hljómburður kallast akústík á máli tæknimanna og það orð er skylt grísku sögninni akúo (ακουω) sem merkir heyri eða hlusta.

Loftvog er oft kölluð barómeter og það orð er samsett úr grísku orðunum varos (βαρος) sem merkir þyngd og metro (μετρω) sem þýðir ég mæli. (Ég skrifa varos fremur en baros því stafurinn beta (β), sem samsvarar bé, er borinn fram sem vaff í nútímagrísku.)

Hjartalæknar hafa numið kardíólógíu og svo fínt orð er auðvitað úr grísku þar sem hjarta kallast karðia (καρδια).

Raunvísindamenn kalla ljóseind fótónu og þeir tala líka um fótósellur og kannast við efni sem heitir fosfór. Þessi orð eru dregin af fos (φως) sem er algengasta gríska orðið yfir ljós. (Grísk orð eru eins og íslensk að því leyti að þau beygjast og taka við það alls konar breytingum. Eignarfall fleirtölu af fos er foton (φωτων) og þar er komið heitið á ljóseindinni.)

Svona má lengi telja. En til viðbótar við fjölda grískra tökuorða frá seinni öldum eru til dæmi um grískuslæðing í norrænum málum frá því á miðöldum. Til dæmis eru orðin biskup, kirkja og skóli öll komin úr grísku. Ég hef líka rekist á nokkur orð sem mér þykir trúlegt að séu skyld grískum orðum þótt ég hafi ekki fundið neinar heimildir um það. Sem dæmi má taka orðin barkur og karfi sem bæði voru notuð um stóra báta eða skip á ritunartíma Íslendingasagna. Það getur tæpast verið tilviljun hvað þessi orð líkjast grísku orðunum varka (βαρκα) sem merkir árabátur og karavi (καραβι) sem merkir skip. Kannski tóku væringjar þessi orð með sér heim frá Miklagarði. Kannski eru þau sameiginlegt góss indóevrópskra mála eins og orðin yfir föður og móður sem á grísku eru pateras (πατερας) og mitera (μητερα).