Færslur febrúarmánaðar 2008

Hagsveiflur og Evrópusambandið

Laugardagur, 23. febrúar 2008

Hagsveiflur eru hluti af tilverunni. Nú er hagvöxtur minni en fyrir nokkrum árum og mörgum fyrirtækjum gengur verr. Svo kemur uppsveifla. Þannig hefur þetta verið og verður trúlega enn um sinn.

Hagsveiflur eru ekkert séríslenskt fyrirbæri. Tölur um atvinnuleysi, verðbólgu og hagvöxt sveiflast upp og niður um allan heim.

Það eru skiptar skoðanir um hvort og þá hvernig stjórnvöld eiga að bregðast við hagsveiflum. Ég þykist ekki vita hvað er rétt í þeim efnum. Samt þykir mér undarlegt hve margir álíta að rétt sé að bregðast við tímabundnum erfiðleikum banka og annarra stórfyrirtækja með inngöngu í Evrópusambandið.

Ef stjórnvöld eiga að bregðast við núverandi erfiðleikum í efnahagsmálum eiga þau að grípa til ráðstafana sem virka þegar á þessu ári. Ákvörðun um að hefja undirbúning að inngöngu i Evrópusambandið er hins vegar ákvörðun sem hefur áhrif eftir miklu lengri tíma eða, á að giska, svona 5 til 10 ár. Þá verður hagsveiflan kannski í allt öðrum fasa en nú.

Hvað sem annars má segja um aðild að Evrópusambandinu hljóta allir að vera sammála um að það er fáránlegt að fara þar inn til þess að leysa skammtímavandamál. Það er engin leið að ganga úr því svo ákvörðun um inngöngu hlýtur að taka mið af langtímahagsmunum – raunar ætti að horfa til mjög langs tíma eða nokkurra mannsaldra.

Það þarf að skoða margt, meðal annars: Mannfjöldaþróun (fækkun vinnandi manna og fjölgun gamalmenna) í Sambandinu; Erfiða stöðu lífeyrismála og ríkisfjármála í stærstu Sambandsríkjunum; Líklega breytingu á valdahlutföllum innan Sambandsins með uppgangi Austur Evrópu; Væntanlegan hagvöxt þar og í öðrum viðskiptalöndum okkar; Hvaða kosti við eigum á fríverslun við Kína og fleiri lönd utan Evrópusambandsins.

Það þarf líka að svara erfiðum spurningum um: Lýðræðislegt umboð framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðsins; Um hveru líklegt er að takist að draga úr spillingu innan stofnana Evrópusambandsins;Um mikilvægi þess að vera sjálfstætt ríki með stjórn eigin mála.

Það þarf í stuttu máli að horfa yfir miklu víðara svið en hagtölur síðustu mánaða.

Það er ekkert vit að láta skammtímahagsveiflu stjórna afstöðu sinni til þess hvort ganga skuli í Evrópusambandið.

Rótarý

Sunnudagur, 17. febrúar 2008

Í allan dag sat ég á fundi sem Rótarýumdæmið á Íslandi hélt fyrir verðandi forseta í þeim 29 Rótarýklúbbum sem til eru í landinu. Þar sem ég hef ekki verið í Rótarýklúbbi í nema tæp 4 ár, og aldrei áður verið kosinn forseti, var þetta í fyrsta sinn ég fór á svona fund, en þeir eru haldnir á hverju ári.

Fyrir svo sem áratug hefði ég líklega svarið fyrir að ég mundi nokkurn tíma ganga í Rótarý, Lions, Kiwanis eða eitthvað í þeim dúr. Ég hélt að svona klúbbar væru aðallega eitthvert sambland af snobbi og smáborgaraskap.

Um Kiwanis og Lions veit ég næstum ekki neitt en eftir að Ingjaldur tannlæknir dró mig inn í Rótarý hef ég komist að því að þessi samtök eru að minnsta kosti alveg laus við snobb og það þarf talsvert lituð gler til að þau sýnist tiltakanlega smáborgaraleg. Rótarýklúbbur er einfaldlega félagsskapur þar sem fólk úr ólíkum starfsgreinum hittist vikulega, reynir að eiga skemmtilega stund saman og láta gott af sér leiða – og svo merkilegt sem það er tekst þetta alveg þokkalega.

Fundirnir hér á Akranesi eru alltaf klukkan 18:30 á miðvikudögum. Við borðum kvöldmat saman, spjöllum um daginn og veginn og oftast er einhverjum gesti boðið að koma og flytja svona tuttugu mínútna erindi. Mánaðarlega, eða þar um bil, eru fundirnir ekki á venjulegum fundarstað (sem er matsalur Sementsverksmiðjunnar) heldur hjá einhverju fyrirtæki eða stofnun í bænum sem tekur á móti hópnum og kynnir honum starfsemi sína. Í síðustu viku heimsóttum við til dæmis röntgendeildina á spítalanum. Á sumrin fara nokkrir fundir í vinnu við skógræktina í Slögu eða aðra útivinnu eins og til dæmis stígagerð í Akrafjalli. Allt er þetta frekar skemmtilegt. En Rótarýfélagar gera meira en bara að skemmta sér.

Rótarý starfar í 165 löndum. Klúbbarnir eru meira en 30 þúsund talsins og félagar um 1,2 milljónir. Þetta er semsagt fjölmenn hreyfing. Hún er líka orðin 102 ára gömul (og eldri en bæði Kiwanis sem varð til 1915 og Lions sem var stofnað 1917). Þessi fjölmenna hreyfing stuðlar auðvitað að kynnum manna frá ólíkum heimshornum og með ólíkan bakgrunn. Hún heldur líka á lofti hugsjónum um frið og fordómalaus samskipti og reynir að hvetja félagsmenn sína til að haga sér vel og láta gott af sér leiða.

Hreyfingin á líka sjóð, sem er að mestu myndaður úr framlögum félagsmanna. Þessi sjóður er býsna stór. Mér skilst að hann sé stærsti sjóður sem til er í eigu frjálsra félagasamtaka og notaður er til mannúðarmála. Fé úr honum hefur verið varið til að bólusetja börn gegn lömunarveiki með þeim ágæta árangri að henni hefur veri útrýmt í öllum löndum heims nema fjórum (Afganistan, Pakistan, Indlandi og Nígeríu). Meðal annarra verkefna sem sjóðurinn styrkir eru nemendaskipti milli landa, barátta gegn ólæsi og öflun drykkjarvatns þar sem það er af skornum skammti.

Rótarýklúbbar hafa áhrif sem munar um, ekki bara fyrir félagsmenn sína sem kynnast og mynda sambönd, heldur líka fyrir allan heiminn. Þessi áhrif eru sjaldan í fréttum og það er líklega mest vegna þess að góðar fréttir eru engar fréttir.

Viðtökumiðað nám og einstaklingshyggja í skólamálum

Mánudagur, 11. febrúar 2008

Samkvæmt nýlegu frumvarpi til laga um framhaldsskóla fá skólarnir mun meira vald til að skilgreina námsbrautir en þeir hafa haft undanfarin ár. Þetta felur í sér ýmis tækifæri, en líka hættur. Hér ætla ég að fjalla um eina hættu sem ég held að framhaldsskólar og háskólar þurfi að bregðast við sameiginlega. Það er hægt að orða þessa hættu á marga vegu, en ég kýs að lýsa henni sem hættu á að almenn menntun fari halloka.

Fram að þessu hefur verið rammi um stúdentsprófið sem hefur verið ákveðinn af menntamálaráðuneytinu. Þessi rammi skilgreinir bóknám til stúdentsprófs sem 140 einingar (eða 4 námsár þar sem nemandi sækir að jafnaði 35 kennslustundir í viku). Innihald þessa náms er afar breytilegt en þó er sameiginlegur kjarni allra bóknámsbrauta í íslensku (15 ein.), stærðfræði (6 ein.), ensku (9 ein.), dönsku (6 ein.), íþróttum (8 ein.), lífsleikni (3 ein.), sögu (6 ein.), félagsfræði (3 ein.) og náttúrufræði (9 ein.). Einnig þurfa allir að læra þriðja mál (12 ein.)

Ekki er fjarri lagi að helmingur náms til stúdentsprófs af núverandi bóknámsbrautum sé almenn menntun sem er sameiginleg. Ramminn sem ákvarðar að allir klári 140 einingar í framhaldsskóla, áður en þeir byrja í háskóla, tryggir líka að þorri stúdenta afli sér töluverðrar almennrar menntunar, umfram þennan sameiginlega kjarna, í öðrum greinum en þeir ætla að læra í háskóla.

Ég held að það skipti ekki miklu máli hvort sameiginlegi kjarninn er 50, 60 eða 70 einingar. Mér finnst heldur ekki miklu varða hvort stúdentsnámið er 120 eða 140 einingar. Mér er líka ljóst að hægt er að deila um það endalaust hvort sé betra að allir læri að lágmarki 6 einingar í sögu og 9 í náttúrufræði eða öfugt; hvort danskan eigi að vera 6 einingar eða kannski 9; hvort allir þurfi að læra lífsleikni í framhaldsskóla eða hvort rétt sé að fela grunnskólunum einum að kenna þá grein. En ég held að það ætti að vera samkomulag um að allir verðandi stúdentar læri dönsku, sögu og náttúrufræði og fái yfirsýn yfir aðrar greinar en þeir ætla að læra í háskóla.

Nýja frumvarpið setur engan ramma um stúdentsnámið (tilgreinir aðeins að nám í íslensku, stærðfræði og ensku skuli samtals vera a.m.k. 45 einingar). Vera má að ráðherra muni gera það með reglugerð. Í umræðum um frumvarpið er alloft talað um að stúdentsnámið eigi að vera „viðtökumiðað“ sem ég skil svo að það eigi að búa hvern nemanda undir það nám sem hann hyggst stunda að stúdentsprófi loknu.

Ef ekki verður neinn rammi um stúdentsprófið munu skólarnir óhjákvæmilega finna fyrir þrýstingi frá nemendum sem vilja útskrifast með þann eina undirbúning sem krafist er af skólanum sem þeir ætla að sækja næst. Skóli sem býður nemendum stúdentspróf með lítill almennri menntun getur væntanlega dregið til sín nemendur með slíkum „undirboðum“ og þá freistast aðrir skólar til að bjóða enn „betur.“ Framhaldsskólar sem eru í samkeppni um nemendur komast illa eða ekki hjá því að gera þeim til geðs eftir því sem kostur er.

Háskólarnir eru líka í samkeppni um nemendur og komast vart hjá því að taka við öllum sem hægt er að taka við eða að minnsta kosti þeim sem einhverjar líkur eru á að standi sig.

Þessi pressa á bæði skólastig vinnur gegn því hlutverki framhaldsskólanna að tryggja breiða almenna menntun. Það verður erfitt að standa gegn henni nema einhvers konar samkomulag sé um stúdentsprófið – einhver rammi sem tilgreinir hve það er mikið nám og ef til vill líka eitthvert lágmarksinnihald.

Það er vafalítið hægt að ná góðum prófum í fjölmörgum greinum á háskólastigi án þess að kunna neitt í dönsku, náttúrufræði eða sögu. Ef stúdentsnám verður algerlega „viðtökumiðað“ munu þessi fög og fleiri eiga undir högg að sækja.

Það er hægt að lýsa þessum sama vanda á fleiri vegu. Ein leið er að skoða hann út frá því hvað umræða um námskrármál er orðin einstaklingsmiðuð. Ef nám á að mæta þörfum hvers og eins og nemandi þarf ekki að læra dönsku, sögu og náttúrufræði til að ná sínum markmiðum (sem eru kannski að verða tannlæknir eða tölvufræðingur) hvers vegna má hann þá ekki sleppa þessum greinum?

Ef nám á framhaldsskólastigi á að vera algerlega „viðtökumiðað“ og hvað hver og einn lærir ákvarðað út frá þörfum og löngunum einstaklingsins er eina mögulega svarið að nemandi megi fara í háskólanám um leið og hann kann nóg til að ráða við það. Sérhæfingin dugar þá og almenn menntun verður aðeins frjálst val.

Hvað ætli við búum lengi við norræna réttarhefð og stjórnarhætti ef háskólaborgarar hætta að skilja dönsku? Hvaða áhrif hefur það ef verulegur hluti fólks sem starfar við stjórnsýslu í framtíðinni hefur ekki lært neina náttúrufræði? Ætli umræða um umhverfismál og heilbrigði verði þá ekki hálfu vitlausari og öfgakenndari en í dag? Varla er á bætandi. Niður á hvaða stig fara stjórnmálin ef almenn menntun í sögu rýrnar að ráði? Ég veit það ekki og vona að við munum aldrei komast að því.

Breið, almenn menntun sem flestra skiptir verulegu máli fyrir okkur öll. Við töpum sennilega talsvert miklu ef hún minnkar að ráði. Þetta tap hópsins er trúlega jafn mikið þótt hver og einn sjái sér hag í að sérhæfa sig bara og sleppa við að eyða tíma í að afla almennrar menntunar.

Að mínu viti er þörf á að framhaldsskólar og háskólar sammælist að minnsta kosti um umfang stúdentsprófs af bóknámsbrautum, til dæmis að það verði 140, 130 eða 120 einingar hið minnsta.

Bókabúðin við Klapparstíg og Jón S. Bergmann

Laugardagur, 2. febrúar 2008

Á mánudaginn var þurfti ég að skreppa til Reykjavíkur á fund sem var haldinn að Laugarvegi 13. Á leiðinni til baka á bílstæðið staðnæmist ég við fornbókabúðina á horni Klapparstígs og Hverfisgötu eins og ég geri oftast þegar ég á leið um miðbæinn. Ég geng inn og fótatakið verður eftir fyrir utan. Á báðar hendur eru bækur frá gólfi í loft.

Þetta er merkileg búð þar sem menningin og sagan bíða þolinmóð eftir fólki sem býr svo vel að eiga stundir aflögu. Þarna eru líka alltaf einhverjir karlar að spjalla saman. Sumir eru í gömlum hettuúlpum sem eru dálítið upplitaðar – í stíl við ábúðarfyllstu bækurnar – þessar sem eru komnar á virðulegan aldur og muna tímana tvenna.

Mest af vana fer ég að ljóðabókunum. Þær eru alltaf á sínum stað og horfa skáhallt gegn um gluggann sem vísar út á Klapparstíginn. Að hætti ljóða standa þær hver í sinni hillu en ekki í neinni sérstakri röð. Merki á hillunum gefa þó ofurlitla vísbendingu um hvaða flokki þær tilheyra. Á einu stendur, að mig minnir, „leirskáld“ og á öðru „þjóðskáld.“

Þegar ég kem þarna er ég stundum með nokkra bókartitla í huga – rit sem mig langar að eignast og er hálfpartinn að leita að. Oftast finn ég ekkert þeirra. En á mánudaginn var ég heppinn því Jón. S. Bergmann (1874–1927) var þarna í þunnu bandi, eða nánar tiltekið, bókin Ferskeytlur og farmannsljóð frá árinu 1949 sem geymir safn ljóða hans. Mest eru þetta ferskeytlur. Ein er svona:

Eru skáldum arnfleygum
æðri leiðir kunnar.
En ég vel mér veginn um
veldi ferskeytlunnar.

Jón S. Bergmann var frá Miðfirði í Húnavatnssýslum. Hann var með snjöllustu hagyrðingum landsins á sinni tíð. (Allmargar vísur eftir hann má finna á vefnum http://skjalasafn.skagafjordur.is/).

Jón fór að heiman 17 ára og tók að stunda sjóróðra á Suðurnesjum. Eftir það var hann einn vetur við nám í Flensborgarskólanum, svo til sjós á enskum togurum. Hann giftist 27 ára gamall Helgu Málfríði Magnúsdóttur og eignuðust þau hjón eina dóttur, Guðrúnu. Hún er skráð útgefandi bókarinnar sem ég fann þarna í hillunni. Ég borgaði fyrir hana og gekk aftur út.

Hjónabandið entist ekki lengi. Kannski hefur Helga orðið leið á drykkjuskap skáldsins. Ekki veit ég það. Ekki veit ég heldur hvort þessar vísur eru um hana eða einhverja aðra konu:

Man ég gleggst, þú gladdir mig
góðum yndisfundum;
því skal fórnað fyrir þig
flestum vökustundum.

Þó að okkar ástarskeið
enti að beggja vilja,
þá er einum örðug leið
eftir að vegir skilja.

Eftir skilnaðinn var skáldið um tíma lögreglumaður í Hafnarfirði, síðan farmaður á enskum kaupskipum sem sigldu milli Bretlands og Norður Ameríku. Síðustu 12 árin sem hann lifði var Jón S. Bergmann á flakki um Ísland og sinnti ýmsum störfum. Hann var fátækur og átti ekki fast heimili.

Margt af því sem Jón orti er glatað, því ferðakista hans tapaðist skömmu áður en hann flutti heim til Íslands eftir siglingarnar yfir Atlantshafið. En sumt sem varðveist hefur er heillandi kveðskapur eins og þessi vísa. Trúlega er hún ort úti á sjó:

Gesti fögnuð hrannir halda
hér á lögninni.
Kynjamögn er veðrum valda
vaka í þögninni.