Færslur janúarmánaðar 2008

„Snjóstormur“

Miðvikudagur, 30. janúar 2008

Ekki eins og ég sé neinn maður til að taka við af Pétri Péturssyni útvarpsþul. Mér finnst samt varla hægt að þegja um það þegar Ríkisútvarpið, Rás 1, kallar snjókomu „snjóstorm“ eins og gert var í hádeginu síðasta föstudag.

Á ensku eru öll læti í veðrinu kölluð stormar. Hellidemba heitir til dæmis „rainstorm“ á því máli og haglél „hailstorm“ og einnig er talað um „windstorm“ og „snowstorm.“

Á íslensku er talað um drífu, fannkomu, fannfergi, ofankomu eða snjókomu þegar kyngir niður snjó. Gerist þetta í hvassviðri er til dæmis hægt að nota orðin hríð, bylur eða hríðarbylur.

Borgarstjórnin í Reykjavík

Fimmtudagur, 24. janúar 2008

Mikið erum við Skagamenn heppnir að eiga sveitarstjórnarmenn sem koma fram af þokkalegri stillingu og yfirvegun og mikið er leiðinlegt að fylgjast með ruglinu í Reykjavík. Eftir því sem ég best fæ skilið byrjaði vitleysan þar á því að nokkrir borgarfulltrúar og vinir þeirra vildu fara í millaleik eins og Björgólfur og Jón Ásgeir. En þar sem þeir voru menn snauðir og áttu ekki sjálfir næga peninga til kaupa sig inn í leikinn hugðust þeir reiða fram fé sem þeir fundu hjá Orkuveitunni. Það fé var víst bæði mikið og gott.

Þetta var í tíð fyrsta meirihluta meðan Vilhjálmur var enn borgarstjóri. En fyrsti meirihluti gat hvorki verið sammála um hverjir mættu að vera með í millaleiknum né hvaða leikreglur ættu að gilda. Þetta ósamkomulag fór í taugarnar á Framsóknarmanninum Birni Inga. Hann sagði bless, stakk, eftir því sem sögur herma, nokkrum hnífum í bakið á einhverju fólki sem ég veit lítil deili á og myndaði meirihluta númer tvö með vinstriflokkunum og Ólafi F., sem ég veit ekki frekar en aðrir hvort er frjálslyndur eða eitthvað allt annað.

Aldrei kom í ljós hvort meirihluti númer tvö var sammála um hverjir mættu vera með í millaleiknum því þessi meirihluti sagði ekkert um hvað hann ætlaði. Þó kom fram í máli Dags, sem hafði orð fyrir hópnum, að meirihluti númer tvö væri mjög góður, þar á meðal Ólafur F.

Svandís vildi líka hafa orð fyrir hópnum og sagðist vera á móti því að nokkur maður færi í millaleik. Samt ætlaði hún að leyfa Birni Inga og fleiri strákum að leika sér smá.

En þótt Ólafur F. væri góður og hefði jafnvel átt mestan þátt í því að koma Degi og Svandísi til valda sveik hann þau og tók saman við Sjálfstæðisflokkinn og myndaði með honum þriðja meirihlutann á kjötrímabilinu. Þegar ég frétti þetta hugsaði ég með mér að líklega væri Ólafur galinn. Ég veit að maður á ekki að hugsa svona um ókunnugt fólk. En ég gat bara ekki að mér gert að spyrja hvers konar hegðun það sé að lofa að vinna með Degi og Svandísi til loka kjörtímabilsins og hætta svo bara við alveg upp úr þurru. Og svo spurði ég mig líka hvaða rugl það væri í mínum góða Sjálfstæðisflokki að mynda, í annað sinn á stuttum tíma, meirihluta með manni sem er vís til að hætta við þegar minnst varir. Hefði nú ekki verið nær að standa sig bara vel í minnihluta til loka kjörtímabilsins og vinna svo næstu kosningar?

Það er ekki nóg með að mér hafi dottið í hug að Ólafur væri galinn og Sjálfstæðisflokkurinn líka. Í október hugsaði ég eitthvað álíka um Björn Inga enda varla neitt skárra að svíkja loforð af löngum til að leika milljónamæring en gera það bara ástæðulaust og upp á grín.

En þegar ég ók í Borgarnes í hádeginu í dag og hlustaði á Ríkisútvarpið í bílnum á leiðinni áttaði ég mig á að Ólafur þarf alls ekki að vera svo galinn og Björn Ingi ekki heldur.

Í fréttum útvarpsins var sagt frá því að sá síðarnefndi væri einfaldlega hættur í borgarstjórn og yrði eftirleiðis hvorki í meirihluta þar né í minnihluta. Mér virðist þetta býsna skynsamlegt því hvaða heilvita maður kærir sig um að taka þátt í öðrum eins skrípaleik og þarna er leikinn?

Í sömu fréttum mátti heyra í stuðningsmönnum Dags og Svandísar sem voru í heimsókn í ráðhúsi Reykjavíkur. Þeir bauluðu eins og óuppdregnar fótboltabullur og þótti mér með mestu ólíkindum að fullorðið fólk reyndi að hindra störf sveitarstjórnamanna með slíkum fíflalátum. Ef til vill er Ólafur F. bara maður að meiri að vilja ekki leggja lag sitt við stjórnmálamenn sem hafa þess háttar stuðningsliði á að skipa.

Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 18 hrósaði Svandís sér og vinum sínum af því að yfirtaka þeirra fyrir rúmum 100 dögum síðan hefði farið fram með meiri friði og spekt. Henni virðist ekki hafa dottið í hug að það gæti verið vegna þess að andstæðingar hennar í stjórnmálum séu ögn kurteisari en stuðningsmenn hennar. Kannski datt henni það í hug en þótti óþarft að hafa orð á því. Hvað veit ég?

Brák

Laugardagur, 19. janúar 2008

Ég var að koma af leiksýningu í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þar sá ég Brynhildi Guðjónsdóttur leika og segja sögu af Þorgerði brák, írsku ambáttinni sem fóstraði Egil Skallagrímsson. Þvílík sýning. Ég hélt að enginn gæti trompað Mr. Skallagrímsson sem Benedikt Erlingsson samdi og flutti á sama stað. En þessi sýning er enn betri ef eitthvað er.

Brynhildur er ein á sviðinu allan tímann og hún býr til heilan heim með rödd sinni og hreyfingu. Áhorfendur sjá og heyra allt í senn sorgleg örlög ambáttar hjá þumbaralegum bændum í Borgarfirði, öfgarnar í Agli Skallagrímssyni og skuld okkar við keltneska menningu.

Um Þorgerði brák eru örfáar setningar í Egils sögu þar sem segir meðal annars „Þorgerður brák hét ambátt Skalla-Gríms; hún hafði fóstrað Egil í barnæsku; hún var mikil fyrir sér, sterk sem karlar og fjölkunnug mjög.“ Við vitum annars lítið meira um hana en það sem rifjað er upp í vísu efir Valdísi Halldórsdóttur frá Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum:

Hinn grái straumur gárar sundsins ál.
Grátvana rómi óma klettaþrepin.
Hún kenndi landsins mesta skáldi mál,
móðgaði ríkan eiganda sinn, - var drepinn.

Textinn er eftir Brynhildi sjálfa og þetta er flottur texti. Hún byggir í senn á Egils sögu, Laxdælu, Landnámu og írskum heimildum og fléttar inn í textann fornum kveðskap sem hún syngur bæði á írsku og íslensku. Þessi söngur gefur heimi Brákar ljóðræna vídd og fegurð þrátt fyrir ranglætið sem hún mátti þola.

Lýsingin á Þorgerði Brák og örlögum hennar er skáldskapur Brynhildar en þetta er vandaður sögulegur skáldskapur og mér finnst takast vel að spinna magnaða sögu kringum þær takmörkuðu heimildir sem til eru. Brynhildur kann líka allar galdrakúnstir góðra leikara og sýningin er bæði sorgleg og óborganlega fyndin.

Reykingar

Miðvikudagur, 16. janúar 2008

Frá því ég byrjaði að starfa við Fjölbrautaskóla Vesturlands hefur það verið nokkuð breytilegt frá ári til árs hve stór hluti nýnema notar tóbak. Ég hugsa að á þessum tuttugu árum hafi reykingar þó heldur minnkað ef eitthvað er og notkun munn- og neftóbaks aukist. Svo virðist sem yngsti árgangurinn í skólanum, þ.e. börn fædd 1991, sé þó fremur illa settur að því leyti hve margir reykja og allra síðustu ár virðist lítið hafa áunnist í að draga úr tóbaksneyslu unglinga.

Fyrir áratug hélt ég að tóbaksnotkun væri á undanhaldi og heyrði senn sögunni til. Ég er ekki lengur svo bjartsýnn.

Reykingum er úthýst úr skólum og öðrum opinberum byggingum og þær eru í vaxandi mæli óvelkomnar, litnar hornauga eða bannaðar. Þetta er sjálfsagt allt gert í þeim góða tilgangi að draga úr tóbaksnotkun. En áhrifin eru líklega ögn flóknari en svo að þau verki öll á einn veg.

Um leið og reykingamenn eru reknir út í horn með sinn ósið verða til samkomustaðir þar sem skapast sérstök samkennd. Menn geta öðlast fulla hlutdeild í þessari samkennd með því einu að vera með í vitleysunni. Nálægt framhaldsskólum eru staðir þar sem unglingar safnast saman til að reykja, því það er bannað á skólalóðinni. Þetta eru gjarna staðir sem ekki sjást víða að. Þar hnappast unglingar saman og uppfylla þörf sína fyrir að tilheyra hópi, vera með öðrum, eiga eitthvað sameiginlegt. Þetta er ein af sterkustu þörfum unglinga. Fyrir suma þeirra er erfitt að fá henni fullnægt og nokkrir eru í þeirri stöðu að auðveldasta leiðin til þess er að slást í hóp með þeim sem reykja.

Ef reykingamenn dreifast um allt við iðju sína í stað þess að hnappast saman minnkar trúlega þetta félagslega aðdráttarafl tóbaksins. En til þess að svo megi verða þarf ef til vill að slaka á banni við reykingum þannig að þær geti farið fram víðar en á fáeinum felustöðum.

Mjög hæfur, meðalhæfur og lítilhæfur - um skipan héraðsdómara

Föstudagur, 11. janúar 2008

„Já, mönnum finnst það skrýtið, sem þeir ekki skilja“ sagði Tómas Guðmundsson skáld. Hann var að yrkja um húsin í bænum og ég gæti svo sem skrifað um hvað mér finnst skrýtið að fólk vilji fara með kúlu og jarðýtu á þau fáu hús hér á landi sem hafa einhvern svip og eiga sér einhverja sögu. En það er ekki það sem ég ætlaði að tala um heldur dómnefndir.

Það fer nú fjöllum hærra að Árni M. Mathiesen hafi gert einhver afglöp þegar hann valdi Þorsteinn Davíðsson til að gegna embætti héraðsdómara.

Málið er þannig vaxið að dómnefnd sem mat hæfi umsækjenda taldi nokkra hæfa og skipaði þeim í röð þannig að sumir þeirra hæfu voru taldir mjög hæfir og aðrir minna hæfir. Lögin segja samt að ráðherra eiga að skipa í starfið en ekki dómnefndin. Hún á bara að segja ráðherranum hverjir eru hæfir.

Ef það er stórlega vítavert að ráðherra skipi annan en einhvern þeirra sem dómnefnd telur hæfasta getur dómnefndin þá ekki ákveðið hver er ráðinn með því að meta einn hæfastan í stað þess að skipa umsækjendum einfaldlega í tvo flokka: hæfa og óhæfa. Og hvert er þá hlutverk ráðherra?

Nú veit ég lítið sem ekkert um þessa tilteknu dómnefnd og enn minna um hæfi Þorsteins eða annarra til að gegna dómarastarfi. En ég þykist vita að dómnefndir sem meta hæfi manna til að gegna störfum á ýmsum sviðum skipi þeim oft í röð en láti sér ekki duga að segja bara hverjir eru hæfir. Ég þykist líka vita að það sé afar misjafnt hvort þær færa gild og áreiðanleg rök fyrir röðun sinni.

Eigi svona röðun að binda hendur yfirvalda sem ráða opinbera embættismenn er einfaldlega verið að færa vald frá stjórnmálamönnum til annarra (t.d. sérfræðinga eða hagsmunasamtaka) sem ekki hafa neitt umboð frá almenningi og þurfa ekki að taka pokann sinn eftir næstu kosningar ef miklum fjölda fólks líkar illa við ákvarðanir þeirra.

Ég vil frekar að ráðherra velji dómara heldur en að nefndir skipaðar sérfræðingum og embættismönnum geri það vegna þess að ef ráðherrann gerir þetta allt kolvitlaust er hægt að hvetja fólk til að fella hann í næsta prófkjöri eða kjósa aðra í næstu þingkosningum.

Ef þeir sem andmæla ákvörðun Árna segja að hann hafi valið mann sem er óhæfur eða líklegur til að standa sig illa þá má vel hlusta á þá. En hvaða vit er í andmælendum sem hamra bara á að ráðherrann hafi gert annað en dómnefndarmenn vildu helst? Ættu þeir ekki að minnsta kosti að benda á einhver rök fyrir áliti nefndarinnar. Hvort ákvörðun ráðherra var skynsamleg eða óskynsamleg hlýtur að velta á hlutlægum rökum en ekki á því hvort dómnefndarmenn eru sammála honum eða ósammála.

Ætli Evrópusambandið hafi fundið upp friðinn?

Fimmtudagur, 3. janúar 2008

Rétt fyrir jólin skrifaði Bjarni bróðir minn ágæta blaðagrein sem hófst á orðunum „Evrópusambandið hefur nú ákveðið að innleiða með valdboði að ofan stjórnarskrá þá sem þegnar sambandsins hafa áður hafnað í almennri atkvæðagreiðslu og sýnir nú heiminum nýja mynd af lýðræðisviðhorfum sínum. Það sem áður hét stjórnarskrá heitir nú Lissabonsamningar.“ Þessi grein liggur frammi á bloggi hans (http://bjarnihardar.blog.is/).

Ég held að öllum sem hafa kynnt sér málið sé ljóst að það sem Bjarni sagði þarna var efnislega satt. Hollendingar og Frakkar höfnuðu tillögu að stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 2005 og tveim og hálfu ári síðar höfðu valdamenn í sambandslöndunum fundið aðferðir til að lögleiða helstu efnisatriði hennar án þess að hafa almenna kjósendur með í ráðum.

Evrópusambandinu hefur stundum verið lýst sem besta vini stórfyrirtækjanna og víst er nokkuð til í því. En það er líka vinur valdamanna eins og ég fjallaði um í pistli fyrir hálfu ári. Þar er hægt að keyra í gegn ákvarðanir án þess að hætta á að þær hafi áhrif á fylgi í næstu kosningum. Umræður í framkvæmdastjórninni og ráðherraráðinu (sem tekur flestar lykilákvarðanirnar) eru ekki fyrir opnum tjöldum. Kjósendur vita ekki hverjir af þeim sem sitja fundi þessara valdastofnana bera ábyrgð á niðurstöðum þeirra. Þær eru bara kynntar sem ákvarðanir Evrópusambandsins og fyrir þeim þarf enginn að standa kjósendum reikningsskap ráðsmennsku sinnar á kjördag. Þess vegna er freistandi fyrir valdamestu stjórnmálamenn í álfunni að auka vald sambandsins á kostnað þjóðríkjanna.

Lýðræði er trúlega svona álíka vinsælt meðal æðstu valdhafa eins og samkeppni meðal kapítalista – nokkuð sem flestir segjast fylgja en ansi margir reyna samt að hliðra sér hjá.

Evrópusambandið hefur vissulega komið ýmsu góðu til leiðar. Eftir því sem ég best veit hefur aðild að því til dæmis hjálpað þjóðum sem bjuggu við fasisma eða kommúnisma stóran hluta tuttugustu aldar að losna við alls konar heldur ömurlegt erfðagóss frá þeim tíma. Í áróðri sem Evrópusambandið gefur út til að lofa sjálft sig þakkar það sér talsvert meira en þetta, fullyrðir jafnvel blákalt að friðurinn sem ríkt hefur í mestum hluta Evrópu rúmlega hálfa öld sé engum öðrum en sér að þakka. (Sjá t.d. kynningu á vef Fastanefndar framkvæmdastjórnar ESB fyrir Ísland og Noreg). Þegar ég les þetta dettur mér helst í hug það sem Steinn Steinarr segir um Rússa í viðtali við Alþýðublaðið árið 1956. Hann er spurður hvort þeir séu friðelskandi þjóð og svarar á sinn skemmtilega tvíræða hátt: „Rússar hafa fundið upp friðinn, hvorki meira né minna …“

Víst hefur verið friður í Evrópu nokkuð lengi. Fyrir því eru margar ástæður. Ein er hvað síðari heimsstyrjöldin var skelfileg. Eftir að henni lauk áttu fasismi og herská þjóðernishyggja litlu fylgi að fagna meðal almennings. Önnur er samvinna Natóríkja. Þótt það sé óskemmtilegt að hugsa til þess er þriðja ástæðan trúlega tilvera kjarnorkuvopna. Hættan á að þeim verði beitt knýr ríki til að gera út um ágreining með öðrum ráðum en vopnavaldi. Mikilvægasta ástæðan er þó að minni hyggju útbreiðsla lýðræðis. Reynslan sýnir að lýðræðisríki fara miklu síður í stríð en ríki sem búa við einræði.

Það eru semsagt ýmsar ástæður fyrir því að friður hefur haldist í okkar hluta heimsins. Ég útiloka ekki að Evrópusambandið sé ein af þeim en mér finnst ekki trúlegt að það sé meðal þeirra mikilvægustu.

Lýðræðislegir stjórnarhættir, þar sem almenningur getur fellt sitjandi stjórn – skipað æðstu valdhöfum að taka pokann sinn – er besta leiðin til að tryggja frið. Þetta eitt er svo sem ekki fullkominn trygging. Bandaríkjaforsetar hafa til dæmis álpast í stríð hist og her þótt þeir séu kjörnir af almenningi. En þeir hafa líka orðið að draga heri sína til baka vegna þrýstings frá þessum sama almenningi. Mér finnst trúlegt að repúblikönum verði velt úr sessi þar á næstunni vegna þess að meiri hluti almennra borgara hefur fengið nóg af stríðinu í Írak. Hvað ætli sá hernaður héldi lengi áfram og hvað ætli hann gengi langt ef yfirmaður bandaríska heraflans væri ekki þjóðkjörinn heldur valinn á lokuðum fundi æðstu manna úr stjórnsýslunni? Sem betur fer eru leikreglurnar sem gilda í Whasington ekki eins hliðhollar æðstu mönnum og kerfið í Brussell.

Ég efast ekkert um einlægan friðarvilja þeirra sem fara með völd í Evrópusambandinu. Hvað sem annars má um þá segja eru þeir engir stríðsæsingamenn. En ég er samt hræddur um að til langs tíma litið geti sumt af því sem þeir eru að bauka verið ógn við friðinn. Þeir eru að færa æ meiri völd til stofnana sem eru lítt eða ekki settar undir lýðræðislegt aðhald.

Þegar þeir sem nú ráða ferðinni í Brussell falla frá taka aðrir við og við vitum ekki hvernig þeir munu hugsa. En við vitum að þeir munu taka að erfðum vald sem hægt er að nota til illra verka ekki síður en góðra. Ef þeir ana út í einhverja vitleysu hefur almenningur, sem á endanum borgar brúsann, enga löglega leið til að setja þeim stólinn fyrir dyrnar.

Kannski halda einhverjir að stofnanir Evrópusambandsins séu svo góðar og viturlegar að þar muni aldrei rasað um ráð fram. Ég er ekki svo bjartsýnn.