Efnahagsmál, Evrópusamband og galdratrú

Það væri skemmtilegt að geta galdrað burt efnahagsvandamál, bara látið þau hverfa með því að setja réttu töfraformúluna í lög. Mér dettur stundum í hug að þeir sem hæst láta um að stjórnvöld eigi að leysa efnahagsvanda geri ráð fyrir því að þau séu göldrótt og sumir sem láta hæst um að vandinn hverfi við inngöngu í Evrópusambandið virðast ætla að það búi yfir meiri fjölkynngi en finna má dæmi um í ævintýrum, sé jafnvel næstum almáttugt.

Um hvort innganga í Evrópusambandið er skynsamleg eða óskynsamleg hafa mörg orð verið skrifuð. Ég held þó að raunverulegar ástæður þeirra sem telja annað hvort mjög mikilvægt að fara þar inn eða eru því mjög mótfallnir séu sjaldnast orðaðar með opinskáum og heiðarlegum hætti. Satt að segja held ég að flestir sem vilja ganga í Sambandið vilji það vegna þess að þeim finnst rétt að vera með af mórölskum og pólitískum ástæðum og þeir væru jafnákafir að mæla fyrir inngöngu þótt sýnt yrði pottþéttum rökum að hún bætti í engu efnahag landsmanna. Það sama held ég gildi um þá sem vilja standa fyrir utan Evrópusambandið. Þeim líkar illa hvað það er ólýðræðislegt og íhlutunarsamt um alls konar mál og vildu ekki þar inn þótt sýnt yrði fram á að inngangan skaðaði ekki efnalegan hag þjóðarinnar.

En vegna þess að það er hálfgert feimnismál að tala um pólitískar og siðferðilegar hugsjónir hvort sem þær snúast um gildi samvinnu milli þjóða eða um fullveldi og lýðræði reyna þeir sem bera slíkar hugsjónir fyrir brjósti að verja þær með óbeinum hætti og segja til dæmis að það sem þeir vilja fá fram auki hagvöxt, greiði fyrir viðskiptum eða treysti undirstöður atvinnulífsins. Úr þessu verður stórundarleg „rökræða“ þar sem raunverulegu ástæðurnar eru ósagðar en reynt að skáka andstæðingnum með stóroðrum, og oft mjög ósennilegum, yfirlýsingum um áhrif Evrópusambandsaðildar á efnahag landsmanna.

Þeir sem tala fyrir aðild segja stundum að við eigum að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru eins og það sé nánast sjálfgefið að um leið og við erum komin þar inn getum við leyst vandamál sem fylgja smáum gjaldmiðli. En sannleikurinn er líkast til sá að þó Íslendingar séu velkomnir í Evrópusambandið og geti vafalaust náð samningum um inngöngu á nokkrum mánuðum eru trúlega mörg ár eða áratugir þar til tekst að uppfylla skilyrði þess að taka upp evru. Valið stendur því ekki milli þess að vera fyrir utan og nota krónu eða vera fyrir innan og nota evru. Evrópusambandsaðild töfrar ekki fram hallalausan ríkisrekstur, lága verðbólgu og önnur skilyrði þess að komast inn í myntbandalagið. Óbreytt staða gagnvart sambandinu útilokar heldur ekki að tekinn sé upp annar gjaldmiðill en króna.

Stundum er látið að því liggja að við getum komist út úr kreppunni með inngöngu í Evrópusambandið fyrst Finnar gátu komist út úr sambærilegri kreppu með því að ganga í sambandið árið 1995. Gallinn við þessa rökfærslu er sá að Finnar voru lengi að vinna sig út úr  kreppunni sem þeir lentu í um og upp úr 1990 og eru það kannski enn. Innganga þeirra í Evrópusambandið var engin töfralausn. Kannski hjálpaði hún eitthvað (um það veit ég þó ekki) en samkvæmt tölum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var atvinnuleysi þar heilan áratug (frá 1996 til 2005) að mjakast úr um þ. b. 15% í um þ. b. 8%. Það er sem betur fer enn að minnka en hefur enn ekki komist niður í þau 4% til 5% sem það var áður en kreppan hófst 1990.

Ég held að umræða um Evrópusambandsmál haldi áfram að vera óttalegur vaðall meðan deilt er um hvort aðild töfri burt hagstjórnarvanda. Það þarf að ræða önnur rök með og á móti aðild heldur en þau efnahagslegu og sú rökræða þarf að horfa til miklu lengri tíma en líklegt er að núverandi kreppa standi.Lokað er fyrir ummæli.