Hvort hefur fólk tapað hærra hlutfalli fjármuna sinna eða vitsmuna?

Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við nýkjörin forseta ASÍ, Gylfa Arnbjörnsson. Þar segir hann: „Við Íslendingar höfum ekki séð svona alvarlega stöðu í okkar efnahagsmálum síðan móðuharðindin gengu yfir, ef jafna á til einhvers í sögu okkar.“

Þegar ég las þetta hvarflaði að mér að Gylfi hlyti að vera galinn, en svo áttaði ég mig á að það er mögulegt að hann sé með réttu ráði ef hann er alls ófróður um Íslandssögu.

Um fimmtungur Íslendinga dó af völdum móðuharðindanna sem hófust 1783 og stöfuðu af eldgosi úr Lakagígum. Raunar fórst líka mikill fjöldi fólks í öðrum löndum, allt austur til Japan, vegna þessara eldsumbrota, því gosið olli kuldum og uppskerubresti víða um jörð.

Á þeim 225 árum sem liðin eru síðan gosið hófst í Lakagígum hafa Íslendingar oft séð það svart. Í hörðum árum undir lok 19. aldar voru margir bjargarlausir og fengu lítið að borða. Á þessum tímum náði fjöldi barna ekki eðlilegum þroska sakir næringarskorts og fólk dó úr hörgulsjúkdómum.

Að jafna gjaldþroti banka, minnkandi þjóðartekjum og vaxandi atvinnuleysi nú við hörmungar á borð við þær sem landsmenn gengu gegnum á fyrri tíð er ekki bara heimskulegt heldur líka siðlaust. Víst er áfall að missa vinnu og víst er leiðinlegt að tapa fé en það hefur enginn beinlínis dáið af völdum þess „hallæris“ sem nú gengur yfir og það eru sem betur fer ekki líkur á mannfelli.

Þeir sem tala um vandræðin í efnahagslífinu með jafngálauslegu orðfæri og Gylfi Arnbjörnsson, og líkja þeim við móðuharðindi, gefa í skyn að vandræði okkar séu sambærileg við bágindi fólks sem horfir á börnin sín svelta. Þetta er næstum eins og ef maður sem hefur fengið flís í puttann heimtar að fara fram fyrir þá sem eru lífshættulega slasaðir í biðröð á bráðamóttöku.

Þótt horfur í efnahagslífi séu slæmar er fjarstæða að tala um þær eins og einhverjar meiriháttar hörmungar. Yfirlýsingar um þjóðargjaldþrot og ónýtt efnahagslíf eru líka ýkjur og það er ansi mikið um ýkjur og stóryrði þessa daga svo manni dettur jafnvel í hug að margir hafi tapað hærra hlutfalli vitsmuna sinna heldur en fjármuna.

Á áratugnum frá 1995 til 2005 hækkuðu vergar þjóðartekjur á mann hér á landi um milli 35% og 40% ef marka má gögn á vef Hagstofunnar. Svörtustu spár gera ráð fyrir að við bökkum nú um nokkur ár en samt ekki alla leið aftur til 1995. Ég mann ekki til að lífið hafi verið neitt sérstaklega erfitt fyrir 10 árum síðan. En það er kannski lítið að marka hvað ég man og kannski ætti ég ekkert að vera að tjá mig um efnahagsmál reynslulaus eins og ég er í þeim efnum.

Ég hef aldrei notað raðgreiðslur, aldrei notað yfirdráttarheimild, raunar aldrei tekið lán nema námslán og lán til íbúðarkaupa. Ég get því ekki talað af reynslu um kjör þeirra sem eru skuldum vafðir og eiga ekki fyrir vöxtum og afborgunum, aðeins líst skilningsleysi á hvers vegna fólk tekur lán fyrir hlutum sem hægt er að komast af án.

Kannski er það skýringin á öllum þessum stóryrðum um kreppuna að fjöldi fólks hefur skuldsett sig í trausti þess að tekjur héldu áfram að hækka ár frá ári og á ekki fyrir vöxtum og afborgunum ef tekjurnar lækka. Það er svo sem skiljanlegt að fólk sem hefur komið sér í vandræði af þessu tagi sé örvæntingarfullt en því verður samt varla neitt meint af að viðurkenna að bágindi sín séu minniháttar og frekar ómerkileg í samanburði við hörmungar eins og móðuharðindin.Lokað er fyrir ummæli.