Ein góð frétt

Undanfarna daga hafa fréttir í fjölmiðlum ekki verið neinn sérstakur gleðigjafi. Flesta daga berast þó einhver ánægjuleg tíðindi. Mér þótti það til dæmis gleðiefni að Ísland komst ekki í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Þegar greidd voru atkvæði milli Íslands, Austurríkis og Tyrklands þá óskaði ég þess, í fyrsta og vonandi síðasta sinn á ævinni, að Ísland tapaði fyrir öðrum þjóðum. Þetta framboð var að mínu viti alger vitleysa. Ég reyndi að útskýra hvers vegna í stuttum pistli sem ég birti á heimasíðu minni þann 30. apríl 2005. Ég sagði þá:

Mér skilst að markmiðin með framboði til Öryggisráðsins séu einkum að Íslendingar hafi aukin áhrif og geri sig gildandi sem fullburða aðilar að alþjóðlegu valdatafli. Mig grunar að til viðbótar við þessi yfirlýstu markmið búi að baki framboðinu löngun eftir athygli og frægð, að nafn landsins verði oftar í fréttum. Hversu eftirsóknarvert ætli þetta sé? Er ekki betra að rækta garðinn sinn? Getum við ekki unnið heiminum meira gagn með öðru móti?

Vera má að menn verði seint á eitt sáttir um svör við þessum spurningum enda erfitt að fullyrða um slík efni að óreyndu máli. Hins vegar held ég óhætt að fullyrða að vopnlaus þjóð sé komin út á ansi hálan ís ef hún lætur atkvæði sitt ráða úrslitum um stríð og frið. Í Öryggisráðinu eru teknar ákvarðanir um beitingu hervalds og slíkum ákvörðunum þarf að fylgja eftir með því að senda hermenn í ferðir þar sem sumir hljóta örkuml og sumir koma aldrei til baka. Ríkisstjórn sem styður slíka ákvörðun hlýtur að vera siðferðilega skuldbundin til að tefla fram sínum eigin her.

Það er ekki verjandi að ríki hafi úrslitaáhrif í þá veru að senda heri annarra þjóða á vígvöllinn án þess að samþykkja að sínir eigin menn gangi við hlið þeirra alla leið. Hvernig ætlar íslenska ríkið að gera skyldu sína í þessum efnum? Ef stjórnvöld geta ekki svarað því ættu þau að hætta við framboð sitt til Öryggisráðsins.

Þótt athyglin og „frægðin“ yrðu kannski eitthvað minni yrði heiður landsmanna miklu meiri ef peningarnir sem ævintýrið á að kosta yrðu notaðir til að kaupa sjúkragögn og læknishjálp fyrir fólkið sem lendir í eldlínunni næst þegar þeir sem helst gera sig gildandi í alþjóðlegu valdatafli ákveða að farið skuli í stríð.

Nú kann einhver að hugsa sem svo að ef Ísland hefði komist í Öryggisráðið hefði mátt komast hjá því að bera ábyrgð á hernaði með því að greiða ætið atkvæði gegn því að fara í stríð. Þetta kann að virðast fallega hugsað, en veruleikinn er sá að stundum þarf að velja milli kosta þar sem er ekki hægt að sjá fyrir hvorum þarf að fylgja eftir með hervaldi.

Vera má að þau endemi sem fjárhættuspil Íslendinga í útlöndum eru orðin fái fleiri til að skilja að þjóðinni er enginn akkur í að vera sem mest í fréttum. Ef ekki væri fyrir þá sök að ferðamannaiðnaður og ýmislegur útflutningur þarf á því að halda að vakin sé athygli á landi og lýð mundi okkur, eins og öðrum, best að lifa svo lítið bæri á.Lokað er fyrir ummæli.