Efnahagsráðstafanir

Í fréttum er mikið talað um efnahagsráðstafanir þessa dagana. Vestur í Ameríku tekur stórskuldurgur ríkissjóður á sig ævintýralegar skuldbindingar og víða um lönd eru ríkisstjórnir að taka yfir banka og færa peninga til og frá, að því er virðist í allmiklu óðagoti.

Ekki þarf að fylgjast mikið með fréttum til að átta sig á að kreppan sem allir eru að tala um var að miklu leyti óvænt og ófyrirsjáanleg. Lærðustu hagfræðingar vita ekki hvernig mál munu þróast og trúlega veit enginn nema lítinn hluta af skýringunum á þessum ósköpum. Sú þekking sem þarf til að „kalla hvert fley á rétta braut“ og leiða heilu hagkerfin milli brims og boða er hvergi til.

Hagkerfinu er dreifstýrt. Framvinda þess er afleiðing af ákvörðunum margra þar sem hver og einn hefur yfirsýn yfir lítið svið og gerir þar sínar eigin litlu „efnahagsráðstafanir“. Ætla má að þessar mörgu litlu efnahagsráðstafanir heppnist betur ef leikreglurnar í hagkerfinu eru þekktar. Einnig má ætla að allir þeir mörgu og litlu sem mynda mestan hluta hagkerfisins skyggnist betur eftir tækifærum og leiðum út úr þrengingum ef þeir vita það og treysta því að enginn annar tekur af þeim stjórn og ábyrgð.

Þeir sem heimta að ríkið grípi til miklu meiri efnahagsráðstafana ættu kannski að hafa í huga að slíkt kann að draga úr þeim mörgu og smáu „efnahagsráðstöfnunum“ sem samanlagt duga líkast til betur en aðgerðir yfirvalda og byggja á meiri þekkingu heldur en nokkurn tíma gefst ráðrúm til að safna saman í stjórnarráðinu. Einnig er þess að gæta að rástafanir sem henta illa stöddum stórfyrirtækjum kunna að skaða fyrirtæki sem enn eru lítil en verða stór ef þau fá frið til að vaxa. Upplýsingar um þessi litlu fyrirtæki eru af skiljanlegum ástæðum ekki uppi á borðinu þegar stjórnmálamenn taka ákvarðanir um efnahagsmál.

Ekki veit ég hvað stjórnvöld ákveða að gera á næstu dögum til að vinna gegn lausafjárþurrð og gjaldeyrisskorti en ég vona að þær ráðstafanir verði hóflegar og raski ekki að ráði áætlunum þeirra mörgu og smáu sem undanfarið hafa verið að hugsa sitt ráð.Lokað er fyrir ummæli.