Góð ræða hjá Geir Haarde

Ég var að hlusta á ræðu Geirs Haarde sem hann flutti á fundi Sjálfstæðismanna í Valhöll í gær  (upptaka er á vef Sjálfstæðisflokksins). Mér þótti honum mælast vel.

Í byrjun þessa árs varð ljóst að hagkerfi Vesturlanda voru á leið niður í öldudal. Ýmislegt er enn óljóst um ástæður þessa, en mikil skuldasöfnun Bandaríkjamanna er að minnsta kosti hluti þeirra. Þessi kreppa kemur mishart niður. Á sumum svæðum er hún verri en öðrum. Þetta gildir jafnt um ríki innan Evrópusambandsins og utan þess, jafnt austan og vestan við Atlantshafið.

Hér á landi bætist alþjóðleg niðursveifla við vandamál sem stafa af þenslu (þ.e. eftirspurn umfram framboð), glannaskap nokkurra fjármálafyrirtækja og miklum lántökum almennings til húsnæðiskaupa. Sums staðar annars staðar bætist hún ofan á öðru vísi vandamál eins og atvinnuleysi og fátækt.

Síðan niðursveiflan hófst hafa forystumenn Framsóknarflokks og Vinstri-grænna kallað á meiri og meiri „efnahagsráðstafanir“ og stundum látið eins og hægt sé að galdra burt vandamálin með bægslagangi í stjórnarráðinu eða vaxtalækkunum. Evrópusambandssinnar hafa líka haft hátt og talað eins og vandinn stafi fyrst og fremst af því að við notum lítinn gjaldmiðil. Þetta gaspur er löngu farið að hljóma eins og hver önnur síbylja og innatómur vaðall.

Kreppan bitnar ekkert síður á þeim sem tilheyra stórum myntsvæðum en smáum og henni lýkur ekki við það að lækka stýrivexti og draga þannig enn úr framboði á lánsfé. Raunar er miklu líklegra að gengislækkunin í vor og staðfesta Seðlabankans í vaxtamálum eigi á endanum sinn þátt í því, ásamt yfirvegaðri hagstjórn, að íslenska hagkerfinu gangi betur en flestum öðrum að komast upp úr öldudalnum.

Í öllum fjölmiðlum hafa stjórnarandstæðingar og Sambandssinnar básúnað um töfralausnir á vandanum. Geir Haarde svaraði þessum vaðli mjög vel í ræðunni í gær. Í öllu írafárinu og slagorðagjálfrinu hefur hann sem betur fer vit á að hafna bráðræði og flumbrugangi í efnahagsmálum.Lokað er fyrir ummæli.