Grein eftir Pál Skúlason um menningu og markaðshyggju

Í vorhefti Skírnis (182. árg. bls. 5-40) er grein eftir Pál Skúlason prófessor í heimspeki og fyrrum rektor Háskóla Ísland sem heitir Menning og markaðshyggja.

Í greininni fjallar Páll um markaðshyggju sem ríkjandi hugmyndafræði og lýsir því hvernig menn nota hugsunarlaust orð og hugtök úr viðskiptalífinu til að fjalla um menningu, stjórnmál og fleiri svið mannlífsins sem eru ekki hluti af markaði nema ef til vill í einhverri yfirfærðri eða myndhverfri merkingu.

Páll gerir greinarmun á markaði og markaðshyggju. Markaðurinn er hluti af veruleikanum en markaðshyggja er einn angi af hugsun manna um veruleikann og því sjálfsagt mál að gera greinarmun á þessu tvennu. Hins vegar er ekki algerlega sjálfsagt að skýra muninn á þann hátt sem Páll gerir. Hann lýsir markaðshyggju ekki sem skoðun sem er rökrædd eða sem fræðikenningu um samfélagið heldur sem hugmyndafræði og segir svo:

Áður en lengra er haldið er rétt að skýra hvað ég á við með „hugmyndafræði“. Með því orði á ég við samtengt safn hugmynda og hleypidóma sem öðlast hefur valdastöðu í mannfélaginu og hvetur fólk til að horfa á heiminn og haga sér á ákveðinn hátt. Hugmyndafræði í þessum skilningi á sér ekki ákveðna talsmenn eins og tiltekin stjórnmálaskoðun eða fræðikenning sem borin er fram í ræðu og riti af hugsandi einstaklingum. Hugmyndafræði styðst ekki við rök heldur það sem segir sig sjálft og ekki þarf að ræða eða rökstyðja. Þannig kyndir hún undir hugsunarleysi, enda aðhyllumst við yfirleitt ekki hugmyndafræði af fúsum og frjálsum vilja, heldur fylgjum henni í blindni og án þess að velta henni fyrir okkur. (Bls. 8.)

Vissulega er markaðshyggja til sem hugmyndafræði. En hún er líka til sem kenning eða meðvituð skoðun sem menn rökræða og gagnrýna. Sama má líklega segja um fleiri hugmyndir sem mótað hafa lífsviðhorf fólks og samfélagshætti: Þjóðernisstefna hefur bæði verið til sem meðvituð ræktarsemi við menningararf og sem þjóðremba eða hugmyndafræði sem elur af sér klisjur, slagorðagjálfur og úlfúð í garð þeirra sem leggja rækt við öðru vísi menningu. Ætli frjálslynd jafnaðarstefna sé ekki líka til bæði sem gagnrýnin afstaða og sem hugmyndafræði. Hvað er „pólitísk rétthugsun“ annað en frjálslynd jafnaðarstefna sem tekið hefur á sig þessa öfugsnúnu mynd? Og hvað með „grænar“ stjórnmálaskoðanir. Eru þær ekki bæði til sem upplýst afstaða manna sem hafa vit á náttúrufræðum og taka þátt í málefnalegum rökræðum og sem einstrengingslegar kreddur og jafnvel hrein hindurvitni? Um þetta fjallar Páll ekki og svo sem ástæðulaust að leggja honum það til lasts. Grein hans er um eina hugmyndafræði en ekki um allar bábiljur sem eru á kreiki í samtímanum.

Páll segir (á bls. 6) að á seinni hluta síðustu aldar hafi markaðshyggja orðið ríkjandi hugmyndafræði í Evrópu og hún hafi tekið við af marxisma og þjóðernisstefnu. Þetta er kannski ekkert fjarri lagi en það sem samt fráleitt að markaðshyggja hafi orðið einráð. Umhverfishugmyndafræði og pólitísk rétthugsun hafa líka verið í sókn og það sama má ef til vill segja um íhaldssama og trúarlega lífsafstöðu og hugmyndafræði sem af henni er dregin, bæði meðal kristinna Vesturlandabúa og ört fjölgandi hóps múslima. Þótt þjóðremba og marxismi hafi farið nokkuð halloka er af og frá að allur vindur sé úr þessum gömlu kreddum sem á sínum tíma hvöttu íbúa álfunnar til gegndarlausra morða og illvirkja.

Markaðshyggjan er engan vegin eins einráð og Páll gefur í skyn. Mér virðist að hann mikli nokkuð fyrir sér veldi hennar. Þetta kemur best fram í 9. kafla greinarinnar þar sem hann lýsir mögulegum afleiðingum þess að hugmyndafræði markaðshyggju ráði viðhorfum manna og skoðunum að öllu leyti. Þar segir hann:

Í fyrsta lagi hefur einkavæðing hugarfarsins í för með sér að við lítum ekki framar á sameiginleg siðferðileg gildi sem meginástæður breytni okkar, heldur eiginhagsmuni hvers okkar fyrir sig … (Bls. 30.)

Boðskapur markaðshyggjunnar ógnar sjálfri mennsku okkar ef honum er fylgt út í æsar. (Bls. 30.)

Einkavæðing hugarfarsins hefur þannig í för með sér að við hættum að hugsa um sameignir okkar á borð við Ríkisútvarpið, Þjóðminjasafnið, Þjóðleikhúsið … (Bls. 31.)

Ef við lítum á stjórnmál og menningarmál sem rekstrarmál, þá eigum við að vera sjálfum okkur samkvæm og einkavæða allar stofnanir á sviði stjórnmála og menningar. Kannski erum við búin að gera það í huganum: … Þar með værum við búin að leggja niður eiginleg stjórnmál. (Bls. 31.)

Vissulega örlar víða á hugmyndum sem stefna í þessar öfgar sem Páll lýsir en það er að mínu viti óþarfa svartsýni að ætla að klisjur af sauðahúsi markaðshyggju nái slíku valdi yfir fólki að öllum menningarlegum og siðferðilegum gildum verði kastað fyrir róða. Pólitískar ákvarðanir um einkavæðingu á undanförnum áratugum virðast raunar miklu fremur hafa stuðst við góð og gild hagfræðileg rök heldur en hugmyndafræði sem „á sér ekki ákveðna talsmenn eins og tiltekin stjórnmálaskoðun eða fræðikenning sem borin er fram í ræðu og riti af hugsandi einstaklingum.“ (Bls. 8.) Reyndin hefur  verið að bankar, símafyrirtæki, sementsverksmiða og ámóta rekstur hefur farið úr opinberri eigu en ekki stofnanir sem gegna lykilhlutverki í menningu þjóðarinnar eins og Ríkisútvarpið, Þjóðminjasafnið og Þjóðleikhúsið. Ef til vill er þessi mikla einkavæðing hugarfars, stjórnmála og menningar hvergi til nema í hugarheimi þeirra sem taka froðusnakk einum of alvarlega.

Um tengsl markaðshyggju sem hugmyndafræði við rökstuddar og ígrundaðar kenningar um mikilvægi verslunarfrelsis og kosti markaðshagkerfis mætti skrifa langt mál. Mér þykir það veikja málflutning Páls nokkuð að hann gerir þessu efni engin skil og lesandinn fær það á tilfinninguna að hugmyndafræðin og ígrunduðu skoðanirnar séu nánast sami grautur í sömu skál. Þetta er svipaður leikur og andstæðingar þjóðernisstefnu leika þegar þeir lýsa öfgum þjóðrembu eða þjóðhverfrar hugmyndafræði og ætlast, a.m.k. hálft í hvoru, til að menn álykti að allir sem leggja áherslu á mikilvægi þjóðrækni séu vandræðagripir. (Um þetta hef ég fjallað í grein um þjóðernisstefnu sem birtist í afmælisriti til heiðurs Arnóri Hannibalssyni sem út kom árið 2006.) Getur ekki hugsast að það eigi bæði við um þjóðræknina og áhersluna á markaðsbúskapinn, sem Aristóteles segir í II. bók Stjórnspekinnar (1289b), að versta útkoman fáist þegar það besta er keyrt út í öfgar? Ég held að minnsta kosti að það væri gáleysi að útiloka það án rökræðu og ígrundunar.

Ég hef nú fundið að nokkrum stöðum í máli Páls þar sem mér þykir hann annað hvort segja of mikið eða of lítið. Margt í grein hans er samt, eftir því sem ég best fæ skilið, vel hugsað og merkilegt. Ég held til dæmis að það sé rétt sem hann segir (á bls. 12) að markaðshyggjan hafi spillt umræðu um menntakerfi og menntastefnu. (Sjá grein eftir mig um Samkeppni framhaldsskóla sem birtist í Þjóðmálum, 3. hefti 2006.) Fleira má tína til enda kemur Páll víða við í greininni. Jafnframt því sem hann andæfir því að hugsun af sauðahúsi markaðshyggju leggi undir sig umræðu um æ fleiri svið mannlífsins teflir hann fram einstaklingshyggju sem hann sækir til Sigurðar Nordal. Páll kallar þetta menningarlega einstaklingshyggju en ég held að það mætti eins kalla hana rómantíska. Hvað sem því líður finnst mér talsvert vit í að tefla einstaklingashyggju fram sem svari við skrílslegum þankagangi af því tagi sem Páll kallar hugmyndafræði.Ein ummæli við “Grein eftir Pál Skúlason um menningu og markaðshyggju”

  1. Rómverji ritar:

    Góður pistill. Einmitt þessi umræða er brýn.

    Nú er bara að verða sér úti um Skírni.