Álagningarskráin

„Hvað eigum við að bjóða Siggu? Sama og Villi er með?“

„Ertu vitlaus. Þú ferð ekkert að bjóða henni hálfa milljón á mánuði. Á síðasta ári var hún með innan við 3 milljónir í allt fyrir fulla vinnu hjá Gústa. Við veiðum hana auðveldlega fyrir 350 þúsund í fastakaup. Gáðu svo líka hvað Gústi taldi fram. Ef þetta er eins og ég held þá hefur hann ekkert upp úr þessu harki sínu og við getum losnað við hann með því að lækka verðið í 3 eða 4 mánuði.“

Þetta brot úr samtali er bara skáldskapur en það minnir á hvað hægt er að nota upplýsingar um tekjur annarra á marga vegu.

Samningsstaða manna í viðskiptum og á vinnumarkaði ræðst meðal annars af því hvaða upplýsingar um hagi þeirra liggja á lausu. Sá sem veit að einhver er í kröggum getur notað sér það með ýmsum ógeðfelldum hætti. Þetta er ein af mörgum ástæðum þess að persónuupplýsingar eru að jafnaði ekki gerðar opinberar.

En þrátt fyrir þetta lætur íslenska ríkið upplýsingar um opinber gjöld einstaklinga liggja frammi. Þeir sem verja þessa forneskju láta stundum að því liggja að með þessu sé dregið úr skattsvikum – það geti allir vitað ef maður sem berst mikið á greiðir litla skatta, svik hans og skömm verði opinber og hann sjái þar af leiðandi að sér. Mér þykja þessi rök ekki vega þungt. Raunar er allt eins líklegt að vitneskja um að einhver sem lifir hátt borgi litla skatta hvetji aðra til að fara að dæmi hans og leita leiða til að komast hjá því að greiða opinber gjöld þótt þeir hafi talsvert umleikis.

Fyrir 100 árum voru umsagnir um sveitarómaga birtar í blöðum, sagt um einn að hann væri illa að sér en þó iðinn og um annan að hann væri vel læs en latur til vinnu. Styttra er síðan skólaeinkunnir voru opinberar. Það má ef til vill líta á birtingu álagningarskrárinnar sem leifar af misrétti fyrri tíma.3 ummæli við “Álagningarskráin”

 1. Rómverji ritar:

  Eg sé þetta öðruvísi. Þegar ég legg í púkk með einhverjum til sameiginlegra verkefna, þá vil eg vita hvað hann leggur til. Opinber gjöld eiga að vera opinber. Gagnsæ. Þannig get eg metið hvort skerfur hvors um sig telst sanngjarn eða ósanngjarn. Svindl er svo allt annað mál.

 2. Atli Harðarson ritar:

  Sæll Rómverji. Viltu þá geta sagt við einhvern sem borgar lítið: “Hvern fjandann ert þú að gera inn á spítala og hvað eru þínir krakkar að taka leikskólapláss, þú borgar sama og ekkert í skatta?”

  Ég býst ekki við því.

  En hverju viltu þá tékka á? Hvort hinir fari að lögum? En munurinn á ríki og frjálsum félögum er sá að í ríki er það ekki verkefni almennra borgara að tukta þá til sem brjóta reglurnar. Yfirvöldin sjá um það.

 3. Rómverji ritar:

  Eg vil sjá sanngirnina í því kerfi sem við búum við, hreint og klárt.