Trúarjátningar sambandssinna

Undanfarna mánuði hafa blöðin verið full af trúarjátningum fólks sem vitnar um að ef við værum í Evrópusambandinu þá væru betri lífskjör, engin kreppa og lægra verð á vörum.

Í þessu tali er að sjálfsögðu ekki tekið fram að mörg svæði innan Sambandsins búa við kreppu. Það er heldur ekkert verið að velta sér upp úr því að Evrópulönd sem standa utan sambandsins (t.d. Sviss, Noregur og Ísland) bjóða þegnum sínum betri kjör en flest lönd innan þess – enda stílbrot að troða upptalningu á staðreyndum inn í trúarlega texta.

Í öllum þessum játningabókmenntum fer lítið fyrir rökum. Sjaldan er vitnað í rannsóknir. Hlutlausar upplýsingar eru ósköp litlar.

Hversu sennilegt er að við sleppum við alþjóðlega kreppu með því að ganga í sambandið? Trúir því einhver að efnahagsvandi sem hér bætist við kreppuna og stafar af eyðslu umfram tekjur (skuldasöfnun og viðskiptahalla) leysist með einhverju öðru en ráðdeild og sparsemi? (Já - vandinn stafar ekki af litlu myntsvæði heldur eyðslusemi sem kemur fólki í koll hvaða mynt sem það notar.)

Ekkert af þessu er raunar svo mikið sem hið minnsta líklegt í augum þeirra sem aðeins hafa jarðlegan skilning. Menn þurfa að horfa með sjónum trúarinnar til að virðast þetta sennilegt.

Fyrir okkur sem ekki höfum slík æðri skilningarvit virðist samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) fullgóður og jafnvel of mikið af því góða. Sú jarðbundna þjóð Englendingar virðist á svipuðu máli því kannanir sem þar voru gerðar í vor benda til að um tveir þriðju hlutar landsmanna vildu frekar eitthvað í dúr við EES heldur en fulla sambandsaðild. Frá þessu segir í frétt The Telegraph þar sem stendur:

Könnun The Global Vision/ICM leiddi í ljós að þegar breskir kjósendur voru spurðir um hvernig samband við Evrópu þeir álitu best kusu 41% samband sem byggðist aðeins á viðskiptum og samvinnu. 27% vildu að Bretar yrðu áfram fullir aðilar að Evrópusambandinu og 26% vildu draga sig algerlega út úr því.

64% sögðust mundu kjósa samband sem aðeins snerist um viðskipti ef boðið væri upp á þann kost í kosningum.

(The Global Vision/ICM survey found that when British voters were asked about their ideal relationship with Europe, 41 per cent chose one based simply on trade and co-operation. Some 27 per cent wanted Britain to stay a full EU member while 26 per cent wanted to withdraw altogether.

If the “trade-only” option were offered in a referendum, 64 per cent said they would vote in favour.)Lokað er fyrir ummæli.