Ramses Odour Paul

Ramses Odour Paul dvaldi hér á landi á vegum Alþjóðlegra ungmennaskipta fyrir þrem árum síðan. Eftir það fór hann heim til sín, til Kenya, og giftist þar. Í vetur kom hann aftur til Íslands ásamt konu sinni. Barn þeirra hjóna fæddist á Landspítalanum fyrir nokkrum vikum.

Ég kynntist Paul þegar hann dvaldi hér í hið fyrra skipti. Þau kynni urðu vegna þess að Máni sonur minn fór til Kenya á vegum Alþjóðlegra ungmennaskipta og stofnunin kynnti íslenska Kenyafara fyrir Paul svo hann gæti frætt þá um land sitt. Eftir þetta heimsótti Paul fjölskyldu mína nokkrum sinnum og við kynntumst honum sem grandvörum og vel gefnum manni. Ég ræddi nokkrum sinnum við hann um stjórnmál og hann sagði mér ýmislegt um eigin stjórnmálaþátttöku í heimalandi sínu.

Í kringum forsetakosningar í Kenya á síðasta ári var æði róstusamt þar. Paul lenti í þeim átökum enda virkur í andófi gegn stjórn Mwai Kibaki. Svo fór að hann taldi sér ekki óhætt í landinu og ákvað að flýja. Af eðlilegum ástæðum lá leiðin til Íslands. Hér átti hann vini. Hér þekkti hann til. Kannski trúði hann því líka að hér væri tekið vel á móti fólki.

En Útlendingastofnun er ekki sérlega gestrisin. Umsókn hans um dvalarleyfi var svarað með handtöku seinnipart dags í síðustu viku. Hann var læstur inni um kvöldið eins og hver annar óbótamaður. Daginn eftir, þegar embættismenn og ráðherra voru krafðir svara um hvað þetta ætti að þýða, var búið að senda Paul til Ítalíu, því þar steig hann fyrst niður fæti eftir að hann kom inn á Schengen svæðið. Þetta er víst í samræmi við svokallað Dyflinnarsamkomulag Schengen ríkjanna sem heimilar landi að senda hælisleitendur til fyrsta viðkomulands á svæðinu. Af eðlilegum ástæðum er Ísland sjaldan fyrsta viðkomulandið. Hingað er ekki mikið um beint flug frá löndum sem fólk þarf að flýja.

Kona Pauls og börn voru eftir og hefur verið hótað að gera þau einnig landræk.

Ég skil ekki hvernig hægt er að réttlæta það að handtaka mann sem engum hefur mein gert, skilja hann frá konu og barni og flytja nauðugan í fangabúðir í öðru landi með því að benda á að þetta sé heimilt samkvæmt á samningi Schengen ríkjanna. Þessar aðfarir eru jafnskelfilegar, óþarfar og skammarlegar þótt þær séu ekki beinlínis brot á milliríkjasamningum.

Ef það er mikilvægt fyrir stjórnvöld að vísa Paul og fjölskyldu hans úr landi ætti að minnsta kosti að leita leiða til að hjónin gætu farið saman með barn sitt. Ég segi ef það er mikilvægt, því mér er algerlega óskiljanlegt hvernig þessi brottrekstur getur verið nokkrum til góðs. Það er ekki eins og það sé beinlínis of margt fólki hér landi og það er heldur ekki eins og Paul sé neinn vandræðagemlingur.

Talsmenn yfirvalda hanga á því að meðferðin á Paul sé lögleg. Það er hugsanlegt að þetta sé allt löglegt. Ég skil þó ekki alveg hvernig svona aðfarir samrýmast meðalhófsreglunni sem finna má í stjórnsýslulögum (lögum nr. 37 frá 1997). Þar segir í 12. grein:

Meðalhófsreglan.
Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

(Reglan gildir að vísu ekki fyrirvaralaust um allar stjórnvaldsaðgerðir því í 2. grein sömu laga segir: „Ákvæði annarra laga, sem hafa að geyma strangari málsmeðferðarreglur en lög þessi mæla fyrir um, halda gildi sínu.“)

Mér finnst að þeir sem bera ábyrgð á að handtaka Paul, skilja hann frá fjölskyldu sinni og flytja hann úr landi ættu að minnsta kosti að skýra hvaða lögmæta markmið það er sem ekki er unnt að ná með vægari aðgerðum en þessum.

Á netinu er undirskriftalisti þar sem skorað er á yfirvöld að snúa Paul aftur hingað til lands. Ég hvet alla til að setja nafn sitt á þann lista og þakka Birgittu Jónsdóttur fyrir að hafa frumkvæði að undirskriftasöfnuninni.



4 ummæli við “Ramses Odour Paul”

  1. Máni Atlason ritar:

    Samkvæmt 2. gr. stjórnsýslulaga er meðalhófsregla 12. greinar lágmark, vægari regla í öðrum lögum gildir ekki fram yfir 12. grein.

    Meðferðin á Paul er klárt brot gegn 12. grein ssl. Það er enginn vafi þar á. Um brot gegn mannréttindum og slíku skal ég ekki fullyrða, en ef Björn Bjarnason lætur gerir ekkert í málinu þá skammast ég mín fyrir að hafa nokkurn tíman mælt honum bót og stutt hann í stjórnmálum.

  2. Andrés Jóns · Erindið í ríkisstjórn ritar:

    […] Ég hef heimildir fyrir því að fjölmargir trúnaðarmenn Samfylkingarinnar, í flokksfélögum, í borgarstjórnarflokki og varaþingmenn hafi undanfarna daga sett þrýsting á ráðherra Samfylkingarinnar vegna máls Pauls Ramses og fjölskyldu hans. […]

  3. gunnlaugur.annáll.is - » Skortur á mannúð hjá Útlendingastofnun ritar:

    […] http://atlih.blogg.is/2008-07-05/ramses-odour-paul/ […]

  4. undirskriftalisti « Selfosspæjan ritar:

    […] Rakst annars á þessa «ágætu bloggfærslu» um þetta mál. […]