Gengissveiflur, hagsveiflur og tölfræðileg met

Hvers vegna skyldu Íslendingar eiga mörg heimsmet miðað við fólksfjölda? Það er mest vegna þess hvað þeir eru fáir. Það er einfaldlega miklu líklegra að fámennur hópur sé að meðaltali frábrugðin því sem venjulegast er heldur en fjölmennur hópur.

Ef tekinn væri einhver 300.000 manna hópur í stóru fjölmennu landi (til dæmis allir íbúar í einni sýslu eða einum borgarhluta eða landshluta) og hann kallaður þjóð þá ætti sú þjóð sjálfsagt fjölmörg heimsmet miðað við fólksfjölda. Íbúar í syðstu sýslu einhvers lands geta til dæmis átt heimsmet í tannskemmdum og íbúar í nyrstu sýslu sama lands heimsmet í viskíþambi án þess landsmenn sem heild eigi nein heimsmet. Ef hópur er nógu stór jafnast svona tölfræðileg sérkenni út.

Allt þetta er svo sem fremur augljóst. En er ekki líka augljóst að fámennið skýrir líka miklar hagsveiflur á Íslandi miðað við það sem gerist í fjölmennari nágrannalöndum? Í syðstu sýslu í fjölmennu landi getur verið mikill hagvöxtur árum saman og í nyrstu sýslunni getur verið kreppa á sama árabili og svo geta komið nokkur ár þar sem þetta snýst við en hagvaxtartölur fyrir landið allt samt verið venjulegar og dæmigerðar allan tímann.

Í landi þar sem eru fá fyrirtæki og verðmætasköpunin mestöll í fáeinum atvinnugreinum eru talsvert meiri líkur á að hagvaxtartölur víki frá því sem er venjulegt og dæmigert heldur en í fjölmennu ríki þar sem eru mörg fyrirtæki sem dreifast á margar atvinnugreinar.

Miklar hagsveiflur á Íslandi þýða ekki að Íslendingar búi við sveiflukenndari afkomu en annað fólk. Í fjölmennum ríkjum búa einstök svæði og einstakar atvinnugreinar við miklu meiri sveiflur en ríkisheildin. En þær jafna sig út hver á móti annarri. Einstaklingar í fjölmennu ríki kunna því að upplifa jafn sveiflukennda afkomu og einstaklingar í fámennu ríki þótt landsmeðaltalið í fjölmenna ríkinu breytist minna á milli ára.

Í fréttum af niðursveiflu í íslensku efnahagslífi nú um stundir er stundum talað eins og krónan sveiflist af sjálfri sér. Vera má að breytingar á verði hennar stafi að einhverju leyti af glannaskap og fíflagangi í mönnum sem leika sér að því að kaupa og selja milljarða til að hafa áhrif á gengið. En ég held samt að gengisbreytingar endurspegli að langmestu leyti breytingar á verðmæti og afkomu íslenskra fyrirtækja. Verðmæti krónunnar breytist ekki af sjálfu sér. Það breytist vegna einhvers sem fólk gerir.

En ætli það sé gott eða vont fyrir fólkið í landinu að gengið breytist?

Fyrir þá sem nota tvo gjaldmiðla eða fleiri, eins og til dæmis alla þá sem stunda viðskipti bæði innan lands og utan, flækir það málin óneitanlega að evra, pund eða dollari skuli ekki kosta jafn margar krónur í dag og í gær. En þegar harðnar á dalnum hjá útflutningsfyrirtækjum og ekki er hægt að ná samkomulagi um að greiða færri krónur í laun þá bjargar það málunum ef krónan einfaldlega lækkar miðað við gjaldmiðla viðskiptalandanna. Mér finnst ekki ótrúlegt að gengislækkunin undanfarna mánuði hafi fleytt nokkuð mörgum fyrirtækjum í gegnum þrengingar sem þau hefðu ekki lifað af ella.

Getur verið að okkar litli gjaldmiðill, sem svo mjög er í tísku að tala illa um þessi misserin, hafi komið í veg fyrir að niðursveiflan yrði til þess að allmörg fyrirtæki færu á hausinn og fólk missti vinnuna?

Ættum við kannski að bölsótast ögn minna yfir sveiflukenndri afkomu og gjaldmiðli sem breytist í takt við landshagi? Gæti jafnvel verið að víða um lönd séu til 300.000 manna byggðir sem kæmust betur af ef þær hefðu eigin gjaldmiðil heldur en þær gera með peninga sem breyta gildi sínu í takt við meðalafkomu margra byggða sem búa við ólíkar hagsveiflur?

Ég veit ekki hvaða kostir eru á að bera saman afkomu manna á litlum og stórum myntsvæðum en óneitanlega væri slíkur samanburður forvitnilegur?Lokað er fyrir ummæli.