Hagsveiflur og Evrópusambandið

Hagsveiflur eru hluti af tilverunni. Nú er hagvöxtur minni en fyrir nokkrum árum og mörgum fyrirtækjum gengur verr. Svo kemur uppsveifla. Þannig hefur þetta verið og verður trúlega enn um sinn.

Hagsveiflur eru ekkert séríslenskt fyrirbæri. Tölur um atvinnuleysi, verðbólgu og hagvöxt sveiflast upp og niður um allan heim.

Það eru skiptar skoðanir um hvort og þá hvernig stjórnvöld eiga að bregðast við hagsveiflum. Ég þykist ekki vita hvað er rétt í þeim efnum. Samt þykir mér undarlegt hve margir álíta að rétt sé að bregðast við tímabundnum erfiðleikum banka og annarra stórfyrirtækja með inngöngu í Evrópusambandið.

Ef stjórnvöld eiga að bregðast við núverandi erfiðleikum í efnahagsmálum eiga þau að grípa til ráðstafana sem virka þegar á þessu ári. Ákvörðun um að hefja undirbúning að inngöngu i Evrópusambandið er hins vegar ákvörðun sem hefur áhrif eftir miklu lengri tíma eða, á að giska, svona 5 til 10 ár. Þá verður hagsveiflan kannski í allt öðrum fasa en nú.

Hvað sem annars má segja um aðild að Evrópusambandinu hljóta allir að vera sammála um að það er fáránlegt að fara þar inn til þess að leysa skammtímavandamál. Það er engin leið að ganga úr því svo ákvörðun um inngöngu hlýtur að taka mið af langtímahagsmunum – raunar ætti að horfa til mjög langs tíma eða nokkurra mannsaldra.

Það þarf að skoða margt, meðal annars: Mannfjöldaþróun (fækkun vinnandi manna og fjölgun gamalmenna) í Sambandinu; Erfiða stöðu lífeyrismála og ríkisfjármála í stærstu Sambandsríkjunum; Líklega breytingu á valdahlutföllum innan Sambandsins með uppgangi Austur Evrópu; Væntanlegan hagvöxt þar og í öðrum viðskiptalöndum okkar; Hvaða kosti við eigum á fríverslun við Kína og fleiri lönd utan Evrópusambandsins.

Það þarf líka að svara erfiðum spurningum um: Lýðræðislegt umboð framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðsins; Um hveru líklegt er að takist að draga úr spillingu innan stofnana Evrópusambandsins;Um mikilvægi þess að vera sjálfstætt ríki með stjórn eigin mála.

Það þarf í stuttu máli að horfa yfir miklu víðara svið en hagtölur síðustu mánaða.

Það er ekkert vit að láta skammtímahagsveiflu stjórna afstöðu sinni til þess hvort ganga skuli í Evrópusambandið.Lokað er fyrir ummæli.