Rótarý

Í allan dag sat ég á fundi sem Rótarýumdæmið á Íslandi hélt fyrir verðandi forseta í þeim 29 Rótarýklúbbum sem til eru í landinu. Þar sem ég hef ekki verið í Rótarýklúbbi í nema tæp 4 ár, og aldrei áður verið kosinn forseti, var þetta í fyrsta sinn ég fór á svona fund, en þeir eru haldnir á hverju ári.

Fyrir svo sem áratug hefði ég líklega svarið fyrir að ég mundi nokkurn tíma ganga í Rótarý, Lions, Kiwanis eða eitthvað í þeim dúr. Ég hélt að svona klúbbar væru aðallega eitthvert sambland af snobbi og smáborgaraskap.

Um Kiwanis og Lions veit ég næstum ekki neitt en eftir að Ingjaldur tannlæknir dró mig inn í Rótarý hef ég komist að því að þessi samtök eru að minnsta kosti alveg laus við snobb og það þarf talsvert lituð gler til að þau sýnist tiltakanlega smáborgaraleg. Rótarýklúbbur er einfaldlega félagsskapur þar sem fólk úr ólíkum starfsgreinum hittist vikulega, reynir að eiga skemmtilega stund saman og láta gott af sér leiða – og svo merkilegt sem það er tekst þetta alveg þokkalega.

Fundirnir hér á Akranesi eru alltaf klukkan 18:30 á miðvikudögum. Við borðum kvöldmat saman, spjöllum um daginn og veginn og oftast er einhverjum gesti boðið að koma og flytja svona tuttugu mínútna erindi. Mánaðarlega, eða þar um bil, eru fundirnir ekki á venjulegum fundarstað (sem er matsalur Sementsverksmiðjunnar) heldur hjá einhverju fyrirtæki eða stofnun í bænum sem tekur á móti hópnum og kynnir honum starfsemi sína. Í síðustu viku heimsóttum við til dæmis röntgendeildina á spítalanum. Á sumrin fara nokkrir fundir í vinnu við skógræktina í Slögu eða aðra útivinnu eins og til dæmis stígagerð í Akrafjalli. Allt er þetta frekar skemmtilegt. En Rótarýfélagar gera meira en bara að skemmta sér.

Rótarý starfar í 165 löndum. Klúbbarnir eru meira en 30 þúsund talsins og félagar um 1,2 milljónir. Þetta er semsagt fjölmenn hreyfing. Hún er líka orðin 102 ára gömul (og eldri en bæði Kiwanis sem varð til 1915 og Lions sem var stofnað 1917). Þessi fjölmenna hreyfing stuðlar auðvitað að kynnum manna frá ólíkum heimshornum og með ólíkan bakgrunn. Hún heldur líka á lofti hugsjónum um frið og fordómalaus samskipti og reynir að hvetja félagsmenn sína til að haga sér vel og láta gott af sér leiða.

Hreyfingin á líka sjóð, sem er að mestu myndaður úr framlögum félagsmanna. Þessi sjóður er býsna stór. Mér skilst að hann sé stærsti sjóður sem til er í eigu frjálsra félagasamtaka og notaður er til mannúðarmála. Fé úr honum hefur verið varið til að bólusetja börn gegn lömunarveiki með þeim ágæta árangri að henni hefur veri útrýmt í öllum löndum heims nema fjórum (Afganistan, Pakistan, Indlandi og Nígeríu). Meðal annarra verkefna sem sjóðurinn styrkir eru nemendaskipti milli landa, barátta gegn ólæsi og öflun drykkjarvatns þar sem það er af skornum skammti.

Rótarýklúbbar hafa áhrif sem munar um, ekki bara fyrir félagsmenn sína sem kynnast og mynda sambönd, heldur líka fyrir allan heiminn. Þessi áhrif eru sjaldan í fréttum og það er líklega mest vegna þess að góðar fréttir eru engar fréttir.Lokað er fyrir ummæli.