Viðtökumiðað nám og einstaklingshyggja í skólamálum

Samkvæmt nýlegu frumvarpi til laga um framhaldsskóla fá skólarnir mun meira vald til að skilgreina námsbrautir en þeir hafa haft undanfarin ár. Þetta felur í sér ýmis tækifæri, en líka hættur. Hér ætla ég að fjalla um eina hættu sem ég held að framhaldsskólar og háskólar þurfi að bregðast við sameiginlega. Það er hægt að orða þessa hættu á marga vegu, en ég kýs að lýsa henni sem hættu á að almenn menntun fari halloka.

Fram að þessu hefur verið rammi um stúdentsprófið sem hefur verið ákveðinn af menntamálaráðuneytinu. Þessi rammi skilgreinir bóknám til stúdentsprófs sem 140 einingar (eða 4 námsár þar sem nemandi sækir að jafnaði 35 kennslustundir í viku). Innihald þessa náms er afar breytilegt en þó er sameiginlegur kjarni allra bóknámsbrauta í íslensku (15 ein.), stærðfræði (6 ein.), ensku (9 ein.), dönsku (6 ein.), íþróttum (8 ein.), lífsleikni (3 ein.), sögu (6 ein.), félagsfræði (3 ein.) og náttúrufræði (9 ein.). Einnig þurfa allir að læra þriðja mál (12 ein.)

Ekki er fjarri lagi að helmingur náms til stúdentsprófs af núverandi bóknámsbrautum sé almenn menntun sem er sameiginleg. Ramminn sem ákvarðar að allir klári 140 einingar í framhaldsskóla, áður en þeir byrja í háskóla, tryggir líka að þorri stúdenta afli sér töluverðrar almennrar menntunar, umfram þennan sameiginlega kjarna, í öðrum greinum en þeir ætla að læra í háskóla.

Ég held að það skipti ekki miklu máli hvort sameiginlegi kjarninn er 50, 60 eða 70 einingar. Mér finnst heldur ekki miklu varða hvort stúdentsnámið er 120 eða 140 einingar. Mér er líka ljóst að hægt er að deila um það endalaust hvort sé betra að allir læri að lágmarki 6 einingar í sögu og 9 í náttúrufræði eða öfugt; hvort danskan eigi að vera 6 einingar eða kannski 9; hvort allir þurfi að læra lífsleikni í framhaldsskóla eða hvort rétt sé að fela grunnskólunum einum að kenna þá grein. En ég held að það ætti að vera samkomulag um að allir verðandi stúdentar læri dönsku, sögu og náttúrufræði og fái yfirsýn yfir aðrar greinar en þeir ætla að læra í háskóla.

Nýja frumvarpið setur engan ramma um stúdentsnámið (tilgreinir aðeins að nám í íslensku, stærðfræði og ensku skuli samtals vera a.m.k. 45 einingar). Vera má að ráðherra muni gera það með reglugerð. Í umræðum um frumvarpið er alloft talað um að stúdentsnámið eigi að vera „viðtökumiðað“ sem ég skil svo að það eigi að búa hvern nemanda undir það nám sem hann hyggst stunda að stúdentsprófi loknu.

Ef ekki verður neinn rammi um stúdentsprófið munu skólarnir óhjákvæmilega finna fyrir þrýstingi frá nemendum sem vilja útskrifast með þann eina undirbúning sem krafist er af skólanum sem þeir ætla að sækja næst. Skóli sem býður nemendum stúdentspróf með lítill almennri menntun getur væntanlega dregið til sín nemendur með slíkum „undirboðum“ og þá freistast aðrir skólar til að bjóða enn „betur.“ Framhaldsskólar sem eru í samkeppni um nemendur komast illa eða ekki hjá því að gera þeim til geðs eftir því sem kostur er.

Háskólarnir eru líka í samkeppni um nemendur og komast vart hjá því að taka við öllum sem hægt er að taka við eða að minnsta kosti þeim sem einhverjar líkur eru á að standi sig.

Þessi pressa á bæði skólastig vinnur gegn því hlutverki framhaldsskólanna að tryggja breiða almenna menntun. Það verður erfitt að standa gegn henni nema einhvers konar samkomulag sé um stúdentsprófið – einhver rammi sem tilgreinir hve það er mikið nám og ef til vill líka eitthvert lágmarksinnihald.

Það er vafalítið hægt að ná góðum prófum í fjölmörgum greinum á háskólastigi án þess að kunna neitt í dönsku, náttúrufræði eða sögu. Ef stúdentsnám verður algerlega „viðtökumiðað“ munu þessi fög og fleiri eiga undir högg að sækja.

Það er hægt að lýsa þessum sama vanda á fleiri vegu. Ein leið er að skoða hann út frá því hvað umræða um námskrármál er orðin einstaklingsmiðuð. Ef nám á að mæta þörfum hvers og eins og nemandi þarf ekki að læra dönsku, sögu og náttúrufræði til að ná sínum markmiðum (sem eru kannski að verða tannlæknir eða tölvufræðingur) hvers vegna má hann þá ekki sleppa þessum greinum?

Ef nám á framhaldsskólastigi á að vera algerlega „viðtökumiðað“ og hvað hver og einn lærir ákvarðað út frá þörfum og löngunum einstaklingsins er eina mögulega svarið að nemandi megi fara í háskólanám um leið og hann kann nóg til að ráða við það. Sérhæfingin dugar þá og almenn menntun verður aðeins frjálst val.

Hvað ætli við búum lengi við norræna réttarhefð og stjórnarhætti ef háskólaborgarar hætta að skilja dönsku? Hvaða áhrif hefur það ef verulegur hluti fólks sem starfar við stjórnsýslu í framtíðinni hefur ekki lært neina náttúrufræði? Ætli umræða um umhverfismál og heilbrigði verði þá ekki hálfu vitlausari og öfgakenndari en í dag? Varla er á bætandi. Niður á hvaða stig fara stjórnmálin ef almenn menntun í sögu rýrnar að ráði? Ég veit það ekki og vona að við munum aldrei komast að því.

Breið, almenn menntun sem flestra skiptir verulegu máli fyrir okkur öll. Við töpum sennilega talsvert miklu ef hún minnkar að ráði. Þetta tap hópsins er trúlega jafn mikið þótt hver og einn sjái sér hag í að sérhæfa sig bara og sleppa við að eyða tíma í að afla almennrar menntunar.

Að mínu viti er þörf á að framhaldsskólar og háskólar sammælist að minnsta kosti um umfang stúdentsprófs af bóknámsbrautum, til dæmis að það verði 140, 130 eða 120 einingar hið minnsta.Lokað er fyrir ummæli.