Bókabúðin við Klapparstíg og Jón S. Bergmann

Á mánudaginn var þurfti ég að skreppa til Reykjavíkur á fund sem var haldinn að Laugarvegi 13. Á leiðinni til baka á bílstæðið staðnæmist ég við fornbókabúðina á horni Klapparstígs og Hverfisgötu eins og ég geri oftast þegar ég á leið um miðbæinn. Ég geng inn og fótatakið verður eftir fyrir utan. Á báðar hendur eru bækur frá gólfi í loft.

Þetta er merkileg búð þar sem menningin og sagan bíða þolinmóð eftir fólki sem býr svo vel að eiga stundir aflögu. Þarna eru líka alltaf einhverjir karlar að spjalla saman. Sumir eru í gömlum hettuúlpum sem eru dálítið upplitaðar – í stíl við ábúðarfyllstu bækurnar – þessar sem eru komnar á virðulegan aldur og muna tímana tvenna.

Mest af vana fer ég að ljóðabókunum. Þær eru alltaf á sínum stað og horfa skáhallt gegn um gluggann sem vísar út á Klapparstíginn. Að hætti ljóða standa þær hver í sinni hillu en ekki í neinni sérstakri röð. Merki á hillunum gefa þó ofurlitla vísbendingu um hvaða flokki þær tilheyra. Á einu stendur, að mig minnir, „leirskáld“ og á öðru „þjóðskáld.“

Þegar ég kem þarna er ég stundum með nokkra bókartitla í huga – rit sem mig langar að eignast og er hálfpartinn að leita að. Oftast finn ég ekkert þeirra. En á mánudaginn var ég heppinn því Jón. S. Bergmann (1874–1927) var þarna í þunnu bandi, eða nánar tiltekið, bókin Ferskeytlur og farmannsljóð frá árinu 1949 sem geymir safn ljóða hans. Mest eru þetta ferskeytlur. Ein er svona:

Eru skáldum arnfleygum
æðri leiðir kunnar.
En ég vel mér veginn um
veldi ferskeytlunnar.

Jón S. Bergmann var frá Miðfirði í Húnavatnssýslum. Hann var með snjöllustu hagyrðingum landsins á sinni tíð. (Allmargar vísur eftir hann má finna á vefnum http://skjalasafn.skagafjordur.is/).

Jón fór að heiman 17 ára og tók að stunda sjóróðra á Suðurnesjum. Eftir það var hann einn vetur við nám í Flensborgarskólanum, svo til sjós á enskum togurum. Hann giftist 27 ára gamall Helgu Málfríði Magnúsdóttur og eignuðust þau hjón eina dóttur, Guðrúnu. Hún er skráð útgefandi bókarinnar sem ég fann þarna í hillunni. Ég borgaði fyrir hana og gekk aftur út.

Hjónabandið entist ekki lengi. Kannski hefur Helga orðið leið á drykkjuskap skáldsins. Ekki veit ég það. Ekki veit ég heldur hvort þessar vísur eru um hana eða einhverja aðra konu:

Man ég gleggst, þú gladdir mig
góðum yndisfundum;
því skal fórnað fyrir þig
flestum vökustundum.

Þó að okkar ástarskeið
enti að beggja vilja,
þá er einum örðug leið
eftir að vegir skilja.

Eftir skilnaðinn var skáldið um tíma lögreglumaður í Hafnarfirði, síðan farmaður á enskum kaupskipum sem sigldu milli Bretlands og Norður Ameríku. Síðustu 12 árin sem hann lifði var Jón S. Bergmann á flakki um Ísland og sinnti ýmsum störfum. Hann var fátækur og átti ekki fast heimili.

Margt af því sem Jón orti er glatað, því ferðakista hans tapaðist skömmu áður en hann flutti heim til Íslands eftir siglingarnar yfir Atlantshafið. En sumt sem varðveist hefur er heillandi kveðskapur eins og þessi vísa. Trúlega er hún ort úti á sjó:

Gesti fögnuð hrannir halda
hér á lögninni.
Kynjamögn er veðrum valda
vaka í þögninni.Lokað er fyrir ummæli.