Færslur desembermánaðar 2007

Nöldur um Borgarleikhúsið og Moggann

Sunnudagur, 30. desember 2007

Í gærkvöldi fór ég á eina af misheppnuðustu leiksýningum sem ég hef séð. Hún heitir Hér og nú og er í Borgarleikhúsinu. Þetta átti að vera einhvers konar gagnrýni á tilfinningaklámið í gulu pressunni en gagnrýnin risti mjög grunnt. Trúlega átti sýningin líka að vera fyndin en áhorfendur hlógu ekki. Textinn var einfaldlega mislukkaður og þótt þar væru fáeinar góðar hugmyndir komst sýningin aldrei á flug. Allmargir áhorfendur gengu út áður en sýningunni lauk. Mér þykir undarlegt hvernig þessi vitleysa komst alla leið á fjalir Borgarleikhússins. Eru engir sem horfa á æfingar þar og segja leikstjórum ef uppsetningin hjá þeim er hreint flopp?

Fyrst ég er byrjaður að nöldra ætla ég líka að skammast svolítið yfir Morgunblaðinu. Það er leiðinlega mikið af villum í því (ekki bara heimskulegum skoðunum heldur málvillum og texta sem enginn getur mögulega talið að sé boðlegur). Eitt dæmi er frétt blaðsins af skólaslitum við Fjölbrautaskóla Vesturlands (29. des. á bls. 39). Þar stendur orðrétt: „Að vanda fengu nokkrir útskriftarnemar verðlaun og viðurkenningar fyrir góðan námsárgangur og störf að félagsmálum og eru þeir eftirtaldir og nöfn þeirra aðila sem gáfu verðlaun eru innan sviga:“ Síðan er einn af þeim ellefu sem fengu verðlaun nafngreindur og nöfn þeirra sem gáfu verðlaunin eru ekki tilgreind, hvorki innan sviga né annars staðar.

Er Mogginn að verða jafn hroðvirknislega unninn og fríblöðin, 24 stundir og Fréttablaðið?

Empires of the Word

Laugardagur, 29. desember 2007

Ein af skemmtilegustu bókunum sem ég las á þessu ári heitir Empires of the Word og er eftir enska málvísindamanninn Nicholas Ostler. Ég rakst á hana fyrir tilviljum í Borders bókaversluninni í Glasgow í haust og keypti af einhverri rælni – kannski vegna þess að bækurnar sem ég valdi af ásettu ráði voru heldur þunnar og ræfilslegar og ég vildi hafa eitt virðulegt bindi í innkaupapokanum, en þessi skrudda er rúmar 600 síður.

Empires of the Word fjallar um sögu tungumála sem hafa orðið heimsmál, náð útbreiðslu meðal annarra þjóða en þeirra sem þau eru upprunnin hjá. Fjögurþúsund og fimmhundruð ára málsaga frjósama hálfmánans fær talsvert rúm í fyrri hluta bókarinnar þar sem fjallað er um akkadísku, föníkísku (púnversku), arameísku og arabísku. Þar eru líka langir kaflar um egypsku (koptísku), kínversku og sanskrít.

Höfundurinn er ekki einungis sérfræðingur í tungumálum – með háskólagráður í grísku, latínu, sanskrít og málvísindum og mæltur á 26 tungur samkvæmt því sem segir í Wikipediu. Hann er líka býsna flinkur að segja sögu með grípandi hætti og það er hreint undravert hvernig hann lætur sögu heimsins speglast í sögu tungumálanna.

Sum forn mál hafa breiðst út sem samskiptamál kaupahéðna (svo sem arameíska), önnur hafa átt samleið með trúarbrögðum (til að mynda arabíska) og enn önnur breiðst út með hersigrum og landvinningum (til dæmis gríska með herferðum Alexanders). Sum eiga sér fremur skamma sögu en önnur langa eins og egypskan, sem var töluð í 3000 ár þar til Egyptar snerust til Islam og tóku að mæla á arabísku, kínverska sem á sér líka að minnsta kosti 3000 ára sögu og gríska sem varðveist hefur í rituðum heimildum um enn lengri tíma.

Ostler skiptir sögu sinni í tvo meginhluta. Sá fyrri gerist fyrir landafundi Evrópumanna á 15. öld og sá seinni eftir að þeir voru teknir að sigla vestur til Ameríku og suður fyrir Góðrarvonarhöfða til Asíu. Fyrri hlutinn endar á umfjöllun um grísku, latínu og afkvæmi hennar ásamt stuttri greinargerð fyrir keltenskum, slavneskum og germönskum málum á þjóðflutningatímanum við upphaf miðalda. Seinni hlutinn segir söguna af því hvernig spænska, portúgalska, franska, rússneska og enska hafa breiðst út um heiminn.

Undir lok kaflans um enskuna og útbreiðslu hennar (bls. 520) nefnir Ostler að ensku máli hafi fylgt hugsunarháttur sem kenna má við veraldarhyggju, pragmatisma, frumkvæði í viðskiptum og uppfinningasemi í atvinnulífi.

Tungumálið ber með sér menningu og hugsunarhátt og ef til vill er það rétt að enskan hafi á sér veraldlegt svipmót frá þjóð sem er uppteknari af jarðbundinni hagsýni en háleitum hugsjónum.

Enska er heimsmál okkar tíma og enskukennsla er heilmikill atvinnuvegur um allan heim. Þeir sem hafa lært málið nógu vel til að geta notað það í viðskiptum eru margfalt fleiri en þeir sem eiga ensku að móðurmáli. Ostler áætlar (bls. 542) að um fjórðungur mannkyns kunni eitthvað í ensku þótt aðeins um tólfti partur jarðarbúa eigi ensku að móðurmáli.

En enska er ekki eina málið sem er kennt um allar jarðir og ungt fólk kýs hópum saman að læra bæði í skólum og utan þeirra. Það sama má segja um arabísku. Hún er kennd á námskeiðum út um allt. Bæði þessi mál hafa verið til sem ritmál í um það bil eitt og hálft árþúsund og á báðum eru til bókmenntaperlur, dýrðleg ljóð, heimspekirit og alls konar gersemar. „En leitun mun að ungmenni sem nemur arabísku til að lesa heimspeki Avicenna, Þúsund og eina nótt eða skáldsögur Naguib Mahfouz. Enn færri glíma við ensku til að verða læsir á Biblíu Jakobs konungs eða Almennu bænabókina. Á okkar tímum er arabíska mál Kóransins í augum þeirra sem nema hana. Enska er hins vegar mál viðskipta og dægurmenningar.“ (Bls. 520–521.)

Þessi orð málvísindamannsins eru umhugsunarefni. Getur verið að enskan og arbískan séu orðnar fulltrúar andstæðra póla í menningunni: Þess veraldlega og þess trúarlega?

Skólinn og smá athugasemd um tímaritið Þjóðmál

Föstudagur, 21. desember 2007

Í dag voru 35 nemendur útskrifaðir úr skólanum. Þetta var óvenjulega öflugur útskriftarhópur að því leyti hvað stór hluti hans var með háar einkunnir. Trúlega munu margir kennarar sakna þessara krakka.

Athöfnin fór fram milli klukkan 14 og 16. Um klukkan 18 var ég búinn að koma upplýsingum um hana ásamt myndum á vef skólans og fór heim í jólafrí, sem er óvenjulangt þetta árið, því á undan aðfangadegi eru laugardagur og sunnudagur sem eru ekki vinnudagar í skólanum. Sennilega skrepp ég samt í vinnunna í smástund að morgni aðfangadags þó ekki sé til annars en að setja jólaskraut á vef skólans.

Lífið gengur annars sinn vanagang. Undirbúningur fyrir vorönn í skólanum er kominn vel á veg. Í gær var ég mestallan daginn að hringja í nemendur og forráðamenn sem af einhverjum ástæðum höfðu ekki greitt innritunargjöld. Strax eftir jól reynum við Jens áfangastjóri svo að leiðrétta val nemenda sem völdu annað hvort of marga áfanga fyrir vorönn eða áfanga sem þeir mega ekki fara í (oftast vegna þess að þeir hafa fallið í undanfara). Þessi vinna er hluti af undirbúningi fyrir töflugerð, sem verður að vera lokið áður en skóli hefst að nýju þann 7. janúar.

Í gærkvöldi las ég það sem enn var ólesið af nýjasta tölublaði Þjóðmála – tímarits um stjórnmál og menningu sem Jakob F. Ásgeirsson ritstýrir. Það eru ekki mörg tímarit sem ég nenni að lesa frá upphafi til enda en hingað til hef ég lesið Þjóðmál spjaldanna á milli, enda eru greinarnar í því yfirleitt mjög læsilegar og talsvert vit í þeim flestum.

Meðal efnis í þessu nýjasta hefti (sem er 4. hefti 3. árgangs) er grein eftir Kristján Kristjánsson sem heitir Til varnar Maríubréfi. Þar andmælir Kristján neikvæðum dómum mínum og Hannesar Gissurarsonar um bókina Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson. Víst má segja ýmislegt gott um þá bók. Hún er að minnsta kosti ekki leiðinleg og síst ætla ég að halda því fram að minn örstutti pistill í næstnýjasta hefti Þjóðmála hafi sagt allan sannleikann um gildi hennar. Ég hnaut samt um nokkur orð í varnarræðu Kristjáns. Eitt þeirra er „siðrof“. Hann segir (bls. 28):

„Frjálshyggjan“ sem Einar Már segist vera á móti er í raun það sem kalla mætti neytendavædd hagnýtishyggja á sviðum þar sem hún á ekki heima.

Þessi hagnýtishyggja birtist í nútíma byggingarlist er sniðgengur klassísk fagurfræðileg gildi. Einar Már talar hér á svipuðum nótum og Karl Bretaprins og þarf ekki að hafa um það fleiri orð. Hún birtist í öðru lagi í siðrofi eða „fáheyrðum nýbólum“ í siðferði er rutt hafa hefðbundnum gildum úr vegi.

Hér er ekki farið neitt nánar út í hvað siðrof er en orðið gefur í skyn að einu sinni hafi siðferði fólks verið í betra lagi en það er núna. Ekki veit ég hvenær þetta var. Kannski á dögum Breiðavíkurheimilisins. Eða var þetta þegar menn mændu sem mest upp til Hitlers og Stalíns eða jafnvel ennþá fyrr, áður en konur fengu kosningarétt. Ef til vill þegar enn var talið sjálfsagt að selja blökkumenn mansali eða meðan evrópskir þjóðhöfðingjar seldu sjóræningjaleyfi. Vera má að það sé lengra síðan og þetta hafi verið áður en páfinn hætti að versla með aflátsbréf.

Víst eru til illa siðaðir menn nú um stundir og sumir fremja óhæfuverk. En að tala um siðrof sem eitthvert einkenni á nútímanum held ég að sé óttaleg vitleysa. Ég held að hitt sé sönnu nær að nú á tímum sé víða verið að leiðrétta ranglæti og siðleysi sem lengi hefur viðgengist– hvort sem það er kynbundið ofbeldi, ill meðferð á börnum, einelti eða ótuktarskapur við minni máttar.

Stríðsbækur

Sunnudagur, 16. desember 2007

Fyrir hálfgerða tilviljun las ég tvær nýútkomnar bækur um stríð í vikunni sem leið. Aðra fékk ég senda frá útgefanda og hin var ein af fáum nýlegum bókum sem voru inni þegar ég leit við á skólabókasafninu. Þetta eru bækurnar Hið rauða tákn hugprýðinnar eftir Stephen Crane og Um langan veg – frásögn herdrengs eftir Ismael Beah.

Bók Stephen Crane er skáldsaga sem var skrifuð fyrir rúmum 100 árum og gerist í þrælastríðinu í Bandaríkjunum. Höfundur hafði enga reynslu af stríði. Bók hans hefur samt verið hrósað fyrir að vera raunsæ og sönn lýsing á hernaði og frásögn hans af því hvernig ótti og tryllingur ná valdi á fólki virðist mjög trúleg.

Bókin eftir Ishmael Beah er endurminningar manns frá Sierra Leone í Vestur Afríku. Árið 1993, þegar hann var 12 ára réðust uppreisnarmenn gegn ríkisstjórn landsins inn í heimasveit hans og fjöldi fólks var drepinn og aðrir hröktust á vergang, þar á meðal Ishmael. Hann þvældist um með öðrum börnum á flótta undan stríðinu þar til hann var neyddur til að berjast með stjórnarher landsins. Næstu ár tók hann bæði þátt í bardögum og fjöldamorðum á vopnlausu fólki. Honum og öðrum krökkum í hersveitinni var haldið uppi á dópi og þeir breyttust úr venjulegum börnum, sem höfðu gaman af fótbolta og rappi, í óargadýr sem æddu um, brenndu bæi, hröktu fólk að heiman frá sér, pyntuðu og drápu.

Lýsing Ismaels á hræðslunni og tryllingnum er um sumt lík sögu Stepehn Crane. En saga hans er samt ekki bara saga um stríð og hernað. Hún er fyrst og fremst saga sem segir að þótt menn séu afvegaleiddir eru þeir ekki glataðir.

Frásögn Ismaels af veru sinni í hernum er fremur stutt. Mestur hluti bókarinnar gerist annars vegar áður en hann er munstraður í herinn og hins vegar eftir að UNICEF bjargar honum þaðan, hann fer í endurhæfingarbúðir, hættir að nota dóp og sest aftur á skólabekk. Fyrstu vikurnar sem hann var hjá UNICEF tók hann þátt í því með öðrum fyrrverandi herdrengjum að misþyrma fólki og láta öllum illum látum. Hann var góða stund að ná áttum, komast yfir fráhvarfseinkennin og læra venjulega mannasiði upp á nýtt.

Þegar ég las þessa bók rifjaðist upp önnur bók, ekki síður merkileg, þar sem sagt er frá börnum sem neydd voru til að bera vopn og drepa fólk. Þetta er Eleni, saga eftir Nicholas Gage þar sem hann segir frá afdrifum fjölskyldu sinnar í grísku borgarstyrjöldinni. Hún var háð milli kommunista og gríska stjórnarhersins á árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Her kommúnista neyddi börn, bæði stráka og stelpur, til að berjast. Þau sem óhlýðnust voru pyntuð og myrt að hinum ásjáandi en Gage getur ekki um að þau hafi verið dópuð til að gera þau að „betri“ bardagamönnum.

Þessi óhugnaður sem Ismael Beah segir frá, og við lesum um í fréttum að tíðkist enn í Úganda og víðar í Afríku, átti sé stað í Evrópu fyrir hálfri öld. Saga Ismaels er öðrum þræði saga eins barns í einu stríði en hún hefur sig líka langt yfir stað og stund og er saga ótal barna á ýmsum tímum. Friðarboðskapurinn í henni er áhrifamikil enda fluttur af manni sem ræðir um það af eigin reynslu hvað friður er mikils virði.

Eru fréttir ein grein skemmtanaiðnaðarins?

Föstudagur, 14. desember 2007

Fréttir eru sérstök bókmenntagrein sem sver sig um sumt í ætt við spennu- og afþreyingarbókmenntir. Þótt sumir fréttamiðlar reyni sjálfsagt að upplýsa og fræða almenning taka bull og vitleysa verulegt rúm í þeim flestum. Fjölmiðlar þylja endalausar sögur um fólk sem er frægt fyrir það eitt að hafa verið áberandi í fjölmiðlum. Jafnvel þokkalega virðuleg blöð segja frá því, eins og um heimsviðburði sé að ræða, ef Britney Spears og Paris Hilton týna buxunum sínum. Þær eru fréttaefni af því að þær hafa svo oft verið í fréttum.

Undanfarna viku hef ég fylgst með undarlegum fjölmiðlasirkus í kringum Vífil (yngri son minn). Upphaflegt tilefni fréttanna var næstum ekki neitt. Krakkar voru með númer í minni farsíma sem hafði verið slegið inn fyrir nokkrum árum og merkt Bush. Þeir prófuðu að slá á þráðinn og bulluðu svolítið við starfsmann í Hvíta húsinu sem varð fyrir svörum. Svo fór boltinn að rúlla og þetta varð á endanum frétt í tugum ef ekki hundruðum útvarps- og sjónvarpsstöðva um allan heim, vestur til Ameríku og austur til Víetnam. Flest sem ég hef séð af þessum fréttum er svo sem rétt. Ekki beinlínis nein lygi. En samt engar fréttir heldur í raun afþreyingarefni. Fréttamenn eru í hlutverki skemmtikrafta.

Þótt þessi afþreyingariðnaður haldi sig mikið til við staðreyndir tekst íslenskum blaðamönnum samt undarlega oft að klúðra smáatriðum. Í kálfi sem fylgdi Fréttablaðinu í dag fékk Vífill til dæmis nýtt nafn og var kallaður Vífill Örn. Fyrir nokkrum dögum fékk ég sjálfur líka nýtt starfsheiti í DV. Í því blaði hef ég líka einu sinni fengið að heita Ari. Ekki eins og þetta séu nein stórafglöp. En þetta er hroðvirkni og maður spyr sig hvort sá sem ekki getur verið trúr yfir litlu fari ekki líka eins og afglapi með það sem meira máli skiptir.

Sumt af þessum fréttatengda skemmtanaiðnaði er kannski ósköp saklaust og ekkert verra í sjálfu sér heldur en Andrés Önd eða MTV. En hann er ekki allur jafnsaklaus. Einni hlið hans var lýst með athyglisverðum hætti af Guðna Elíssyni í tveim greinum sem birtust í Skírni, tímariti Hins íslenska bókmenntafélags, árið 2006 undir heitinu Dauðinn á forsíðunni: DV og gotnesk heimssýn. Þar gerði Guðni að umtalsefni ákveðna gerð af spennubókmenntum sem eru bornar á borð sem fréttir. Þetta eru frásagnir af afbrotum sem gera brotamennina að ómennskum skrímslum eða segja frá glæpum þannig að lesandinn fær á tilfinninguna að glæpamennirnir séu allt öðru vísi fólk en við hin og geti ráðist á okkur hvenær sem er.

Í íslenskum fréttum hefur helst verið reynt að draga svona „gotneska“ mynd af kynferðisbrotamönnum sem ráðast á börn. Eiturlyfjasalar hafa einnig tekið á sig ámóta ómennska mynd. Þessi gotneska sýn á „the criminal mind“ var býsna áberandi í fréttamiðlum í Bandaríkjunum þegar ég var þar við nám fyrir löngu. Stór hluti fréttatíma fjallaði um glæpi og ofbeldisverk og oftar en ekki voru glæpamennirnir einhvern vegin andlitslaus ógn en ekki manneskjur á villigötum.

Ég held að svona bókmenntir, sem eru settar fram sem bein útsending úr veruleikanum handan við hornið, geti alið á ótta sem fer út fyrir öll skynsamleg mörk. Og það er farið út fyrir öll skynsamleg mörk þegar fólk lætur hræðslu við eitthvað sem er miklu ólíklegra heldur en að hljóta örkuml í bílslysi stjórna hegðun sinni og skoðunum.

Ætli svona spennusagnafréttaflutningur áratug eftir áratug geti haft þau áhrif að fólki fari að þykja eðlilegt að lögreglan hagi sér eins og verðirnir á Kennedyflugvelli sem settu Erlu Ósk Arnardóttur Lilliendahl í járn og fóru með hana eins og hún væri stórhættulegur brjálæðingur? Hún hafði að vísu brotið lög en það var smáafbrot framið fyrir meira en áratug og fólst ekki í öðru en því að fara of seint heim úr skemmtiferð til Bandaríkjanna, eða með öðrum orðum að dvelja þar lengur en vegabréfsáritun hennar leyfði.

Mér finnst trúlegt að sumt sem er ógeðfelldast við meðferð á sakamönnum og meintum sakamönnum hjá vinum okkar í Vesturheimi sé að nokkru leyti afleiðing af viðhorfum sem mótast hafa af spennusögum í gervi frétta.

Í árdaga sjónvarpsins bundu menn vonir við að það mundi bæta almenna menntun, auðga menninguna og styrkja lýðræðið. David Sarnoff sem stofnaði bandarísku sjónvarpsstöðina NBC var hugsjónamaður og reyndi að miðla almenningi listrænu og uppbyggilegu efni. Hann réð meira að segja Arturo Toscanini til að stjórna vikulegum sjónvarpstónleikum. En þessar hugsjónir eru nú flestum gleymdar.

Svei mér þá ef sjónavarpsvædd nútímafjölmiðlun er ekki fremur vatn á myllu óttans og heimskunnar en mennta og menningar.

Frumvarp til laga um framhaldsskóla

Föstudagur, 7. desember 2007

Menntamálráðherra hefur lagt fram frumvarp til nýrra laga um framhaldsskóla. Ég hirti það af vef Alþingis um leið og það birtist þar og hef lesið það og borið stöku stað saman við gildandi lög. Eftir því sem ég best fæ séð eru nýmæli í frumvarpi ráðherra til töluverðra bóta og frumvarpið í heild hið þarfasta verk og vona ég að það verði að lögum sem fyrst.

Með þessu frumvarpi er að miklu leyti horfið frá þeirri miðstýringu á námskrárgerð og innihaldi náms sem innleidd var með framhaldsskólalögunum 1996 og Aðalnámskrá frá 1999.

Skólar fá nú aftur svigrúm til að móta eigin námskrá og laga hana að breytilegum þörfum nemenda eins og var fyrir 1996. Þeir geta samkvæmt frumvarpinu sett fram tillögur um námsbrautir og innihald náms á þeim og óskað eftir samþykki ráðherra. Ekki verður ráðið af lagatextanum eftir hvaða reglum ráðherra mun fara þegar hún eða hann ákveður hvort tillaga skóla er samþykkt eða henni synjað. Um þetta koma vonandi sæmilega skýr og skiljanleg ákvæði í reglugerð.

(Það er þessu máli að vísu óviðkomandi en mér finnst rétt að nefna að fyrst kona getur verið séra þá getur hún alveg eins verið herra eða ráðherra. Ég vona líka að einstöku karlmaður geti verið hetja þótt „hetja“ sé kvenkynsorð.)

Nóg við að vera

Miðvikudagur, 5. desember 2007

Desember er annatími hjá stjórnendum framhaldsskóla. Það er verið að undirbúa brautskráningu nemenda og næstu önn. Ég hef því haft lítinn tíma til grískunáms upp á síðkastið. En það er svo sem í lagi. Mér finnst allt í lagi að kennslubókin sem ég á endist í ár eða tvö.

Síðasta föstudag hélt Rótarýklúbburinn minn upp á sextugsafmæli sitt með heilmiklum mannfagnaði í Jónsbúð við Akursbraut. Kvöldið eftir var svo „julefrokost“ hjá starfsmönnum skólans. Flestir mættu en kræsingarnar á hlaðborðinu hefðu samt dugað fyrir tvöfalt fleiri. Nokkrir komu með heimatilbúin skemmtiatriði og að þessu sinni voru þau með allra besta móti.

Í dag og í gær voru nemendur mínir í heimspeki (þ.e. áföngunum HSP103, HSP123 og HSP203) í prófum. Ég var að standa upp frá því að fara yfir þau.

Það er semsagt nóg við að vera sem er ágætt. Það er líka nóg framundan– jólahlaðborð og alls konar skemmtilegheit svo ég legg ekkert af þrátt fyrir annríkið.

Látum skólana gera minna svo börnin læri meira

Þriðjudagur, 4. desember 2007

Í frétt á www.mbl.is segir: „Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, segist… vera vonsvikin vegna niðurstaðna svonefndar PISA-könnunar, alþjóðlegs samanburðar á menntakerfum. Könnunin leiðir í ljós að staða Íslands hefur versnað frá árinu 2000 og Íslendingar eru í næst neðsta sæti af Norðurlöndunum. … Þorgerður Katrín segir að Finnar standi sig best eins og svo oft áður og Íslendingar ættu að líta til kennaramenntunar þeirra. Þá hafi Danir bætt sig frá síðustu könnun og sérstakt átak til að bæta lestrarkunnáttu hafi greinilega skilað sér.“

Það er kannski von að menntamálaráðherra detti helst í hug að bæta úr fremur slökum árangri með því að gera meira af einhverju– bæta t.d. lestrarátaki við það skólastarf sem fyrir er eða bæta ári eða tveim við skólagöngu kennara. Ekki ætla ég svo sem að útiloka að þetta tvennt skili einhverjum árangri. En þetta er samt hugsun sem er föst í sömu gömlu hjólförunum og spólar sig sífellt dýpra niður– hugsun á þá leið að ef eitthvað virkar ekki þá sé það vegna þess að það þurfi meira af því sama: Ef menn megrast ekki af megrunarpillunum á eiga þeir líka að taka megrunarduft; Ef menn verða ekki hamingjusamir þegar þeir hafa eignast hús þá þurfa þeir sumarbústað til viðbótar; Ef mönnum leiðist að hanga við sjónvarpið þarf að kaupa áskrift af fleiri rásum; Ef börn verða ekki lærð af skólagöngu sem kostar milljón á ári þá þurfa þau umönnun og kennslu sem kostar tvær milljónir á ári.

Meira, meira, meira. En það sem raunverulega vantar er ekki meira heldur minna.

Augljósasti vandi skólakerfisins er að það reynir að gera of mikið en ekki of lítið. Þegar ég gekk sjálfur í grunnskóla var til dæmis farið yfir miklu færri efnisatriði í stærðfræði og móðurmáli heldur en núna og það var ekki nóg með að farið væri yfir minna í hverju fagi heldur voru námsgreinarnar líka færri.

Ef reynt er að kenna krökkum mjög margt er trúlegast að flestir þeirra læri ekki neitt. Minni kennsla getur þýtt meira nám. Ofhlaðnar námskrár nútímans bjóða í raun ekki upp á neitt annað en hundavaðshátt. Krakki sem á að kynnast leirmunagerð, prjónaskap og trésmíði í handavinnutímum á sama árinu lærir nokkuð örugglega ekkert af þessu. Krakki sem fær rúman tíma til að vinna eitthvert eitt eigulegt verk, eins og til dæmis að prjóna eina flík eða smíða einn grip, hefur hins vegar menntast töluvert. Unglingur í grunnskóla (sem ekki er snillingur í stærðfræði) lærir lítið ef reynt er að kenna honum á sama árinu algebru, rúmfræði, líkindareikning, viðskiptareikning, mengjafræði og rökfræði eins og reynt er að gera í tíundu bekkjum. Og það er nokkuð örugglega ekki besta leiðin til að bæta hæfni nemenda í móðurmálinu að þræla þeim gegnum heila Íslendingasögu og helling af málfræði á sama hálfa árinu eins og tíðkast í efstu bekkjum grunnskóla. Til að auka enn á yfirborðsmennskuna og menntunarleysið er svo reynt að gösla æ stærri hluta grunnskólanema í gegnum framhaldsskólaáfanga samhliða grunnskólanáminu.

Ætli það væri ekki hægt að skora dálítið hærra í Pisa-könnunum með því að fækka verkefnum skólanna og viðfangsefnunum sem nemendur fást við. Bakka kannski út úr þessari ofurnútímalegu námskrá, jafnvel allt aftur í þá fornöld sem Finnar búa við. Þeir skora hátt í Pisa og skólar þar eru nokkurn veginn eins og þeir voru hér fyrir rúmum 30 árum.