Færslur nóvembermánaðar 2007

Trúfrelsi (framhald af pistli um Íslamista og naívista)

Þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Á tíundu, elleftu og tólftu öld voru nokkrir af merkustu heimspekingum, vísindamönnum og skáldum veraldarinnar múslimir og bjuggu í löndum sem var stjórnað af múslimum. Fjölfræðingurinn Avicenna var til dæmis uppi í Íran á árunum 980 til 1037. Skáldið Omar Khayyám, sem orti Ferhendur tjaldarans (Rubaiyat), lifði í sama landi frá 1048 til 1131. Averroes bjó í ríki Mára á Spáni og var uppi frá 1126 til 1198. Marga fleiri mætti telja því menning Persa, Araba og fleiri sem fylgdu spámanninum átti glæsilegt blómaskeið á miðöldum. En nú er uppi annað snið. Heimur múslima býr við litla menntun, bág kjör og vont stjórnarfar. Hvernig getur staðið á þessu?

Ég þekki ekki til í löndum Múslima og hef lítið vit á þeirra vandamálum. En ég þykist kunna hrafl í sögu Evrópu og vita dálítið um hvernig upplýsingin leysti Evrópumenn úr viðjum ófrelsis og stöðnunar. Saga hennar hófst í Hollandi og Englandi á 17. öld og hún hófst á baráttu fyrir trúfrelsi og málfrelsi. Í kjölfarið komu svo mannréttindi, frjálst atvinnulíf, lýðræði, jafnrétti og velmegun. Trúfrelsið og málfrelsið voru forsendur þess sem á eftir kom. Um þetta er til dæmis fjallað í bókinni Towards the Light eftir A.C. Grayling sem hér var sagt frá þann 4. nóvember.

Á miðöldum, þegar ríki múslima voru forysturíki í menningu heimsins, var að vísu ekki algert trúfrelsi í þeim, en frjálslyndi í þeim efnum þó heldur meira en víðast meðal kristinna manna. Nú er að mér skilst ekki einu sinni leyft að bera kross um hálsinn og hvað þá að reisa kirkju í Saudi-Arabíu. Í forysturíkjum múslima búa menn við stranga ritskoðun og afar lítið eða jafnvel ekkert trúfrelsi. Það er eins og þar sé upplýsingin ekki byrjuð.

Deilan um skopmyndirnar af Múhameð spámanni sem um er rætt í bókinni Íslamistar og naívistar var öðrum þræði deila um trúfrelsi, málfrelsi og samviskufrelsi. (Sjá pistil frá 19. nóvember.) Í þessari deilu reyndu íslamskir ofsatrúarmenn að þvinga upp á Dani ofurlitlu broti af þeirri ömurlegu kúgun sem Evrópa bjó við fyrir daga upplýsingarinnar og fólk í löndum múslima má þola enn þann dag í dag. Kröfur þeirra voru orðaðar á ýmsa vegu. Einn frasinn var að tjáningarfrelsi mætti ekki ganga svo langt að mönnum leyfðist að „særa trúartilfinningar“ annarra. Á þessu og ámóta rugli var staglast bæði af hátt settum mönnum í löndum múslima og talsmönnum innflytjenda í Evrópu sem aðhyllast íslam. Þetta er vægast sagt undarlegur málflutningur þegar hann kemur úr munni fólks sem ber ábyrgð á stjórnarháttum í löndum þar sem flest trúarbrögð eru annað hvort bönnuð eða strangar skorður settar við boðun þeirra. Það er líka dapurlegt hvað margir evrópskir menntamenn tóku undir þetta holtaþokuvæl um að ekki mætti gera grín að trúarbrögðum.

Hvað þýddi það í raun ef málfrelsi yrði takmarkað þannig að bannað væri að særa trúartilfinningar manna? Getur ekki hver sem er haldið því fram að málflutningur sem honum þykir ógeðfelldur særi trúartilfinningu sína? Yrði bannað að auglýsa pylsur því svínakjötsát og umfjöllun um það gæti sært trúartilfinningar einhverra? Yrði kannski líka bannað að tala opinskátt um getnaðarvarnir eða jafnrétti allra, karla og kvenna? Hvar yrðu mörkin eiginlega? Ætli þau enduðu kannski á sama stað og í Saudi-Arabíu?

Íslamistar og naívistar

Mánudagur, 19. nóvember 2007

Bókafélagið Ugla hefur nýlega sent frá sér þýðingu Brynjars Arnarsonar á bókinni Íslamistar og naívistar eftir dönsku hjónin Keren Jespresen og Ralf Pittelkow. Hún er þingmaður og ráðherra og hann er lektor við Kaupmannahafnarháskóla.

Að mínu viti er þetta stórmerkileg bók og afar þörf. Höfundar ræða af mikill þekkingu um stjórnmál og þjóðfélaghræringar jafnframt því sem þau fjalla um tjáningarfrelsi og gildi þess af skarpskyggni sem er óvenjuleg í skrifum um málefni líðandi stundar.

Bókin er að nokkru leyti viðbrögð við írafárinu sem varð þegar Jyllendsposten birti skopmyndir af Múhameð spámanni. En hún er líka úttekt á íslamisma sem stjórnmálahreyfingu og áhrifum hans í Evrópu. (Um skopmyndamálið birti ég pistil á http://this.is/atli þann 13. okt. 2005 og annan 4. feb. 2006 og ég set þá neðst í þessa færslu ef lesandi skyldi vera búinn að gleyma því um hvað málið snerist.)

Íslamisminn, sem um er fjallað í bókinni, er hreyfing strangtrúaðra múslima sem vilja að lög Kóransins gildi sem landslög og samfélagshættir séu lagaðir að þeim. Höfundar færa fyrir því afar skilmerkileg rök að þessi hreyfing sé ekki aðeins trúarleg heldur líka stjórnmálahreyfing sem nýtur vaxandi fylgis, er þegar farin að hafa talsverð áhrif í Evrópu og á það sammerkt með nazismanum og kommúnismanum að virða lítils lýðræði, frelsi og mannréttindi.

Íslamisminn er, samkvæmt Jespersen og Pittelkow, sú hreyfing alræðissinna sem frelsi okkar stafar mest ógn af um þessar mundir. Þau segja:

Baráttan við stjórnmálastefnu íslamismans er sameiginlegt verkefni þeirra sem hallast að frelsi og lýðræði – bæði múslima og annarra. Það er gremjulegur útúrsnúningur að láta sem barátta við íslamisma sé barátta við múslima eða íslam. En það er líka fráleitt að sýna alræðislegum íslamisma skilning eða undanlátssemi í þeirri trú að þar með sé verið að koma til móts við múslima. – Þvert á móti. Með því er verið að bregðast hrapallega þeim múslimum sem óska eftir frelsi og lýðræði. (Bls. 16 til 17.)

Höfundar rekja nokkuð sögu íslamismans og hvernig hann hefur verið í sókn bæði í ríkjum múslima og meðal innflytjenda frá þeim sem sest hafa að í Evrópu. Þau skýra líka hvernig ófrelsið í ríkjum múslima helst í hendur við bágborinn efnahag og hvernig fátæktin ýtir undir hugmyndafræði sem viðheldur kúguninni. En hins vegar fjalla þau ekkert um hvernig fundamentalismi, eða grimmúðug og óbilgjörn bókstafstrú, hefur líka sótt í sig veðrið innan annarra trúarbragða. (Um það fjallaði ég í lesbók Morgunblaðsins 18. júní 2004 og 24. júlí 2004 og verður sú umfjöllun ekki endurtekin hér.) Samanburður á íslamskri, kristinni og gyðinglegri bókstafstrú er að mínu viti ein af forsendum þess að skilja íslamismann. Hann er grein af stærri meiði andspyrnu gegn upplýsingu, frelsi og opnu samfélagi.

Eins og titill bókarinnar bendir til er hún ekki einungis um íslamisma heldur líka um naívisma, barnaskap þeirra sem halda að hægt sé að eyða ógninni með pólitískri rétthugsun eða ná sáttum við alræðissinna. Þarna fær Evrópusambandið nokkur skeyti eins og það á skilið. Höfundar segja meðal annars:

Rétthugsunin var sérlega áberandi hjá stjórnanda utanríkisstefnu sambandsins, Javier Solana. Hann fullvissaði aðalritara Íslömsku samvinnustofnunarinnar (OIC) um að í Evrópu litu menn á teikningarnar [af Múhameð í Jyllandsposten] sem „óhapp“ og með „vanþóknun og leiða“.

Svo fór Solana í ferð um Mið-Austurlönd þar sem hann neri saman höndum í iðrun. …

Viðbrögð Solanas í Múhameðsdeilunni voru ekkert einsdæmi. Þau byggðust á langri hefð innan sambandsins sem hann sjálfur hefur fylgt áður. Gott dæmi er skjal frá árinu 2003, sem heitir: „Styrking félagsskapar Evrópu við Arabaheiminn.“ Það kom frá Solana og Evrópusambandsnefndinni og var stílað á Evrópska ráðið (sem sagt fund forsætisráðherra ríkjanna).

Þar var lögð áhersla á að Sambandið skyldi tryggja „jafnvægi í umfjöllun evrópskra fjölmiðla þegar fjallað er um efni sem tengjast arabaheiminum.“ Það er út af fyrir sig forvitnileg spurning hvernig Sambandið eigi að fara að því í tilviki frjálsra fjölmiðla. Einnig er forvitnilegt við skjalið að þar er hvergi minnst á neina tryggingu fyrir jafnvægi í umfjöllun um Vesturlönd í arabískum fjölmiðlum. (Bls. 224 til 226.)

Þetta dæmi af Javier Solana er aðeins eitt af ótalmörgum um hvernig þokukenndir draumar um „fjölmenningu“, pólitísk „rétthugsun“ og alls konar vinstra kjaftæði gerir fólk sem er fylgjandi mannréttindum, skoðanafrelsi og jafnrétti kynjanna berskjaldað fyrir ásælni íslamisma. Þessi barnalegi vesaldómur birtist í ýmsum myndum. Ein þeirra er „litla svarta Sambó heilkennið.“ Gefum Jespersen og Pittelkow aftur orðið:

… „litla svarta Sambó heilkennið“ … felst í því að ekki þyki viðeigandi að gera sömu kröfur til fólks af framandi uppruna, þar á meðal múslima, og gerðar eru til Vesturlandabúa. …

Með aðstoð litla svarta Sambós geta menn ástundað tvöfalt siðgæði: þeir geta haldið uppi frjálslyndri ímynd með harkalegri gagnrýni á kristna og aðra „afturhaldsseggi“ sem upprunnir eru í Evrópu. Á sama tíma styðja þeir trúarpólitík af íslömskum uppruna sem er andstæð frelsi. Þeir auðsýna mikinn skilning ef múslimar óska bænaherbergja á vinnustöðum, en ef kristnir bæðu um altari á sama stað yrðu þeir fremstir í flokki með nístandi háð. (Bls. 184 til 185.)

Ég læt þetta duga í bili um þessa ágætu bók en ég býst við að skrifa aðra hugleiðingu um hana á næstu dögum.

Muhammeds ansigt - pistill af http://this.is/atli/ frá 13. október 2005
Hvað væri skynsamlegt að gera ef strangtrúaðir kaþólikkar sem telja sölu á smokkum hin verstu helgispjöll hótuðu að myrða ritstjóra vegna þess að hann legði nafn guðs við hégóma eða vegna þess að smokkar hefðu verið auglýstir í blaði hans? Ættum við að hneykslast á ritstjóranum fyrir að ofbjóða hinum trúuðu? Ég held ekki. Raunar held ég að ef ritstjóra væri hótað lífláti fyrir að birta sárasaklaust efni í blaði sínu ættu allir aðrir fjölmiðlamenn sem unna ritfrelsi að ganga í lið með honum og birta samsvarandi efni. Ætli morðóðum ofsatrúarmönnum féllust ekki hendur ef þeir þyrftu að kála þúsundum ritstjóra.

Einhverjum kann að þykja þetta allt heldur fjarstæðukennt. En annað eins gerist. Þann 29. september birti Jyllandsposten (www.jp.dk) tólf teikningar af Múhameð spámanni undir fyrirsögninni „Muhammeds ansigt“. Það var broddur í sumum þeirra, sérstaklega þeirri næst síðustu sem sýnir teiknara sem hefur falið sig og dregið fyrir glugga meðan hann laumast til að teikna andlit spámannsins. Þessi mynd minnir á þá sjálfsritskoðun sem menn leggja á sig vegna ótta við morðvarga sem drepa fólk í nafni þess guðs sem Kóraninn kallar hinn milda og miskunnsama. Slík sjálfsritskoðun hefur færst í vöxt undanfarin ár, a.m.k. síðan íranskir klerkar dæmdu Shalman Rushdie til dauða fyrir að skrifa Söngva Satans.

Myndirnar í Jyllandsposten gerðu ekki lítið úr Múhameð. Þær voru miklu frekar gagnrýni á sjálfsritskoðun og uppreisn gegn óttanum. Og það þurfti hugrekki til að birta þær því starfsmönnum blaðsins hafa borist morðhótanir. Og hver hafa viðbrögðin verið? Sumir sem telja sig frjálslynda og víðsýna hafa andmælt myndbirtingunni á þeim forsendum að virða beri trú múslima. Ég veit ekki hvernig þetta sama fólk hefði brugðist við ef kaþólskir ofsatrúarmenn hefðu hótað að myrða ritsjóra Jyllandsposten fyrir að auglýsa smokka eða leggja nafn guðs við hégóma eða gera eitthvað annað sem þeir telja viðurstyggð en er samt fullkomlega heimilt samkvæmt dönskum lögum? Hitt þykist ég vita að það sé ekkert vit í öðru en að bregðast eins við. Mér vitanlega er engin ástæða til að gera upp á milli Islam og Kristni eða meðhöndla múslimi með öðrum hætti en t.d. kaþólikka. Trúlega væri réttast að allir ritstjórar sem láta sér annt um tjáningarfrelsi, hvort sem þeir gefa út blöð í Danmörku, á Íslandi eða annars staðar birti teiknimynd af Múhameð strax á morgun. Þar með væri hræðslunni gefið langt nef svo hún hrökklaðist burt og léti ekki meira á sér kræla.

Myndirnar af Múhameð - pistill af http://this.is/atli/ frá 4. febrúar 2006
Í lok september birti Jyllandsposten (www.jp.dk) nokkrar teiknimyndir af Múhameð spámanni (sjá skrif hér frá því í október). Umræðan hefur síðan undið upp á sig og æsingurinn út af þessum teiknimyndum aukist stig af stigi. Sumt er merkilegt í þessari umræðu, sérstaklega kannski hvernig margir Vesturlandabúar sem hafa samúð með málstað trúaðra múslima láta eins og Jyllandsposten hafi bara tekið upp á því af tilefnislausu að ráðast á það sem öðrum er heilagt. Þessar teiknimyndir voru ekki tilefnislaus árás heldur viðbrögð við ástandi sem íslamskir ofsatrúarmenn hafa búið til. Þeir hafa hvað eftir annað hótað að myrða menn sem tjá sig á annan hátt en þeir álíta guði þóknanlegt. Frægasta dæmið um þetta er auðvitað dauðadómurinn yfir Shalman Rushdie. Afleiðing þessara hótana er að fjölmiðlar eru farnir að tipla á tánum í kringum málefni sem varða islam og samfélög múslima í Evrópu. Menn þora ekki að segja hug sinn af ótta við ofbeldisverk. Þegar svo er komið er fullt vit í að gera uppreisn gegn óttanum eins og Jyllandsposten gerði síðasta haust. Evrópskir múslimir geta komið í veg fyrir að þörf sé á slíkri uppreisn. Leiðtogar þeirra geta t.d. minnt á að ef einhver drepur Shalman Rushdie þá sé það eins og hvert annað morð, hvorki göfugt né guði þóknanlegt. Þeir geta líka minnt á að morðið á Theo van Gogh var ódæðisverk og ekkert annað.

Meðan áhrifamiklir talsmenn trúarbragða gefa því undir fótinn að það eigi að svara gagnrýni með morðum og ofbeldi er fráleitt að þeir sem ekki eru sekir um neitt verra en svolítið „guðlast“ á léttum nótum þurfi að biðjast afsökunar. Umburðalyndið og skilningurinn á málstað innflytjenda í Evrópu er komið út í hreina vitleysu ef menn eru hættir að skilja að morðhótun er alvarlegur glæpur, en teiknimyndagerð (jafnvel þótt smekklaus sé, óviðkunnanleg eða kjánaleg) er ekki glæpur.

Málþing um heimspeki í skólum

Laugardagur, 17. nóvember 2007

Í dag sat ég málþing um heimspeki í skólum sem haldið var í Háskóla Íslands. Þar sem ég hef sjálfur fengist við að kanna slík fræði í framhaldsskóla í rúma tvo áratugi, og verið heldur einn á báti við þá iðju, hlakkaði ég til að hitta aðra sem fást við svipaða kennslu.

Sumt af því sem þarna var sagt á ég sjálfsagt eftir að hugleiða og nota svo síðar, vonandi til einhvers gagns fyrir nemendur mína.

Þótt margt hafi verið vel sagt á málþinginu fannst mér dálítið miður hvað sumir fyrirlesarar tóku mikið upp í sig og voru fullyrðingaglaðir um gagnsemi heimspekikennslu. Allir virtust sammála um mikilvægi þess að innræta börnum og unglingum gagnrýna hugsun. En heimspekingar sem boða gildi slíkrar hugsunar eru að mínu viti ekki mjög trúverðugir nema þeir séu að minnsta kosti ofurlítið gagnrýnir á sjálfa sig og sín eigin fræði.

Lengst gekk síðasti ræðumaður, Kristín H. Sætran, sem hélt því bæði fram að íslenskir framhaldsskólar væru ómögulegir og nemendum þeirra leiddist og að heimspekikennsla fyrir alla nemendur gæti útrýmt leiðindunum, komið í veg fyrir brottfall, sparað ríkinu stórfé og nánast leyst allan vanda skólanna.

Mér þótt hún ýkja nokkuð ágalla skólakerfisins. En hvað um það. Gallalaust er það ekki og full þörf á duglegum umbótamönnum með ferskar hugmyndir. En það er samt frekar ódýrt að halda því fram á fundi með 20 heimspekimenntuðum mönnum að heimspekikennsla sé lausnin. Það væri mun djarfara að fara með slíkan boðskap á fund með fulltrúum annarra fræðigreina, sem flestir vilja koma sínum hugðarefnum að í skólakerfinu.

Sjálfur hef ég efasemdir um að heimspeki sé heppilegt skyldufag fyrir alla nemendur. Hún kann að eiga erindi inn í ýmsar greinar. Til dæmis á siðfræði erindi í lífsleikni, þekkingarfræði í ýmis bókleg fög og rökfræði má vera hluti af stærðfræðikennslunni. Flest skólastarf getur líka haft gagn af samræðulist í anda Sókratesar, svolitlum skammti af efahyggju og vilja til að skoða alls konar hugmyndir í stað þess að dæma allt sem ekki passar við kennslubókina úr leik að lítt athuguðu máli. Þetta gera góðir kennarar í ótal greinum. Til þess þarf vissulega talsverða samskiptahæfileika, skarpa greind og sjálfsöryggi til viðbótar við gott vald á námsgreininni. Kennarar sem loka á samræður og slá á puttana á nemendum sem segja eitthvað frumlegt eru trúlega flestir frekar litlir í sér. Þeir stækka hvorki né fara að leita sér að annarri vinnu þótt bætt sé nýrri námsgrein í stundatöflur nemendanna.

Heimspeki sem skyldufag er tæplega til þess fallin að útrýma leiðindum úr skólastofunum, því þótt heimspekingum kunni að finnast það ótrúlegt þá þykir sumu fólki heimspeki ekkert skemmtileg. (Mig rámar líka í að hafa einu sinni hitt íþróttakennara sem fannst ótrúlegt að nokkrum manni leiddust boltaleikir.)

Heimspeki í framhaldsskólum hefur hingað til verið skemmtileg, meðal annars vegna þess að hún hefur verið valgrein svo nemendurnir hafa gengið til leiks með því hugarfari að þetta yrði gaman. Hluti af skemmtilegheitunum er líka vegna þess að kennararnir geta skipulagt kennsluna eftir eigin höfði, en þurfa ekki að fylgja neinni námskrá. Þeir geta því, hver og einn, miðlað því sem þeim sjálfum finnst merkilegt og notið sín sem persónur í kennslunni. Þessar tvær uppsprettur skemmtilegheita munu líklega úr sögunni um leið og aðalnámskrá skilgreinir heimspeki sem skyldufag.

Nýjar reglur um fjárfestingaráðgjöf og verðbréfaviðskipti

Miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Hvílík dýrð og hvílík dásemd. Ég fékk bæði bréf frá Landsbankanum og Kaupþingi þar sem mér voru „kynntar“ nýjar reglur um fjárfestingaráðgjöf og verðbréfaviðskipti. Af innbyggðri samviskusemi renndi ég yfir fyrra bréfið, en þótt ég reyndi skildi ég ekki nærri allt sem í því stóð. Ég skildi þó að bankinn ætlaðist til að ég staðfesti að ég hefði kynnt mér þessar reglur.

Það var lína á einu blaðinu sem ég gat kvittað í og greinilega gert ráð fyrir að ég sendi bankanum bréfið til baka með undirskrift sem staðfesti að ég hefði sett mig inn í eitthvað sem ég skildi ekki. Ég kunni ekki við að setja nafnið mitt undir þetta, enda varla hægt að segjast hafa kynnt sér mál ef maður veit ekki enn almennilega um hvað það snýst. Ég hringdi því í bankann og spurði hvort ég mætti ekki bara treysta honum áfram fyrir peningunum mínum án þess að ljúga því upp á mig að ég hefði meðtekið efni bréfsins.

Konan sem varð fyrir svörum sagði að bankanum væri óheimilt að aðstoða mig við fjárfestingar í hlutabréfum fyrr en ég hefði staðfest að ég hefði kynnt mér reglurnar– þetta væru fyrirmæli frá æðstu stöðum í sjálfri Brussell og þau væru í lög leidd til að vernda neytendur og tryggja þeim góða þjónustu. Þetta var kurteis kona og mér þótti heldur óviðkunnanlegt að þræta við hana svo ég spurði hvort ég gæti ekki bara gefið bankanum munnlegt leyfi til að sjá um mín mál án þess að skrifa undir neitt. Hún kvaðst þá geta merkt við á einhverjum stað, sem ég man ekki hvað hún kallaði, að ég hefði staðfest að mér væru kunngerðar reglurnar góðu. Ég gerði ekki athugasemdir við það.

Vel má vera að þetta regluverk sé sett í þeim tilgangi að tryggja hag okkar sem eigum viðskipti við banka. Og það er líka vel trúlegt að einhvern daginn verði bakaríum bannað að selja mér snúð og vínarbraut eða ráðleggja mér um val á afmælistertu nema ég kvitti fyrir að hafa kynnt mér áhrif þess á heilsuna að úða í mig sætabrauði. Þær reglur verða sjálfsagt líka settar í góðum tilgangi. En það er eins og Hallgrímur sagði Passíusálmunum að „góð meining enga gjörir stoð“ enda ekkert mikið meiri vandi að vera pest og plága í góðum tilgangi heldur en illum.

Ef ég hef viðskipti við banka og skrifa ekki upp á að kunna eða þekkja neinar sérstakar reglur þá er það sem bankinn má gera mér takmarkað af lögum og þeim loforðum sem hann gefur. Að ég segist kunna, þekkja eða skilja lögin getur tæpast takmarkað svigrúm eða rétt bankans til að taka sína hagsmuni fram yfir mína. Hins vegar getur slík undirskrift, ef mér skjátlast ekki, undir vissum kringumstæðum rýmkað heimildir bankans á minn kostnað. Ef það er eitthvað sem er bannað að gera mér, nema ég veiti til þess samþykki, þá getur undirskrift sem staðfestir að ég hafi kynnt mér einhver ákvæði, ásamt þeirri staðreynd að ég hef ekki andmælt þeim, líklega jafngilt slíku samþykki.

Ég skildi ekki þessar reglur og átta mig því ekki á hvernig þær vernda mína hagsmuni. Ég skil ekki heldur hvaða vernd mér getur verið í því að staðfesta að ég hafi kynnt mér reglurnar. Ætli ég verði ekki enn jafnskilningsvana þegar umhyggjusöm yfirvöld í Brussell setja svipaðar reglur fyrir bakarí og þau hafa nú sett fyrir banka. Og hvað með þá sem eru bara of takmarkaðir til að geta kynnt sér flóknar reglur? Verður kannski bannað að eiga viðskipti við þá, greiðslukortin þeirra klippt í sundur og þeir geymdir einhvers staðar afsíðis sjálfum sér til verndar og hagsbóta?

Hvert er málið með verðkannanir?

Fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Ef ég ætlaði að gera verkönnun mundi ég líklega velja svona 20 vörutegundir af handahófi og senda einhverja í nokkrar verslanir til að kaupa jafnmikið í þeim öllum og hirða strimilinn. Ef þetta er gert oft hlýtur að fást niðurstaða sem er þokkalega marktæk. Sennilega þarf þó að fá nokkuð stóran hóp af fólki til að fara í búðirnar svo ekki sé hætta á að verslunarmenn fari að þekkja þessa kúnna og veita þeim sérstök vildarkjör.

Það virðist ekki mjög flókið mál að gera verkönnun– varla neitt mikið flóknara heldur en að gera skoðanakönnun. En einhvern veginn hefur samt tekist að framkvæma þetta þannig að verslunareigendur geta auðveldlega svindlað og látið koma fram lægra verð í könnunum heldur en það sem viðskiptavinir greiða í raun og veru. Og vegna þess að þeir geta auðveldlega svindlað eru þeir auðvitað grunaðir um að gera það.

Stofnanirnar sem framkvæma verðkannanir pæla nú í að taka upp nýjar aðferðir í stað þess að koma í búðir og tilkynna að nú eigi að gera verðkönnun og biðja verslunarmennina að finna vörurnar fyrir sig. Nýju aðferðirnar sem á að taka upp eiga, að mér skilst, að vera eins og þær gömlu að því leyti að um þær verður samið við verslunarmenn og þeir beðnir að afhenda upplýsingar um verð. Og auðvitað verður áfram freistandi fyrir þá að hagræða þessum upplýsingum og auðvitað verða þeir áfram grunaðir um að falla fyrir þeim freistingum.

Þetta er álíka gáfulegt eins og ef Gallup semdi við stjórnmálaflokkana um hverja ætti að hringja í þegar eru gerðar skoðanakannanir eða ef löggan hefði samkomulag við bifreiðaeigendur um hvar og hvenær hún yrði með umferðareftirlit.

Langt á eftir öðrum þjóðum

Þriðjudagur, 6. nóvember 2007

Fólk sem er pirrað og ergilegt yfir einhverju, hvort sem það er langur vinnudagur, háir vextir, vondir vegir eða vínlausar matvörubúðir ber Ísland oft saman við einhver ótiltekin útlönd. Algengasta leiðin til að tjá óánægju er að segja eitthvað á borð við „þetta er langt á eftir því sem gerist í öðrum löndum“, „erlendis væri þetta aldrei liðið“ eða „svona nokkuð tíðkast hvergi með siðmenntuðum þjóðum.“ Svona orðalag kemur fyrir í fjölmiðlum á hverjum degi. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er til dæmis vitnað í konu sem heitir Gerður. Hún er að tala um bág kjör fatlaðs manns og segir „… það er staðreynd að Ísland er langt á eftir öðrum löndum hvað þetta varðar, …“

Nú veit ég svo sem ekkert hvernig kjörum fatlaðra er háttað í Afghanistan, Angóla, Argentínu og öllum hinum löndunum sem eru fyrir aftan þau í stafrófinu en ég giska á að í þeim flestum sé ástandið talsvert verra en hér. En þeir sem bera ástand mála á Íslandi saman við það sem gerist í einhverjum ótilteknum útlöndum eru kannski ekki að tala um Afghanistan, Angóla og Argentínu heldur einungis löndin í Vestur Evrópu eða við Norðanvert Atlantshaf eða kannski bara Norðurlöndin.

Svo merkilegt sem það er þá eru nær aldrei nein lönd tilgreind þegar fólk lýsir gremju sinni með því að fullyrða að allt sé betra í útlöndum. Útlöndin eru ævinlega einhver ótilgreind lönd. Þegar vegir eru betri í útlöndum þá eru þeir það í öllum öðrum löndum svona almennt og yfirleitt. Enginn nennir að bera vegi sem tengja 500 manna byggðir hér saman við vegi sem tengja jafnfámennar byggðir á einhverjum tilteknum stað í öðru landi.

Ein af ástæðum þessa er sjálfsagt að það þarf talsvert mikla þekkingu til að bera hluti saman af skynsamlegu viti en menn þurfa ekkert að vita til að gefa yfirlýsingar um útlönd almennt og yfirleitt. Það er sama hvað er fullyrt um dásemdir annarra landa, það má vafalítið til sanns vegar færa einhvers staðar á jörðinni. Svona fullyrðingar verða ekki hraktar því þær eru nær algerlega innihaldslausar og raunar gæti pirrað fólk í öllum löndum notað þær, því það er líklega sama hvar borið er niður alls staðar er eitthvað sem er í betra lagi einhvers staðar annars staðar.

Önnur ástæða er trúlega að nákvæmur samanburður er sjaldnast nógu óhagstæður fyrir ástand mála hér til að hægt sé að gera sér mikinn mat úr honum. Lífið er nefnilega, eftir því sem ég best veit, erfitt nokkuð víða um heim.

Mikilvægasta ástæðan fyrir öllum þessum yfirlýsingum um samanburð á Íslandi og ónefndum útlöndum er samt trúlega hvað það virkar gáfulegt og heimsborgaralegt að hafa yfirlýsingar um útlönd á hraðbergi, ekki bara þessi fáu sem maður hefur heimsótt í sumarfríum, heldur bara útlöndin öll eins og þau leggja sig. Með þessu er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, nefnilega að tjá pirring og ergelsi og láta í veðri vaka að maður sé vel að sér og þekki til í hinum stóra heimi. En óneitanlega væri miklu heiðarlegra að segja bara hreint út: „Ég er pirraður.“

Towards the Light

Sunnudagur, 4. nóvember 2007

Fyrr á þessu ári kom út hjá Bloomsbury forlaginu í London bók eftir A.C. Grayling sem heitir Towards the Light – The Story of the Struggles for Liberty & Rights That Made the Modern West. Í þessari bók er rakin saga mannréttinda og mannréttindabaráttu frá dögum Spænska rannsóknarréttarins til „stríðsins gegn hryðjuverkum“ nú í byrjun 21. aldar.

Grayling segir þessa sögu af miklum lærdómi. Hann hefur víða yfirsýn og fjallar með jafnljósum hætti um siðaskiptin, baráttu fyrir trúfrelsi, upplýsinguna, þróun lýðræðis og kvenréttinda, afnám þrælahalds, stofnun verkalýðsfélaga og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna svo nefnd sé nokkur efni sem fá rúm í þessari ágætu bók.

Þótt komið sé víða við missir lesandi aldrei þráðinn. Sagan sem sögð er í bókinni fjallar um eitt efni, hvernig alþýðufólk á Vesturlöndum eignaðist smám saman réttindi og öðlaðist frelsi sem enga nema æðstu menn gat dreymt um á fyrri öldum. Þetta var löng barátta og kröfum sem nú virðast sjálfsagðar var aftur og aftur svarað af yfirvöldum með hervaldi, fangelsunum, pyntingum og morðum.

Lokakafli bókarinnar fjallar um hvernig frelsi og mannréttindum farnast á okkar tímum og þar reynir Grayling að draga saman lærdóma sögunnar. Hann gerir sér fullvel ljóst að mannréttindi hafa alltaf átt undir högg að sækja en hefur áhyggjur af því að nú um stundir láti menn sér um of í léttu rúmi liggja þegar þau eru skert, oftast í nafni öryggis og almannahagsmuna.

Dæmin um nýleg bakslög í mannréttindamálum sem Grayling tekur eru frá Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem heimildir lögreglu og jafnvel hers til að njósna um fólk, hneppa í varðhald og beita harðræði við yfirheyrslur hafa verið rýmkaðar allverulega í þeim yfirlýsta tilgangi að koma í veg fyrir hryðjuverk. Mér virðist svipað vera uppi á teningnum í mörgum löndum og að sótt sé að mannréttindum af fleirum en þeim sem eru með hryðjuverkamenn á heilanum. Hræðsla við eiturlyfjasala, öfugugga, illþýði (bæði ímyndað og raunverulegt) og alls konar grýlur ýta undir kröfur um að lögregla fái að njósna um daglegt líf fólks og jafnvel að mönnum sé refsað án þess sekt þeirra sé í raun sönnuð.

Umræða sem elur á sífelldum ótta skapar andrúmsloft þar sem virðing fyrir mannréttindum á heldur erfitt uppdráttar. Grayling hefur því unnið þarft verk með því að skrifa þessa bók enda verður kannski aldrei of oft minnt á að samfélag sem tekur öryggi fram yfir frelsi fær að öllum líkindum hvorugt.