Færslur októbermánaðar 2007

Þriðjudagur 30. október

Þriðjudagur, 30. október 2007

Nú er komið vel fram yfir miðja önn og eins og ævinlega hafa nokkrir nemendur afrekað að skrópa sig út úr skóla. Að vanda hringjum við skólastjórnendur í forráðamenn þeirra sem eru undir 18 ára áður en við vísum þeim úr einstökum áföngum eða rekum þá alveg úr skólanum. Þetta er ekki mjög skemmtilegt verk. Eigi að segja eitthvað gott um það má kannski halda því fram að það sé lærdómsríkt. Meðal þess sem maður lærir af að tala við unglinga og  forráðamenn þeirra um vandræði eins og skróp er hvað lífið í rauninni fjári erfitt þrátt fyrir alla velmegunina og ríkidæmið.

Vinnan í skólanum gengur annars sinn vanagang. Mestur tíminn fer í skrifstofustörf og að svara ýmsum smáerindum en svo eru stærri uppákomur inn á milli og flesta daga gerist eitthvað skemmtilegt sem bregður birtu yfir starfið. Í dag hitti ég til dæmist starfsbrautina (fötluðu nemendurna og kennara þeirra) úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ sem höfðu að gamni sínu tekið strætó hingað upp á Skaga til að heimsækja nemendur og kennara á starfsbrautinni hér. Þetta var glaðlegur hópur sem leit við og skoðaði skólann og lagði svo leið sína á safnasvæðið að Görðum til að fræðast um liðna tíma og kannski líka til að skoða steinasafnið, kortasafnið og íþróttasafnið sem þar eru.

Eftir vinnu spjallaði ég svo stundarkorn í síma við stud. jur. Mána til að óska honum til hamingju með afmælið en hann er orðinn 22 ára.

Að leiðrétta Biblíuna

Fimmtudagur, 25. október 2007

Þeir sem þýddu nýjustu útgáfu Biblíunnar á íslensku virðast hafa tekið það upp hjá sér að leiðrétta fáeina ritningarstaði. Skrifa til dæmis „systkini“ þar sem stendur „bróðir“ (αδελφος) í gríska textanum.

Nú dettur mér ekki í hug að neita því að hinir fornu skrifarar hefðu betur gert bræðrum og systrum jafnhátt undir höfði. En mér finnst líka að þeir sem skrifuðu bækur Biblíunnar hefðu vel mátt hugsa sig betur um áður en þeir eignuðu guði sínum ýmsar verri kenjar en þá að taka bræður fram yfir systur. Dæmin eru mörg. Hér er eitt úr 23. kafla 3. Mósebókar:

Drottinn talaði við Móse og sagði: „Leið þú lastmælandann út fyrir herbúðirnar, og allir þeir, er heyrt hafa, skulu leggja hendur sínar á höfuð honum, og því næst skal allur söfnuðurinn grýta hann. Og þú skalt tala við Ísraelsmenn og segja: ,Hver sá, er formælir Guði sínum, bakar sér synd. Og sá er lastmælir nafni Drottins, skal líflátinn verða. Allur söfnuðurinn skal vægðarlaust grýta hann. …“

Ætti þýðandi kannski að leiðrétta þetta og láta Guð segja eitthvað annað við Móse, eitthvað sem samræmist betur hugmyndum trúaðra nútímamanna um sanngjörn og góðhjörtuð máttarvöld sem viðurkenna ekki bara jafnrétti karla og kvenna heldur líka málfrelsi og almenn mannréttindi?

Ættu þeir sem vilja breyta bræðrum í systkini, til að Biblían verði í anda jafnréttis, ekki að svara þessu játandi og leiðrétta bara alla bókina frá upphafi til enda og gera það almennilega svo enginn geti brigslað almættinu um forpokun eða hallærislega gamaldags skoðanir?

Mín vegna mega þeir það svo sem en ég vildi þá að þeir kölluðu sig eitthvað annað en þýðendur.

Eitthvað þessu líkt gerði enski presturinn Thomas Bowdler (1754 – 1825) sem gaf verk Shakespeares út án allra klúryrða. Hann lagaði sögur Gamla Testamentisins líka til svo þær hæfðu siðprúðum enskum börnum. Bowdler þessi er frægur af endemum og líklega mun pempíuskapur hans lengi uppi, því sögnin to bowdlerise er dregin af nafni hans. En hún merkir að breyta texta til þess að þjóna undir tilgerð og tepruskap.

Grundvallarþjóðfélagssjónarmið

Föstudagur, 19. október 2007

Í 43. grein Laga um útlendinga (nr. 96 frá 2002) segir

1. Heimilt er að vísa [EES- eða EFTA-útlendingi]1) úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis.
2. Brottvísun skv. 1. mgr. má framkvæma ef útlendingurinn sýnir af sér eða ætla má að um sé að ræða persónubundna háttsemi sem felur í sér raunverulega og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarþjóðfélagssjónarmiðum. Ef útlendingurinn hefur verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar má brottvísun af þessari ástæðu því aðeins fara fram að um sé að ræða háttsemi sem getur gefið til kynna að útlendingurinn muni fremja refsivert brot á ný.

Þessi lagagrein hefur verið í fréttum upp á síðkastið vegna þess að lögreglan hefur farið fram á að breskri konu sem heitir Miriam Rose verði vísað úr landi á þeim forsendum að vera hennar hér sé ógn „gagnvart grundvallarþjóðfélagssjónarmiðum.“ Óumdeilt er að kona þessi hefur brotið lög með mótmælum gegn stóriðju. Mér skilst að hún hafi meðal annars prílað upp einhver mannvirki og hlekkjað sig við hlið. Afbrot hennar hljóta þó að teljast fremur minniháttar og hún hefur verið dæmd fyrir þau og tekið út sína refsingu.

Krafa lögreglunnar um brottvísun úr landi virðist krafa um refsingu til viðbótar við þá sem Miriam Rose fékk fyrir dómi. (Þessari kröfu hefur verið hafnað og eftir því sem ég best veit fær hún að búa hér áfram.)

Nú veit ég ekki hvað orðið „grundvallarþjóðfélagssjónarmið“ merkir nákvæmlega en mér dettur í hug að átt sé við einhver gildi sem er mjög mikilvægt fyrir samfélagið að hafa í heiðri. Þetta gæti kannski verið eitthvað á borð við mannhelgi og friðsamlegar leiðir til að jafna ágreining eða hugsanlega gildi á borð við réttarríki, jafnrétti og lýðræði. Ef þetta er réttur skilningur má ætla að þeir sem drepa fólk, misþyrma því eða beita ofbeldi til að fá sitt fram brjóti gegn þessum sjónarmiðum og kannski líka þeir sem reyna að fá ríkið til að refsa fólki án dóms og laga, mismuna því eða beita valdi án þess að hafa til þess lýðræðislegt umboð.

Nú getur vel verið að hægt sé að færa fyrir því rök að Miriam Rose hafi beitt ofbeldi gegn starfsemi Alcan eða annarra fyrirtækja. Það er þó fremur langsótt að telja andmæli hennar beinlínis ógn við grundvallarþjóðfélagssjónarmið. Ég held að óþekkt væri ef til vill heppilegra orð. Hins vegar finnst mér umhugsunarefni hvort krafa lögreglunnar um að hún verði rekin úr landi samrýmist þeim gildum sem samfélag okkar byggist á.

Er það í anda réttarríkisins að heimta að útlendingur, sem hefur þegar afplánað sömu refsingu og íslenskur ríkisborgari fengi fyrir sama afbrot, sé að auki rekinn úr landi? Er það í anda mannhelgi að sundra fjölskyldu með því að dæma einn fjölskyldumeðlim til útlegðar af landi brott og það fyrir athæfi sem er meira í ætt við strákapör en stórglæpi?

Mér finnst líka umhugsunarefni hvort það sé nokkurt vit að nota orðið „grundvallarþjóðfélagssjónarmið“ í lagatexta eins og gert er í útlendingalögunum frá 2002. Það virðist hvergi vera útskýrt hvaða merkingu löggjafinn leggur í þetta orð. Er þeirri hættu kannski boðið heim að menn verði reknir úr landi fyrir það eitt að hugsa öðru vísi en þorri landsmanna, vera ósammála, sérvitrir eða bara á undan sinni samtíð? Að vísu er möguleikinn á að vísa manni úr landi takmarkaður við „háttsemi sem getur gefið til kynna að útlendingurinn muni fremja refsivert brot á ný.“ En þetta orðalag er líka ansi loðið. Gildir ekki um nánast allt sem menn gera að þeir gætu mögulega gert eitthvað svipað aftur?

Ég held að einn mikilvægasti kostur þess samfélags sem við lifum í sé að það leyfir mönnum að vera ósammála meirihlutanum, hugsa öðru vísi, mótmæla jafnvel hástöfum því sem flestir aðrir hafa fyrir satt. Það skyldi þó aldrei vera að 43. grein Laga um útlendinga sé sjálf ógn við grundvallargildi samfélagsins.

Skotlandsferð og pólitískur rétttrúnaður

Þriðjudagur, 16. október 2007

Í fyrradag kom ég heim úr þriggja daga ferð til Glasgow með hópi rúmlega 30 félagsmanna úr Félagi stjórnenda í framhaldsskólum. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja skóla og fór lunginn úr tveim dögum í það. Þriðja daginn, laugardaginn, var svo frí sem sumir notuðu til að versla, aðrir til að leik golf og enn aðrir til að skoða borgina. Sjálfur hékk ég mestallan daginn í bókabúðum og á Kelvingrove listasafninu. Það stendur við ána Kelvin sem rennur um vestanverða borgina og út stærri á sem heitir Clyde og var mikilvæg siglinga- og verslunarleið á árum áður.

Kelvin mun annars þekktust fyrir það nú  á tímum að einn af merkustu verkfræðingum og eðlisfræðingum allra tíma, William Thomson (1824-1907) kallaði sig eftir henni og nefndist Lord Kelvin. Ég sá íbúðarhús hans sem er rétt hjá Glasgow University. Það mun hafa verið fyrsta húsið á Bretlandi sem lagt var rafmagn í.

Við ferðafélagarnir fórum tvívegis saman út að borða. Í fyrra sinnið á kínverskan veitingastað. Við borðið þar sem ég sat var byrjað að tala um Kína enda hafði einn í hópnum ferðast þar um fyrir skömmu. Talið barst að Maó og ævisögu hans og auðvitað kom á daginn að sumir höfðu taugar til karluglunnar, litu jafnvel á hann sem einhvers konar hetju og þessu var auðvitað tekið af kurteisi enda eru skólastjórnendur upp til hópa alveg þokkalega háttvísir.

Það virðist sem sagt enn samræmast pólitískum rétttrúnaði að halda að Maó hafi verið vinur alþýðunnar og málsvari réttlætis og friðar en Jósef Stalín virðist endanlega fallinn í ónáð. Þó er það liðið sem sérviska hjá gömlum körlum að tala vel um hann og Lenín líka. En ef einhver lýsir aðdáun á Adolf Hitler fær hann um það bil alla þá skömm og fyrirlitningu sem hann á skilið og er þá engin afsökun að vera gamall eða sérvitur. Pólitískur rétttrúnaður mismunar þessum þrem afkastamestu morðingjum síðustu aldar því með nokkuð undarlegum hætti, enda er þessi rétttrúnaður fjarri því að vera sjálfum sér samkvæmur eða mynda rökrétt kerfi.

Málverk eftir Wu Wei og töluorð á grísku

Laugardagur, 6. október 2007

Í morgun skruppum við Harpa Í Kópavoginn og skoðuðum sýningu á listmunum og handverki frá Wuhan í Kína. Þeir eru til sýnis í Gerðarsafni. Þessi sýning var jafnvel enn betri en ég bjóst við. Þó má finna að því að sumir smágerðir hlutir standa í fulldaufri birtu til að gott sé að greina alla drætti þerra.

Það verk á sýningunni sem ég staldraði lengst við er stór mynd af guðum hamingju, arðsemi og langlífis sem var máluð af manni sem hét Wu Wei og var uppi á 15. öld. Það eru sérstakir töfrar í þessari mynd og þessi ágætu guðir eru ótrúlega glaðlegir og sælir á svip.

Ég lít við og við í kennslubækur í grísku. Það verður þó að viðurkennast að námið gengur fremur hægt enda er þetta mál talsvert flókið. Það er kannski ekkert flókið að læra að

tría (τρια) þýðir þrír,
ðekatría (δεακτρια) þýðir þrettán,
tríanda (τριαντα) þýðir þrjátíu og
tríakosia (τριακοσια) þýðir þrjúhundruð.

Þá er næst að læra að tesera (τεσσερα) þýðir fjórir og nú heldur maður að hægt sé að mynda orðin fyrir fjórtán, fjörtíu og fjögurhundruð með sama hætti og þrettán, þrjátíu og þrjúhundruð eru dregin af orðinu fyrir þrjá. Þetta gildir um fjórtán en ekki fjörtíu og fjögurhundruð því

tesera (τεσσερα) þýðir fjórir
ðekatesera (δεκατεσσερα) þýðir fjórtán
saranda (σαραντα) þýðir fjörtíu og
tetrakosia (τετρακοσια) þýðir fjögurhundruð.

Þegar litið er á orðin yfir 300 og 400 virðist eðlilegt að álykta að kosia (κοσια) þýði hundrað. En ekki er það alveg svo einfalt. Hundrað í eintölu er ekato (εκατο).

En þeim sem tala íslensku ferst víst ekki að fjargviðrast yfir því að gríska sé flókin. Það er varla neitt auðveldara að læra okkar töluorð þar sem

tveir menn geta á
öðrum degi rætt
tveim tungum um
tvö efni í
tvennum skilningi og
tvær konur geta tekið
tvennt fyrir með
tvíræðum hætti í
tveggja mínútna samtali þann
annan maí.

Villtir svanir og vitlaus byggðastefna

Mánudagur, 1. október 2007

Þegar ég var búinn með bókina um Maó (Mao - The unknown story) eftir Jung Chang og Jon Halliday náði ég mér í Villta svani eftir Jung Chang. Í þeirri bók segir hún sögu sína, móður sinnar og ömmu og um leið sögu Kína frá þeim tímum þegar Japanir réðu yfir Mansjúríu fram yfir menningabyltinguna á árunum kringum 1970.

Jung kann að segja sögu og Villtir svanir er mögnuð bók. Sögusviðið er heill heimur, Kína á síðustu öld. Samt er þetta saga um fáeinar manneskjur sem lesandinn kynnist og fær samúð með. Þetta víða sögusvið og þessi stór heimur sem myndar bakgrunn sögunnar gera hana volduga og mikla eins og Stríð og frið eftir Tolstoy. En samt inniheldur sagan svo margt af því smáa sem skiptir máli fyrir eina manneskju. Vonandi koma þeir tíma fljótlega að landar Jung Chang í Kína fái að kaupa bækur hennar eða fá þær lánaðar á bókasafni.

Ég hef oft kveikt á ríkisútvarpinu í vinnunni. Kann vel við suma tónlistarþættina og vil helst ekki missa alveg af fréttum þó ég hafi ekki þolinmæði til að horfa á sjónvarp. Það lagast kannski ef koma rásir sem hægt er að hraðspóla.

Eitt af því sem vakti athygli mína í útvarpinu í dag var hneykslun og reiði fólks yfir þeirri hugmynd að veita atvinnulausu fólki styrk til búferlaflutninga svo það ætti auðveldara með að fara þangað sem vinnu er að hafa. Þessi reiði var ekki vegna þess að útgjöldin yrðu of mikil. Menn virtust aðallega reiðir yfir því að til stæði að auðvelda búferlaflutninga frá stöðum þar sem er óhagkvæmt að búa. Þetta er eitt dæmið af mörgum um hvað byggðastefna er komin út í mikla endemis vitleysu.

Fyrir löngu röðuðu landsmenn sér kringum landið til að nýta fiskislóð og bithaga. Meðan nær allir lifðu á því að róa til veiða og halda sauðfé til beitar var ekki um annað að ræða en að nýta sem mest af strandlengjunni og gróðurlendinu. Menn dreifðu sér af illri nauðsyn en ekki vegna þess að þeim þætti fásinnið svo ákaflega skemmtilegt. Þessar aðstæður heyra sögunni til og þær koma vonandi ekki aftur.

Ég get vel unnt atvinnulausu fólki þess að fá styrk til að flytja á staði sem vinnu er að hafa. Ef fólkið kýs fremur að nýta styrkinn til að flytja til Reykjavíkur en á Reyðarfjörð er það líklega vegna þess að það kýs fremur að búa í Reykjavík. Að bölva og ragna vegna þess að búferlaflutningarnir séu andstæðir þeirri úreltu stefnu að dreifa fólki sem mest um landið sýnir best hvað þessi byggðastefnuvitleysa er í hróplegu ósamræmi við hagsmuni, langanir og þarfir raunverulegs fólks.