Færslur septembermánaðar 2007

Klukkan 21 á þriðjudegi

Þriðjudagur, 25. september 2007

Það er gott að vera ekki aðgerðalaus. Þótt önnin sé komin vel af stað hef ég meira en nóg við að vera. Allan daginn í dag var ég að stefnumótunarfundi með stjórn Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands sem haldinn var á Hamri hjá Borgarnesi. Ole Imsland framkvæmdastjóri Rogaland kurs og kompetansesenter i Stavanger í Noregi leiddi fundinn og gerði það vel enda maður með mikla reynslu af uppbygginu á fullorðinsfræðslu og kennslu fyrir atvinnulífið. Eftir fundinn skutlaði ég Ole til Reykjavíkur og ég var að koma heim.

Ole heimsótti okkur hér í Fjölbrautaskóla Vesturlands í gær og skoðaði skólann. Ég rétt náði upp á Akranes í tæka tíð til að taka á móti honum því milli 10 og 11:30 var ég með tíma í stjórnmálheimspeki við HÍ.

Verkefnin í skólanum biðu á meðan ég var að þessu spani svo ég var í vinnunni til klukkan 19 í gær. Tíminn milli 18 og 19 er svo sem ágætur til sumra verka. Þá er friður í skólanum og þegar þarf að hringja í foreldra er best að gera það í kringum kvöldmat, því þá eru flestir heima hjá sér og svara í símann. Í gær talaði ég við nokkuð marga foreldra nemenda sem hafa skrópað í kennslustundir. Það er ekki mjög skemmtilegt verk að klaga krakka fyrir foreldrum sínum. En maður verður stundum að gera fleira en gott þykir.

Unglingarnir sem koma til okkar eru sumir hissa á að framhaldsskóli skuli hafa samband við foreldra eins og grunnskólar gera. En lögum samkvæmt eru þeir börn og á ábyrgð forráðamanna sinna til 18 ára aldurs.

Mao - The unknown story

Laugardagur, 15. september 2007

Bókin Mao - The unknown story eftir Jung Chang og Jon Halliday er mögnuð lesning og óhugnanleg. Þessi bók er með því nöturlegasta sem ég hef lesið. Ég hefði varla trúað því að hægt væri að segja skelfilegri sögur en þær sem ég þekkti fyrir um þrælasölu á 19. öld, hryllinginn í fangabúðum Nazista eða meðferð Stalíns á þjóð sinni. En ef þær sögur eru ekki fyrir viðkvæma þá er ævisaga Maós formanns það miklu síður. Hún segir sögu sem er hræðilegri en ég hefði getað ímyndað mér.

Ógnarstjórnin sem lýst er í bókinni myrti fólk ekki með því að fara með það afsíðis eins og böðlar Nazista gerðu. Hún þvingaði venjulegt fólk til að murka lífið hvert úr öðru og þeir sem voru hvorki drepnir, né neyddir í böðulshlutverkið voru þvingaðir til að horfa á og „fagna“ grimmdarverkunum.

Stalín bannaði fólki að lesa skáldverk sem fjölluðu um pólitík samtímans en hann bannaði ekki allan bóklestur. Maó fór hins vegar langt með að útrýma öllum listum og bókmenntum. Verstu harðstjórar Evrópu lokuðu stóra hópa inni í fangabúðum þar sem þeir voru sveltir og píndir en Maó breytti stórum hluta ríkisins í svona fangabúðir þar sem fólk svaf í skálum og hjón fengu sjaldan að hittast, heimilishald var aflagt, fólk var svipt öllu einkalífi, milljónir sultu til bana og aðrir hjörðu á hungurmörkum.

Tilveran þessa daga og ritdómur í Þjóðmálum

Fimmtudagur, 13. september 2007

Þá er haustönn komin vel af stað og mesta annríkið við að byrja skólaárið frá. Framundan eru vonandi bara venjulegir átta til sautján vinnudagar. Í gær var þó tími til að gleðjast yfir 30 ára afmæli skólans, en Fjölbrautaskólinn hér á Akranesi var settur í fyrsta sinn 12. september 1977. Í tilefni dagsins var terta á kennarastofunni í löngufrímínútunum og ég sá ekki betur en starfsmenn væru í hátíðarskapi. Annað kvöld fer starfsfólkið svo saman út að borða. Fleira er á döfinni í tilefni afmælisins, meðal annars stórtónleikar þar sem fyrrverandi nemendur leika listir sínar.

Ég var að fá 3. tölublað 3. árgangs Þjóðmála inn um bréfalúguna. Í blaðinu er ritdómur eftir mig um nýlega bók eftir Ólaf Pál Jónsson sem heitir Náttúra, vald og verðmæti. Texti ritdómsins liggur hér frammi.

Ósýnilegir fætur í framhaldsskólum

Sunnudagur, 2. september 2007

Eitt af því sem ég held að geri samfélag að góðu samfélagi er að menni fá umbun fyrir að vinna vel og gera öðru fólki gagn en græði lítið á að verða öðru fólki til ama og tjóns. Launin sem menn fá fyrir að gagnast náunga sínum geta verið greidd í öðru en peningum. Ást og virðing eru jafnvel enn betri umbun en hér verður samt aðallega rætt um hagræna hvata.

Skotinn Adam Smith, sem uppi var á 18. öld, lýsti hagrænum hvötum í markaðshagkerfi sem ósýnilegri hönd sem leiðir menn þannig að þeir geri náunga sínum gagn jafnvel þó þeir reyni aðeins að græða sjálfir. Vel heppnað markaðskerfi byggist á því að hagrænir hvatar ýti undir hegðun sem er til góðs fyrir heildina. En það er ekkert lögmál að hagrænir hvatar ýti aðeins undir góða hegðun og sama má svo sem segja um aðra hvata. Samfélög geta verið svo öfugsnúin að eftirsókn eftir virðingu hvetji til illverka og hagkerfi geta verið með þeim ósköpum að menn græði á að spilla verðmætum.

Það má kannski líkja hagrænum hvötum sem hafa vond áhrif við ósýnilegan fót. Honum er brugðið fyrir menn svo þeir koma engu góðu til leiðar jafnvel þótt þeir vildu gera öðru fólki gagn.

Hagrænir hvatar hafa verið mér umhugsunarefni undanfarin misseri vegna þess að fjárhagsleg umbun er tekin að móta íslenska framhaldsskóla með öðrum hætti en fyrr. Ég hef áður fjallað um áhrif þess á skólastarf að ríkið greiði skólunum fyrir „þreyttar einingar“ fremur en t.d. framfarir nemendanna. (Sjá grein mína „Samkeppni framhaldsskóla“ sem birtist í 3. hefti, 2. árg. Þjóðmála.) Þetta veldur þrýstingi á skólana að láta nemendur hespa af sem flestum einingum og þar með að minnka það erfiði sem þeir þurfa að leggja á sig fyrir hverja einingu.

Það er ekki fjarri lagi að reiknilíkanið sem úthlutar skólum fé úr ríkissjóði sé ósýnilegur fótur. Það ýtir undir gengisfall á námi. Þetta má skýra með dæmi. Hugsum okkur að skóli bjóði upp á þrjá áfanga sem allir teljast jafnmargar einingar. Hugsum okkur líka að tveir þessara áfanga séu þannig að nemandi þurfi ekkert fyrir því að hafa að taka þá (þeir séu fisléttir fyrir hann eða hann kunni efni þeirra fyrir) en einn sé erfiður fyrir nemandann og hann standi frammi fyrir vali milli þess að eyða tíma sínum í að taka þá tvo auðveldu eða þann eina erfiða. Ef skólinn getur haft áhrif á val nemandans er freistandi að beina honum í þá tvo auðveldu, þótt hann þroskist lítið af því, fremur en þann eina erfiða, því skólinn fær tvöfalt meira greitt frá ríkinu fyrir nemanda sem tekur tvöfalt fleiri einingar.

Ár eftir ár eru skólar undir pressu að hafa einingarnar frekar margar og léttar en fáar og þungar.

En þótt skólar hafi verið undir svona pressu hefur hún virkað hægt enda hefur hún ekki haft bein áhrif á kjör einstakra kennara. Framhaldsskólakennari sem kennir sínum 4 til 5 hópum fær sama kaup hvort sem hann er kröfuharður eða ekki. Hagrænir hvatar hafa væntanlega fremur lítil áhrif á hegðun hans nema í þeim tilvikum þar sem vinnustaðasamningar tengja launahækkanir við mat á gæðum kennslunnar. Þar sem slíkt tekst með sæmilegu móti má ætla að kennarinn hafi fremur ávinning af því að vinna vel og stuðla að því að nemendur sínir nái árangri. En meginreglan er samt að kennari fær greitt fyrir hverja kennslustund og umbun fyrir að vera sérlega góður kennari, gera kröfur og styðja nemendur í að standast þær, er yfirleitt virðing nemenda og samstarfsmanna fremur en peningar.

Ef til vill hafa kjarasamningar kennara átt sinn þátt í að koma í veg fyrir að öfugsnúnir hagrænir hvatar spilltu skólastarfi meira en orðið er. En svo bregðast krosstré sem önnur tré.

Allmargir skólar sem bjóða upp á fjarkennslu greiða kennurum fyrir hvern nemanda en ekki fyrir hvern áfanga. Við þessar aðstæður borgar sig fyrir kennara að hafa sem flesta nemendur. Með því að hafa þá nógu fjandi marga er hægt að raka saman fé. Eina leiðin til að sinna mjög mörgum nemendum er að sinna hverjum þeirra lítið. Kennari sem hefur mjög marga nemendur í fjarnámi, og aðeins 24 tíma í sólarhringnum, getur ekki varið löngum tíma í samskipti eða verkefnayfirferð fyrir hvern og einn. Hann hefur samt efnahagslegan ávinning af því að taka að sér heldur fleiri en færri. Þetta er annað dæmi um ósýnilegan fót í skólunum, hagrænan hvata til að vinna illa.

Ég vil ekki gera lítið úr því að þrátt fyrir hvata til annars vinna margir, vonandi langflestir, kennarar af alúð og samviskusemi. En það er samt barnaskapur að halda að það hafi engin áhrif á skólastarfið ef það er meira á því að græða fyrir stjórnendur og kennara að fá nemendur til að hespa af sem flestum einingum en á því að þjálfa þá og mennta. Hagræni hvatinn er vitlaus og ég held að það sé sama hvað menn yfirleitt halda um hagræna hvata og hversu mikil áhrif þeir eru taldir hafa, það hljóta allir að vera sammála um að það sé betra að hafa þá enga en ranga.

Ég hef áhyggjur af framtíð skólanna þegar hagrænir hvatar sem hafa áhrif á kennara ýta undir sömu óheillaþróun og hvatarnir sem pressa á skólastjórnendur að gengisfella námið. Það borgar sig fyrir skólana að nemendur geti klárað sem flestar einingar, því hver eining sem nemandi þreytir próf í færir skólanum fé úr ríkissjóði. Þegar um fjarkennslu er að ræða borgar sig oftast nær líka fyrir kennarana að hafa lítil verkefnaskil að baki hverri einingu, því þá geta þeir sinnt fleiri nemendum og fengið hærra kaup. Nemendur sem sækjast eftir prófgráðum með sem minnstri fyrirhöfn kvarta ekki. Hver klagar skóla fyrir að hafa sett sér of lítið fyrir og gefið sér of háa einkunn? En þeir sem borga ættu kannski að klaga og líka þeir sem láta sér annt um menntun og menningu eða álíta starfsheiður kennara einhverju varða.