Færslur ágústmánaðar 2007

Mao Tse-Tung og persónur Stanley Kubrick

Miðvikudagur, 29. ágúst 2007

Í mörgum af kvikmyndum Stanley Kubrick er svipuð pæling sem er eitthvað í þá átt að góðmennska sér veikleiki: sá sem er nógu ófyrirleitinn og samviskulaus hafi betur í valdatafli. Í Barry Lindon verður söguhetjan til dæmis undir, tapar, vegna þess að hún hikar við að skjóta krakka. Í A Clockwork Orange vegnar Alex á endanum „vel“ vegna þess að hann er hreinræktaður óþokki alveg inn að beini. Í myndinni Spartacus sigrar sá sem er til í að beita ótakmörkuðum hrottaskap.

Þessar myndir hafa rifjast upp fyrir mér við að lesa fyrsta þriðjunginn af ævisögu Maós formanns: Mao, the unknown story eftir hjónin Jung Chang og Jon Halliday (Anchor Books, New York 2006). Þetta er mikil saga og vel skrifuð og ef hún er sannleikanum samkvæm var Maó eins og „sigurvegari“ í mynd eftir Stanley Kubrick, algerlega heill og sannur í illskunni.

Þessi bók eftir skáldið Jung Chang (höfund Villtra svana) og sagnfræðinginn Jon Halliday virðist stórmerkileg. Þau hafa talað við ótrúlegan fjölda af gömlu fólki í Kína og grafið upp furðuleg kynstur af torsóttum fróðleik enda bókin enginn smádoðrantur.

Það hefur verið fundið að því að frásögnin sé ekki hlutlaus sagnfræði og víst er það rétt að höfundar fella dóma, láta í ljós eigið álit og viðra tilgátur sem er varla nokkur leið að rökstyðja almennilega. En ég sé ekki betur en að fullyrðingar þeirra um einstaka sögulega atburði séu studdar tilvitnunum og heimildum (þó auðvitað hafi ég engin tök á að meta hvort þær heimildur eru áreiðanlegar). Ef þau hefðu reynt að skrifa hlutlausa bók hefði útkoman trúlega orðið heldur leiðinlegri lesning.

Fyrsti hluti sögunnar segir frá því hvernig Maó braust til valda innan kínverska Kommúnistaflokksins, þótt flestir flokksmenn hefðu heldur illan bifur á honum. Þeir sem öttu kappi við hann áttu það til að hika við manndráp og pyntingar en Maó var til í að gera hvað sem var fyrir völd og hafði því betur á endanum. En þrátt fyrir óþokkaskapinn hafði hann sinn sjarma, var gáfaður, ljóðrænn og á ýmsan hátt flottur gæi alveg eins og Alex í A Clockwork Orange.

Vikan sem leið og grískunám

Sunnudagur, 26. ágúst 2007

Fyrsta vika skólaársins er jafnan annasöm hjá okkur stjórnendum. Ég var í vinnu fram á kvöld mestalla vikuna og þurfti líka að mæta í skólann í gærmorgun þó það væri laugardagur því þá hófst kennsla í meistaraskólanum hjá okkur, þ.e. hjá þeim sem lokið hafa sveinsprófi í iðn og eru að bæta við sig námi til iðnmeistaraprófs. Allt var þetta svo sem fremur ánægjulegt enda er Fjölbrautaskóli Vesturlands skemmtilegur vinnustaður.

Í svona viku gerir maður ekki mikið annað en að vinna. Ég hef þó aðeins kíkt í kennslubækur í grísku á kvöldin. Mér datt það í hug suður á Krít í sumar að það væri skemmtilegt að geta talað við fólk þar svo ég keypti bók sem heitir Learn Greek without a Teacher og er að hugsa um að læra tófta part af henni í hverjum mánuði. Ég verð þá kominn í gegnum hana eftir árið.

Grískan er svolítið eins og íslenska með kynjum og föllum á nafnorðum og fornöfnum og sagnirnar beygjast ekki alveg ósvipað og hjá okkur. Ég sé, þú sérð, hann sér er til dæmis ego vlepo (εγω βλεπω), esi vlepis (εσυ βλεπεισ), aftos vlepi (αυτοσ βλεπει). Í framsöguhættinum eru sagnirnar svo auðvitað öðru vísi í fleirtölu (við sjáum er emis vlepúme (εμεισ βλεπουμε) o.s.frv.) og enn öðru vísi í þátíð og sumar með sérstaka framtíðarbeygingu sem á sér ekki samsvörun í íslensku. Af þessum sökum er engin hætta á öðru en bókin endist árið. Beygingakerfið er þó að því leyti einfaldara en í íslensku að föllin eru bara þrjú (því þágufallið hvarf endanlega úr grísku fyrir um það bil þúsund árum) og beygingaflokkar sagna og nafnorða eru miklu færri (til dæmis beygjast karlkyns nafnorð eiginlega bara á tvo mismunandi vegu í grískunni en í íslensku beygjast orðin köttur, hundur, rjómi og sykur hvert með sínu móti).

Það er annars gaman að því hvað mörg orð í grísku eru kunnugleg. Sólin heitir til dæmis ilios (ηλιοσ) sem er af sama stofni og helíum. Sögnin að skína er lambo (λαμπω) sem ég hugsa að sé skyld orðinu lampi og orðið yfir mjólk, gala (γαλα), er kunnuglegt því það er fyrri helmingurinn af galaxy. Svona mætti lengi telja. Um að bil hálfur orðaforðinn á sér samsvörun í einhverju sem maður kannast við. Orðin sem ekki líkjast neinu og minna ekki á neitt er erfiðara að muna. Fyrir mig er að minnsta kosti meira átak að leggja það á minnið að föstudagur heiti paraskevi (Παρασκευι) heldur en að laugardagur heiti savato (Σαββατο).

Það er fleira líkt með grísku og íslensku en beygingakerfið. Það er líka ansi margt svipað í sögu þessara mála. Í þeim báðum hefur hljóðkerfið einfaldast með ámóta hætti (með fækkun sérhljóða, hljóðdvalarbreytingu og hvað þetta nú heitir) og þróun þeirra á 20. öld var að verulegu leyti stýrt af málhreinsunarmönnum sem vildu halda tungunni hreinni og varðveita hana lítt breytta. Fyrir vikið eru bæði málin með orð af innlendri rót yfir fjölmargt sem aðrar þjóðir hafa tökuorð um. Sem dæmi má taka vegabréf sem heitir ðiavatirio (διαβατιριο) á grísku og lögreglu sem hjá þeim kallast astinomia (αστυνομια).

Ricci og kristniboð í Kína

Sunnudagur, 19. ágúst 2007

Heimspeki Vesturlanda var lítt þekkt í Kína fyrr en á 20. öld en Vesturlandabúar fengu dálitla nasasjón af hugsun Kínverja þegar Kristmunkar (Jesúítar) hófu kristniboð þar undir lok 16. aldar.

Fyrsta trúboðsstöðin þarna austur frá var stofnuð árið 1583 af ítölskum presti sem hér Matteo Ricci. Hann var fæddur árið 1552 og var því orðinn rúmlega þrítugur þegar hann fór til Kína þar sem hann dvaldi til dauðadags árið 1610. Hann fór víða um Kínaveldi. Síðustu árin dvaldi hann í Beijing og mun hafi verið fyrsti Vesturlandabúinn sem fékk að koma inn í keisarahöllina þar. Honum var veitt innganga eftir að hann gaf Wanli keisara evrópska klukku. Ekki mun hann þó hafa heitt keisara sjálfan.

Sagan segir að Ricci hafi fljótt orðið altalandi á kínversku og rit hans sem varðveist hafa sýna að hann skrifaði kínverskan stíl jafngóðan og lærðustu menn austur þar. Hann lærði að bera virðingu fyrir heimspeki Kongzi, enda taldi hann að þessi forna kínverska viska gæti að mestu samrýmst kristinni trú og beindist viðleitni hans einkum að því að fá áhangendur  hennar til fylgis við Jesú. Við Taóista og Búddhista hafði hann minna að segja.

Tilraunir Ricci til að sætta evrópska og kínverksa hugsun gengu svo langt að hann kallaði sig vestrænan konfúsíanista og þýddi rit Kongzi á latínu. Það var Ricci sem gaf honum nafnið Confucius (sem á íslensku er ritað Konfúsíus) og undir því nafni hefur hann síðan verið þekktur meðal Evrópumanna.

Ricci var líklega óvenjulega víðsýnn og umburðarlyndur maður. Hann vildi laga kristniboðið að hugsunarhætti kínverja og taldi ekkert athugavert við að þeir héldu siðum sínum, forfeðradýrkun og konfúsískum helgiathöfnum áfram þótt þeir tækju skírn. Eftirmaður hans, Nicolo Longobardo, sem tók við forystu í trúboði Kristmunka í Kína að Ricci látnum, hafði aðra afstöðu. Hann áleit að Kínverjar yrðu að breyta algerlega um siði ef þeir ætluðu að verða kristnir menn.

Þessi ágreiningur Ricci og Longobardo endurspeglaðist í skrifum Evrópumanna um Kína næstu 100 árin. Annars vegar voru þeir sem álitu Kínverja annað hvort efnishyggjumenn eða villutrúarmenn með kolrangar hugmyndir um hinstu rök tilverunnar. Hins vegar voru þeir sem tóku undir sjónarmið Ricci og álitu kínverska menningu jafnoka þeirrar evrópsku og vildu að við lærðum af þeim ekki síður en þeir af okkur.

Fremstur í flokki þeirra sem fylgdu Ricci að málum og héldu fram jákvæðum viðhorfum til kínverskrar heimspeki var Þjóðverjinn Gottfried Wilhelm Leibniz. Hann taldi að það besta í speki Kongzi væri, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki svo ólíkt sönnum og réttum kristindómi (sem kann að skýrast að nokkru leyti af því að kristindómurinn sem Leibniz aðhylltist var eilítið öðruvísi en hjá flestum öðrum).

Frummyndakenningin og Li

Miðvikudagur, 15. ágúst 2007

Fyrir nokkrum dögum, nánar tiltekið þann 10. ágúst, skrifaði ég örfá orð hér um samkenni evrópskrar og kínverskrar heimspeki. Þótt þessir menningarheimar hafi þróast um aldir án neinna tengsla sín á milli koma svipaðar hugmyndir fyrir í heimspekiritum frá þeim báðum. Vissulega er ekki hægt að útiloka að það sé vegna þess að hugmydir spyrjast frá manni til manns og ferðast þannig um hnöttinn. Til dæmis bárust ýmsar pælingar frá Indlandi bæði í austur og vestur. En svo geta menn líka fengið svipaðar hugmyndir án þess að um sé að ræða neitt samband á milli þeirra.

Ein af umtöluðustu kenningum evrópskrar heimspeki fyrr og síðar er frummyndakenningin sem Platon setti fram í Faídóni, Ríkinu og fleiri bókum. Þessi kenning átti að svara spurningum eins og:

  • Um hvað eru stærðfræðingar að tala þegar þeir segja frá beinni línu sem hefur enga breidd, er þráðbein og óendanlega löng eða hringi sem eru fullkomlega kringlóttir? Svona hlutir eru ekki til í efnisheiminum (jafnvel reglustika sem virðist þráðbein reynist skörðótt ef hún er skoðuð í smásjá).
  • Hvernig stendur á því að við höfum hugmynd um fullkomið réttlæti, eða algerlega beina línu þótt við höfum hvergi rekist á slík fyrirbæri?
  • Ef spurt er hvað allir þungir hlutir (allir rauðir hlutir, allir kringlóttir hlutir) eiga sameiginlegt þá er eðlilegast að svara þyngd (rauðan lit, hringlögun). Hlýtur þá ekki að vera til eitthvað sem heitir þyngd (rauður litur, hringlögun)?

Svar Platon við öllum þessum og þvílíkum spurningum er að til viðbótar við áþreifanlega hluti séu til frummyndir, þ.e. hlutir á borð við beinu línuna sem slíka, tölurnar, réttlætið og eiginleika á borð við þyngd, liti og lögun. Þessi fyrirbæri taldi Platon að væru óbreytanleg þannig að þótt t.d. einstök dæmi um réttláta menn og réttlát ríki komi og fari haldi réttlætið sjálft alltaf áfram að vera til og breytist ekki.

Helst er að skilja að Platon hafi talið að fyrir hvert hugtak sé til frummynd, þ.e. óhlutstæður veruleiki sem það vísar til.

Að sumu leyti virðist þetta undarleg kenning og hún vekur erfiðar spurningar eins og hvar þessar frummyndir geti eiginlega verið? Þessari spurningu svarar Platon ekki nema með líkingamáli. Sumir kristnir fylgismenn hans á seinni öldum hafa álitið að frummyndirnar séu í raun og veru hugsanir í huga Guðs. Þeir hafa þá sagt eitthvað á borð við að réttlætið sem slíkt (eða beina línan sem slík) sé réttlætið (beina línan) eins og Guð hugsar sér það (hana).

Pælingar sem eru nauðalíkar þessum má finna í ritum fylgismanna Kongzi frá 11. og 12. öld. Þeirra kunnastur er líklega Zhu Xi sem uppi var á árunum 1130 til 1200. Líkt og fyrirrennarar hans taldi hann að hver tegund hefði sitt li eða form eða eðli og þetta li væri óbreytanlegt og utan við heim áþreifanlegra hluta. Ýmislegt annað sem Zhu Xi sagði um li er afar líkt því sem Platon sagði um frummyndir einu og hálfu árþúsundi fyrr og líka því sem evrópskir miðaldaheimspekingar, samtímamenn Zhu Xi, ræddu um svipuð efni.

Zhu Xi taldi að allir hlutir hefðu sitt li (eðli eða form) og þessi form væru einhvern veginn tímalaus og þau væru til þótt enginn hlutur félli að þeim.

Ein skemmtileg hugmynd sem þessi gamli kínverji ræddi var li heimsins alls. Ef sérhver hlutur hefur sitt form eða eðli og þetta form er eilíflega til utan við veröld þess áþreifanlega, hlýtur þá ekki li alheimsins að eiga sér eilífa tilveru? Þetta li heimsins taldi hann æðra en annan veruleika og hann áleit líka að það speglaðist í öllum hlutum, að jafnvel í því smæsta og ómerkilegasta væri mynd alverunnar fólgin. Þetta minnir svolítið á það sem Platon sagði um æðstu frummyndirnar, það fagra og það góða. En ég kannast ekki við að Platon hafi álitið að heimurinn allur speglaðist í hverjum minnsta hluta sínum. Sú hugmynd kemur hins vegar fyrir hjá Leibniz á 17. öld og hver veit nema hann hafi fengið hana frá Kína.

Búddha og Taó

Laugardagur, 11. ágúst 2007

Á mótunarárum klassískrar heimspeki í Kína þekktu landsmenn lítið til annarra menningarheima. Líkt og Grikkir til forna skiptu þeir mannkyninu í tvennt. Annars vegar landa sína, sem voru siðmenntaðir, og hins vegar villimenn. Af villimönnum var ekkert hægt að læra svo kínverskur menningarheimur myndaði nánast lokaða heild þar til á fyrstu öld e.Kr. þegar Búddhatrú barst austur þangað frá Indlandi.

Kenningar Búddha eru um sumt líkar taóismanum sem kínverjar þekktu af ritum Laózi og Zhuangzi og vildu sumir skýra þetta með því að sá fyrrnefndi hefði farið til Indlands og kennt Gauthama prins, upphafsmanni Búddhismans, fræði sín– enda sagði sagan að Laózi hefði horfið í ellinni og gat hann ekki eins hafa farið til Indlands eins og hvað annað. Sagnfræðingum nútímans finnst þessi skýring víst ekki mjög trúleg. En hitt er víst að meðal Kínverja blandaðist útlend Búddhatrú saman við innlendan taóisma og af þessari blöndu spratt meðal annars sú stefna í Búddhisma sem þekkt er undir japanska heitinu zen-búddhismi.

Sagt er að á 3. og 4. öld e.Kr. hafi fræðimenn sem aðhylltust taóisma og Búddamunkar átt vingott. Gildi þess tilvistarlausa var hvorum tveggju hugleikið. Um það höfðu þeir engin orð. Það sem ekki er það fær mannlegt mál ekki fangað, því tjáðu þeir hug sinn með brosi og skildu þögn hver annars.

Kínversk heimspeki og evrópsk

Föstudagur, 10. ágúst 2007

Heimspeki Kínverja er um það bil jafngömul evrópskri heimspeki. Kongzi var uppi um svipað leyti og fyrstu grísku spekingarnir.

Þótt hæpið sé að neinn samgangur hafi verið milli Grikkja og Kínverja er sumt líkt í fornri heimspeki Kína og Vesturlanda. Dulspekin í ritum taóista er ekki alveg ósvipuð sumu sem finna má hjá grískum Platónistum og hugmyndir Yin-Yang skólans um að tölur séu lykillinn að leyndardómum tilverunnar eru líkar talnaspeki Pyþagórasar og fylgismanna hans.

Þegar kemur fram á seinni aldir er meira álitamál hvort hugmyndir séu líkar vegna þess að þær hafi borist á milli heimshluta. Á 17. öld kynntust lærdómsmenn í Evrópu kínverskum menningarheimi dálítið, meðal annars af frásögnum kristniboða. Þýski fjölfræðingurinn og heimspekingurinn Leibniz ritaði til dæmis talsvert um Kína og kínverska menningu og á 18. öld koma vísanir í kínverska sögu allvíða fyrir hjá evrópskum heimspekingum eins og til dæmis skotanum David Hume.

Það væri gaman að komast að því hvort eitthvað af evrópskri speki frá 17. og 18. öld á ættir að rekja til Kína.

Í bók sinni A short History of Chinese Philosophy (The Free Press, New York 1948) bendir Fung Yu-Lan á að margt er sláandi líkt í taóismanum hjá Zhuangzi og heimspeki Hollenska gyðingsins Spinoza sem uppi var á 17. öld. Báðir leggja áherslu á að hin æðsta þekking færi mönnum heim sanninn um að allt er eins og það er af nauðsyn sem ekki fæst umflúin og hún færi huganum jafnframt hamingju og lausn frá amasömum geðshræringum (bls. 109). Það sem Zhuangzi segir um að sjá hlutina í himnesku ljósi er líkt því sem Spinoza kallar að skoða tilveruna undir sjónarhorni eilífðarinnar þaðan sem sést að það sem fyrst virðast andstæður er í raun eitt og hið sama (bls. 112). Dularfullar hugmyndir Zhuangzi um að sannur vitringur eigi sér eilíft líf, því hann sé eitt með alheiminum og nái þannig langt út fyrir sinn dauðlega skrokk, minna líka á pælingar Spinoza um að þekkingin hefji menn yfir allan forgengileika.

Fleira má tína til í evrópskri heimspeki frá seinni öldum sem á sér samsvörun í kínverskum fornritum. Það sem Mengzi (sem var fylgismaður Kongzi) sagði um uppruna siðferðisins er til dæmis mjög líkt kenningu Hume um sama efni. Mengzi áleit að fullmótað siðferði væri hvorki meðfætt né innbyggt í mannlegt eðli en að menn hefðu með náttúrulegum hætti tilhneigingar sem væru eins og frækorn að siðferði, eitthvað sem góðmennska sprytti upp af ef menn þroskuðust við rétt skilyrði.

Líkt og Hume, sem uppi var meira en tveim árþúsundum seinna, áleit Mengzi að samúð væri mönnum í blóð borin og hún væri sá angi sem góðmennskan yxi af. Hann sagði: „Ég segi að hjarta mannsins finni til með öðrum og ástæðan er þessi. Hugsum okkur að einhver sjái barn sem er í þann mund að falla niður í brunn. Undir slíkum kringumstæðum yrði öllum brugðið og allir fyndu til samúðar. Þetta er ekki vegna þess að menn vænti launa frá foreldrum barnsins og ekki vegna þess að þeir sækist eftir vinsældum meðal nágrannanna þeirra og vinafólks og ekki heldur vegna þess að þeim líki ekki að heyra öskrin í því.“ (Snarað eftir Readings in Classical Chinese Philosophy, Hackett Publishing Company, Indianapolis 2001, bls. 129.)

Hugmynd Mengzi um siðferði er að það sé ekki algerlega meðfætt eða náttúrulegt og heldur ekki alger tilbúningur eða eitthvað sem menn hafa sett saman með því að reikna út hvað er til hagsbóta fyrir þá. Það er, eins og Hume kenndi löngu seinna, orðið til vegna þess hvernig menningin og uppeldið bæta við náttúrulegar hneigðir. Þessi viðbót væri ómöguleg nema hneigðirnar væru til fyrir. Náttúrulegar tilhneigingar yrðu heldur aldrei að siðferði sem er öllum til góðs nema samfélagið og uppeldið stýrðu því hvernig nýjar hvatir vaxa upp af þeim.

Hvort Hume hafði spurnir af siðfræði Mengzi og hvort Spinoza þekkti eitthvað til Zhuangzi veit ég ekki. Þeir gætu hafa kynnst endursögum trúboða og annarra evrópskra Kínafara á hugmyndum úr austurheimi. Þeir gætu líka hafa rambað á svipaðar hugmyndir því hjörtum mannanna svipar saman víðar en bara í Súdan og Grímsnesinu.

Framhald í næsta bloggi.

Um lærdóm

Fimmtudagur, 9. ágúst 2007

Ummælum sem höfðu eru eftir Kongzi var safnað í rit sem kallast Lunyu. Á Vesturlöndum hefur það verið nefnt Analects. Rit þetta hefur komið út í íslenskri þýðingu Ragnars Baldurssonar í bók sem heitir Speki Konfúsíusar. Ragnar þýddi það úr frummálinu og skrifaði ítarlegar skýringar með og vandaðan inngang.

Í þessari gömlu bók er fjallað um mikilvægi þess að vera námfús, til dæmis í grein 17.8. þar sem stendur (á bls. 219 til 221 í íslensku þýðingunni sem kom út hjá Iðunni árið 1989):

Meistarinn sagði: „You, hefurðu heyrt um dygðirnar sex og lestina sex?“

Hann svaraði að það hefði hann ekki.

„Sestu hérna hjá mér, ég skal segja þér frá þeim. Þeim sem er annt um góðmennsku án þess að vera námfús er hætt við einfeldni. Þeim sem er annt um visku án þess að vera námfús er hætt við ístöðuleysi. Þeim sem er annt um orðheldni án þess að vera námfús er hætt við óhæfuverkum. Þeim sem er annt um heiðarleika án þess að vera námfús er hætt við umburðarleysi. Þeim sem er annt um hugdirfsku án þess að vera námfús er hætt við að vera uppreisnargjarn. Og þeim sem er annt um harðfylgi án þess að vera námfús er hætt við óbilgirni og ofstopa.“

Samkvæmt þessu dugar skammt að láta sér annt um dygðirnar (góðmennsku, visku, orðheldni, heiðarleika, hugdirfsku og harðfylgi) nema maður hirði líka um lærdóm. Kong-zi trúði engum rómantískum hugarórum um góðhjörtuð náttúrubörn sem breyttu rétt og siðlega án þess að styðjast við nokkurn lærdóm. Í þessu er siðfræði hans gerólík boðskap taóista sem dásömuðu gjarna einfaldar sálir og ómenntaðar.

Kannski er hugsun Kongzi um þetta efni ekki alveg ólík því sem Hallgrímur Pétursson kenndi Íslendingum á 17. öld, því Hallgrímur áleit líka að lærdómur væri forsenda fyrir góðu siðferði og kvað:

Lærður er í lyndi glaður,
lof ber hann hjá þjóðum;
hinn er ei nema hálfur maður,
sem hafnar siðum góðum.

Kínversk fortíðardýrkun

Miðvikudagur, 8. ágúst 2007

Eins og nefnt var í síðasta pistli leit Kongzi á það sem hlutverk sitt að miðla fornri menningu. Hann talaði af virðingu um kónga og aðalsmenn frá 12. öld f.Kr. Nöfn sem hann nefnir oft sem siðferðilegar fyrirmyndir eru King Wen, og Shou Gong sem uppi voru á þessum löngu liðnu tímum.

Sennilega er það að fyrir áhrif frá Kongzi að fortíðardýrkun setti lengi svip á hugsun Kínverja um stjórnmál og siðferði. Þeir sem andmæltu Kongzi reyndu gjarna að vísa í enn eldri fyrirmyndir. Þannig talar Mozi til dæmis um keisarann Yu sem kvað hafa verið uppi þúsund árum á undan Wen.

Söguna af Yu taldi Mozi styðja þá skoðun sína að menn ættu að taka almannahag fram fyrir ættrækni því Yu vann að gerð flóðvarnargarða í almannaþágu og unni sér engrar hvíldar og kom ekki heim þótt hann heyrði kveinstafi konu sinnar og barna.

Taóistar sem mæltu í senn gegn Kongzi og Mozi vísuðu í enn eldra kennivald og töldu sögur af keisurunum Yao og Shun styðja sitt mál en þeir voru uppi enn fyrr en Yu.

Kongzi

Þriðjudagur, 7. ágúst 2007

Kongzi (sem þekktur er á Vesturlöndum undir nafninu Konfúsíus) er talinn helsti upphafsmaður kínverskrar heimspeki. Hann fæddist árið 551 f.Kr. í héraði sem hét Lu og var þar sem nú er Shandong í austur Kína. Hann náði meira en 70 ára aldri og lést árið 479 f.Kr.

Í samfélaginu sem fóstraði Kongzi var lénsskipulag sem var ekki alveg ósvipað því sem Evrópumenn bjuggu við löngu seinna. Pólitískt vald fylgdi eignarrétti á jörð og þeir sem erjuðu akrana guldu lénsherrum fyrir jarðnæðið með kvaðavinnu og hluta af uppskerunni.

Um daga Kongzi var þetta lénskerfi orðið ævafornt enda á kínversk menning sér langa sögu. Meira en þúsund árum fyrir hans tíð hafði svæðið þar sem nú eru Henan og Shandong myndað pólitíska heild undir forystu Shang keisaraættarinnar sem ríkti frá 1766 til 1122 f.Kr. Þá tók Zhou ættin við og ríkti a.m.k. að nafninu til fram yfir daga Kongzi eða allt til 256 f.Kr.

Kongzi virðist ekki hafa litið á sjálfan sig sem frumlegan hugsuð. Þótt hann hafi markað tímamót með því að vera fyrsti sjálfstætt starfandi fræðimaðurinn og kennarinn á sínum heimaslóðum var honum fyrst og fremst umhugað um að miðla fornum menningararfi.

Eftir því sem best er vitað skrifaði hann ekki neitt sjálfur en lærisveinar hans skráðu ummæli sem þeir höfðu eftir honum og af þeim má ráða að hann hafi litið á valdatíma Shang ættarinnar og árdaga Zhou ættarinnar sem horfna gullöld. Honum var umhugað um að kenna samborgurum sínum að meta arfleifð þjóðar sinnar sem varðveitt var í Hinum sex fornu ritum: Bók breytinganna, Ljóðaritningunni, Söguritningunni, Helgisiðabókinni, Tónlistarbókinni og Vor- og hausannálunum. Síðast nefnda ritið er saga Lu héraðs og það sem fyrst var nefnt fjallar um spádóma.

Kongzi lifði breytingatíma og honum þótti samfélagið á fallanda fæti. Umbæturnar sem hann ráðlagði voru að hluta til siðferðileg vakning með áherslu á góðmennsku, hófsemi og lítillæti. Að þessu leyti má líkja honum við Búddha, Jesú og fleiri andlega leiðtoga. En hann var samt ólíkur trúarlegum leiðtogum að því leyti að kenningar um yfirnáttúrulegan veruleika gegndu litlu hlutverki í boðskap hans. Hann var líka einstakur í því að leggja áherslu á bóklegan lærdóm og virðingu fyrir fornri menningu, einkum fornritin sex sem fyrr voru talin. Íhaldssemi og áhersla á ættrækni og samheldni fjölskyldunnar einkenna líka boðskap hans.

Umrótið sem Kongzi var vitni að jókst eftir dauða hans og næstu aldir, eða fram til 221 f.Kr., var allmikið um hernað í Kína. Þessu ófriðatímabili lauk með því að Qin ættin komst til valda og sameinaði ríkið að nýju eftir að það hafði klofnað í smærri hluta. Nafn landsins „Kína“ kvað dregið af heiti þessarar ættar sem stjórnaði af mikill hörku í 14 ár. Frá þeim stutta tíma eru ljótar sögur af grimmd yfirvalda í garð alþýðu. En árið 206 eða 207 f.Kr. tók Han ættin við og ríkti lengi, eða í meira en 400 ár. Á valdatíma hennar leið lénsveldið undir lok og til varð miðstýrt samfélag þar sem embættismenn stjórnuðu í umboði keisarans og pólitískt vald var ekki tengt eignarhaldi á jörð eins og fyrr hafði verið.

Þegar Qin ættin náði völdum voru meira en 250 ár liðin frá dauða Kongzi og þessi 250 ár voru blómaskeið í kínverskri heimspeki. Merkir hugsuðir höfðu haldið fram því verki sem Kongzi hóf, að túlka fornan lærdóm. Þar var Mengzi fremstur í flokki. Aðrir höfðu andmælt stefnu Kongzi og mótað heimspeki af allt öðru tagi og fram komu margs konar stefnur. Í gömlum kínverskum bókum er talað um tíma hinna hundrað skóla. Þekktastir eru nú taóisminn sem boðaður var af Laozi og Zhuangzi og Mo-isminn sem kenndur er við Mozi (en um hann var fjallað hér þann 29. júní. Þá var þess einnig getið að „zi“ er skeytt aftan við nöfn kínverskra vitringa, en það orð mun merkja nokkurn veginn það sama og „meistari“.).

Í stuttu máli má segja að Mozi hafi andmælt áherslu Kongzi á skyldur við fjölskyldumeðlimi með kenningu um að hver og einn hafi sömu siðferðilegar skyldur við alla menn og taóistarnir hafi fundið að áherslu Kongzi á lærdóm og flókna siði og þess í stað lagt áherslu á náttúrulegt og einfalt líf. Um aðra heimspekiskóla frá þessum tíma mætti hafa langt mál en það verður að bíða.

Ráðamönnum Qin ættarinnar líkaði ekki öll þessi heimspeki. Þeir vildu að þegnar sínir hugsuðu allir á einn veg og fyrirskipuðu að heimspekirit skyldu brennd. Sem betur fer sluppu nokkrar bækur við að fara á bálið og þegar Han ættin tók við var aftur farið að skrifa þær upp.

Þótt keisarar Han ættarinnar gengju ekki svo langt að fyrirskipa eyðileggingu allra heimspekibóka reyndu þeir líka að samstilla hugsun þegna sinna. Niðurstaða þeirrar viðleitni var að á seinni hluta annarar aldar f.Kr. voru hin sex fornu rit og heimspeki Kongzi gerð að opinberri hugmyndafræði keisaradæmisins. Þetta var ekki gert með því að banna aðra heimspeki heldur með því að gera þekkingu á þessum ritum að skilyrði fyrir ráðningu í opinber embætti.

Eins og fyrr er getið fór vegur embættismanna vaxandi á tímum Han ættarinnar. Metnaðargjarnir ungir menn lærðu hin sex fornu rit og speki Kongzi til að standast próf sem voru forsenda fyrir frama í keisaraveldinu. Siðfræði Kongzi varð ríkisheimspeki og á stundum líka einhvers konar ríkistrú því við og við komu fram kenningar í þá veru að hann hefði verið guðlegrar ættar. Um miðja fyrstu öld f.Kr. voru hugmyndir um tengsl hans við yfirnáttúrulegan veruleika nokkuð útbreiddar en þær viku síðan fyrir raunsærri og jarðbundnari skoðunum um þennan helsta upphafsmann kínverskrar heimspeki svo um langan aldur var Kína ólíkt öðrum ríkjum í því að hafa ekki ríkistrú heldur ríkisheimspeki.

Að mestu byggt á A short History of Chinese Philosophy eftir Fung Yu-Lan (The Free Press, New York 1948) og Readings in Classical Chinese Philosophy (Hackett Publishing Company, Indianapolis 2001).