Færslur júnímánaðar 2007

Mozi

Föstudagur, 29. júní 2007

Nú er veðrið of gott til að hanga inni svo þessi færsla verður stutt enda ekki frá miklu að segja. Ég get þó minnt á að fyrir tveim og hálfu árþúsundi var uppi, austur í Kína, heimspekingur sem hét Mo og er kallaður Mozi, því siður að er skeyta „zi“ aftan við nöfn kínverskra vitringa.

Mozi skrifaði um stjórnmál siðfræði. Hann var kannski fyrsti nytjastefnumaðurinn, a.m.k. snúast kenningar hans um að menn eigi ætíð að hegða sér eins og best er fyrir heildina, forðast hvers kyns hlutdrægni og reyna að verða öðrum til gagns. Sumt af því sem hann segir minnir svolítið á Jeremy Bentham og sumt er kannski í dúr við kommúnisma 20. aldar. Kannski var Maó formaður Mo-isti ekki síður en Marx-isti.

Þótt sumt í skrifum Mozi sé furðu nútímalegt er ýmislegt hjá honum nátengt kínverskri menningu þess tíma. Hann lagði til dæmis mikla áherslu á mikilvægi þess að fólk væri sannfært um tilveru drauga og rakti margt sem aflaga fór í samfélaginu til þess að draugatrú væri á undanhaldi. Hann rökstuddi þetta á ýmsa vegu og benti meðal annars á að þeir sem ekki tryðu á drauga gætu framið ill verk á laun og ímyndað sér að enginn sæi til þeirra en þeir sem gerðu ráð fyrir að draugar væru á kreiki hlytu að búast við að það sem enginn lifandi maður sá gætu framliðnir séð og látið lifendur vita um.

Þessi rök Mozi fyrir mikilvægi dragatrúar eru svo sem vel skiljanleg nútímamönnum. Annað í skrifum hans er erfiðara að botna í, eins og til dæmis hvað honum þótti illt að menn sæktu tónleika, en tónlist var honum mikill þyrnir í augum. Kannski var andóf hans gegn henni af svipaðri rót runnin og andúð Platons á skáldskap. Kannski taldi hann bara það hún tefði menn frá þarfari verkum því Mozi var siðavandur og strangur og taldi að menn ættu að vinna eins og þeir hefðu þrek til. Hangs og slór var honum ekki að skapi.

Þorskurinn

Föstudagur, 22. júní 2007

Samkvæmt nýlegri skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um ástand nytjastofna á Íslandsmiðum og aflahorfur fiskveiðiárið 2007/2008 horfir heldur illa með þorskinn. Í skýrslunni segir:

Árgangar frá 2001 til 2006 eru allir metnir undir langtímameðaltali (170 milljónir nýliða við þriggja ára aldur). […] Meðalnýliðun þessara sex síðustu árganga er einungis um 117 milljónir fiska. Til samanburðar er meðalnýliðun árganganna frá 1997 til 2000, sem borið hafa uppi veiðina og stofninn á undanförnum árum, metinn á um 170 milljónir þriggja ára nýliða.

Ekki er nóg með að fiskunum fækki, einstaklingarnir eru einnig smávaxnari en verið hefur:

Meðalþyngd þorsks eftir aldri hefur lækkað verulega á síðustu árum og er meðalþyngd flestra aldursflokka […] í eða við sögulegt lágmark. Holdafar fisks sem er veginn í stofnmælingunum hefur hins vegar breyst lítið á undanförnum árum þannig að breyting í meðalþyngd orsakast af því að fiskurinn er styttri miðað við aldur.

Þetta eru heldur slæm tíðindi. Mér þykja viðbrögð manna við þeim þó ekki síður áhyggjuefni. Sumir neita einfaldlega að taka mark á Hafrannsóknarstofnun. Vissulega væri til bóta að fleiri rannsökuðu þorskstofninn og vissulega má vefengja sumt í mælingum og útreikningum stofnunarinnar. En ég hef ekki séð nein góð rök til að ætla annað en að mat hennar á lækkun meðalþyngdar sé a.m.k. nokkurn veginn rétt. Það má ef til vill deila um hvað nýliðunin er mikil en rökin fyrir því að hún hafi minnkað eru eftir því sem ég best fæ skilið nokkuð traust. (Á þessu ætti ég líklega að hafa þann fyrirvara að minn skilningur á þessu efni byggist ekki á neinni vísindalegri þekkingu. Ég hef sáralítið vit á líffræði.)

Innan um blaðskrif og fjölmiðalsnakk þar sem niðurstöður Hafrannsóknarstofnunar eru vefengdar ber talsvert á alls konar furðulegum hugmyndum um þorskinn. Því er til dæmis haldið fram að meiri veiði geti styrkt stofninn og það ætti að úthluta miklu meiri kvóta en fiskifræðingar mæla með. Samt er vitað mál að ofveiði hefur gengið nærri þorskstofnum úti fyrir Ameríku og í Norðursjó.

Sumir nota skýrslu Hafrannsóknarstofnunar í áróðri gegn kvótakerfinu þótt það geti varla talist trúlegt að það hafi mikil áhrif á afkomu þorsksins hvort hann er veiddur upp í aflamark eða í sóknardagakerfi.

Sennilegar skýringar á vesaldómi í þorskstofninum eru nokkrar, en of lítil veiði er ekki ein af þeim og kvótakerfið ekki heldur. Þær sem koma til greina og vert er að taka alvarlega eru eftir því sem ég kemst næst einkum:

a) Meiri veiði á stórum fiski en smáum.
b) Minni fæða.
c) Ofveiði.
d) Náttúrulegar breytingar á vistkerfi hafsins.
e) Notkun veiðarfæra sem skemma hrygningarstöðvar á hafsbotni.

Í New Scientist frá 9. júlí 2005 er merkileg grein sem varpar nokkru ljósi á a-lið. Þar segir frá því að rannsóknir sýni að þorskur undan strönd Nýfundnalands hafi orðið smávaxnari með hverju ári þar til veiðum var hætt á svæðinu á tíunda áratug síðustu aldar. Þar sem veiðimenn hirtu stærsta fiskinn og sá smæsti annað hvort slapp gegnum möskvana eða var hent lifandi fyrir borð urðu veiðar til þess að lífslíkur þorsks urðu því meiri því smávaxnari sem hann var. Útvegsmenn ræktuðu því beinlínis upp smávaxinn stofn. Eftir að þorskurinn þarna var friðaður hefur stofninum gengið fremur illa að ná sér og rekja greinarhöfundar það til þess að smáþorskur eignast fremur fá afkvæmi miðað við stóran þorsk sem er með miklu stærri hrognabelgi.

Jafnframt því að segja frá þessum rannsóknum á þorski hér fyrir vestan okkur gera blaðamenn New Scientist grein fyrir tilraun sem unnin var við Stony Brook háskólann í New York. Þar voru fiskar hafðir í eldi og líkt eftir veiðum með því að slátra stórvöxnustu 90% af fiskunum. Í annarri kví var smávöxnustu 90% slátrað. Eftir aðeins 4 kynslóðir var arfgengur stærðarmunur orðinn mjög mikill, því fiskarnir í síðarnefnda hópnum voru orðnir tvöfalt stærri en hinir þar sem líkt var eftir hegðun fiskimanna.

Af þessu öllu saman draga höfundar þá ályktun að það sé afar vitlaus veiðipólitík að hlífa smáfiski. Betra væri að þyrma þeim stærstu.

Liður b er umhugsunarefni ekki síður en a. Þorskstofninn hefur farið minnkandi eftir að veiðar á helstu fæðu hans eins og loðnu og rækju urðu stórtækar. Það gefur nokkuð auga leið að ef fæða þorsksins minnkar þá á stofninn erfiðara með að ná sér á strik. Um þetta segir í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar.

Auk loðnu virðist magn nokkurra annarra mikilvægra fæðutegunda hafa dregist saman á undanförnum árum. Rækja er töluvert mikilvæg fæðutegund hjá smæsta þorskinum en magn rækju hefur minnkað verulega á undanförnum árum, einkum á grunnslóð.

Nú er þessi færsla orðin ansi löng svo ég geymi liði c, d og e. En árétta að það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort ekki þurfi að finna leiðir til að hlífa stórvaxnasta fiskinum og hvort ekki sé ráð að draga úr veiðum á þeim tegundum sem eru aðalfæða þorsksins.

Eigin skrif og efahyggja Zhuang-zi

Sunnudagur, 17. júní 2007

Í síðasta hefti Skírnis (2007 vor, 1. tbl. 181. árg. bls. 203-215) er grein eftir mig sem heitir Um hjónabönd samkynhneigðra. Í nýjasta tölublaði Þjóðmála (2. hefti, 3. árg. bls. 31-35) á ég stutta grein sem heitir Efahyggja, umburðarlyndi og íhaldssemi. Báðar þessar greinar liggja frammi í pdf-skrám á heimsíðu minni http://this.is/atli/.

Bók eftir mig sem heitir Af jarðlegum skilningi og kom út hjá Háskólaútgáfunni árið 2001 er nú til sölu í vefbókaverslun Andríkis. (Hún fæst ekki lengur hjá forlaginu en hugsanlega eru einhver eintök til í öðrum bókabúðum.)

Bók um heimspekilega efahyggju sem ég hef unnið að undanfarið ár er nú loks að taka á sig endanlega mynd. Vonandi kemur hún út á fyrri hluta næsta árs. Það hefur verið skemmtilegt að vinna við þetta efni. Ég held mig við efahyggju í Vestrænni heimspeki en eitt af því sem ég uppgötvaði þegar ég var að kynna mér efahyggju grískra heimspekinga í fornöld er um svipað leyti kom lík stefna fram austur í Kína. Þar velti meistari Zhuang (eða Zhuang-zi eins og hann var kallaður á kínversku, en á því máli merki „zi“ meistari) fyrir sér rökum fyrir því að menn viti mun minna en þeir telja sig vita.

Zhuang-zi var annars lærisveinn Lao-zi þess sem eignuð er Bókin um veginn.

Efahyggja Zhuang-zi birtist viða í riti því sem við hann er kennt. Sumar pælingarnar og ráðgáturnar eru líkar þeim sem finna má í forngrískum textum. Í samræðunni Þeateitosi eftir Platon velta Sókrates og viðmælandi hans því til dæmis fyrir sér hvernig þeir geti vitað hvort þá er að dreyma og eru á einu máli um að slíka vitneskju sé ekki að hafa. Zhuang velti sömu ráðgátu fyrir sér. Hugsun sína um þetta efni orðaði hann svona á sinn ljóðræna hátt:

Eitt sinn dreymdi mig að ég væri fiðrildi sem flögraði hér og þar og fór mínu fram í samræmi við áform og markmið fiðrilda. Ég hafði aðeins meðvitund um að ég léti að duttlungum fiðrildis og hafði ekki vitund um sjálfan mig sem mennskan einstakling. En skyndilega vaknaði ég og þarna lá ég og var aftur ég sjálfur. En nú veit ég ekki hvort ég var þá maður sem dreymdi að hann væri fiðrildi eða hvort ég er nú fiðrildi sem dreymir að það sé maður.

Húsavíkurferð og innritun í framhaldsskóla

Sunnudagur, 10. júní 2007

Á fimmtudag og föstudag voru skólastjórnendur við framhaldsskóla samankomnir á Húsavík. Fyrri daginn var aðalfundur Félags íslenskra framhaldsskóla og þann seinni héldu stéttarfélög stjórnenda aðalfundi sína. (Fyrrnefnda félagið er fagfélag stjórnenda í framhaldsskólum.)

Svona samkomur eru haldnar á hverju vori og jafnan við framhaldsskóla fjarri Reykjavík. Þær eru alltaf jafnskemmtilegar, enda er margt af því fólki sem þarna kemur saman töluverðir karakterar. Jafnan er eitthvað haft til skemmtunar eftir fundi fyrri dagsins og að þessu sinni buðu Húsvíkingar í hvalskoðunarferð um Skjálfanda. Við sáum hnúfubak leika sér kringum bátinn í góða stund. Galti og Víknafjöllin voru líka sérlega glæsileg með snjó niður í hlíðar. Ég tók nokkrar myndir í ferðinni og sumar þeirra eru komnar á Flickr.

Fundinum var valinn tími nú þegar flestir hafa lokið við að ganga frá eftir vorönn og beðið er eftir að hægt verði að hefja innritun fyrir haustönn, en nemendur geta skráð sig í skóla með rafrænum hætti til miðnættis á morgun. Þangað til safnast upp listar þar sem unglingar velja skóla til að ganga í næsta vetur og tilgreina og einn, tvo eða þrjá til vara. Á þriðjudagsmorgun mega skólar svo byrja að vinna úr listunum, veita umsækjendum inngöngu. Þetta verður nokkurra daga törn.

Skólastjórnendur geta fylgst með stöðu skráninga. Um hádegi í dag höfðu 3526 af 4524 nemendum sem luku 10. bekk í vor valið skóla. Þetta eru um 78%. Sé gert ráð fyrir að 95% fari í framhaldsskóla eiga um 770 eftir að skrá sig. Mér sýnist að aðsókn að mínum skóla hér á Akranesi ætli að verða þokkaleg en hafði haft nokkrar áhyggjur af að nýr skóli í Borgarnesi tæki meira frá okkur.

Um Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson

Mánudagur, 4. júní 2007

Ég var að lesa nýlega bók eftir Einar Má Jónsson sem heitir Bréf til Maríu. Tveir vinnufélagar mínir höfðu látið vel af henni svo ég ákvað að gera smá hlé á lestri um heimspekilega efahyggju og renna yfir skrif Einars. Nýjasta sendingin frá Amazon af bókum um efahyggju í Zhuangzi of fleiri fornum ritum frá Kína bíður því í stafla við hliðina á tölvunni.

Ég bjóst við að bók Einars innihéldi bitastæða samfélagsgagnrýni. En hún er mest mælska og skáldskapur sem minnir svolítið á ungæðisleg skrif Þórbergs Þórðarsonar í Bréfi til Láru. Við lesturinn hefur mér liðið dálítið eins og eitt sinn þegar ég hlustaði á Erp Eyvindarson rappa samfleytt í tvo klukkutíma um „tussur og hórur og Bush og Blair.“ Í upphafi tónleikanna var ég svo illa að mér að halda að hann væri milli tektar og tvítugs og mér fannst þá svolítið sniðugt hvað hann var fljótur að ríma og fallega óðamála yfir allri vonskunni í heiminum. Svo var því hvíslað að mér að hann væri 29 ára gamall, þrátt fyrir strákslegt útlit, og þá fannst mér þetta aumkunarvert fremur en skondið.

Bók Einars virðist njóta nokkurra vinsælda og talsvert er um hana fjallað. Kannski er það að einhverju leyti vegna þess hvernig höfundur hefur allt á hornum sér. Hann úthúðar til dæmis frönskum heimspekingum frá síðustu öld, nýjungum á skólakerfinu og Evrópusambandinu og þar sem fordómar hans í garð þessar fyrirbæra eru um margt líkir mínum eigin kitlaði þetta einhverjar illkvittnar hláturtaugar inni í mér. Einhverjum örðum er sjálfsagt dillað yfir því sem hann segir um frjálshyggju, einkabíla og borgarskipulag. Líklega tekst honum að dekra svolítið við urg og óánægju hjá flestum lesendum með því að hneykslast nógu kröftuglega á einhverju sem þeir hafa ímugust á.

En þrátt fyrir lítið álit mitt á franskri samtímaheimspeki, frá og með Jean-Paul Sartre, tortryggni í garð Evrópusambandsins og vantrú á ýmsum nýjungum í menntamálum get ég ekki tekið gagnrýni Einars Más alvarlega. Hún er engan veginn málefnaleg.

Meginkenning bókarinnar virðist vera á þá leið að síðustu árin hafi nokkrar sveiflur í mannkynsögunni, sem sumar spanna langan tíma og sumar skamman, fallið saman og magnað hver aðra með þeim afleiðingum að samfélag Frakka og fleiri þjóða séu að fara til fjandans.

Einar gerir mikið úr sókn frjálshyggju og telur hana mjög til bölvunar. Ég reyndi að átta mig á hvort hann meinti frjálshyggju af því tagi sem boðuð er á www.andriki.is eða hvort hann væri frekar að tala um fjórfrelsið á Evrópska efnahagssvæðinu og alþjóðavæðingu. Við þessu finnast engin skýr svör í textanum. Fullyrðingar seint í bókinni um að Evrópusambandið sé að innleiða frjálshyggju í löndum sínum benda til að hann kenni mestalla miðjuna í evrópskum stjórnmálum við þessa stefnu.

Eina ritið um frjálshyggju sem hann nefnir og reynir að gagnrýna er frönsk bók eftir mann að nafni Henri Lepage. Af frásögn Einars að dæma er þetta afspyrnu vitlaus bók. Það sem hann tínir til eftir franska marxista er líka afspyrnu vitlaust. En það segir jafnlitla sögu um frjálshyggju og marxisma þótt hægt sé að láta gamminn geysa um það vitlausasta sem fylgismenn þessara hugmynda hafa sagt.

Meðal þess fáa sem Einar segir nokkru til lofs eru orð hans um samfélög Norðurlanda. Hann virðist telja norrænt velferðarkerfi og skandinavíska samfélagshætti, eins og þeir þróuðust á 20. öld, vera um margt til fyrirmyndar. Hann ræðir þetta snemma í bókinni og segir að í sínu ungdæmi hafi velferðarsamfélagið verið óumdeilt en nú sé „frjálshyggja“ búin að eyðileggja það. Kannski ólst hann upp í vernduðu umhverfi þar sem stuðningur við einstæðar mæður var óumdeildur, engum datt í hug að láta lesblinda krakka koðna niður í tossabekkjum eða bjóða heilsutæpum öldungum lélegan kost. Flest okkar koma úr harðari heimi og muna ekki þessa gullöld hins óumdeilda velferðarkerfis og flestum birtist „frjálshyggjan“ aðallega í mynd meira vöruúrvals, betri þjónustu og meiri þæginda sem vissulega leysa ekki nema lítinn hluta af tilvistarvanda mannfólksins, en eru heldur ekkert að fara með allt til andskotans eins og Einar virðist álíta. Ég kannast heldur ekki við að opinber velferðarkerfi hafi beinlínis verið aflögð neins staðar á Vesturlöndum þótt sums staðar hafi hægt á vexti þeirra.

Einar býr í Frakklandi og dæmin sem hann tekur eru mörg þaðan. Ég hélt að Frakkland væri það af löndum Vestur-Evrópu þar sem áhrifa frjálshyggju gætti hvað minnst í stefnu stjórnmálaflokka. Mér finnst því svolítið merkilegt að Einar Már skuli telja að hún sé að eyðileggja franskt samfélag. Er ekki trúlegra að það sem mest fer aflaga í Frans stafi af því sem þarlenda vantar en nágrannar þeirra hafa í ögn meira mæli? Getur ekki verið að ýmislegt gangi skár í Hollandi, á Bretlandi og í Skandinavíu vegna þess að þau lönd búa að sterkari frjálshyggjuhefð en Frakkland? Ekki eins og ég viti þetta. Af bók Einars Más virðist næsta ljóst að hann viti þetta ekki heldur, enda lætur hann gamminn geisa jafnt um efni sem hann virðist hafa vit á og mál sem mér sýnist hann ekki mjög kunnugur. Að minnst kosti fer illa saman að dásama skandinavísk samfélög og að telja frjálshyggju undirrót alls ills, því hún hefur óviða haft meiri áhrif en á Norðurlöndum, þar sem atvinnulíf hefur lengi verð meða frjálsasta móti, flest fyrirtæki í einkaeign og hagstjórn að mestu í anda frjálshyggju að öðru leyti en því að skattar hafa verið nokkuð háir. Norræna velferðarkerfið var byggt ofan á markaðshagkerfi og alls óvíst að mögulegt sé að byggja slíkt kerfi ofan á annars konar undirstöður.

Stundum skrifar Einar Már eins og hann aðhyllist einhvers kona vinstri jafnaðarstefnu. Það hvernig hann bölsótast yfir minnkandi áhrifum trúarbragða, afnámi latínukennslu í skólum og alþjóðavæðingu skipar honum þó fremur á bekk með íhaldsmönnum en krötum– og þá er ég ekki að meina frjálslyndum íhaldsmönnum, sem stundum eru líka kallaðir frjálshyggjumenn, heldur alvöru íhaldsmönnum eins og hægt er að finna í Teheran og Páfagarði. Sem betur fer er þessi reiðilestur ekki nema 350 blaðsíður. Á 100 síðum í viðbót hefði hann trúlega verið farinn að úthúða kvenréttindum og frjálsri sölu á getnaðarvörnum.