Færslur maímánaðar 2007

Das Leben der Anderen

Mánudagur, 28. maí 2007

Aldrei þessu vant horfði ég á sjónvarpið núna áðan, því kvikmyndin Vera Drake eftir Mike Leigh var sýnd í Ríkissjónvarpinu. Ég hafði séð þessa mynd áður. En hún er vel þess virði að horfa á hana tvisvar.

Ég ætlaði annars ekki að skrifa um Veru Drake heldur aðra kvikmynd. Hún heitir Das Leben der Anderen (Líf annarra) og er eftir Florian Henckel von Donnersmarck. Ég sá hana í Háskólabíói fyrir fáeinum dögum

Das Leben der Anderen gerist í Austur Þýskalandi um miðjan 9. áratuginn og fjallar um hvernig leyniþjónustan, Stasi, fylgdist með lífi almennra borgara. Fyrir utan einn ráðherra sem er óttalegur drullusokkur er fólkið sem fjallað er um í myndinni fremur gott fólk, skyldurækið og góðhjartað. En iðja leyniþjónustunnar vekur samt ótta og býr til andrúmsloft þar sem menn forðast að vera hreinskilnir og opinskáir. Tvær sögupersónur myndarinnar, leikstjóri og leikkona, fremja sjálfsmorð eftir að hafa lent í klónum á Stasi. Þau voru samt ekki beitt neinum pyntingum. Leikstjórinn var einfaldlega látinn hætta að vinna og leikkonan sveik unnusta sinn, rithöfundinn Georg Dreyman, þegar henni var bent á að ella fengi hún hvorki fleiri hlutverk né meira af læknadópinu sem hún gekk fyrir.

Þótt myndin fjalli um hvernig alræði ríkisins fer með fólk er húmorinn alls staðar nálægur og minnir svolítið á skopið í kvikmynd Wolfgangs Becker, Goodbye Lenin, sem er líka uppgjör við kommúnismann í Austur-Þýskalandi.

Það er hægt að horfa á Das Leben der Anderen sem sagfræðilega mynd. Mér skilst að hún segi nokkuð rétt frá vinnubrögðum Stasi. Það er líka hægt að horfa á hana sem mynd um hvernig kerfi sem á að vera vinveitt alþýðunni og tryggja öryggi almennings getur eyðilagt samfélagið, skapað ótta, tortryggni og jarðveg fyrir spillingu. Ef eitthvað er óhugnanlegt við Stasi mennina í myndinni er það helst hvað þeir eru venjulegt fólk, velviljaðir og samviskusamir. Ég hugsa að fleiri áhorfendum en mér hafi dottið í hug að ekki þurfi svo mikið að breytast til að við sitjum einn daginn uppi með eitthvað í dúr við Stasi– það gæti gerst án þess neinir öfgamenn á borð við kommúnista eða fasista geri byltingu eða valdarán?

Kannski er myndin holl lexía fyrir þá sem trúa á aukið eftirlit með hugsanlegum hryðjuverkamönnum, netlögreglu til að vernda okkur gegn perrum, miðlæga gagnagrunna með persónulegum upplýsingum um Pétur og Pál og tæknivædd kerfi sem geta rakið slóð hvers einasta manns.

Hvers vegna ætli stjórnmálamenn séu hrifnir af Evrópusambandinu?

Mánudagur, 21. maí 2007

Ef stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sækjast fyrst og fremst eftir völdum skyldi maður ætla að þeir séu tregir til að framselja hluta af ríkisvaldinu til ríkjabandalags eins og Evrópusambandsins. Tapa þeir ekki hluta af áhrifum sínum við það?

Svarið við þessari spurningu er ef til vill ekki eins einfalt og lítur út fyrir við fyrstu sýn. Stjórnmálamaður sem vill breyta lögum í landi sínu þarf að fá meirihluta löggjafarsamkundunnar á sitt band. Hann þarf að taka þátt í rökræðu sem fer að mestu fram fyrir opnum tjöldum og getur haft áhrif á vinsældir hans meðal almennings. Ef hann stingur upp á nýmælum sem krefjast opinberra útgjalda þarf hann í flestum tilvikum að fá heila ríkisstjórn í lið með sér, a.m.k. forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann. Þetta er erfitt og alltaf hætta á að málin snúist í höndunum á vesalings stjórnmálamanninum og hann falli neðar á framboðslista næst eða flokkurinn hans tapi fylgi. Lýðræðisleg stjórnmál eru erfið og sjálfsagt oft pirrandi.

Það er að ýmsu leyti þægilegra fyrir atvinnustjórnmálamenn að starfa á vettvangi Evrópusambandsins. Stór hluti af lögum þess er ákveðinn af 27 manna ráðherraráði. Umræður innan þess vekja litla athygli og það er auðveldara að sannfæra 26 kollega, sem líka eru á toppnum í stjórnmálum og skoða heiminn með augum valdsmanna, en heilt þjóðþing þar sem er alls konar lið og enginn friður fyrir fjölmiðlum.

Ráðherraráð Evrópusambandsins er fámennur hópur með mikil völd. Hvernig ráðherrarnir beita þessu valdi hefur að jafnaði lítil áhrif á úrslit kosninga í heimalöndum þeirra, þar sem kosið er um mál sem eru á valdi einstakra ríkja fremur en Evrópusambandsins.

Fyrir þá sem hafa náð langt í stjórnmálum og eru orðnir ráðherrar er Evrópusambandið tækifæri til að hafa meira vald en hægt er í venjulegu lýðræðisríki og innan ráðherraráðsins er hægt að beita valdinu án þess að eiga á hættu að missa það. Það er nefnilega svo merkilegt með Evrópusambandið, að þegar verk stjórnmálamanna eru lögð í dóm kjósenda í aðildarríkjunum, þá ber enginn neina ábyrgð á ákvörðunum þess.

Asklok fyrir himinn - um Evrópusambandsmál

Miðvikudagur, 16. maí 2007

Svona um það bil tvisvar í viku hefur Fréttastofa ríkisútvarpsins það eftir einhverjum hagfræðingi að við verðum að ganga í Evrópusambandið því annars lendi bankarnir í vandræðum eða gengisáhætta geri eigendum fyrirtækja lífið leitt eða efnahagslífið verði fyrir einhverjum ámóta skakkaföllum.

Nú eru þessar hagfræðilegu predikanir um Evrópusambandið eins og hvert annað hallelújahopp að því leyti að þær halda þeim trúuðu við efnið en sannfæra ekki okkur trúleysingajana sem spyrjum hvort bankar og fyrirtæki hér hafi það eitthvað verra en í Sambandsríkjunum og hvort meira sé um efnahagsþrengingar í Noregi, Sviss og á Íslandi heldur en t.d. í Svíþjóð, Austurríki og Skotlandi.

Það er annars ekki innihaldsleysið í þessum boðskap sambandssinnaðra hagfræðinga sem fer fyrir brjóstið á mér. Mér finnst að forsendurnar, sem einhvern veginn liggja á milli línanna í þessari umræðu, séu meira áhyggjuefni. Það er eins og gert sé ráð fyrir því að spurningin um hvort það sé skynsamlegt eða óskynsamlegt að sækja um aðild að Evrópusambandinu sé fyrst og fremst hagfræðileg. Hún væri það kannski ef Ísland, Noregur og Sviss byggju við mun lakari kjör en Sambandsríkin og yrðu að sameinast þeim til að dragast ekki enn meira aftur úr. En sannleikurinn er sá að engar efnahagslegar nauður reka okkur til að ganga inn og ekki heldur til að standa fyrir utan og þess vegna eru rökin sem mestu skipta alls ekki efnahagsleg heldur siðferðileg og pólitísk.

Ég held að flestir sem efast um að skynsamlegt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu séu tortryggnir í garð valdsins. Þeir benda á að leiðin frá almennum kjósendum til þeirra sem taka ákvarðanir fyrir aðildarríkin (hvort sem það er ráðaherraráðið eða framkvæmdastjórnin) sé of löng til að lýðræði virki, stjórnsýslan sé ógagnsæ og almenningur hafi takmarkaðan aðgang að rökræðu um ákvarðanir. Hér er því á ferðinni pólitískt vald sem er ekki háð lýðræðislegu aðhaldi á sama hátt og ríkisvald í einstökum löndum. Reynsla Evrópuþjóða af slíku valdi er vond – jafnvel verri en orð fá lýst.

Ég held líka að þeir sem vilja að Ísland sæki um aðild trúi því fæstir að hún breyti miklu um efnaleg kjör landsmanna. Þeim finnst líklega að Evrópa eigi að mynda eina heild til mótvægis við Bandaríkin eða að það sé til menningarauka að leggja rækt við það sem Evrópuþjóðir eiga sameiginlegt eða að stefna Evrópusambandsins í einhverjum málum sé réttlát eða göfug. Svo hafa sumir þörf fyrir að trúa á eitthvert vald í útlöndum sem gerir hlutina rétt, öfugt fyrir framsóknardurgana hér heima.

Umræðan um hvort við eigum að vera utan Evrópusambandsins eða innan þess ætti að snúast um allt annað en efnahag. En ef menn hafa asklok fyrir himin og kunna ekki að tala um nein önnur verðmæti en peninga þá dettur þeim ekkert gáfulegra í hug en að spyrja hagfræðing hvort það sé ekki voða erfitt fyrir blessaða bankana að nota krónur og halda að svarið skeri á einhvern hátt úr um hvort það sé skynsamlegt að sætta sig við ólýðræðislegt vald.

Gargandi snilld Framsóknarmanna

Mánudagur, 14. maí 2007

Framsóknarflokkurinn lætur ekki að sér hæða. Hann ætlar í ríkisstjórn meðan hann hefur einn mann á þingi. Búinn að hrista af sér vinstra fylgið á síðustu tólf árum og nú er tækifæri til að losna við þá hægri sinnuðu með því að fara í stjórn með Samfylkingu og VG. Eftir það stjórnar hinn eini sanni íslenski Framsóknarmaður í 1000 ár landinu og ver sauðkindina, sveitirnar, samvinnuhugsjónina og völd flokksins í öllum nefndum og ráðum gegn 62 öðrum Alþingismönnum sem sækja að honum úr öllum áttum. Hvað eru menn að segja að dagar riddaramennskunnar séu liðnir?

Skoðanakannanir

Þriðjudagur, 8. maí 2007

Hvað ætli skoðanakannanir hafi mikil áhrif á niðurstöður kosninga? Getur verið að eitt af því sem ræður afstöðu almennings sé fréttir af tilraunum til að mæla hver þessi afstaða er? Það væri svona dálítið eins og ef hlutur breytti um þyngd í hvert sinn sem tilkynnt er hvað hann er þungur eða styttist og lengdist á víxl þegar tommustokkur væri borinn að honum.

Þegar fjölmiðlamenn ræða við frambjóðendur er oftar en ekki minnst eitthvað á niðurstöður kannana. Það er sagt eitthvað á borð við „Nú mælist þinn flokkur með lítið fylgi, hvernig skýrir þú það?“ Þetta er kannski ósköp eðlilegt. En það er samt undarlegt þegar umræða sem ætti að upplýsa kjósendur um hvers þeir mega vænta af stjórnmálamanni, ef hann nær kjöri, snýst aðallega um þá sjálfa, hversu líklegt sé að þeir kjósi viðkomandi.

Í fréttum af könnunum eru niðurstöðurnar oftast bornar saman við síðustu könnun á undan og sá sem hefur bætt við sig síðan þá gerður að sigurvegara. Núna áðan mátti til dæmis heyra frétt um að samkvæmt nýjustu könnun Gallup bæti Samfylkingin við sig þótt fækka mundi um 2 í þingflokki hennar ef úrslit kosninga á laugardaginn yrðu eins og könnunin bendir til. Í sömu frétt var rætt um að Sjálfstæðisflokkur væri að tapa þótt könnunin bendi til að þingmönnum hansi fjölgi um 3.

Hvað sem líður svona tali benda allar kannanir sem birst hafa undanfarna mánuði til þess að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri-grænir komi betur út úr næstu kosningum en þeim síðustu en Framsóknarflokkur og Samfylking fái lakari útkomu.

Hugsanlega er hægt að skýra aukið fylgi vinstri grænna með auknum áhuga almennings á umhverfisvernd. Kannski hafa tengsl flokksins við villta vinstrið líka eitthvað að segja. Byltingarrómantík snertir taug í mörgum. Það er eitthvað heillandi við að trúa því að maður sé í liði með öllum þeim litlu og góðu á móti þeim stóru og vondu og upplifa sjálfan sig eins og hetju í ævintýri sem minnir svolítið á Hringadrottinssögu, nema hvað í stað hringvoma eru komnir auðhringar. Það er góð tilfinning að vera hetja og ef raunverulegar dáðir eru of erfiðar er hægt að láta hetjudrauma koma í staðinn. Þegar við þessa rómantík bætist að stór hluti kjósenda man ekki hvernig það er að búa við vinstri stjórn er kannski ekki að undra þótt allmarga langi að ganga inn í ævintýraheim vinstri grænna.

Á auknu fylgi Sjálfstæðisflokks hins vegar bara ein skýring sennileg. Menn vita hvers má vænta af honum.

Sjálfstæðisflokkurinn - heilbrigðis- og félagsmál

Sunnudagur, 6. maí 2007

Að kvöldi 1. maí fór ég á fund sem Sjálfstæðisflokkurinn á Akranesi hélt. Þar sátu formaður og varaformaður flokksins, þau Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrir svörum. Húsfyllir var og góð stemming á fundinum.

Þau Geir og Þorgerður komu afar vel fyrir. Mál þeirra var laust við ódýr slagorð, klisjur og loforð um einfaldar lausnir. Þau eru yfir slíkt hafin og ræða málin af víðsýni og skynsemi.

Kosningarnar um næstu helgi snúast öðru fremur um hvort Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram í stjórn og Geir Haarde forsætisráðherra. Skoðanakannanir benda til að um tveir þriðju landsmanna vilji að hann leiði næstu ríkisstjórn. Ég hugsa að hlutfallið sé talsvert hærra meðal þeirra sem hafa hlustað á hvernig hann og Þorgerður Katrín svara erfiðum spurningum.

Um þessar mundir mælist Sjálfstæðisflokkur með um það bil 40% fylgi en þeir sem vilja að hann sé í ríkisstjórn eru nær 65%. Aðeins um 20% landsmanna virðast kæra sig um vinstri stjórn. Þetta vekur spurningar um hvort flokkurinn hljóti ekki að eiga möguleika á að ná meira fylgi á næstu árum. Markmiðið hans hlýtur að vera hreinn þingmeirihluti.

Morgunblaðið hefur stundum talað fyrir því að flokkurinn auki fylgi sitt með því að færa stefnuna nær miðju. Ég held að þetta sé ekki nema hálfur sannleikur. Það er ekkert vit að hverfa frá frjálslyndri einstaklingshyggju til þess eins að auka kjörfylgi. Markmiðið er ekki að ná völdum heldur að bæta samfélagið og það verður ekki gert með því að skipta farsælli stefnu út fyrir fleiri atkvæði. Auk þess er hæpið að flokkurinn haldi öllum þeim fylgismönnum sem hann nú hefur ef hann víkur að ráði frá stefnu sinni.

En hugmyndin um að sækja inn á miðju er ekki alger della. Í hugum margra kjósenda eru Sjálfstæðismenn öðrum fremur færir um að fást við fjármál, atvinnumál, öryggis- og varnamál eða utanríkismál en síður líklegir til að vinna vel á sviði heilbrigðis-, velferðar- og félagsmála. Það styrkir þessa ímynd að samstarfsflokkur Sjálfstæðismanna í ríkisstjórn hefur séð um ráðuneyti félags- og heilbrigðismála. Fólk sem hefur mestan áhuga á þessum málaflokkum kýs Sjálfstæðisflokkinn því síður en þeir sem hafa einkum áhuga á atvinnu- og efnahagsmálum.

Ég held að næstu árin verði mörg af erfiðustu úrlausnarefnum í stjórnmálum á sviði félagsmála og heilbrigðismála. Það eru ýmsir vankantar á velferðar- og heilbrigðiskerfinu. Suma þeirra hefur Sjálfstæðisflokkurinn raunar bent á og sett fram hugmyndir um úrbætur. Hér vegur þyngst stefna hans í málefnum aldraðra sem mótuð var á síðasta landsfundi. En sum önnur vandamál eru óleyst. Eitt það versta er biðraðir í heilbrigðiskerfinu.

Mér finnst trúlegt að vænlegasta leiðin fyrir Sjálfstæðismenn til að ná fylginu upp í 45% eða 50% sé að sýna hvers frjálslynd einstaklingshyggja er megnug í velferðar- og heilbrigðismálum. Rætt hefur verið um að flokkurinn þurfi að fá heilbrigðisráðuneytið í næstu ríkisstjórn. Kannski ætti hann að stjórna bæði heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti. Með farsælli stjórn þeirra mála næstu fjögur ár gæti hann náð enn betri árangri í kosningum 2011.

Kaffibandalag og lýðræði

Laugardagur, 5. maí 2007

Eins og ríflegur meirihluti landsmanna er ég nokkuð ánægður með hvernig landinu hefur verið stjórnað undanfarin ár. Auðvitað er ekki allt sem stjórnvöld hafa gert jafngott en flest það mikilvægasta sem heyrir undir landsstjórnina hefur þokast í rétta átt og sumt raunar hraðar en dæmi eru til um frá fyrri tímum. Það hlakkar því í mér eins og fleirum þegar líkurnar á að stjórnarandstaðan taki við völdum minnka dag frá degi og vandræðagangur kaffibandalagsflokkanna verður stöðugt augljósari. Tilraunir þeirra til að garga upp hneyksli renna út í sandinn hver af annarri.

Það sem var úthrópað sem skattahækkun var lækkun, meintur himinhrópandi ójöfnuður reyndist þegar að var gáð einhver sá minnsti í Evrópu og fólk er farið að sjá í gegnum froðusnakkið um að stóriðjustopp sé leið til að byggja upp hátæknisamfélag eða afnám kvótakerfisins til hagsbóta fyrir sjávarpláss út á landi. Það er engin sannfæringarkraftur í þessum slagorðum enda trúir þeim varla nokkur maður.

En þó það sé hægt að hlakka yfir ruglinu í stjórnarandstöðunni er það alvarlegt mál þegar heilu flokkarnir buna út úr sér upphrópunum og stóryrðum svo málflutningur þeirra minnir meira á DV en alvarlega umræðu. Lýðræðið þarf á rökræðu að halda og samsæriskenningar, vaðall og tilraunir til múgæsinga eru ekki leiðin til að byggja upp lýðræðislega stjórnarhætti og viðhalda þeim.

Hverjir eru íhald? Hugleiðing um grein eftir Þorvald Gylfason

Föstudagur, 4. maí 2007

„Misheppnuð sameining“ er fyrirsögn greinar eftir Þorvald Gylfason sem birtist á bls. 28 í Fréttablaðinu þann 3. maí. Þessi grein er kannski bara enn ein örvæntingarfull tilraun Samfylkingarmanna til að segja eitthvað og vekja á sér athygli í þeirri von að fá aðeins fleiri atkvæði eftir viku. En Þorvaldur vekur samt máls á merkilegu umhugsunarefni, sem er hvar íhaldssemin á helst ítök hér á landi.

Hann minnir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi orðið til með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins árið 1929. En ályktunin sem hann dregur af þessari gömlu sögu er afar undarleg. Hann heldur því fram að frjálslynd öfl hafi ekki náð að njóta sín hér á landi vegna þess að íhaldsarmur í Sjálfstæðisflokknum hafi undarokað þau í hartnær 80 ár.

Ég veit ekki hvernig hann skýrir það að Ísland er með frjálsmannlegustu samfélögum í veröldinni. Hann heldur kannski að það sé Samfylkingunni að þakka. Sannleikurinn er einfaldlega sá að þótt annar þeirra tveggja flokka sem mynduðu Sjálfstæðisflokkinn á sínum tíma hafi heitið Íhaldsflokkur þá er Sjálfstæðisflokkurinn ekki sérlega íhaldssamur flokkur.

Hugmyndafræði allra íslensku stjórnmálaflokkarna er einhvers konar blanda af frjálshyggju, jafnaðarstefnu og íhaldssemi. En mér er nær að halda að Sjálfstæðisflokkurinn sé sá flokkur þar sem hreinnar og klárrar íhaldssemi gæti hvað minnst.

Íhaldssemi á sér margar birtingarmyndir. Hér eru nokkur dæmi:

  1. Viðleitni til að sporna gegn breytingum á hugsunarhætti og menningu (t.d. með því að takmarka aðgang almennings að erlendum tískustraumum og fjölmiðlum eða hefta straum útlendinga til landsins);
  2. Áhersla á mikilvægi hefðbundinna trúarbragða, gildismats og lífshátta sem þau boða (þetta birtist sums staðar í andstöðu gegn kvenréttindum og réttindum samkynhneigðra);
  3. Varðstaða um sérréttindi eða mismunun og hugmyndafræðileg réttlæting á stéttaskiptingu;
  4. Andstaða gegn markaðsbúskap og opinberum velferðarkerfum.

Ekki þarf að horfa lengi á þennan lista til að átta sig á að ef þetta eru helstu einkenni íhaldssemi þá eru til miklu íhaldssamari flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn. Ekki var það hann sem beitti sér gegn frjálsri fjölmiðlun og aðgengi Íslendinga að erlendum ljósvakamiðlum og ekki er hann að amast við því þótt fólki flytji til landsins (liður 1).

Margir Sjálfstæðismenn eru trúaðir en þeir skera sig ekki úr fyrir þá sök. Trúarbrögð eiga ítök í fólki hér á landi óháð því hvaða flokk það styður, en trúarlegt íhald sem birtist t.d. í andstöðu gegn hjónaböndum samkynhneigðra er ekki einkenni á Sjálfstæðisflokknum (liður 2).

Hvað varðar varðstöðu um mismunun (liður 3) þá hafa Sjálfstæðismenn haft forystu um að draga úr völdum embættismanna yfir almenningi og að tryggja jöfn réttindi allra m.a. með stjórnsýslulögunum frá árinu 1993, upplýsingalögunum frá 1996, lögum um umboðsmann Alþingis frá 1997 og lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga frá árinu 2000.

Um andstöðu gegn markaðsbúskap þarf ekki að fjölyrða. Hún er hjá öllum öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokki. Um velferðarkerfið gegnir öðru máli. Um það er samstaða í öllum flokkum og þar sker Sjálfstæðisflokkurinn sig ekki úr á annan hátt en þann að vera einn flokka fær um að halda þannig á ríkisfjármálum að hægt sé, a.m.k. svona nokkurn veginn, að reka það velferðarkerfi sem nær allir landsmenn eru einhuga um.