Færslur aprílmánaðar 2007

Ósýnileg hönd eða ósýnilegur fótur - enn um hagræna hvata

Föstudagur, 6. apríl 2007

Ég var að tala um hagræna hvata í skólakerfinu um daginn og ætla að halda því aðeins áfram. Venjulegur framhaldsskóli fær, frá ríkinu, um það bil 15 þúsund fyrir eininguna. Þetta þýðir að fyrir ársnemanda sem er í fullu námi, 17,5 einingum á önn eða 35 einingum á ári, fást um það bil 15000 x 35 krónur eða  eitthvað nálægt hálfri milljón– svo fremi nemandinn gangist undir próf eða fullnægjandi námsmat í öllum áföngum.

Hugsum okkur að í dæmigerðum framhaldsskóla séu t.d. 800 nemendur í fullu námi í byrjun annar. Hugsum okkur líka að sumir nemendur hætti og sumir minnki við sig svo brottfall sé 10%, þ.e. nemendahópurinn hætti í 10% þeirra eininga sem hann byrjar í áður en próf eru haldin í annarlok. Þetta rýrir fjárframlag til skólans um rúmlega 20 milljónir á önn eða 40 milljónir á ári. (800 x 10/100 x 17,5 * 15.000 kr. = 21.000.000).

Nú er hugsanlegt að skólinn geti minnkað brottfallið talsvert með því einfaldlega að borga brottfallsnemendum fyrir að mæta í próf í lok annar. Sjálfsagt munu flestir þeirra bara skila auðu en það fæst jafnmikill peningur frá ríkinu þó nemendur geri það.

Hugsum okkur til dæmis að skóli sem býr við 10% brottfall kaupi fínan bíl fyrir 5 milljónir og auglýsi að hann sé happdrættisvinningur og dregið verði úr öllum prófúrlausnum. Ef þetta minnkar „brottfallið“ þannig að helmingur þeirra sem var hættur að mætta í áfanga drattist í próf og skili auðu, þá fær skólinn rúmlega 10 milljónum meira fyrir önnina. Hann var búinn að eyða helmingnum af því í bílinn og hefur helminginn til ráðstöfunar. Það munar um 5 milljónir.

Nú býst ég ekki við að neinn skóli geri þetta. En það er samt barnaskapur að halda að það hafi engin áhrif á skólastarfið ef það er meira á því að græða fyrir stjórnendur og starfsfólk að kaupa nemendur til að „gangast undir námsmat“ til málamynda en á því að þjálfa þá og mennta í raun og veru. Hagræni hvatinn er vitlaus og ég held að það sé sama hvað menn yfirleitt halda um hagræna hvata og mikilvægi þeirra, það hljóta allir að vera sammála um að það sé betra að hafa enga slíka en ranga.

Skotinn Adam Smith sem uppi var á 18. öld lýsti hagrænum hvötum í markaðahagkerfi sem ósýnilegri hönd sem leiðir menn þannig að þeir geri náunga sínum gagn jafnvel þó þeir reyni aðeins að græða sjálfir. Það mætti kannski líkja hagrænum hvötum sem hafa vond áhrif við ósýnilegan fót sem er brugðið fyrir menn svo þeir koma engu góðu til leiðar jafnvel þótt vilji þeirra standi til þess að gera öðru fólki gagn.

Ritgerð Hörpu um ljóðabréf Bjarna Gissurarsonar frá Þingmúla

Þriðjudagur, 3. apríl 2007

Klukkan er 22:40 og ég var að líta upp úr prófarakalestri. Ég er að lesa rúmlega 100 síðna ritgerð eftir Hörpu. Hún fjallar um ljóðabréf Bjarna Gissurarsonar frá Þingmúla. Bjarni þessi var uppi á 17. öld og skrifaði sveitungum sínum, vinum og skyldmennum bréf í bundnu máli þar sem hann sníkir af þeim tóbak, brýnir fyrir þeim að vera góðir við fátæklinga og duglegir að flengja krakkana sína, svo þakkar hann guði fyrir drepsóttir og hallæri, býsnast svolítið yfir nýgiftingum örbjarga vesalinga og barmar sér yfir ellihrumleika. Hann varð allra karla elstur.

Bjarni orti býsna vel og gamli Lútherski rétttrúnaðurinn í kveðskap hans stingur skemmtilega í stúf við pólitískan rétttrúnað nútímans.

Ég var annars kominn á eftir með ýmsa vinnu í skólanum en síðustu tvo daga hefur verið gott næði og ég hef setið við til rúmlega sex. Með sama áframhaldi verð ég kominn á áætlun í lok dags á morgun og get slakað á með góðri samvisku um bænadagana. Les þá kannski meiri Lútherskan rétttrúnað því þrátt fyrir allan minn nútímarétttrúnað þykir mér við hæfi að kíkja í Passíusálmana í dymbilviku og setja jafnvel passíurnar eftir Bach í geislaspilarann.

Gærdagurinn, söngleikurinn Leg og meira um hagræna hvata

Sunnudagur, 1. apríl 2007

Í gær tók ég nokkrar myndir í skógræktinni hér á Akranesi og niðri á Breið. Ein þeirra er komin á Flickr og fleiri eiga eftir að bætast við.

Um kvöldið fór ég svo með Vífli, Mána og Elísu á söngleikinn Leg eftir Hugleik Dagsson. Þvílík sýning. Hún er með því besta sem ég hef séð á sviði í Þjóðleikhúsinu. Húmorinn er algerlega óborganlegur, beittur og glannalegur, og sviðsetningin fullkomin. Það var líka stemming í salnum því áhorfendur hlógu og klöppuðu og líklega eru margir þeirra nú með harðsperrur í þindinni. Sagan gerist í framtíðinni og söguþráðurinn er álíka raunsær og Futurama teiknimyndirnar en samt var þetta allt svo eðlilegt og fólkið hæfilega ýkt útgáfa af venjulegum Íslendingum.

Ég er einn af þeim sem vissi ekki hvorri fylkingunni ég ætti að halda með í Hafnarfirði en ég vona að nú þegar niðurstaða er fengin verði farið eftir henni. Það er lítið vit í að hafa svona atkvæðagreiðslu nema útkoman úr henni gildi í alvöru.

Ég ætlaði annars að skrifa eitthvað meira um hagræna hvata í skólakerfinu. Vel heppnað markaðskerfi byggist á því að hagrænir hvatar ýti undir hegðun sem er til góðs fyrir heildina. Þar sem þeir virka öfugt, hvetja til slæmrar hegðunar, er hætt við að samfélög drabbist niður.

Á undanförnum árum hefur verið reynt að beita hagrænum hvötum í framhaldsskólum hér á landi. Þetta hefur annars vegar verið gert með reiknilíkani sem úthlutar fé til skóla eftir því hvað nemendur mæta til prófs í mörgum einingum og með vinnustaðasamningum við kennara þar sem laun þeirra eru árangurtengd.

Í síðasta pistli benti ég á að reglur um fjárveitingar til skóla virki um sumt sem neikvæður hvati og ýti ekki undir gott skólastarf. Vonandi munu vinnustaðasamningar verka sem jákvæður hvati. Um áhrif þeirra er þó of snemmt að fullyrða enda er yfirleitt mjög erfitt að vita fyrirfram hvernig hagrænir hvatar virka. Ein af ástæðum þess að sósíalísk hagkerfi virka yfirleitt fremur illa er hversu erfitt er að hanna slíka hvata fyrir heilt samfélag. Reynslan af að búa þá til með stjórnvaldsaðgerðum er ekki mjög góð.

Sjálfur held ég að einstakir skólar geti rambað á heppilega hagræna hvata fyrir nemendur og starfsfólk ef þeir fá að þróa þá sjálfir. En til þess þarf raunverulegt sjálfstæði í rekstri (meðal annars í gjaldtöku af nemendum og samningum við starfsfólk).