Færslur aprílmánaðar 2007

Byggðastefna

Mánudagur, 30. apríl 2007

Nú hafa frambjóðendur í öðru sæti á listum beggja ríkisstjórnarflokkanna á Suðurlandi lýst stuðningi við gerð jarðgangna til Vestmannaeyja. Þetta á ekki að verða einkafyrirtæki sem nær inn kostnaði með vegtolli eins og gert er í Hvalfjarðargöngum. Mér skilst að ríkið eigi að borga brúsann og það sé rökstutt með því að það kosti á endanum minna að bora göng fyrir 25 milljarða en að eyða milljarði á ári í að niðurgreiða samgöngur við Heimaey.

Eyjamenn eru eitthvað innan við 5000 talsins. 25 milljarðar eru þá rúmar 5 milljónir á mann þar eða eitthvað yfir 20 milljónir á hverja 4 manna fjölskyldu. Milljarður á ári er rúmar 200 þúsund krónur á mann. Þessar upphæðir vekja spurningar um hvað byggðastefna má kosta.

Hvernig mannfólkið raðar sér á sveitir og staði ræðst að verulegu leyti af efnahagslegum ástæðum. Flestir planta sér niður þar sem er þokkalega hagkvæmt fyrir þá að vera. Fyrr á öldum þegar landsmenn lifðu á frumstæðum landbúnaði og veiðum á smábátum, sem aðeins sóttu stutt frá landi, þá var hagkvæmt fyrir fólk á dreifa sér sem mest til að nýta beitiland og fiskislóð. Nú er öldin önnur. Sjálfsþurftabúskapur er að heita má úr sögunni og sjávarútvegur gerbreyttur svo engu munar að sigla langan veg á miðin.

Atvinnuvegir nútímans eru með þeim hætti að það er heppilegt fyrir flesta að búa í þéttbýli og fyrir vikið fækkar ungu fólki í dreifbýli og fyrirsjáanlegt er að fjöldi bæja á landinu fari í eyði á næstu mannsöldrum. Á að fresta þessari þróun með því að ríkið borgi fólki fyrir að vera um kyrrt á einhverjum stöðum eins og í Heimaey? Væri ekki gáfulegra að hætta allri þessari dýru byggðastefnu og leyfa búsetu bara þróast í takt við breytta tíma?

Það sem veldur mestu um flutning ungs og menntaðs fólks á suðvesturhornið er ekki lélegar samgöngur annars staðar og ekki heldur skortur á ríkisstyrkjum í alls konar verkefni á landsbyggðinni. Meginástæðan er einfaldlega betri menntun. Ég á ekki bara við það að menntað fólk vilji frekar búa í þéttbýli. Ég á fyrst og fremst við að aukin menntun helst í hendur við aukna sérhæfingu á vinnumarkaði og fólk hefur enn þá áráttu að mynda pör.

Í gamla daga þegar afi og amma leituðu að vinnu leituðu þau að verkamannavinnu en ekki sérhæfðum störfum. Trúlega voru þau til í að setjast að hvar sem var þörf fyrir fjórar vinnufúsar hendur. Flest ung pör sem nú leita að vinnu leita að sérhæfðu starfi. Hugsum okkur til dæmis að sjúkraþjálfari giftist þýskukennara og grafískur hönnuður taki saman við lögfræðing og þessi tvö pör fari að leita að vinnu. Það er vel líklegt að einhvers staðar á fámennum stað vanti þýskukennara og ekkert fráleitt að einhver stofnun úti á landi þurfi sjúkraþjálfara í vinnu. En hvað eru miklar líkur á að í fámennri byggð losni samtímis starf fyrir sjúkraþjálfara og þýskukennara, eða lögfræðing og grafískan hönnuð? Næstum engar. Þessi tvö pör munu nokkuð örugglega þurfa að velja milli þess að halda sig við þéttbýli eða sætta sig við að annað hjóna fái ekki starf við sitt hæfi.

Meðan menntamenn giftast menntamönnum munu þeir sækja úr dreifbýli í þéttbýli. Byggðarlög án menntaðs fólks dragast aftur úr í hagþróun. Ef menn vilja (af einhverjum ástæðum sem ég ekki skil) að Íslendingar haldi áfram að raða sér kringum landið í sömu hlutföllum og 1950 (eða 1850 … eða 1250) ættu þeir frekar að eyða 25 milljörðum í hjúskaparmiðlun sem stuðlar að því að sérhæft fólk giftist ófaglærðu heldur en að bora jarðgöng fyrir sömu upphæð. Raunar er hæpið að litlir 25 milljarðar dugi (en þeir duga svo sem heldur ekki til að reka göngin, varla nema rétt til að bora þau). Það þarf gott betur eigi að kaupa fólk til að ráðahag sínum. En hvað um það? Byggðastefnumenn vita manna best að skattgreiðendur hafa djúpa vasa.

Draumaleit

Mánudagur, 30. apríl 2007

Í gærkvöldi fórum við Harpa á söngleikinn Draumaleit sem er fluttur af 9. bekk Grundaskóla. Þetta var ótrúleg sýning og trúlega eru ekki mörg dæmi um grunnskólaleikrit í þessum gæðaflokki. Ég hlakka til að sjá hvað þessir krakkar gera þegar þeir koma í Fjölbrautaskólann. Fyrst þeir geta sett upp söngleik sem hvaða framhaldsskóli sem er væri stoltur af verða þeir þá ekki eins og atvinnuleikarar áður en þeir ljúka framhalsskóla?

Dimission og fréttir um ný framhaldsskólalög

Föstudagur, 27. apríl 2007

Í dag var dimission í skólanum. Ég tók fáeinar myndir af útskriftarnemum í sjóliðabúningum. Tvær eru komnar á Flickr. Það er annars merkilegt hvað afgamlar hefðir úr embættismannaskólum fyrri alda, eins og dimission og busavígsla, eru lífseigar í alþýðuskólum nútímans. Þótt krakkarnir haldi að dimission (sem merkir brottfararleyfi) heiti „dimmisjó“ eða jafnvel „dimmushow“ kemur ekki annað til greina en að nota þessa gömlu latínuslettu í einhverri mynd. En ólíkt kynni ég nú betur við að kalla þetta t.d. „lokahóf“ eða „kveðjuhóf .“

Undanfarið hafa borist fréttir af undirbúningi nýrra laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Ég hef ekki lagt mig eftir vitneskju um innihald nýrra leikskóla- og grunnskólalaga en hlustað eftir því sem sagt er um væntanleg framhaldsskólalög.

Mér skilst að í ráði sé að auka talsvert sjálfstæði framhaldsskóla til að setja sér eigin námskrá. Vonandi gengur það eftir. En lög sem tryggja sjálfstæði skóla í námskrármálum munu þó að mínu viti ekki verða til mikils góðs nema jafnframt séu settar skynsamlegri reglur um fjárveitingar til skólanna. Eins og er fá skólar greitt í hlutfalli við fjölda eininga sem nemendur gangast undir fullnægjandi námsmat í. Þetta fyrirkomulag þýðir að skóli græðir tvöfalt meira á að láta nemanda taka tvo létt áfanga en einn þungan (að því gefnu að allir áfangarnir séu jafnmargar einingar). Það er fjárhagslegur ávinningur að því fyrir skóla að laða til sín nemendur með aðferðum sem eru óverjandi frá uppeldilegu sjónarmiði, t.d. með því að slá af námskröfum.

Ef sama kerfi verður á fjárveitingum og allt verður gefið frjálst í námskrármálum verður enn auðveldara en nú er að keyra nemendur gegnum fleiri einingar án þess að leggja á þá mikla vinnu. Þótt samviskusemi kennara og gamalgrónar skólahefðir séu einhver fyrirstaða sýnist mér að núgildandi reglur um skiptingu fjár úr ríkissjóði milli framhaldsskóla séu þegar teknar að grafa undan metnaðarfullri kennslu. Hætt er við að algert frelsi stofnana til að haga kennslu þannig að magn eininga aukist (og þar með innstreymi úr ríkissjóði) með lágmarksfyrirhöfn og kostnaði flýti þessari öfugþróun ef ekki verður gerð breyting á því hvernig ríkið úthlutar fé til skóla.

Bók um pyrrhonisma og fundatörn gærdagsins

Þriðjudagur, 24. apríl 2007

Síðasta helgi var löng því starfólk skólans vann af sér föstudaginn og fimmtudagurinn var frídagur. Þá var haldið upp á sumarkomu. Ég notaði hluta tímans til að raða saman köflum um pyrrhonisma sem ég hef verið að skrifa undanfarin ár. Þeir eru smám saman að taka sig mynd og verða að bók. Ég veit ekki hvenær ég klára hana en það verður vonandi innan árs. Það er mál til komið að dusta rykið af þessari 23 alda gömlu heimspekistefnu.

Gærdagurinn var næstum eins langur og helgin á undan. Vinnan byrjaði klukkan 8 á samstarfsnefndarfundi sem gekk svo sem ljómandi vel og við gengum frá samkomulagi um launabreytingar hjá kennurum sem taka gildi 1. maí. Næsti fundur var svo í Reykjavík þar sem stjórnendur Fjölbrautaskólanna á Akranesi, Suðurnesjum, Selfossi og Grundarfirði komu saman til að ráða ráðum sínum eins og þeir gera jafnan nokkrum sinnum á ári. Það er gott að hitta þetta fólk enda er það að fást við svipuð vandamál í svipuðum stofnunum og hefur oft gagnleg ráð.

Seinnipartur gærdagsins fór svo í fund í Félagi íslenskra framhaldsskóla þar sem meðal annars var rætt um fyrirhugaðar breytingar á lögum um framhaldsskóla. Ég held að næstum allir skólastjórendur sem þarna voru voni að breytingarnar gangi í gegn og skólarnir fái aftur frelsi til að setja sér námskrár í samræmi við aðstæður á hverjum stað og þarfir nemendahópsins. Andinn í tillögunum sem liggja fyrir er að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði skóla. Þetta er afar þarft enda er 7 ára reynsla af því að láta menntamálaráðuneyti og starfsgreinaráð setja skólunum smásmugulegar og ítarlegar námskrár ekki mjög góð.

Fundatörn gærdagsins lauk klukkan rúmlega 22 þegar aðalfundi foreldrafélags Brekkubæjarskóla var slitið. Ég mætti þar, líklega í síðasta sinn, því Vífill lýkur tíunda bekk í vor. Á fundinum voru rúmlega 20 foreldrar mættir af nokkur hundruð. Kannski voru allir hinir að mótmæla smeðjulegum vaðlinum í frambjóðendum um að börnin séu það mikilvægasta sem við eigum og menntamál séu mál mála. Kannski gátu þeir ekki slitið sig frá sjónvarpinu. Kannski nenntu þeir bara ekki út eftir langan vinnudag. Allt þetta getur svo sem verið en trúlegasta skýringin á þessari litlu fundarsókn er nú samt trúlega að hér á Skaganum hafa foreldrar frekar litlar áhyggjur af skólagöngu barna sinna sem skýrist að nokkru af því að hlutirnir eru í þokkalega góðu lagi.

Gleðilegt sumar - þjóðareign, landgræðsla og olíuhreinsunarstöð

Fimmtudagur, 19. apríl 2007

Fyrir nokkrum vikum síðan kom út bók sem heitir Þjóðareign og inniheldur greinar eftir nokkra valinkunna lögfræðinga og hagfræðinga. Undirtitill bókarinnar er Þýðing og áhrif stjórnarskrárákvæðis um þjóðareign á auðlindum sjávar. Útgefandi er bókaforlagið Ugla í samvinnu við Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál. Ég las þessa bók nýlega og varð ekki fyrir vonbrigðum. Loksins er fjallað af yfirvegun, skynsemi og þekkingu um það mikla deilumál í stjórnmálum síðustu 30 ára sem kvótakerfið er.

Þessi bók er ef til vill allt of góð til að hafa mikil áhrif. Í henni eru engin krassandi slagorð, engar hástemmdar yfirlýsingar eða heimsendaspár og ekki flettir hún ofan af óréttlæti heimsins. Höfundar skýra málin einfaldlega þannig að lesandi sér að lítil innistaæða er fyrir öllum stóryrðunum um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það var og er skásta lausnin á erfiðum vanda og hefur átt verulegan þátt í að bæta afkomu útgerðar og um leið landsmanna allra.

Fyrst ég er byrjaður að hrósa því sem ég hef verið að lesa má ég til að nefna grein eftir Herdísi Þorvaldsdóttur á bls. 39 í Morgunblaðinu í dag. Þar minnir hún á það, sem liggur svo sem í augum uppi, að mikilvægasta viðfangsefnið í náttúruvernd hér á landi er landgræðsla og stöðvun landfoks. Menn gera meira gagn með því að planta trjám og sá melgresi eða lúpínu heldur en með æsingi yfir virkjunum og álverum. Ég vil að minnsta kosti frekar búa í landi sem er viði vaxið og vel gróið með uppistöðulón og stórfyrirtæki á stangli en í örfoka eyðimörk.

Vatnsaflsvirkjanir og álver eru tiltölulega umhverfisvæn atvinnustarfsemi og fara trúlega betur með landið en t.d. ferðaþjónusta eða landbúnaður. Álver eru a.m.k., eftir því sem ég best veit, miklu betri kostur en olíuhreinsunarstöðvar. Mér finnst sú hugmynd að reisa svoleiðis fyrirtæki á Vestfjörðum ansi glannaleg, ekki bara vegna mengunar sem fylgir framleiðslunni heldur ekki síður vegna slysahættu. Eigi að flytja olíu í stórum stíl um þessar slóðir þar sem stundum er hafís og oft geisa stórviðri en hætt við slysum þar sem skipsfarmar af olíu lenda í sjó og við strendur með skelfilegum afleiðingum.

Hvað vill almenningur?

Mánudagur, 16. apríl 2007

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir frá skoðanakönnun þar sem í ljós kom að rúmlega tveir þriðju hlutar landsmanna vilja helst að næsta ríkisstjórn verði samstjórn Sjálfstæðisflokks og eins annars. Af þessu virðist blasa við að meirihluti landsmanna vilji að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram forystuflokkur í ríkisstjórn. Þetta kemur mér svo sem ekki á óvart. Allir kostir á ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks eru afleitir.

En þótt mjög mikill meirihluti virðist vilja að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í stjórn benda niðurstöður annarra kannana og yfirlýsingar frambjóðenda til að kosningar geti farið svo að mynduð verði stjórn án Sjálfstæðisflokks. Mundi það þýða að úrslit kosninga yrðu andstæð vilja tveggja þriðju hluta kjósenda? Ef menn halda að til sé eitthvað sem hægt er með réttu að kalla vilja meirihlutans hljóta þeir að álykta sem svo.

En hugtakið „vilji meirihlutans“ er vandræðagripur eins og sést t.d. ef við hugsum okkur að kjósendur skiptist í þrjá jafnstóra flokka, vinstrimenn (V), miðjumenn (M) og hægrimenn (H) þar sem:

Vinstri- og miðjumenn eru sammála um að vilja frekar samstjórn V+M en M+H.
Miðju- og hægrimenn eru sammála um að vilja frekar M+H en V+H.
Vinstri- og hægrimenn eru sammála um að vilja frekar V+H en V+M.

Undir þessum kringumstæðum vill meirihlutinn (þ.e. tveir þriðju) frekar fá V+M en M+H, frekar fá M+H en V+H og frekar fá V+H en V+M. Forgangsröðin er því

V+M
M+H
V+H
V+M

Vinstri stjórn (þ.e.a.s. samstjórn vinstri og miðjuflokks) er bæði efst og neðst á óskalista þessarar ímynduðu þjóðar. Ef marka má skoðanakannanir er eitthvað líkt komið fyrir Íslendingum. Kannanir sýna að meirihlutinn vill vinstristjórn síst af öllu. Samt ætlar um helmingur að kjósa flokka sem eru vísir til að reyna að mynda vinstristjórn.

Ef menn trúa því á annað borð að til sé einhver almannvilji þá ættu þeir kannski að líta svo á að hann sé galinn og vilji sama hlut bæði helst af öllu og síst af öllu.

Dagurinn

Laugardagur, 14. apríl 2007

Í dag var venjulegur laugardagur. Ég vaknaði seint, drakk kaffi og las blöðin. Mér þótti grein Guðna Elíssonar í Lesbók Morgunblaðsins ansi góð. Hún heitir „Það ætti að skera af þér hausinn“ og fjallar um alla þá illmælgi sem fólk skrifar á bloggsíður og spjallþræði. Guðni fann að því hvernig fjölmiðlar tengjast þessum vettvangi fyrir nafnlaust níð. Hann nefndi þó ekki Barnaland sem Morgunblaðið heldur úti. Óljúgfróðir hafa tjáð mér að þar séu sögð ljótari orð en svo að eftir sé hafandi.

Ég veit ekki hvort blogg hefur neina afgerandi sérstöðu hvað varðar ábyrðarlaust kjaftæði, illmælgi og slúður. Svoleiðis tal er því miður út um allt. En eins og Guðni, kann ég heldur illa við dóma um menn og málefni sem eru birtir án þess höfundur láti nafns síns getið. Mér er  alveg sama hvort þeir heita t.d. Staksteinar og eru prentaðir í blað eða „komment“ og eru birtir á bloggsíðum.

En áfram með venjulega laugardaginn. Ég fór á smáflakk með myndavélina. Skrapp að Innra–Hólmi og smellti nokkrum myndum af hálfhrundum kofa og hrossum sem ég sá á leiðinni. Ein er komin á Flickr og fleiri birtast á næstunni.

Seinnipartur dagsins fór svo í húsverk sem við Harpa skiptum á milli okkar og nú er komið kvöld og ég sestur við að blogga.

Starfskynning frá Hollywood og Haraldarhús

Fimmtudagur, 12. apríl 2007

Í gær reyndi ég að segja eitthvað gáfulegt um hugmyndir unglinga um framtíðarstarf. Það er svo sem ekkert nýtt að flestir sem eru  á sextánda ári eigi sér svipaða drauma. Á þessum aldri hefur fólk mikla þörf fyrir að aðlagast hópnum og fylgja tískunni. Nú til dags er tískan að miklu leyti búin til í Hollywood og fleiri stöðum þar sem vinsælar kvikmyndir verða til. Draumaverksmiðjan sér að miklu leyti um starfskynningu fyrir unglinga og varla er von að sú kynning henti að öllu leyti íslenskum vinnumarkaði. En vonandi vaxa flestir upp úr því að láta sjónvarp og kvikmyndir stjórna viðhorfum sínum áður en þeir ljúka skólagöngu og fara fyrir alvöru að reyna að koma sér áfram í atvinnulífinu.

Eins og venjulega á miðvikudagskvöldum fór ég á fund hjá Rótarýklúbbi Akraness í gærkvöldi. Að þessu sinni var fundurinn haldinn í húsinu að Vesturgötu 32 á Akranesi sem Haraldur Böðvarsson (1889–1967) og Ingunn Sveinsdóttir (1887–1969) byggðu og bjuggu í frá árinu 1925. Gestgjafinn, Haraldur Sturlaugsson, hefur breytt þessu veglega húsi sem afi hans og amma byggðu, í safn. Þarna er mikill fjöldi ljósmynda og minja sem segja heillar aldar sögu um útgerð og fiskvinnslu og hin miklu umsvif Haraldar Böðvarssonar og fyrirtækja sem hann stofnaði.

Það kannast víst flestir við sönginn

Kátir voru karlar
á kútter Haraldi
til fiskiveiða fóru
frá Akranesi.

Og allir komu þeir aftur
og enginn þeirra dó.
Af ánægju út að eyrum
hver einasta kerling hló.

Sennilega vita færri að kútter þessi, sem gerður var út í lok 19. aldar, heitir eftir athafnamanninum Haraldi Böðvarssyni. Böðvar faðir hans, sem var kaupmaður hér á Skaga, átti skipið og gaf því nafn eftir syni sínum þegar hann var 8 ára. Haraldur eignaðist svo sinn fyrsta bát, sem var sexæringur, árið 1906. Einn þeirra gripa sem prýðir „safnið“ að Vesturgöru 32 er nákvæmt líkan af kútter Haraldi.

Starfsval unglinga og öskustó nútímans

Miðvikudagur, 11. apríl 2007

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá niðurstöðum rannsóknar sem Námsmatsstofnun vann fyrir samtök atvinnulífsins. Kannað var, meðal 15 ára unglinga, hvaða störf þeir hyggjast stunda þegar þeir verða fullorðnir. Flestir ætla að verða læknar (10%), arkitektar (7%), sálfræðingar (5%), viðskiptafræðingar (4%) og lögfræðingar (4%), kennarar (3%) og leikarar (3%). Þeim sem ætla að verða tölvufræðingar hefur fækkað í 2%, en voru 12% árið 2000 þegar sams konar könnun var gerð og 6% árið 2003.

Þorri 15 ára unglinga stefnir á sömu greinar. Ef væntingar þeirra ganga eftir verður mannekla í flestum störfum en fáránlegt offramboð í þeim fáu sem eru í tísku. Samkvæmt frásögn Morgunblaðsins ætla 60% þeirra í greinar sem veita um 15% mannaflans vinnu.

Niðurstöðurnar koma þeim sem vinna með unglingum svo sem ekki á óvart. Raungreinar virðast ekki eiga upp á pallborðið og sárafáir ætla sér að vinna við tækni eða iðnað. Skólafólk hefur oft velt vöngum yfir þessu. Hvers vegna bregst ungt fólk ekki við skorti á tæknimönnum og háum launum í tæknigreinum með því að þyrpast í þær í stað þess að flykkjast í nám þar sem er ofgnótt af fólki fyrir? Hvernig stendur til dæmis á því að krakkar sem koma upp úr tíundu bekkjum fara hópum saman á félagsfræðabraut en sárafír velja iðnnám? Ná skilaboð markaðarins um skort á tæknifólki ekki til unglinga?
Í starfi mínu sé ég mörg dæmi um nemendur sem gefast upp á miðri leið í stúdentspróf vegna þess að þeim gengur illa að læra greinar eins og stærðfræði, þýsku eða sögu og hafa engan áhuga á þeim. Margir af þessum krökkum mundu ná tökum á iðnnámi, ljúka því á 3 til 4 árum og fljúga inn í vel launuð störf. En óklárað stúdentspróf veitir lítil sem engin fríðindi á vinnumarkaði.

Á þessu undarlega misræmi milli framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði og einsleitum og að mörgu leyti óraunhæfum hugmyndum unglinga um framtíðarstaf eru sjálfsagt margar skýringar. En ég held að ein vegi þyngst. Hún er sjónvarpið.

Sjónvarpið er ekki bara öskustó nútímaheimilis þar sem kolbítarnir liggja, heldur er það gluggi að heimi vinnandi fólks (annars en kennara sem þeir sjá í skólanum, afgreiðslufólks sem þeir hitta í búðum og flokksstjóra sem þeir kynnast í unglingavinnunni). Þeir sjá foreldra sína sjaldan í vinnunni og koma ekki mikið inn í fyrirtæki. Hugmyndir þeirra um vinnu eru að öllum líkindum mest úr sjónvarpinu. Þar eru læknaþættir og þar eru lögfræðingar sem brillera í amerískum réttarsölum og leikarar sem verða frægir. En hetjurnar í sjónvarpinu eru sjaldan rafvirkjar eða tæknimenn.

Enn um fjármál framhaldsskóla og hagræna hvata

Sunnudagur, 8. apríl 2007

Í fyrradag benti ég að við núverandi fyrirkomulag á greiðslum úr ríkissjóði borgi sig beinlínis fyrir framhaldsskóla að kaupa nemendur til að mæta í próf til málamynda. En það er til lítils að benda á galla á núverandi kerfi án þess að gefa einhverja vísbendingu um leiðir til úrbóta.

Nú er borgað fyrir hverja einingu sem nemandi mætir til prófs í. Ef borgað væri fyrir hverja einingu sem nemandi byrjar í þá væri ýtt undir að skólar létu nemendur byrja í meira námi en þeir ráða við og draga svo saman seglin þegar líður á önnina. Ef til vill væri illskárra að blanda þessum leiðum saman en að halda sig við aðra þeirra eingöngu: Það mætti til dæmis hugsa sér að ríkið borgi skólum í hlutfalli við meðaltalið af fjölda eininga sem nemendur byrja í og fjölda eininga sem þeir ganga til prófs í.

Það er sama hvort borgað er fyrir einingar í byrjun annar, við lok annar eða meðaltal af þessu tvennu– í öllum tilvikum ræðst greiðsla til skóla af einfaldri talningu sem hefur fremur losaraleg tengsl við markmið skólastarfsins sem er að auka hæfni, getu eða kunnáttu nemendanna sem mest.

Ef það væri raunhæfur kostur að mæla hæfni hvers nemanda við upphaf og lok skólagöngu mætti kannski hugsa sér að greiða skólum í hlutfalli við hvað hún eykst mikið. Þetta er þó ekkert einfalt mál. Hvað með ungling sem byrjar með meðalhæfni en eyðileggur huga sinn með hassneyslu samhliða skólagöngu? Hæfni hans mælist þá minni við lok en við upphaf. Á skólinn þá að borga með honum eða á að slumpa á hvað hæfni hans hefði minnkað miklu meira ef hann hefði bara verið í hassi í stað þess að skipta tíma sínum milli neyslu og skólagöngu?

Sósíalísk hagfræði, þ.e. sú list að úthluta fé úr opinberum sjóðum af skynsamlegu viti, er ansi erfið. Kannski verður hún aldrei annað en rugl og vitleysa. Ég hef þó grun um að hún geti virkað skár í smáum einingum en stórum þar sem þeir sem ráða fjárveitingum eru nærri vettvangi, þekkja til og eiga sjálfir eitthvað í húfi. Kannski ættu sveitarfélög að taka við rekstri framhaldsskólanna.

Kannski ætti einfaldlega að selja skólana og kannski ætti hið opinbera að hætta alveg að úthluta neinu fé til þeirra. Ríkið getur áfram borgað fyrir kennslu unglinga með því einfaldlega að afhenda hverju barni sem lýkur grunnskóla sjóð sem aðeins má nota til að kaupa menntun. Þetta yrðu eins konar skömmtunarseðlar, þ.e. ávísanir sem einungis skólar gætu skipt í venjulega peninga.

Kannski ætti hver nemandi að fá 5 ávísanir sem duga fyrir ársnámi hver. Kannski ætti að hafa flóknara kerfi þar sem nemandi sækti um styrk til ríkisins á hverju ári sem hann er í skóla og fengi hann á formi svona skömmtunarmiða. Útfærslan gæti verið á marga vegu.

Ef skólar fá einfaldlega einn miða með hverjum nemanda á ári og geta svo skipt á honum og einhverri ákveðinni peningaupphæð þá verður keppnin hjá skólunum einfaldlega um að laða til sín sem flesta nemendur en ekki um að láta þá byrja í meira námi en þeir ráða við eða gangast undir málamyndanámsmat í greinum sem þeir eru hættir að stunda. Kerfi af þessu tagi hefði margvíslegar aðrar afleiðingar og ég get ekkert frekar en aðrir séð fyrir hverjar þær yrðu. Eina leiðin til að komast að því er líklega að prófa.

Eins og ég hef fært rök að er núverandi kerfi slæmt og því fullt vit í að prófa eitthvað annað.